M’Cheyne Bible Reading Plan
21 Davíð kom til Nób, til Ahímeleks prests, en Ahímelek gekk skelkaður í móti Davíð og mælti til hans: "Hví ert þú einsamall og enginn maður með þér?"
2 Davíð svaraði Ahímelek presti: "Konungur fól mér erindi nokkurt og sagði við mig: ,Enginn maður má vita neitt um erindi það, er ég sendi þig í og ég hefi falið þér.` Fyrir því hefi ég stefnt sveinunum á vissan stað.
3 Og ef þú hefir nú fimm brauð hjá þér, þá gef mér þau, eða hvað sem fyrir hendi er."
4 Prestur svaraði Davíð og sagði: "Ég hefi ekkert óheilagt brauð hjá mér, en heilagt brauð er til, _ aðeins að sveinarnir hafi haldið sér frá konum."
5 Davíð svaraði presti og mælti til hans: "Já, vissulega. Kvenna hefir oss verið varnað undanfarið. Þegar ég fór að heiman, voru ker sveinanna heilög. Að vísu er þetta ferðalag óheilagt, en nú verður allt helgað!"
6 Þá gaf prestur honum heilagt brauð, því að þar var ekkert brauð, nema skoðunarbrauðin, sem tekin eru burt frá augliti Drottins, en volg brauð lögð í stað þeirra, þá er þau eru tekin.
7 En þar var þennan dag einn af þjónum Sáls, inni byrgður fyrir augliti Drottins. Hann hét Dóeg og var Edómíti og yfirmaður hirða Sáls.
8 Davíð sagði við Ahímelek: "Hefir þú ekki spjót eða sverð hér hjá þér? Því að ég tók hvorki sverð mitt né vopn mín með mér, svo bar bráðan að um konungs erindi."
9 Þá sagði prestur: "Hér er sverð Golíats Filista, sem þú lagðir að velli í Eikidal, sveipað dúk á bak við hökulinn. Ef þú vilt hafa það, þá tak það, því að hér er ekkert annað en það." Davíð sagði: "Það er sverða best, fá mér það."
10 Síðan tók Davíð sig upp og flýði þennan sama dag fyrir Sál, og kom til Akís konungs í Gat.
11 Og þjónar Akís sögðu við hann: "Er þetta ekki Davíð, konungur landsins? Var það ekki um hann, að sungið var við dansinn: Sál felldi sín þúsund og Davíð sín tíu þúsund?"
12 Davíð festi þessi orð í huga og var mjög hræddur við Akís konung í Gat.
13 Fyrir því gjörði hann sér upp vitfirringu fyrir augum þeirra og lét sem óður maður innan um þá, sló á vængjahurðir hliðsins sem á bumbu og lét slefuna renna ofan í skeggið.
14 Þá sagði Akís við þjóna sína: "Þér sjáið að maðurinn er vitstola. Hví komið þér með hann til mín?
15 Hefi ég ekki nóg af vitfirringum, úr því að þér hafið komið með þennan til að ærast frammi fyrir mér? Hvað á hann að gjöra í mitt hús?"
22 Davíð fór þaðan og komst undan í Adúllamhelli. Og er bræður hans og allt hús föður hans fréttu það, komu þeir þangað til hans.
2 Og allir nauðstaddir menn söfnuðust til hans og allir þeir, sem komnir voru í skuldir, svo og allir þeir, er óánægðir voru, og gjörðist hann höfðingi þeirra. Voru nú með honum um fjögur hundruð manns.
3 Davíð fór þaðan til Mispe í Móab og sagði við Móabskonung: "Leyf föður mínum og móður minni að vera hér hjá yður, uns ég fæ að vita, hvað Guð gjörir við mig."
4 Síðan skildi hann þau eftir hjá Móabskonungi, og þau voru hjá honum meðan Davíð var í virkinu.
5 Og Gað spámaður sagði við Davíð: "Þú skalt ekki vera kyrr í virkinu. Haf þig á braut og far til Júda." Þá fór Davíð af stað og kom í Heretskóg.
6 Nú fréttir Sál, að Davíð sé fundinn og þeir menn, sem með honum voru. Sál sat í Gíbeu undir tamarisktrénu á hæðinni og hafði spjót í hendi, og allir þjónar hans stóðu umhverfis hann.
7 Þá mælti Sál við þjóna sína, sem stóðu umhverfis hann: "Heyrið, þér Benjamínítar! Ætli Ísaísonur gefi yður öllum akra og víngarða og gjöri yður alla að hersveitarforingjum og hundraðshöfðingjum?
8 Þér hafið allir gjört samsæri á móti mér, og enginn sagði mér frá því, þegar sonur minn gjörði bandalag við Ísaíson, og enginn yðar hefir kennt í brjósti um mig og sagt mér frá því, að sonur minn hefir eflt þegn minn til fjandskapar í móti mér, eins og nú er fram komið."
9 Þá tók Dóeg Edómíti til máls, _ en hann stóð hjá þjónum Sáls _ og mælti: "Ég sá Ísaíson koma til Nób, til Ahímeleks Ahítúbssonar,
10 og gekk hann til frétta við Drottin fyrir hann. Hann gaf honum og vistir, og sverð Golíats Filista fékk hann honum."
11 Þá sendi konungur eftir Ahímelek presti Ahítúbssyni og öllu frændliði hans, prestunum í Nób, og þeir komu allir á konungs fund.
12 Þá mælti Sál: "Heyr þú, Ahítúbsson!" Hann svaraði: "Hér er ég, herra minn!"
13 Sál mælti til hans: "Hví hafið þið gjört samsæri í móti mér, þú og Ísaíson, þar sem þú fékkst honum brauð og sverð og gekkst til frétta við Guð fyrir hann, svo að hann gæti risið til fjandskapar í gegn mér, eins og nú er fram komið?"
14 Ahímelek svaraði konungi og mælti: "Hver er svo trúr sem Davíð meðal allra þjóna þinna, tengdasonur konungsins, foringi lífvarðar þíns og mikils metinn í húsi þínu?
15 Er þetta þá í fyrsta sinni, sem ég geng til frétta við Guð fyrir hann? Fjarri fer því. Konungur má eigi gefa þjóni sínum og öllu frændliði mínu sök á þessu, því að þjónn þinn vissi alls ekki neitt um þetta."
16 En konungur mælti: "Þú skalt lífið láta, Ahímelek, þú og allt frændlið þitt."
17 Og konungur mælti til varðmannanna, sem hjá honum stóðu: "Komið hingað og deyðið presta Drottins, því að einnig þeir hafa hjálpað Davíð. Og þótt þeir vissu, að hann var að flýja, þá létu þeir mig ekki vita það." En þjónar konungs vildu ekki leggja hendur á presta Drottins.
18 Þá sagði konungur við Dóeg: "Kom þú hingað og drep þú prestana." Og Dóeg Edómíti gekk þangað, og hann drap prestana og deyddi á þeim degi áttatíu og fimm menn, sem báru línhökul.
19 Og Nób, borg prestanna, eyddi hann með sverðseggjum; bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, uxa, asna og sauði felldi hann með sverðseggjum.
20 Aðeins einn af sonum Ahímeleks Ahítúbssonar komst undan. Hann hét Abjatar og flýði til Davíðs og gekk í sveit með honum.
21 Og Abjatar sagði Davíð frá, að Sál hefði myrt presta Drottins.
22 Davíð sagði við Abjatar: "Ég vissi það þá þegar, úr því að Dóeg Edómíti var þar, að hann mundi segja Sál frá því. Ég á sök á lífláti allra ættmenna þinna.
23 Vertu hjá mér og óttast ekki, því að sá sem leitar eftir mínu lífi, leitar eftir þínu lífi. Hjá mér er þér óhætt."
3 Ég gat ekki, bræður, talað við yður eins og við andlega menn, heldur eins og við holdlega, eins og við ómálga í Kristi.
2 Mjólk gaf ég yður að drekka, ekki fasta fæðu, því að enn þolduð þér það ekki. Og þér þolið það jafnvel ekki enn,
3 því að enn þá eruð þér holdlegir menn. Fyrst metingur og þráttan er á meðal yðar, eruð þér þá eigi holdlegir og hegðið yður á manna hátt?
4 Þegar einn segir: "Ég er Páls," en annar: "Ég er Apollóss," eruð þér þá ekki eins og hverjir aðrir menn?
5 Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig.
6 Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.
7 Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur.
8 Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði.
9 Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.
10 Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir.
11 Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.
12 En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm,
13 þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er.
14 Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun.
15 Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi.
16 Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?
17 Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri.
18 Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur þykist vitur yðar á meðal í þessum heimi, verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur.
19 Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði. Ritað er: Hann er sá, sem grípur hina vitru í slægð þeirra.
20 Og aftur: Drottinn þekkir hugsanir vitringanna, að þær eru hégómlegar.
21 Fyrir því stæri enginn sig af mönnum. Því að allt er yðar,
22 hvort heldur er Páll, Apollós eða Kefas, heimurinn, líf eða dauði, hið yfirstandandi eða hið komandi, allt er yðar.
23 En þér eruð Krists og Kristur Guðs.
1 Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir.
2 Fimmta dag mánaðarins, það var fimmta árið eftir að Jójakín konungur var burt fluttur,
3 þá kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests í Kaldealandi við Kebarfljótið, og hönd Drottins kom þar yfir hann.
4 Ég sá, og sjá: Stormvindur kom úr norðri og ský mikið og eldur, sem hnyklaðist saman, og stóð af því bjarmi umhverfis, og út úr honum sást eitthvað, sem glóði eins og lýsigull.
5 Út úr honum sáust myndir af fjórum verum. Og þetta var útlit þeirra: Mannsmynd var á þeim.
6 Hver þeirra hafði fjórar ásjónur og hver þeirra hafði fjóra vængi.
7 Fætur þeirra voru keipréttir og iljarnar sterklegar eins og kálfsiljar, og þeir blikuðu eins og skyggður eir.
8 Og undir vængjum þeirra á hliðunum fjórum voru mannshendur.
9 Vængir þeirra lágu hver upp að öðrum, og ásjónur þeirra fjögurra sneru sér ekki við, er þær gengu, heldur gekk hver beint af augum fram.
10 Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert.
11 Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.
12 Og þær gengu hver fyrir sig beint af augum fram, þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni.
13 Milli veranna var að sjá sem eldsglæður brynnu. Það var eins og blys færu aftur og fram milli veranna, og bjarma lagði af eldinum og út frá eldinum gengu leiftur.
14 Og verurnar hlupu fram og aftur eins og glampi af leiftri.
15 Enn fremur sá ég, og sjá: Eitt hjól stóð á jörðinni hjá hverri af verunum fjórum.
16 Og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolít, og öll fjögur voru þau samlík og þannig gjörð, sem eitt hjólið væri innan í öðru hjóli.
17 Þau gengu til allra fjögurra hliða, þau snerust eigi, er þau gengu.
18 Og hjólbaugar þeirra _ þeir voru háir og ógurlegir _ hjólbaugar þeirra voru alsettir augum allt umhverfis á þeim fjórum.
19 Og þegar verurnar gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar verurnar hófu sig frá jörðu, þá hófu og hjólin sig.
20 Þangað sem andinn vildi fara, þangað gengu þær, og hjólin hófust upp samtímis þeim, því að andi veranna var í hjólunum.
21 Þegar þær gengu, gengu þau einnig, þegar þær stóðu kyrrar, stóðu þau og kyrr, og þegar þær hófust frá jörðu, hófust og hjólin samtímis þeim, því að andi verunnar var í hjólunum.
22 Uppi yfir höfðum veranna var því líkast sem hvelfing væri, blikandi sem kristall. Þandist hún út uppi yfir höfðum þeirra.
23 Og undir hvelfingunni voru vængir þeirra út þandir hver á móti öðrum, og hver þeirra hafði tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.
24 Ég heyrði vængjaþyt þeirra, eins og nið mikilla vatna, sem þrumu hins Almáttka, er þær gengu, gnýrinn og hávaðinn var sem gnýr í herbúðum. Þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.
25 En þytur var uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.
26 En uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, var að sjá sem safírsteinn væri, í lögun sem hásæti, og þar uppi á hásætinu, sem svo sýndist, var mynd nokkur í mannslíki.
27 Sú mynd þótti mér því líkust sem glóandi lýsigull væri þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera og upp eftir, en ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir þótti mér hún álits sem eldur, og umhverfis hana var bjarmi.
28 Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýjum stendur, þegar rignir. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Og er ég sá hana, féll ég fram á ásjónu mína, og ég heyrði rödd einhvers, sem talaði.
37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
2 því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.
3 Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,
4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
5 Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.
7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.
8 Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
9 Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.
10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.
11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.
12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.
16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.
18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.
19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.
20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.
21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.
22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.
23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.
24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.
25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.
26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.
27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,
28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.
29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.
30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.
31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.
32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,
33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.
34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.
35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,
36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.
37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,
38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.
39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.
40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.
by Icelandic Bible Society