Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 24

24 Davíð fór þaðan og hafðist við uppi í fjallvígjum við Engedí.

Og þegar Sál kom aftur úr herförinni móti Filistum, báru menn honum tíðindi og sögðu: "Sjá, Davíð er í Engedí-eyðimörk."

Þá tók Sál þrjár þúsundir manns, einvalalið úr öllum Ísrael, og lagði af stað til að leita Davíðs og hans manna austan í Steingeitahömrum.

Og hann kom að fjárbyrgjunum við veginn. Þar var hellir, og gekk Sál inn í hann erinda sinna. En Davíð og hans menn höfðu lagst fyrir innst í hellinum.

Þá sögðu menn Davíðs við hann: "Nú er dagurinn kominn, sá er Drottinn talaði um við þig: ,Sjá, ég mun gefa óvin þinn í hendur þér, svo að þú getir við hann gjört það, er þér vel líkar."` Og Davíð stóð upp og sneið leynilega lafið af skikkju Sáls.

En eftir á sló samviskan Davíð, að hann hafði sniðið lafið af skikkju Sáls.

Og hann sagði við menn sína: "Drottinn láti það vera fjarri mér, að ég gjöri slíkt við herra minn, Drottins smurða, að ég leggi hönd á hann, því að Drottins smurði er hann."

Og Davíð átaldi menn sína harðlega og leyfði þeim ekki að ráðast á Sál. Sál stóð upp og gekk út úr hellinum og fór leiðar sinnar.

Þá reis Davíð upp og gekk út úr hellinum og kallaði á eftir Sál: "Minn herra konungur!" Þá leit Sál aftur, en Davíð hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum.

10 Og Davíð sagði við Sál: "Hví hlýðir þú á tal þeirra manna, sem segja: ,Sjá, Davíð situr um að vinna þér mein`?

11 Sjá, nú hefir þú sjálfur séð, hversu Drottinn gaf þig í mínar hendur í dag í hellinum. Og menn eggjuðu mig á að drepa þig, en ég þyrmdi þér og hugsaði með mér: ,Ég skal eigi leggja hendur á herra minn, því að Drottins smurði er hann.`

12 En líttu á, faðir, já líttu á lafið af skikkju þinni í hendi mér. Af því, að ég sneið lafið af skikkju þinni og drap þig ekki _ af því mátt þú skynja og skilja, að ég bý eigi yfir illsku og svikum og að ég hefi eigi syndgað á móti þér. En þú situr um að ráða mig af dögum.

13 Drottinn dæmi milli mín og þín, og Drottinn hefni mín á þér, en hendur legg ég ekki á þig.

14 Eins og gamalt máltæki segir: ,Ills er af illum von,` en hendur legg ég ekki á þig.

15 Hvern eltir Ísraelskonungur? Hvern ofsækir þú? Dauðan hund, eina fló!

16 Drottinn sé dómari og dæmi okkar í milli og sjái til og flytji mál mitt og reki réttar míns í hendur þér."

17 Þegar Davíð hafði mælt þessum orðum til Sáls, þá kallaði Sál: "Er það ekki þín rödd, Davíð sonur minn?" og Sál tók að gráta hástöfum.

18 Og hann mælti til Davíðs: "Þú ert réttlátari en ég, því að þú hefir gjört mér gott, en ég hefi gjört þér illt.

19 Og þú hefir í dag aukið á það góða, sem þú hefir auðsýnt mér, þar sem Drottinn seldi mig í þínar hendur, en þú drapst mig ekki.

20 Því að hitti einhver óvin sinn, mun hann þá láta hann fara leiðar sinnar í friði? En Drottinn mun umbuna þér þennan dag góðu, fyrir það sem þú gjörðir mér.

21 Og sjá, nú veit ég, að þú munt konungur verða og að konungdómur Ísraels mun staðfestast í þinni hendi.

22 Vinn mér því eið að því við Drottin, að þú skulir ekki uppræta niðja mína eftir mig og ekki afmá nafn mitt úr ætt minni."

23 Og Davíð vann Sál eið að því. Fór Sál því næst heim til sín, en Davíð og menn hans fóru upp í fjallvígið.

Fyrra bréf Páls til Korin 5

Það er mér sagt að saurlifnaður eigi sér stað á meðal yðar, og það slíkur saurlifnaður, sem jafnvel gerist ekki meðal heiðingja, að maður heldur við konu föður síns.

Og svo eruð þér stærilátir, í stað þess að hryggjast og gjöra gangskör að því, að manninum, sem þetta hefur drýgt, yrði útrýmt úr félagi yðar!

Ég fyrir mitt leyti, fjarlægur að líkamanum til, en nálægur að andanum, hef þegar, eins og ég væri nálægur, kveðið upp dóm í nafni Drottins vors Jesú yfir manni þeim, sem þetta hefur drýgt:

Þegar þér og minn andi eruð saman komnir með krafti Drottins vors Jesú,

skal selja slíkan mann Satan á vald til tortímingar holdinu, til þess að andinn megi hólpinn verða á degi Drottins Jesú.

Ekki hafið þér ástæðu til að stæra yður! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið?

Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur.

Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Ég ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki umgangast saurlífismenn.

10 Átti ég þar ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt, ásælna og ræningja eða hjáguðadýrkendur, því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum.

11 En nú rita ég yður, að þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.

12 Hvað skyldi ég vera að dæma þá, sem fyrir utan eru? Dæmið þér ekki þá, sem fyrir innan eru?

13 Og mun ekki Guð dæma þá, sem fyrir utan eru? "Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi."

Esekíel 3

Og hann sagði við mig: "Mannsson, et bókrollu þessa, far síðan og tala til Ísraelsmanna!"

Þá upplauk ég munni mínum, en hann fékk mér bókrolluna að eta

og sagði við mig: "Þú mannsson, þú skalt renna henni niður í magann og fylla kvið þinn með bókrollu þeirri, er ég fæ þér." Og ég át hana og var hún í munni mér sæt sem hunang.

Þá sagði hann við mig: "Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra.

Því að þú ert ekki sendur til fólks, er mæli á torskilda tungu,

eigi til margra þjóða, er þú skilur eigi, heldur hefi ég sent þig til Ísraelsmanna. Þeir geta skilið þig.

En Ísraelsmenn munu eigi vilja hlýða á þig, því að þeir vilja eigi hlýða á mig, því að allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu.

Sjá, ég gjöri andlit þitt hart, eins og andlit þeirra, og enni þitt hart, eins og enni þeirra,

ég gjöri enni þitt sem demant, harðara en klett. Þú skalt eigi óttast þá, né skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð."

10 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, hugfest þér öll orð mín, þau er ég til þín tala, og lát þau þér í eyrum loða.

11 Far síðan til hinna herleiddu, til samlanda þinna, og tala til þeirra og seg við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` hvort sem þeir svo hlýða á það eða gefa því engan gaum."

12 Þá hóf andinn mig upp, en að baki mér heyrði ég dunur af miklum landskjálfta, er dýrð Drottins hófst upp af stað sínum,

13 svo og þyt af vængjum veranna, er snertu hver aðra, og hark frá hjólunum samtímis og dunur af miklum landskjálfta.

14 Og andinn hóf mig upp og hreif mig burt, og ég hélt af stað hryggur og í mikilli geðshræring, og hönd Drottins lá þungt á mér.

15 Og ég kom til hinna herleiddu í Tel Abíb við Kebarfljótið, þar er þeir bjuggu, og ég sat þar sjö daga utan við mig meðal þeirra.

16 Að liðnum sjö dögum kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

17 "Mannsson, ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni.

18 Ef ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt deyja!` og þú varar hann ekki við og segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við óguðlegri breytni hans, til þess að bjarga lífi hans, þá mun hinn óguðlegi að vísu deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.

19 En varir þú hinn óguðlega við og snúi hann sér þó ekki frá guðleysi sínu og óguðlegri breytni sinni, þá mun hann deyja fyrir misgjörð sína, en þá hefir þú frelsað sál þína.

20 Ef hins vegar ráðvandur maður snýr sér frá ráðvendni sinni og fremur ranglæti, og ég legg fótakefli fyrir hann, svo að hann deyr, hafir þú þá eigi varað hann við, þá mun hann deyja fyrir synd sína, og ráðvendni sú, er hann hafði sýnt, eigi til álita koma, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.

21 En varir þú hinn ráðvanda við syndinni, og hann, hinn ráðvandi, syndgar þá ekki, þá mun hann lífi halda, af því að hann var varaður við, og hefir þú þá frelsað sál þína."

22 Hönd Drottins kom þar yfir mig, og hann sagði við mig: "Statt upp, gakk ofan í dalinn, þar vil ég tala við þig."

23 Þá stóð ég upp og gekk niður í dalinn, og sjá, þar stóð dýrð Drottins, sú hin sama, er ég hafði séð við Kebarfljótið. Þá féll ég fram á ásjónu mína.

24 Og í mig kom andi, sem reisti mig á fætur, og hann talaði til mín og sagði við mig: "Far og loka þig inni í húsi þínu.

25 Og sjá, þú mannsson, menn munu leggja bönd á þig og fjötra þig með þeim, til þess að þú getir eigi gengið út og inn meðal þeirra.

26 Og tungu þína mun ég láta loða við góm þér, svo að þú verðir orðlaus og náir ekki að hirta þá með aðfinningum, því að þeir eru þverúðug kynslóð.

27 En þegar ég tala við þig, mun ég ljúka upp munni þínum, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` Hver sem heyra vill, hann heyri, og hver sem ekki vill gefa því gaum, hann leiði það hjá sér, því að þeir eru þverúðug kynslóð."

Sálmarnir 39

39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."

Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.

Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:

"Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.

Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.

Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.

11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.

12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.

14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society