Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 23

23 Menn fluttu Davíð þessi tíðindi: "Sjá, Filistar herja á Kegílu og ræna kornláfana."

Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: "Á ég að fara og herja á þessa Filista?" Drottinn sagði við Davíð: "Far þú og herja á Filistana og frelsaðu Kegílu."

En menn Davíðs sögðu við hann: "Sjá, vér erum hræddir um oss hér í Júda, hvað mun þá, ef vér förum til Kegílu á móti herfylkingum Filista?"

Þá gekk Davíð enn til frétta við Drottin, og Drottinn svaraði honum og sagði: "Tak þig upp og far til Kegílu, því að ég mun gefa Filista í hendur þér."

Síðan fór Davíð og menn hans til Kegílu, og hann herjaði á Filista, rak fénað þeirra burt og lagði fjölda þeirra að velli. Þannig frelsaði Davíð þá, sem bjuggu í Kegílu.

Þegar Abjatar Ahímeleksson flýði til Davíðs, þá hafði hann með sér hökul.

Sál var sagt frá því, að Davíð væri kominn til Kegílu. Þá mælti Sál: "Guð hefir selt hann mér á vald, því að hann hefir sjálfur byrgt sig inni með því að fara inn í borg með hliðum og slagbröndum."

Og Sál stefndi öllum lýðnum saman til hernaðar til þess að fara til Kegílu og gjöra umsát um Davíð og menn hans.

Þegar Davíð frétti, að Sál sæti á svikráðum við sig, sagði hann við Abjatar prest: "Kom þú hingað með hökulinn."

10 Og Davíð mælti: "Drottinn, Ísraels Guð! Þjónn þinn hefir sannspurt, að Sál ætli sér að koma til Kegílu til þess að eyða borgina mín vegna.

11 Hvort munu Kegílubúar framselja mig í hendur honum? Mun Sál koma hingað, eins og þjónn þinn hefir spurt? Drottinn, Ísraels Guð! Gjör það kunnugt þjóni þínum." Drottinn svaraði: "Já, hann mun koma."

12 Þá mælti Davíð: "Hvort munu Kegílubúar framselja mig og menn mína í hendur Sál?" Drottinn svaraði: "Já, það munu þeir gjöra."

13 Þá tók Davíð sig upp og hans menn, um sex hundruð manns, og þeir lögðu af stað frá Kegílu og sveimuðu víðsvegar. En er Sál frétti, að Davíð hefði forðað sér burt frá Kegílu, þá hætti hann við herförina.

14 Davíð hafðist við í eyðimörkinni uppi í fjallvígjum, og hann hafðist við á fjöllunum í Sífeyðimörku. Og Sál leitaði hans alla daga, en Guð gaf hann ekki í hendur honum.

15 Davíð varð hræddur, þegar Sál lagði af stað til þess að sækjast eftir lífi hans. Davíð var þá í Hóres í Sífeyðimörku.

16 Og Jónatan, sonur Sáls, tók sig upp og fór á fund Davíðs í Hóres og hughreysti hann í nafni Guðs

17 og sagði við hann: "Óttast þú ekki, því að Sál faðir minn mun eigi hendur á þér festa, en þú munt verða konungur yfir Ísrael, og mun ég þá ganga þér næstur. Sál faðir minn veit og þetta."

18 Og þeir gjörðu báðir sáttmála fyrir augliti Drottins. Og Davíð var kyrr í Hóres, en Jónatan fór heim til sín.

19 Þá komu Sífítar til Sáls í Gíbeu og sögðu: "Veistu að Davíð felur sig hjá oss í fjallvígjunum í Hóres, í Hahakílahæðunum, sunnarlega í Júdaóbyggðum?

20 Og ef þig nú fýsir, konungur, að koma þangað, þá kom þú. Vort hlutverk verður það þá að framselja hann í hendur konungi."

21 Sál mælti: "Blessaðir séuð þér af Drottni, fyrir það að þér kennduð í brjósti um mig.

22 Farið nú og takið enn vel eftir og kynnið yður og komist sem fyrst að raun um, hvar hann heldur sig, því að mér hefir verið sagt, að hann sé slægur mjög.

23 Og njósnið nú og kynnið yður öll þau fylgsni, er hann kann að felast í, og færið mér síðan örugga fregn af, og mun ég þá með yður fara. Og ef hann er í landinu, þá skal ég leita hann uppi meðal allra Júda þúsunda."

24 Þá tóku þeir sig upp og fóru á undan Sál til Síf. Davíð var þá með mönnum sínum í Maoneyðimörk, á sléttlendinu syðst í Júdaóbyggðum.

25 Og Sál fór að leita hans með mönnum sínum. Sögðu menn Davíð frá því, og fór hann þá niður að hamrinum, sem er í Maoneyðimörk. Og er Sál heyrði það, veitti hann Davíð eftirför inn í Maoneyðimörk.

26 Sál og menn hans fóru öðrumegin við fjallið, en Davíð og hans menn hinumegin við það. Davíð flýtti sér nú í angist að komast undan Sál, en Sál og menn hans voru að því komnir að umkringja Davíð og menn hans og taka þá höndum.

27 En þá kom sendimaður til Sáls og mælti: "Kom þú nú skjótt, því að Filistar hafa brotist inn í landið."

28 Þá hvarf Sál aftur og lét af að elta Davíð, en sneri í móti Filistum. Fyrir því var sá staður nefndur Aðskilnaðarklettur.

Fyrra bréf Páls til Korin 4

Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.

Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.

En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur.

Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig.

Dæmið því ekki fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið.

En þetta hef ég yðar vegna, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss, til þess að þér af okkar dæmi mættuð læra regluna: "Farið ekki lengra en ritað er," _ og til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar.

Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?

Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!

Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.

10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.

11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,

12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.

13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.

14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín.

15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.

16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.

17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, sem er elskað og trútt barn mitt í Drottni. Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði.

18 En nokkrir hafa gjörst hrokafullir, rétt eins og ég ætlaði ekki að koma til yðar,

19 en ég mun brátt koma til yðar, ef Drottinn vill, og mun ég þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra.

20 Því að Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti.

21 Hvað viljið þér? Á ég að koma til yðar með hirtingarvönd eða í kærleika og hógværðar anda?

Esekíel 2

Hann sagði við mig: "Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig."

Þá kom andi í mig, er hann talaði þannig til mín, sem reisti mig á fætur, og ég heyrði til þess, er við mig talaði.

Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, ég ætla að senda þig til Ísraelsmanna, til hinna fráhorfnu, þeirra er mér hafa gjörst fráhverfir. Þeir og feður þeirra hafa rofið trúna við mig allt fram á þennan dag.

Ég sendi þig til þeirra, sem eru þrjóskir á svip og harðir í hjarta, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!`

Og hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum _ því að þeir eru þverúðug kynslóð _ þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra.

En þú, mannsson, skalt ekki hræðast þá og ekki óttast orð þeirra, þótt netlur og þyrnar séu hjá þér og þótt þú búir meðal sporðdreka. Orð þeirra skalt þú ekki óttast og ekki skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð.

Heldur skalt þú tala orð mín til þeirra, hvort sem þeir hlýða á þau eða gefa þeim engan gaum, því að þeir eru þverúðin einber.

En þú, mannsson, heyr þú það, er ég tala til þín! Ver þú eigi einber þverúð, eins og hin þverúðuga kynslóð. Lúk upp munni þínum og et það, er ég fæ þér."

Ég sá þá, að hönd var út rétt móti mér. Í henni var bókrolla.

10 Og hann rakti hana sundur fyrir mér, og var hún rituð bæði utan og innan, og voru á hana rituð harmljóð, andvörp og kveinstafir.

Sálmarnir 38

38 Davíðssálmur. Minningarljóð.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.

Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.

Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.

Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.

Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.

Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.

Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.

10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.

11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.

12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.

13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,

15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.

16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,

17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."

18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.

19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,

20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.

21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.

22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,

23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society