M’Cheyne Bible Reading Plan
26 Sífítar komu til Sáls í Gíbeu og sögðu: "Veistu, að Davíð hefir falið sig í Hahakílahæðunum, gegnt Júdaóbyggðum?"
2 Þá tók Sál sig upp og fór ofan í Sífeyðimörk og með honum þrjú þúsund manns, valdir menn af Ísrael, til þess að leita Davíðs í Sífeyðimörk.
3 Og Sál setti herbúðir sínar í Hahakílahæðunum, við veginn gegnt Júdaóbyggðum. En Davíð hélt sig á eyðimörkinni. En er hann frétti, að Sál væri kominn í eyðimörkina til þess að elta hann,
4 sendi Davíð út njósnarmenn og fékk að vita með vissu, að Sál var kominn.
5 Þá tók Davíð sig upp og kom þangað sem Sál hafði sett herbúðir sínar. Og er Davíð sá, hvar Sál og Abner Nersson, hershöfðingi hans, hvíldu _ en Sál hvíldi í vagnborg og liðsmenn hans lágu í tjöldum sínum umhverfis hann _,
6 þá kom hann að máli við Akímelek Hetíta og Abísaí Serújuson, bróður Jóabs, og sagði: "Hver vill fara með mér inn í herbúðirnar til Sáls?" Abísaí mælti: "Ég skal fara með þér."
7 En er þeir Davíð og Abísaí komu að liðinu um nótt, þá lá Sál sofandi í vagnborginni, og spjót hans var rekið í jörðu að höfði honum, en Abner og liðsmennirnir lágu í kringum hann.
8 Þá sagði Abísaí við Davíð: "Í dag hefir Guð selt óvin þinn í hendur þér. Nú mun ég reka spjótið gegnum hann og ofan í jörðina með einu lagi; eigi mun ég þurfa að leggja til hans tvisvar."
9 En Davíð sagði við Abísaí: "Drep þú hann ekki, því að hver leggur svo hönd á Drottins smurða, að hann sleppi hjá hegningu?"
10 Og Davíð mælti enn fremur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, vissulega mun annaðhvort Drottinn ljósta hann eða dauða hans ber að hendi með náttúrlegum hætti, eða hann fer í hernað og fellur.
11 Drottinn láti það vera fjarri mér að leggja hendur á Drottins smurða. En tak þú nú spjótið, sem er þarna að höfði honum, og vatnsskálina, og förum síðan."
12 Og Davíð tók spjótið og vatnsskálina að höfði Sáls, og síðan fóru þeir leiðar sinnar, en enginn sá það og enginn varð þess var og enginn vaknaði, heldur voru þeir allir sofandi, því að þungur svefn frá Drottni var á þá siginn.
13 Þá gekk Davíð yfir á hæð eina þar gegnt við og nam þar staðar allfjarri, svo að mikið bil var í milli þeirra.
14 Þá kallaði Davíð til liðsins og Abners Nerssonar og mælti: "Hvort mátt þú heyra mál mitt, Abner?" Abner svaraði og sagði: "Hver ert þú, sem kallar til konungsins?"
15 Davíð sagði við Abner: "Ert þú ekki karlmenni, og hver er þinn líki í Ísrael? Hví hefir þú ekki vakað yfir herra þínum, konunginum? Því að einn maður úr liðinu kom og ætlaði að drepa konunginn, herra þinn.
16 Þar hefir þér illa farið. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, eruð þér dauða verðir fyrir það, að þér hafið ekki vakað yfir herra yðar, yfir Drottins smurða. Og hygg nú að, hvar spjót konungsins er og hvar vatnsskálin er, sem stóð að höfði honum."
17 En Sál þekkti málróm Davíðs og mælti: "Er þetta ekki málrómur þinn, Davíð sonur minn?" Davíð svaraði: "Jú, málrómur minn er það, herra konungur!"
18 Og Davíð mælti: "Hví ofsækir þú, herra minn, þjón þinn? Hvað hefi ég þá gjört, og hvað illt er í minni hendi?
19 Og hlýð því, minn herra konungur, á mál þjóns þíns. Hafi Drottinn egnt þig upp á móti mér, þá lát hann finna ilm af fórnarreyk, en ef menn hafa gjört það, þá séu þeir bölvaðir fyrir Drottni, þar sem þeir hafa nú flæmt mig burt, svo að ég má eigi halda hóp með eign Drottins, með því að þeir segja: ,Far þú, þjóna þú öðrum guðum!`
20 En lát eigi blóð mitt falla á jörð langt burtu frá augliti Drottins, því að Ísraels konungur er lagður af stað til þess að ná lífi mínu, eins og menn elta akurhænu á fjöllum."
21 Þá mælti Sál: "Ég hefi syndgað. Hverf aftur, Davíð sonur minn, því að ég skal aldrei framar gjöra þér mein, fyrst þú þyrmdir lífi mínu í dag. Sjá, ég hefi breytt heimskulega, og mér hefir mikillega yfirsést."
22 Davíð svaraði og sagði: "Hér er spjót konungs, komi nú einn af sveinunum hingað og sæki það.
23 En Drottinn umbunar hverjum manni ráðvendni hans og trúfesti. Drottinn hafði gefið þig í hendur mínar í dag, en ég vildi ekki leggja hendur á Drottins smurða.
24 Og sjá, eins og líf þitt var mikilsvert í mínum augum í dag, svo veri og líf mitt mikilsvert í augum Drottins, og hann virðist að frelsa mig úr öllum nauðum."
25 Og Sál mælti til Davíðs: "Blessaður ver þú, Davíð sonur minn. Þú munt bæði verða mikill í framkvæmdum og giftudrjúgur." Síðan fór Davíð leiðar sinnar, en Sál sneri aftur heim til sín.
7 En svo að ég minnist á það, sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu.
2 En vegna saurlifnaðarins hafi hver og einn sína eiginkonu og hver og ein hafi sinn eiginmann.
3 Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum.
4 Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama, heldur maðurinn. Sömuleiðis hefur og maðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama, heldur konan.
5 Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar.
6 Þetta segi ég í tilhliðrunarskyni, ekki sem skipun.
7 En þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina.
8 Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég.
9 En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.
10 Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, _
11 en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn _, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna.
12 En við hina segi ég, ekki Drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana.
13 Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn.
14 Því að vantrúaði maðurinn er helgaður í konunni og vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög.
15 En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði.
16 Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?
17 Þó skal hver og einn vera í þeirri stöðu, sem Drottinn hefur úthlutað honum, eins og hann var, þegar Guð kallaði hann. Þannig skipa ég fyrir í öllum söfnuðunum.
18 Sá sem var umskorinn, þegar hann var kallaður, breyti því ekki. Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig.
19 Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs.
20 Hver og einn sé kyrr í þeirri stöðu, sem hann var kallaður í.
21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig, en gjör þér gott úr því, en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur.
22 Því að sá þræll, sem kallaður er í Drottni, er frelsingi Drottins. Á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists.
23 Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.
24 Bræður, sérhver verði frammi fyrir Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í.
25 Um meyjarnar hef ég enga skipun frá Drottni. En álit mitt læt ég í ljós eins og sá, er hlotið hefur þá náð af Drottni að vera trúr.
26 Mín skoðun er, að vegna yfirstandandi neyðar sé það gott fyrir mann að vera þannig.
27 Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ertu laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs.
28 En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki, og ef mærin giftist, syndgar hún ekki. En þrenging munu slíkir hljóta hér á jörð, en ég vildi hlífa yður.
29 En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki,
30 þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa,
31 og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.
32 En ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast.
33 En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni,
34 og er tvískiptur. Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkama og anda. En hin gifta kona ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hún megi þóknast manninum.
35 Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.
36 Ef einhver telur sig ekki geta vansalaust búið með heitmey sinni, enda á manndómsskeiði, þá gjöri hann sem hann vill, ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Giftist þau.
37 Sá þar á móti, sem er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur fullt vald á vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að hún verði áfram mey, gjörir vel.
38 Þannig gjöra þá báðir vel, sá sem kvænist mey sinni, og hinn, sem kvænist henni ekki, hann gjörir betur.
39 Konan er bundin, meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni.
40 Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.
5 Þú, mannsson, tak þér hvasst sverð. Skalt þú hafa það fyrir rakhníf og lát það ganga um höfuð þitt og vanga. Tak síðan vog og skipt hárinu í sundur.
2 Einn þriðjunginn skalt þú í eldi brenna í miðri borginni, þá er umsátursdagarnir eru liðnir, annan þriðjunginn skalt þú taka og slá með sverði hringinn í kringum hann, og síðasta þriðjungnum skalt þú dreifa út í vindinn, og ég mun vera á hælum þeim með brugðnu sverði.
3 Því næst skalt þú taka fáein hár og binda þau í skikkjulaf þitt.
4 Og af þeim skalt þú enn taka nokkur og kasta þeim á eld og brenna þau á eldi. Þaðan mun eldur koma yfir allt Ísraels hús. Og seg við allt Ísraels hús:
5 "Svo segir Drottinn Guð: Þetta er Jerúsalem, sem ég hefi sett mitt á meðal þjóðanna og lönd umhverfis hana.
6 En hún hefir sett sig upp á móti lögum mínum með meira guðleysi en heiðnu þjóðirnar og móti boðorðum mínum meir en löndin, sem umhverfis hana eru, því að þeir hafa hafnað lögum mínum og eigi breytt eftir boðorðum mínum.
7 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér hafið verið þrjóskari en heiðnu þjóðirnar, sem umhverfis yður búa, eigi breytt eftir boðorðum mínum, né haldið lög mín, og jafnvel ekki farið eftir lögum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru,
8 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, nú vil ég rísa gegn þér og framkvæma dóma í þér miðri í augsýn þjóðanna.
9 Og ég vil gjöra þér það, sem ég aldrei hefi áður gjört og mun ekki hér eftir gjöra, vegna svívirðinga þinna.
10 Þess vegna skulu í þér feður eta börn sín og börnin feður sína, og ég vil framkvæma dóma á þér og dreifa leifum þínum í allar áttir.
11 Fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Af því að þú hefir saurgað helgidóm minn með öllum viðurstyggðum þínum og öllum svívirðingum þínum, þá vil ég einnig útskúfa þér, ekki líta þig vægðarauga og ekki sýna neina meðaumkun.
12 Einn þriðjungurinn af þér skal deyja af drepsótt og verða hungurmorða í þér miðri, annar þriðjungurinn skal fyrir sverði falla umhverfis þig, og síðasta þriðjungnum skal ég tvístra í allar áttir, og ég mun vera á hælum þeim með brugðnu sverði.
13 Og ég skal úthella allri reiði minni og láta heift mína hvíla yfir þeim, og ég skal hefna mín. Þeir skulu þá sanna, að ég, Drottinn, hefi talað þetta í afbrýði minni, þá er ég næ að úthella heift minni yfir þá.
14 Og ég skal gjöra þig að auðn og að háðung meðal þjóðanna, sem umhverfis þig búa, já, í augum allra, sem fram hjá ganga.
15 Og þú skalt verða að háðung og spotti, til viðvörunar og skelfingar þjóðunum, sem umhverfis þig búa, þá er ég í reiði og heift læt dóma yfir þig ganga og með áköfum refsingum. Ég, Drottinn, hefi talað það.
16 Þegar ég hleypi á þá hungursins skæðu og eyðileggjandi örvum, þær er ég mun senda yður til að tortíma yður, og ég magna hungrið meðal yðar, þá mun ég sundurbrjóta staf brauðsins fyrir yður
17 og senda í móti yður hungur og óargadýr til þess að gjöra yður barnlausa, og drepsótt og blóðsúthelling skal geisa hjá þér, og ég skal hafa sverðið á lofti yfir þér. Ég, Drottinn, hefi talað það."
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
by Icelandic Bible Society