M’Cheyne Bible Reading Plan
25 Samúel dó, og allur Ísrael safnaðist saman og syrgði hann, og var hann grafinn hjá húsi sínu í Rama. Davíð tók sig upp og fór ofan í Maoneyðimörk.
2 En í Maon var maður, er bú átti í Karmel. Hann var auðugur mjög og átti þrjú þúsund sauðfjár og eitt þúsund geitur. Hann var þá að klippa sauði sína í Karmel.
3 Maður þessi hét Nabal og kona hans Abígail. Hún var kona vitur og fríð sýnum, en hann maður harður og illur viðureignar. Hann var af ætt Kalebs.
4 Og Davíð frétti í eyðimörkinni, að Nabal væri að klippa sauði sína.
5 Þá sendi Davíð tíu sveina. Og Davíð sagði við sveinana: "Farið til Karmel og gangið á fund Nabals og berið honum kveðju mína
6 og mælið svo við bróður minn: Heill sért þú og heill sé húsi þínu og heill sé öllu, sem þú átt.
7 Nú hefi ég heyrt, að verið sé að klippa sauði þína. Fjárhirðar þínir hafa með oss verið og vér höfum þeim ekkert mein gjört, enda hefir þeim einskis vant orðið allan þann tíma, er þeir hafa verið í Karmel.
8 Spyr þú sveina þína, og munu þeir segja þér hið sanna. Lát því sveinana finna náð í augum þínum, því að á hátíðardegi erum vér komnir. Gef því þjónum þínum og Davíð syni þínum það, sem þú hefir fyrir hendi."
9 Þegar sveinar Davíðs komu á fund Nabals, fluttu þeir honum öll þessi orð í nafni Davíðs og þögnuðu síðan.
10 En Nabal svaraði þjónum Davíðs og mælti: "Hver er Davíð? Og hver er Ísaíson? Margir gjörast þeir nú þrælarnir, sem strjúka frá húsbændum sínum.
11 Á ég að taka brauð mitt og vín og sláturfé mitt, sem ég hefi slátrað handa sauðaklippurum mínum, og gefa það mönnum, sem ég ekki einu sinni veit hvaðan eru?"
12 Þá sneru sveinar Davíðs á leið og hurfu aftur og komu og fluttu honum öll þessi orð.
13 Þá mælti Davíð til sinna manna: "Gyrðið yður nú, hver sínu sverði!" Og þeir gyrtu sig, hver sínu sverði. Síðan gyrtist og Davíð sínu sverði, og lögðu þeir nú af stað undir forystu Davíðs, um fjögur hundruð manns, en tvö hundruð urðu eftir hjá farangrinum.
14 Einn af sveinum Nabals sagði Abígail, konu Nabals, frá þessu og mælti: "Sjá, Davíð gjörði sendimenn úr eyðimörkinni með kveðju til húsbónda vors, en hann jós yfir þá fáryrðum.
15 Og menn þessir hafa þó verið mjög góðir við oss. Oss hefir ekkert mein verið gjört og oss hefir einskis vant orðið allan þann tíma, er vér héldum oss nálægt þeim, meðan vér vorum í haganum.
16 Þeir voru sem varnargarður í kringum oss bæði um nætur og daga allan þann tíma, er vér héldum fénu til haga nálægt þeim.
17 Hygg nú að og sjá til, hvað þú skalt gjöra, því að ógæfa er búin húsbónda vorum og öllu húsi hans, en hann er slíkt hrakmenni, að ekki má við hann mæla."
18 Þá brá Abígail við og tók tvö hundruð brauð og tvo vínlegla, fimm tilreidda sauði og fimm mæla af bökuðu korni, hundrað rúsínukökur og tvö hundruð fíkjukökur og klyfjaði með asna
19 og sagði við sveina sína: "Farið á undan mér, sjá, ég kem á eftir yður." En Nabal manni sínum sagði hún ekki frá þessu.
20 Og er hún kom ríðandi á asna ofan fjallið og var í hvarfi, sjá, þá kom Davíð með menn sína ofan í móti henni, og rakst hún þar á þá.
21 En Davíð hafði sagt: "Já, til einskis hefi ég varðveitt allt, sem sá maður átti á eyðimörkinni, svo að einskis varð vant af öllu, sem hann átti. Hann hefir launað mér gott með illu.
22 Guð láti Davíð gjalda þess nú og síðar, ef ég læt eftir verða einn karlmann af öllu því, sem hann á, þegar birtir á morgun."
23 En er Abígail sá Davíð, sté hún sem skjótast niður af asnanum og féll fram á ásjónu sína fyrir Davíð og laut til jarðar.
24 Og hún féll honum til fóta og mælti: "Sökin hvílir á mér, herra minn! Leyf ambátt þinni að tala við þig og hlýð á orð ambáttar þinnar.
25 Skeyt eigi, herra minn, um hrakmenni þetta, hann Nabal, því að hann ber nafn með réttu. Heimskingi heitir hann og heimskur er hann. En ég, ambátt þín, hefi ekki séð sveinana, er þú, herra minn, sendir.
26 Og nú, herra minn, svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem þú lifir og Drottinn hefir aftrað þér frá að úthella blóði og hefna þín sjálfur, þá verði nú óvinir þínir sem Nabal og allir þeir, sem sitja um að gjöra þér illt, herra!
27 Og gáfu þessa, sem þerna þín hefir fært þér, herra minn, lát nú gefa hana sveinunum, sem eru í fylgd með þér, herra minn!
28 Fyrirgef afbrot ambáttar þinnar, því að veita mun Drottinn herra mínum staðfast hús, af því að herra minn heyir bardaga Drottins, og illt mun ekki finnast í fari þínu meðan þú lifir.
29 Og rísi einhver maður upp til þess að ofsækja þig og sitja um líf þitt, þá sé líf herra míns bundið í bundini lifandi manna hjá Drottni, Guði þínum, en lífi óvina þinna þeyti hann burt úr slöngvunni.
30 Og þegar Drottinn veitir þér, herra minn, öll þau gæði, er hann hefir þér heitið, og hefir skipað þig höfðingja yfir Ísrael,
31 þá mun það ekki verða þér til ásteytingar né herra mínum að samviskubiti, að herra minn hafi úthellt blóði að orsakalausu og hefnt sín sjálfur. En þegar Drottinn gjörir vel við þig, herra minn, þá minnstu ambáttar þinnar."
32 Þá mælti Davíð til Abígail: "Lofaður veri Drottinn, Ísraels Guð, sem sendi þig í dag á minn fund.
33 Og blessuð séu hyggindi þín og blessuð sért þú sjálf, sem aftrað hefir mér í dag frá að baka mér blóðskuld og að hefna mín sjálfur.
34 En svo sannarlega sem Drottinn, Ísraels Guð, lifir, sem varðveitt hefir mig frá að gjöra þér illt, hefðir þú eigi hraðað þér svo á minn fund, þá myndi eigi nokkur af mönnum Nabals hafa beðið morguns ódrepinn."
35 Og Davíð tók við því af henni, sem hún færði honum, og sagði við hana: "Far þú í friði heim til þín. Sjá, ég hefi hlýtt á mál þitt og veitt þér bæn þína."
36 Þegar Abígail kom til Nabals, þá hafði hann veislu í húsi sínu, sem konungsveisla væri. Var Nabal hinn kátasti og drukkinn mjög. Sagði hún honum ekkert, hvorki smátt né stórt, fyrr en birti morguninn eftir.
37 En um morguninn, þá er víman var runnin af Nabal, sagði kona hans honum öll þessi tíðindi. Þá dó hjartað í brjósti honum og hann varð sem steinn.
38 Og að eitthvað tíu dögum liðnum laust Drottinn Nabal, svo að hann dó.
39 Þegar Davíð frétti, að Nabal væri dáinn, mælti hann: "Lofaður sé Drottinn, sem hefnt hefir svívirðu minnar á Nabal og haldið hefir þjóni sínum frá illu. En illsku Nabals hefir Drottinn látið honum sjálfum í koll koma." Sendi þá Davíð menn til Abígail þess erindis, að hann vill fá hennar sér til eiginkonu.
40 Þjónar Davíðs komu til Abígail í Karmel og mæltu svo til hennar: "Davíð hefir sent oss á þinn fund þess erindis, að hann vill fá þín sér til eiginkonu."
41 Þá stóð hún upp og hneigði andlit sitt til jarðar og mælti: "Sjá, ambátt þín er þess albúin að gjörast þerna til þess að þvo fætur þjóna herra míns."
42 Síðan bjó Abígail sig í skyndi og steig á bak asna sínum, svo og meyjar hennar fimm, þær er með henni fóru. Hún fór með sendimönnum Davíðs og varð kona hans.
43 Akínóam frá Jesreel hafði Davíð fengið sér til eiginkonu, og báðar urðu þær konur hans.
44 En Sál hafði gefið Míkal dóttur sína, konu Davíðs, Paltí Laíssyni frá Gallím.
6 Getur nokkur yðar, sem hefur sök móti öðrum, fengið af sér að leggja málið undir dóm heiðinna manna, en ekki hinna heilögu?
2 Eða vitið þér ekki, að hinir heilögu eiga að dæma heiminn? Og ef þér eigið að dæma heiminn, eruð þér þá óverðugir að dæma í hinum minnstu málum?
3 Vitið þér eigi, að vér eigum að dæma engla? Hvað þá heldur tímanleg efni!
4 Þegar þér eigið að dæma um tímanleg efni, þá kveðjið þér að dómurum menn, sem að engu eru hafðir í söfnuðinum.
5 Ég segi það yður til blygðunar. Er þá enginn vitur til á meðal yðar, sem skorið geti úr málum milli bræðra?
6 Í stað þess á bróðir í máli við bróður og það fyrir vantrúuðum!
7 Annars er það nú yfirleitt galli á yður, að þér eigið í málaferlum hver við annan. Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður?
8 Í stað þess hafið þér rangsleitni í frammi og hafið af öðrum og það af bræðrum!
9 Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar,
10 þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.
11 Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.
12 Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt, en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér.
13 Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn, en Guð mun hvort tveggja að engu gjöra. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi, heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann.
14 Guð hefur uppvakið Drottin og mun uppvekja oss fyrir kraft sinn.
15 Vitið þér ekki, að líkamir yðar eru limir Krists? Á ég þá að taka limi Krists og gjöra þá að skækjulimum? Fjarri fer því.
16 Vitið þér ekki, að sá er samlagar sig skækjunni verður ásamt henni einn líkami? Því að sagt er: "Þau tvö munu verða eitt hold."
17 En sá er samlagar sig Drottni er einn andi ásamt honum.
18 Flýið saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.
19 Vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda, sem í yður er og þér hafið frá Guði? Og ekki eruð þér yðar eigin.
20 Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.
4 Þú mannsson, tak þér tigulstein, legg hann fyrir framan þig og drag þar upp borg, sem sé Jerúsalem.
2 Og reis þú hervirki gegn henni og hlað víggarð gegn henni. Hleyp upp jarðhrygg gegn henni, skipa hersetuliði um hana og set víghrúta umhverfis hana.
3 Og tak þér járnplötu og set hana sem járnvegg milli þín og borgarinnar. Snú því næst andliti þínu gegn henni, svo að hún komist undir hersetu og þú sitjir um hana. Þetta skal vera Ísraelsmönnum tákn.
4 En legg þú þig á vinstri hliðina og tak á þig misgjörð Ísraels húss. Alla þá daga, er þú liggur á henni, skalt þú bera misgjörð þeirra.
5 Og tel ég þér misgjörðarár þeirra til jafnmargra daga, _ þrjú hundruð og níutíu daga _, og þannig skalt þú bera misgjörð Ísraels húss.
6 Og þegar þú hefir fullnað þessa daga, þá skalt þú leggjast á hægri hliðina hið annað sinn og bera misgjörð Júda húss, fjörutíu daga. Tel ég þér dag fyrir ár hvert.
7 Og þú skalt snúa andliti þínu og nöktum armlegg þínum gegn umsátri Jerúsalem, og þú skalt spá í gegn henni.
8 Og sjá, ég legg bönd á þig, svo að þú skalt ekki ná að snúa þér af einni hlið á aðra, uns þú hefir af lokið umsátursdögum þínum.
9 En tak þér hveiti, bygg, baunir, linsubaunir, hirsi og speldi. Lát það allt í eitt ker og gjör þér brauð af. Skalt þú hafa það til matar allan þann tíma, er þú liggur á hliðinni.
10 Og vega skal þér mat þinn, þann er þú neytir, tuttugu sikla á dag. Skalt þú neyta hans á ákveðnum tíma einu sinni á dag.
11 Mæla skal þér og vatn að drekka, sjöttung hínar í hvert sinn. Skalt þú drekka það á ákveðnum tíma einu sinni á dag.
12 Skalt þú eta það sem byggkökur, og þær skaltu baka við mannaþrekk fyrir augum þeirra.
13 Og Drottinn sagði: "Svo munu Ísraelsmenn eta brauð sitt óhreint hjá þjóðum þeim, er ég rek þá til."
14 Þá sagði ég: "Æ, Drottinn Guð! Sjá, ég hefi aldrei saurgað mig, og allt í frá barnæsku minni og fram á þennan dag hefi ég aldrei etið það, er sjálfdautt væri eða dýrrifið, og óhreint kjöt hefi ég aldrei lagt mér til munns."
15 Þá sagði hann við mig: "Sjá þú, ég leyfi þér að hafa nautatað í stað mannaþrekks. Við það skalt þú gjöra brauð þitt."
16 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, sjá, ég brýt sundur staf brauðsins í Jerúsalem, og þeir skulu eta brauðið eftir skammti og með angist, og vatnið skulu þeir drekka eftir mæli og með skelfingu,
17 til þess að þá skorti brauð og vatn og þeir skelfist hver með öðrum og veslist upp vegna misgjörðar sinnar."
40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.
3 Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.
4 Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.
5 Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.
6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.
7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.
8 Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.
9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."
10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!
11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.
12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.
13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.
14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.
15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.
17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"
18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!
41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.
3 Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.
4 Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.
5 Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."
6 Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"
7 Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.
8 Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:
9 "Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."
10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.
11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.
12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.
13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________
14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.
by Icelandic Bible Society