Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 28

28 Í þann tíma drógu Filistar saman her sinn og bjuggust að fara í hernað móti Ísrael. Og Akís sagði við Davíð: "Vita skaltu, að þú verður að fara með mér í leiðangurinn, bæði þú og menn þínir."

Davíð svaraði Akís: "Nú skalt þú fá að reyna, hverju þjónn þinn fær orkað." Og Akís sagði við Davíð: "Þá skipa ég þig höfuðvörð minn allar stundir."

Samúel var dáinn, og allur Ísrael hafði syrgt hann og jarðað hann í Rama, hans eigin borg. En Sál hafði gjört landræka alla andasæringamenn og spásagnamenn.

Nú söfnuðust Filistar saman og komu og settu herbúðir sínar í Súnem. Þá safnaði Sál saman öllum Ísrael og setti herbúðir sínar á Gilbóafjalli.

En þegar Sál sá her Filista, varð hann hræddur og missti móðinn.

Sál gekk til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði honum ekki, hvorki í draumum né með úrím né fyrir milligöngu spámannanna.

Þá sagði Sál við þjóna sína: "Leitið fyrir mig að særingakonu, svo að ég geti farið til hennar og leitað frétta hjá henni." Og þjónar hans sögðu við hann: "Í Endór er særingakona."

Sál gjörði sig torkennilegan og klæddist dularbúningi og lagði af stað og tveir menn með honum. Þeir komu til konunnar um nótt, og Sál sagði: "Lát þú andann spá mér og lát koma fram þann, er ég nefni til við þig."

Konan svaraði honum: "Sjá, þú veist, hvað Sál hefir gjört, að hann hefir upprætt úr landinu alla andasæringamenn og spásagnamenn. Hví leggur þú þá snöru fyrir mig til þess að deyða mig?"

10 Þá vann Sál henni eið við Drottin og mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal engin sök á þig falla fyrir þetta."

11 Þá sagði konan: "Hvern viltu að ég láti koma fram?" Hann svaraði: "Lát þú Samúel koma fram fyrir mig."

12 En er konan sá Samúel, hljóðaði hún upp yfir sig. Og konan sagði við Sál: "Hví hefir þú svikið mig? Þú ert Sál."

13 En konungurinn mælti til hennar: "Ver þú óhrædd. En hvað sér þú?" Og konan sagði við Sál: "Ég sé anda koma upp úr jörðinni."

14 Hann sagði við hana: "Hvernig er hann í hátt?" Hún svaraði: "Gamall maður stígur upp og er hjúpaður skikkju." Þá skildi Sál, að það var Samúel, og hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum.

15 Þá sagði Samúel við Sál: "Hví hefir þú ónáðað mig og látið kalla mig fram?" Sál mælti: "Ég er í miklum nauðum staddur. Filistar herja á mig, og Guð er frá mér vikinn og svarar mér ekki lengur, hvorki fyrir milligöngu spámannanna né í draumum. Fyrir því lét ég kalla þig, til þess að þú segir mér, hvað ég á að gjöra."

16 Samúel svaraði: "Hví spyr þú mig þá, fyrst Drottinn er frá þér vikinn og orðinn óvinur þinn?

17 Drottinn hefir þá við þig gjört, eins og hann hefir sagt fyrir minn munn. Drottinn hefir rifið frá þér konungdóminn og gefið hann öðrum, gefið Davíð hann.

18 Af því að þú hlýddir ekki boði Drottins og framkvæmdir ekki hans brennandi reiði á Amalek, fyrir því hefir Drottinn gjört þér þetta í dag.

19 Og Drottinn mun og gefa Ísrael ásamt þér í hendur Filista, og á morgun munt þú og synir þínir hjá mér vera. Drottinn mun og gefa her Ísraels í hendur Filista."

20 Þá varð Sál hræddur og féll endilangur til jarðar, og hann skelfdist mjög af orðum Samúels. Hann var og magnþrota, því að hann hafði eigi matar neytt allan daginn og alla nóttina.

21 Konan gekk nú til Sáls, og er hún sá, hversu mjög hann var felmtsfullur, sagði hún við hann: "Sjá, ambátt þín hefir hlýtt raustu þinni, og ég hefi lagt líf mitt í hættu, og ég hefi gjört það, sem þú baðst mig um.

22 Hlýð þú þá líka raust ambáttar þinnar: Ég ætla að færa þér matarbita, og skalt þú eta, svo að þér aukist þróttur og þú getir farið leiðar þinnar."

23 En hann færðist undan og sagði: "Eigi vil ég eta." En er bæði menn hans og konan lögðu að honum, þá lét hann að orðum þeirra og stóð upp af gólfinu og settist á rúmið.

24 Og konan átti alikálf í húsinu. Slátraði hún honum í skyndi, tók mjöl, hnoðaði það og bakaði úr því ósýrðar kökur.

25 Síðan bar hún það fyrir Sál og menn hans, og er þeir höfðu etið, tóku þeir sig upp og lögðu af stað þessa sömu nótt.

Fyrra bréf Páls til Korin 9

Er ég ekki frjáls? Er ég ekki postuli? Hef ég ekki séð Jesú, Drottin vorn? Eruð þér ekki verk mitt, sem ég hef unnið fyrir Drottin?

Þótt ekki væri ég postuli fyrir aðra, þá er ég það fyrir yður. Þér eruð staðfesting Drottins á postuladómi mínum.

Þetta er vörn mín gagnvart þeim, sem dæma um mig.

Höfum vér ekki rétt til að eta og drekka?

Höfum vér ekki rétt til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og bræður Drottins og Kefas?

Eða erum við Barnabas þeir einu, sem eru ekki undanþegnir því að vinna?

Hver tekst nokkurn tíma herþjónustu á hendur á sjálfs sín mála? Hver plantar víngarð og neytir ekki ávaxtar hans? Hver gætir hjarðar og neytir ekki af mjólk hjarðarinnar?

Tala ég þetta á mannlegan hátt, eða segir ekki einnig lögmálið það?

Ritað er í lögmáli Móse: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir." Hvort lætur Guð sér annt um uxana?

10 Eða segir hann það ekki að öllu leyti vor vegna? Jú, vor vegna stendur skrifað, að sá sem plægir og sá sem þreskir eigi að gjöra það með von um hlutdeild í uppskerunni.

11 Ef vér nú höfum sáð hjá yður því, sem andlegt er, er það þá of mikið að vér uppskerum hjá yður það, sem líkamlegt er?

12 Ef aðrir hafa þennan rétt hjá yður, höfum vér hann þá ekki miklu fremur? En vér höfum ekki hagnýtt oss þennan rétt, heldur sættum oss við allt, til þess að tálma ekki fagnaðarerindinu um Krist.

13 Vitið þér ekki, að þeir, sem vinna við helgidóminn, lifa af því, sem kemur úr helgidóminum, og þeir, sem starfa við altarið, taka hlut með altarinu?

14 Þannig hefur Drottinn einnig fyrirskipað að þeir, sem prédika fagnaðarerindið, skuli lifa af fagnaðarerindinu.

15 En ég hef ekki hagnýtt mér neitt af þessu og ég skrifa þetta ekki heldur til þess, að svo verði við mig gjört. Mér væri betra að deyja, _ enginn skal ónýta það, sem ég hrósa mér af.

16 Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.

17 Því að gjöri ég þetta af frjálsum vilja, þá fæ ég laun, en gjöri ég það tilknúður, þá hefur mér verið trúað fyrir ráðsmennsku.

18 Hver eru þá laun mín? Að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það, sem ég á rétt á.

19 Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta.

20 Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur, til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu.

21 Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu.

22 Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.

23 Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.

24 Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.

25 Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan.

26 Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.

27 Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.

Esekíel 7

Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"En þú, mannsson, seg: Svo talar Drottinn Guð til Ísraelslands: Endir kemur, endirinn kemur yfir fjórar álfur landsins.

Nú kemur endirinn yfir þig, og ég sendi reiði mína móti þér og dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma.

Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn.

Svo segir Drottinn Guð: Ógæfa, já ógæfa kemur!

Endir kemur, endirinn kemur, hann er að vakna gegn þér, sjá, hann kemur!

Örlögin koma yfir þig, íbúi landsins, tíminn kemur, dagurinn er nálægur, dagur skelfingar, en ekki fagnaðarláta á fjöllunum.

Nú úthelli ég bráðum heift minni yfir þig og læt alla reiði mína yfir þig dynja, ég dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma.

Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá sem tyftar.

10 Sjá, þarna er dagurinn, sjá, hann kemur. Kórónan sprettur fram, sprotinn blómgast, drambsemin þróast.

11 Ofbeldið rís upp sem vöndur á ranglætið. Ekkert verður eftir af þeim, ekkert af skrauti þeirra og ekkert af auðæfum þeirra, dýrð þeirra er öll úti.

12 Tíminn kemur, dagurinn nálgast. Kaupandinn fagni ekki og seljandinn syrgi ekki, því að reiði mín er upptendruð gegn öllu skrauti landsins.

13 Því að seljandinn mun ekki aftur að seldu komast og kaupandinn mun ekki halda hinu keypta.

14 Menn blása í hornið og búa allt út, en enginn fer í orustuna, því að reiði mín er upptendruð gegn öllum auðæfum hennar.

15 Sverðið úti, og hungrið og drepsóttin inni. Sá sem er á akri skal fyrir sverði falla og þeim, sem innan borgar er, skal hungur og drepsótt eyða.

16 Komist nokkrir af þeim undan, munu þeir vera á fjöllunum, eins og daladúfurnar, sem allar kurra, _ hver og einn vegna misgjörðar sinnar.

17 Allar hendur munu verða lémagna og öll kné leysast sundur og verða að vatni.

18 Og þeir munu gyrðast hærusekk, og skelfing mun hylja þá. Skömm mun sitja á hverju andliti, og hvert höfuð vera sköllótt.

19 Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og gull þeirra mun vera þeim sem saur. Silfur þeirra og gull fær eigi frelsað þá á reiðidegi Drottins. Þeir munu eigi seðja með því hungur sitt né fylla með því kvið sinn, því að það varð þeim fótakefli til hrösunar.

20 Sínu dýrlega skrauti varði þjóðin til dramblætis, og þeir gjörðu af því svívirðilegar líkneskjur, viðurstyggðir sínar. Fyrir því gjöri ég það í augum þeirra sem saur.

21 Og ég skal selja það útlendingum í hendur að herfangi og hinum óguðlegustu mönnum á jörðunni að ránsfeng, og þeir skulu vanhelga það.

22 Og ég skal snúa augliti mínu frá þeim, og þá munu menn vanhelga kjörgrip minn, og ræningjar skulu brjótast inn í hann og vanhelga hann.

23 Bú þú til fjötur, því að landið er fullt af blóðskuld og borgin er full af ofbeldisverkum.

24 Og ég mun stefna hingað hinum verstu heiðingjum. Þeir skulu kasta eign sinni á hús þeirra, og ég mun gjöra enda á hinu ofmetnaðarfulla valdi þeirra, og helgidómar þeirra skulu verða vanhelgaðir.

25 Angist kemur, og þeir munu hjálpar leita, en enga fá.

26 Eitt óhappið fylgir öðru, og hver ótíðindin koma á fætur öðrum. Þá munu þeir beiðast vitrunar af spámanni, og þá mun leiðbeiningin vera horfin frá prestunum og ráðin frá öldungunum.

27 Konungurinn mun syrgja og landshöfðinginn klæðast skelfingu og hendur landslýðsins verða magnþrota af hræðslu. Eftir breytni þeirra mun ég með þá fara og dæma þá eftir verðleikum þeirra, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn."

Sálmarnir 45

45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.

Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.

Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.

Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.

Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.

Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.

Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.

Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.

Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.

10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.

11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,

12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.

13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."

14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.

15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.

16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.

17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.

18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society