Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 29-30

29 Filistar drógu nú saman allan her sinn hjá Afek, en Ísrael setti herbúðir sínar við lindina hjá Jesreel.

Og höfðingjar Filista komu með hundruð sín og þúsundir, og Davíð og menn hans komu síðastir með Akís.

Þá sögðu höfðingjar Filista: "Hvað eiga þessir Hebrear hér að gjöra?" Akís sagði við höfðingja Filista: "Það er Davíð, hirðmaður Sáls konungs í Ísrael, sem nú hefir með mér verið í tvö ár, og hefi ég ekki haft neitt út á hann að setja frá þeirri stundu, er hann gjörðist minn maður, og allt fram á þennan dag."

Höfðingjar Filista reiddust honum og sögðu við hann: "Lát þú manninn hverfa heim aftur. Fari hann á sinn stað, þar sem þú hefir sett hann, en eigi skal hann með oss fara í bardagann, svo að hann snúist ekki á móti oss í orustunni. Með hverju gæti hann betur náð aftur hylli herra síns en með höfðum þessara manna?

Var það ekki þessi sami Davíð, sem sungið var um við dansinn: Sál felldi sín þúsund og Davíð sín tíu þúsund?"

Þá lét Akís kalla Davíð og sagði við hann: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir ert þú ráðvandur, og ég uni því vel, að þú gangir út og inn með mér í herbúðunum, því að ég hefi ekki orðið neins ills var hjá þér frá þeirri stundu, er þú komst til mín, og allt fram á þennan dag, en höfðingjunum er ekki um þig.

Hverf því aftur og far í friði, svo að þú gjörir ekki neitt það, sem höfðingjum Filista mislíkar."

Þá sagði Davíð við Akís: "Hvað hefi ég þá gjört, og hvað hefir þú haft út á þjón þinn að setja, frá þeirri stundu, er ég gjörðist þinn maður, og allt fram á þennan dag, að ég skuli ekki mega fara og berjast við óvini herra míns, konungsins?"

Akís svaraði og sagði við Davíð: "Ég veit, að þú ert í mínum augum góður, sem værir þú engill Guðs, en höfðingjar Filista segja: ,Eigi skal hann með oss fara í bardagann.`

10 Rís þú því árla á morgun, ásamt mönnum herra þíns, sem með þér komu, og farið þér þangað sem ég hefi sett yður, og ætlaðu mér ekkert illt, því að vel er mér til þín, _ og rísið þá árla á morgun og haldið af stað, þegar birtir."

11 Reis nú Davíð árla um morguninn og menn hans og lögðu af stað heim aftur til Filistalands, en Filistar fóru upp í Jesreel.

30 Þegar Davíð og menn hans komu til Siklag á þriðja degi, þá höfðu Amalekítar gjört herhlaup á Suðurlandið og á Siklag, unnið Siklag og brennt hana.

Höfðu þeir hertekið konur og allt, sem í henni var, bæði smátt og stórt. Engan mann höfðu þeir drepið, en haft fólkið á burt með sér og farið síðan leiðar sinnar.

Og er Davíð og menn hans komu til borgarinnar, sjá, þá var hún brunnin, en konur þeirra, synir og dætur hertekin.

Þá tók Davíð og liðið, sem með honum var, að gráta hástöfum, uns þeir voru uppgefnir að gráta.

Báðar konur Davíðs höfðu verið herteknar, Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel.

Var Davíð nú mjög nauðulega staddur, því að liðið hafði við orð að grýta hann, því að menn voru allir sárhryggir vegna sona sinna og dætra. En Davíð hressti sig upp í Drottni, Guði sínum.

Og Davíð sagði við Abjatar prest, son Ahímeleks: "Fær mér hingað hökulinn." Og Abjatar fór með hökulinn til Davíðs.

Og Davíð gekk til frétta við Drottin og mælti: "Á ég að elta þennan ræningjaflokk? Mun ég ná þeim?" Hann svaraði honum: "Eltu þá, því að þú munt vissulega ná þeim og fá bjargað."

Þá lagði Davíð af stað, hann og þau sex hundruð manns, sem hjá honum voru, og þeir komu að Besórlæk. Þar námu þeir staðar, er eftir urðu.

10 Og Davíð hélt áfram með fjögur hundruð manns, en tvö hundruð manns urðu þar eftir, því að þeir máttu eigi yfir Besórlæk komast vegna þreytu.

11 Þá fundu þeir egypskan mann úti á víðavangi og fóru með hann til Davíðs, og þeir gáfu honum mat að eta og vatn að drekka.

12 Þeir gáfu honum sneið af fíkjuköku og tvær rúsínukökur, og át hann það og lifnaði við, því að hann hafði ekki mat etið né vatn drukkið í þrjá daga og þrjár nætur.

13 Og Davíð sagði við hann: "Hvers maður ert þú og hvaðan ert þú?" Hann svaraði: "Ég er egypskur sveinn, þræll Amalekíta nokkurs. Húsbóndi minn skildi mig hér eftir, af því að ég varð sjúkur fyrir þrem dögum.

14 Vér gjörðum herhlaup á suðurland Kreta og á land, sem liggur undir Júda, svo og á suðurland Kalebs, og Siklag brenndum vér upp."

15 Og Davíð sagði við hann: "Viltu vísa mér leið til ræningjaflokks þessa?" Hann svaraði: "Vinn þú mér eið að því við Guð að drepa mig ekki og framselja mig ekki í hendur húsbónda míns, þá skal ég vísa þér leið til ræningjaflokks þessa."

16 Og hann veitti þeim leiðsögu þangað. Ránsmennirnir höfðu þá dreifst um allt landið og átu og drukku og gjörðu sér glaðan dag vegna hins mikla herfangs, sem þeir höfðu tekið í Filistalandi og í Júdalandi.

17 Og Davíð barði á þeim frá því í dögun og allt til kvelds og helgaði þá banni, svo að enginn þeirra komst undan, nema fjögur hundruð sveinar, sem stigu á bak úlföldum og flýðu.

18 Þann veg náði Davíð aftur öllu því, sem Amalekítar höfðu rænt. Og báðum konum sínum bjargaði Davíð.

19 Þá vantaði ekkert, hvorki smátt né stórt, hvorki herfang né sonu og dætur, né nokkuð það, er ránsmennirnir höfðu rænt. Davíð kom aftur með það allt.

20 Þá tóku þeir alla sauðina og nautin og leiddu fram fyrir hann og sögðu: "Þetta er herfang Davíðs."

21 En er Davíð kom til þeirra tvö hundruð manna, er gefist höfðu upp, svo að þeir máttu ekki fylgja honum, og fyrir því verið skildir eftir við Besórlæk, þá fóru þeir í móti Davíð og liðinu, sem með honum var. Og er Davíð kom með liðið, þá heilsuðu þeir þeim.

22 Þá tóku allir ódrengir og varmenni meðal manna þeirra, er með Davíð höfðu farið, til máls og sögðu: "Fyrst þeir fóru ekki með oss, þá viljum vér ekki láta þá fá neitt af herfanginu, sem vér höfum bjargað. Þó má hver maður fá konu sína og sonu. Það mega þeir taka með sér og fara síðan."

23 En Davíð sagði: "Breytið eigi svo, eftir að Drottinn hefir oss slíkt í té látið og varðveitt oss og selt oss í hendur ræningjaflokk þann, sem á oss hafði ráðist.

24 Og hver mun verða á yðar máli í þessu efni? Nei, sama hlut og sá fær, er í bardagann fer, sama hlut skal og sá fá, sem verður eftir hjá farangrinum. Allir skulu þeir fá jafnan hlut."

25 Og við það sat upp frá þeim degi. Og hann gjörði það að lögum og venju í Ísrael, og hefir það haldist fram á þennan dag.

26 Þegar Davíð kom til Siklag, sendi hann öldungunum í Júda, vinum sínum, nokkuð af herfanginu með þessari orðsending: "Sjá, þetta er gjöf yður til handa af herfangi óvina Drottins."

27 Sömuleiðis þeim í Betel, þeim í Ramot-Negeb, þeim í Jattír,

28 þeim í Aroer, þeim í Sífmót, þeim í Estemóa,

29 þeim í Rakal, þeim í borgum Jerahmeelíta, þeim í borgum Keníta,

30 þeim í Horma, þeim í Bór Asan, þeim í Atak,

31 þeim í Hebron, og til allra þeirra staða, þar sem Davíð hafði um farið með menn sína.

Fyrra bréf Páls til Korin 10

10 Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið.

Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu.

Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu

og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur.

En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni.

Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það.

Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: "Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika."

Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.

Freistum ekki heldur Drottins, eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum.

10 Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.

11 Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.

12 Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.

13 Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.

14 Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina.

15 Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi.

16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists?

17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.

18 Lítið á Ísraelsþjóðina. Eiga þeir, sem fórnirnar eta, ekki hlut í altarinu?

19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð?

20 Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda.

21 Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.

22 Eða eigum vér að reita Drottin til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?

23 Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.

24 Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.

25 Allt það, sem selt er á kjöttorginu, getið þér etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar.

26 Því að jörðin er Drottins og allt, sem á henni er.

27 Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því, sem fyrir yður er borið, án eftirgrennslana vegna samviskunnar.

28 En ef einhver segir við yður: "Þetta er fórnarkjöt!" þá etið ekki, vegna þess, er gjörði viðvart, og vegna samviskunnar.

29 Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku, heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvisku annars?

30 Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það, sem ég þakka fyrir?

31 Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.

32 Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar.

33 Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.

Esekíel 8

Það var á sjötta ári, fimmta dag hins sjötta mánaðar, þá er ég sat í húsi mínu, og öldungar Júda sátu frammi fyrir mér, að hönd Drottins Guðs kom þar yfir mig.

Og ég sá, og sjá, þar var mynd, ásýndum sem maður. Þar í frá, sem mér þóttu lendar hans vera, og niður eftir, var eins og eldur, en frá lendum hans og upp eftir var að sjá sem bjarma, eins og ljómaði af lýsigulli.

Og hann rétti út líkast sem hönd væri og tók í höfuðhár mitt, og andinn hóf mig upp milli himins og jarðar og flutti mig til Jerúsalem í guðlegri sýn, að dyrum innra hliðsins, er snýr mót norðri, þar er líkansúlan stóð, sú er vakti afbrýði Drottins.

Og sjá, þar var dýrð Ísraels Guðs, alveg eins og í sýn þeirri, er ég hafði séð í dalnum.

Hann sagði við mig: "Mannsson, hef upp augu þín og lít í norðurátt!" Og ég hóf upp augu mín og leit í norðurátt. Stóð þá þessi líkansúla, sem afbrýði vakti, norðan megin við altarishliðið, rétt þar sem inn er gengið.

Og hann sagði við mig: "Mannsson, sér þú, hvað þeir eru að gjöra? Miklar svívirðingar eru það, sem Ísraelsmenn hafa hér í frammi, svo að ég verð að vera fjarri helgidómi mínum, en þú munt enn sjá miklar svívirðingar."

Hann leiddi mig að dyrum forgarðsins. Og er ég leit á, var þar gat eitt á veggnum.

Og hann sagði við mig: "Mannsson, brjót þú gat í gegnum vegginn." Og er ég braut gat í gegnum vegginn, þá voru þar dyr.

Og hann sagði við mig: "Gakk inn og sjá hinar vondu svívirðingar, sem þeir hafa hér í frammi."

10 Ég gekk inn og litaðist um. Voru þar ristar allt umhverfis á vegginn alls konar myndir viðbjóðslegra orma og skepna og öll skurðgoð Ísraelsmanna.

11 Og þar voru sjötíu menn af öldungum Ísraels húss og Jaasanja Safansson mitt á meðal þeirra svo sem forstjóri þeirra, og hélt hver þeirra á reykelsiskeri í hendi sér og sté þar upp af ilmandi reykelsismökkur.

12 Og hann sagði við mig: "Hefir þú séð, mannsson, hvað öldungar Ísraels húss hafast að í myrkrinu, hver í sínum myndaherbergjum? Því að þeir hugsa: ,Drottinn sér oss ekki, Drottinn hefir yfirgefið landið."`

13 Því næst sagði hann við mig: "Þú munt enn sjá miklar svívirðingar, er þeir hafa í frammi."

14 Hann leiddi mig að dyrunum á norðurhliði musteris Drottins. Þar sátu konurnar, þær er grétu Tammús.

15 Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Þú munt enn sjá svívirðingar, sem meiri eru en þessar."

16 Hann leiddi mig inn í innra forgarð húss Drottins, og voru þá þar fyrir dyrum musteris Drottins, milli forsalsins og altarisins, um tuttugu og fimm menn. Sneru þeir bökum við musteri Drottins, en ásjónum sínum í austur, og tilbáðu sólina í austri.

17 Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Nægir Júdamönnum það eigi að hafa í frammi þær svívirðingar, sem þeir hér fremja, þó að þeir ekki þar á ofan fylli landið með glæp og reiti mig hvað eftir annað til reiði? Sjá, hversu þeir halda vöndlinum upp að nösum sér.

18 Fyrir því vil ég og fara mínu fram í reiði: Ég vil ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Og þótt þeir þá kalli hárri röddu í eyru mín, þá mun ég ekki heyra þá."

Sálmarnir 46-47

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.

Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.

Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.

Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]

Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.

Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!

Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!

Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.

10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society