Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 27

27 Davíð hugsaði með sjálfum sér: "Nú fell ég einhvern daginn fyrir hendi Sáls. Nú er það ráð vænst, að ég forði mér undan til Filistalands. Þá gefst Sál upp við að elta mig um allt Ísraelsland, og ég slepp úr greipum honum."

Síðan tók Davíð sig upp og fór með þau sex hundruð manns, er með honum voru, yfir til Akís Maókssonar, konungs í Gat.

Og Davíð settist að hjá Akís í Gat, bæði hann og menn hans, hver með sína fjölskyldu, Davíð með báðum konum sínum: Akínóam frá Jesreel og Abígail, þá er átt hafði Nabal í Karmel.

Og þegar Sál frétti, að Davíð væri flúinn til Gat, þá hætti hann að leita hans.

Davíð sagði við Akís: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lát þú fá mér bústað í einhverri borg landsins. Hví skal þjónn þinn búa hjá þér í höfuðborginni?"

Þá fékk Akís honum Siklag þann sama dag. Fyrir því liggur Siklag enn í dag undir Júda konunga.

En sá tími, sem Davíð bjó í Filistalandi, var eitt ár og fjórir mánuðir.

Davíð og menn hans fóru herför og gjörðu árás á Gesúríta, Gírsíta og Amalekíta, því að þeir bjuggu í landinu, sem náði frá Telam alla leið til Súr og Egyptalands.

Og þegar Davíð braust inn í þessi lönd, lét hann hvorki menn né konur lífi halda, en tók sauðfé og nautgripi, asna og úlfalda og klæði, sneri síðan við og fór aftur til Akís.

10 Og ef Akís spurði: "Hvar hafið þér á ráðist í dag?" þá svaraði Davíð: "Í Júda sunnan til," eða: "Á suðurland Jerahmeelíta," eða: "Á suðurland Keníta."

11 En Davíð lét hvorki menn né konur lífi halda til þess að flytja það til Gat, með því að hann hugsaði: "Þau kynnu að segja eftir oss og taka svo til orða: Svo hefir Davíð að farið." Og sá var siður hans allan þann tíma, sem hann bjó í Filistalandi.

12 Og Akís trúði Davíð, með því að hann hugsaði: "Honum er ekki lengur vært hjá þjóð sinni Ísrael, og fyrir því mun hann ævinlega verða í minni þjónustu."

Fyrra bréf Páls til Korin 8

Þá er að minnast á kjötið, sem fórnað hefur verið skurðgoðum. Vér vitum, að þekking höfum vér allir. Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp.

Ef einhver þykist hafa öðlast þekkingu á einhverju, þá þekkir hann enn ekki eins og þekkja ber.

En ef einhver elskar Guð, þá er hann þekktur af honum.

En hvað varðar neyslu kjöts, sem fórnað hefur verið skurðgoðum, þá vitum vér, að skurðgoð er ekkert í heiminum og að enginn er Guð nema einn.

Því að enda þótt til séu svo nefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu, _ enda eru margir guðir og margir herrar _,

þá höfum vér ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann.

En ekki hafa allir þessa þekkingu. Af gömlum vana eta nokkrir kjötið allt til þessa sem fórnarkjöt, og þá saurgast samviska þeirra, sem er óstyrk.

En matur mun ekki gjöra oss þóknanlega Guði. Hvorki missum vér neins, þótt vér etum það ekki, né ávinnum vér neitt, þótt vér etum.

En gætið þess, að þetta frelsi yðar verði ekki hinum óstyrku að falli.

10 Því sjái einhver þig, sem hefur þekkingu á þessu, sitja til borðs í goðahofi, mundi það ekki stæla samvisku þess, sem óstyrkur er, til að neyta fórnarkjöts?

11 Hinn óstyrki glatast þá vegna þekkingar þinnar, bróðirinn, sem Kristur dó fyrir.

12 Þegar þér þannig syndgið gegn bræðrunum og særið óstyrka samvisku þeirra, þá syndgið þér á móti Kristi.

13 Þess vegna mun ég, ef matur verður bróður mínum til falls, um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.

Esekíel 6

Orð Drottins kom til mín svohljóðandi:

"Þú mannsson, snú þú augliti þínu gegn Ísraels fjöllum og spá í móti þeim

og seg: Þér Ísraels fjöll, heyrið orð Drottins Guðs! Svo talar Drottinn Guð til fjallanna og hæðanna, til hvammanna og dalanna: Sjá, ég læt sverðið koma yfir yður og eyði fórnarhæðum yðar.

Ölturu yðar skulu í eyði lögð verða og sólsúlur yðar brotnar, og vegnum mönnum yðar mun ég kasta niður fyrir framan skurðgoð yðar,

og ég mun varpa hræjum Ísraelsmanna fyrir skurðgoð þeirra og dreifa beinum yðar umhverfis ölturu yðar.

Svo langt sem byggð yðar nær, skulu borgirnar í eyði liggja og fórnarhæðirnar standa gjöreyddar, til þess að ölturu yðar séu niður brotin og í rústum, skurðgoð yðar sundurbrotin og að engu gjörð, sólsúlur yðar mölvaðar og handaverk yðar afmáð.

Og menn skulu vegnir í val falla yðar á meðal, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

En ég læt nokkra yðar komast undan sverðinu til annarra þjóða, og þegar yður hefur verið dreift um löndin,

munu þeir, sem undan komust, minnast mín meðal þjóðanna, þangað sem þeir voru herleiddir, þegar ég hefi beygt þeirra blótfíknu hjörtu, sem gjörðust mér fráhverf, og þeirra blótfúsu augu, sem mæna eftir skurðgoðunum, og þá mun þeim bjóða við sjálfum sér vegna illverka þeirra, er þeir hafa framið með öllum svívirðingum sínum.

10 Og þá munu þeir við kannast, að ég, Drottinn, hefi ekki talað þar um neinum hégómaorðum, að láta þá rata í þessa ógæfu."

11 Svo segir Drottinn Guð: "Slá þú saman höndum þínum, stappa niður fæti þínum og kalla ,vei` yfir öllum svívirðingum Ísraels húss, því að þeir munu falla fyrir sverði, hungri og drepsótt.

12 Sá sem fjær er, skal af drepsótt deyja, og sá sem nær er, fyrir sverði falla, og sá sem eftir er og bjargast hefir, skal deyja af hungri, og ég vil úthella allri heift minni yfir þá.

13 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar valkestirnir liggja mitt á meðal skurðgoðanna, kringum ölturu þeirra á hverri hárri hæð, á öllum fjallhnjúkum, undir hverju grænu tré og undir hverri laufgaðri eik, þar er þeir færðu öllum skurðgoðum sínum þægilegan ilm.

14 Og ég vil rétta út hönd mína í móti þeim og gjöra landið að auðn og öræfum frá eyðimörkinni allt norður að Ribla, alls staðar þar sem þeir búa, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn."

Sálmarnir 44

44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.

Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.

Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.

Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.

Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.

Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,

heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.

Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.

11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.

12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.

13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.

14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.

16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,

17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.

19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,

20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.

21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,

22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?

23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!

25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?

26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.

27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society