Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 20

20 Davíð flýði frá Najót í Rama og kom til Jónatans og sagði: "Hvað hefi ég gjört? Í hverju hefi ég misgjört og í hverju hefi ég syndgað á móti föður þínum, fyrst hann situr um líf mitt?"

Jónatan sagði við hann: "Það skal aldrei verða! Þú munt eigi lífi týna. Sjá, faðir minn gjörir ekkert, hvorki stórt né smátt, að hann láti mig eigi vita það. Og hví skyldi faðir minn þá leyna mig þessu? Nei, slíkt á sér ekki stað."

Davíð svaraði aftur og mælti: "Faðir þinn veit það vel, að þér þykir vænt um mig, og hugsar með sér: ,Jónatan má eigi vita þetta, það kynni að fá honum hryggðar.` En svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir: Milli mín og dauðans er aðeins eitt fótmál."

Jónatan sagði við Davíð: "Hvað sem þú biður um mun ég fyrir þig gjöra."

Þá sagði Davíð við Jónatan: "Sjá, á morgun er tunglkomudagur, og ég get ekki með neinu móti setið til borðs með konunginum. Leyf mér því að fara burt, svo að ég geti falið mig úti á víðavangi til kvelds.

Ef nú faðir þinn saknar mín, þá skalt þú segja: ,Davíð beiddist leyfis af mér að mega bregða sér til Betlehem, föðurborgar sinnar, því að ársfórn allrar ættarinnar fer þar fram.`

Ef hann þá segir: ,Það er gott!` þá er þjóni þínum óhætt, en verði hann reiður, þá vit, að hann hefir illt af ráðið.

Auðsýn nú þjóni þínum kærleika, úr því að þú hefir látið þjón þinn ganga í Drottins-fóstbræðralag við þig. En hafi ég misgjört, þá drep þú mig sjálfur. Hví skyldir þú fara með mig til föður þíns?"

Jónatan mælti: "Lát þér eigi koma það til hugar! Ef ég yrði þess áskynja, að faðir minn hafi illt af ráðið gegn þér, mundi ég þá ekki segja þér frá því?"

10 Davíð sagði við Jónatan: "Hver lætur mig nú vita, hvort faðir þinn svarar þér illu til?"

11 Jónatan sagði við Davíð: "Kom þú, við skulum ganga út á víðavang." Og þeir gengu báðir út á víðavang.

12 En Jónatan sagði við Davíð: "Drottinn, Ísraels Guð, veri vitni: Þegar ég á morgun um þetta leyti hefi komist eftir, hvað föður mínum býr í skapi, og ég sé að þér er óhætt, mun ég senda til þín og láta þig vita.

13 Drottinn láti mig gjalda þess nú og síðar, ef faðir minn hefir illt í huga gegn þér, og ég læt þig ekki vita það. Ég leyfi þér að fara, svo að þú megir fara óhultur. Drottinn mun vera með þér, eins og hann hefir verið með föður mínum.

14 Og vilt þú ekki, verði ég þá enn á lífi, auðsýna mér miskunn Drottins, svo að ég týni eigi lífi?

15 Og svipt hús mitt aldrei miskunn þinni, og þegar Drottinn upprætir alla óvini Davíðs af jörðinni,

16 þá skal nafn Jónatans eigi verða slitið frá húsi Davíðs. Drottinn hefni Davíðs á óvinum hans!"

17 Jónatan vann Davíð enn eið við ást þá, er hann bar til hans, því að hann unni honum hugástum.

18 Og Jónatan sagði við hann: "Á morgun er tunglkomudagur. Þá verður þín saknað, því að sæti þitt mun verða autt.

19 En á þriðja degi mun þín mjög verða saknað. Þá skalt þú fara til þess staðar, þar sem þú fólst þig fyrri daginn, og sestu hjá þeim hól.

20 Ég mun þá á þriðja degi skjóta örvum í hólinn, eins og ég væri að skjóta til marks.

21 Og sjá, ég mun senda sveininn og segja: ,Farðu og sæktu örina.` Ef ég nú kalla til sveinsins: ,Sjá, örin liggur hérnamegin við þig, kom þú með hana!` þá skalt þú koma heim, því að þá er þér óhætt og ekkert er að, svo sannarlega sem Drottinn lifir.

22 En ef ég kalla svo til piltsins: ,Örin liggur hinumegin við þig!` þá far þú, því að Drottinn hefir þá sent þig burt.

23 En viðvíkjandi því, sem við höfum talað, ég og þú, þá er Drottinn vitni milli mín og þín að eilífu."

24 Þá fól Davíð sig úti á víðavangi. Er tunglkomudagurinn kom, settist konungur undir borð að máltíð.

25 Sat konungur í sæti sínu, eins og vant var, í sætinu við vegginn, en Jónatan sat gegnt honum, og Abner sat við hliðina á Sál. En sæti Davíðs var autt.

26 Þó sagði Sál ekkert þann dag, því að hann hugsaði: "Það er tilviljun: hann er ekki hreinn. Hann hefir ekki látið hreinsa sig."

27 En daginn eftir tunglkomuna var sæti Davíðs enn autt. Þá sagði Sál við Jónatan son sinn: "Hvers vegna hefir sonur Ísaí ekki komið til máltíðar, hvorki í gær né í dag?"

28 Jónatan svaraði Sál: "Davíð beiddist þess af mér að mega fara til Betlehem.

29 Hann sagði: ,Leyf mér að fara, því að vér ætlum að halda ættarfórn í borginni, og bræður mínir hafa beðið mig að koma, og hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lofaðu mér að komast burt, svo að ég geti heimsótt bræður mína.` Fyrir því hefir hann ekki komið að konungsborði."

30 Þá reiddist Sál Jónatan og sagði við hann: "Þú sonur þrjóskrar móður! Ætli ég viti ekki að þú ert vinur Ísaísonar, þér til skammar, og blygðun móður þinnar til skammar!

31 Því að alla þá stund, sem Ísaísonur er lifandi á jörðinni, munt þú og konungdómur þinn eigi fastur standa. Send því nú og lát koma með hann til mín, því að hann er dauðamaður."

32 Þá svaraði Jónatan Sál föður sínum og sagði við hann: "Hví skal deyða hann? Hvað hefir hann gjört?"

33 Þá snaraði Sál að honum spjótinu og ætlaði að leggja hann í gegn. Sá Jónatan þá, að faðir hans hafði fastráðið að drepa Davíð.

34 Og Jónatan stóð upp frá borðinu ævareiður og neytti ekki matar annan tunglkomudaginn, því að hann tók sárt til Davíðs, af því að faðir hans hafði smánað hann.

35 Morguninn eftir gekk Jónatan út á víðavang á þeim tíma, er þeir Davíð höfðu til tekið, og var ungur sveinn með honum.

36 Og hann sagði við svein sinn: "Hlauptu og sæktu örina, sem ég ætla að skjóta." Sveinninn hljóp af stað, en hann skaut örinni yfir hann fram.

37 En er sveinninn kom þar að, er örin lá, sem Jónatan hafði skotið, þá kallaði Jónatan á eftir sveininum og sagði: "Örin liggur hinumegin við þig!"

38 Og Jónatan kallaði enn á eftir sveininum: "Áfram, flýttu þér, stattu ekki kyrr!" Og sveinn Jónatans tók upp örina og færði húsbónda sínum.

39 En sveinninn vissi ekki neitt. Þeir Jónatan og Davíð vissu einir, hvað þetta átti að þýða.

40 Og Jónatan fékk sveini sínum vopn sín og sagði við hann: "Farðu með þau inn í borgina."

41 Sveinninn fór nú heim, en Davíð reis upp undan hólnum, féll fram á ásjónu sína til jarðar og laut þrisvar sinnum, og þeir kysstu hvor annan og grétu hvor með öðrum, þó Davíð miklu meir.

42 Og Jónatan sagði við Davíð: "Far þú í friði. En viðvíkjandi því, sem við báðir höfum unnið eið að í nafni Drottins, þá sé Drottinn vitni milli mín og þín, og milli minna niðja og þinna niðja að eilífu." Síðan hélt Davíð af stað og fór burt, en Jónatan gekk inn í borgina.

Fyrra bréf Páls til Korin 2

Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki.

Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.

Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.

Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,

til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.

Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða,

heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.

Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.

En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.

10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.

11 Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.

12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.

13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.

14 Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.

15 En hinn andlegi dæmir um allt, en um hann sjálfan verður ekki dæmt af neinum.

16 Því að hver hefur þekkt huga Drottins, að hann geti frætt hann? En vér höfum huga Krists.

Harmljóðin 5

Minnstu þess, Drottinn, hvað yfir oss hefir gengið, lít þú á og sjá háðung vora.

Arfleifð vor er komin í hendur annarra, hús vor í hendur útlendinga.

Vér erum orðnir munaðarleysingjar, föðurlausir, mæður vorar orðnar sem ekkjur.

Vatnið sem vér drekkum, verðum vér að kaupa, viðinn fáum vér aðeins gegn borgun.

Ofsækjendur vorir sitja á hálsi vorum, þótt vér séum þreyttir, fáum vér enga hvíld.

Til Egyptalands réttum vér út höndina, til Assýríu, til þess að seðjast af mat.

Feður vorir syndguðu, þeir eru eigi framar til, og vér berum misgjörð þeirra.

Þrælar drottna yfir oss, enginn hrífur oss úr höndum þeirra.

Með lífsháska sækjum vér matbjörg vora í eyðimörkinni, þar sem sverðið vofir yfir oss.

10 Hörund vort er orðið svart eins og ofn af hungurbruna.

11 Konur hafa þeir svívirt í Síon, meyjar í Júda-borgum.

12 Höfðingja hengdu þeir, öldungnum sýndu þeir enga virðingu.

13 Æskumennirnir urðu að þræla við kvörnina, og sveinarnir duttu undir viðarbyrðunum.

14 Öldungarnir eru horfnir úr borgarhliðunum, æskumennirnir frá strengleikum.

15 Fögnuður hjarta vors er þrotinn, gleðidans vor snúinn í sorg.

16 Kórónan er fallin af höfði voru, vei oss, því að vér höfum syndgað.

17 Af því er hjarta vort sjúkt orðið, vegna þess eru augu vor döpur,

18 vegna Síonarfjalls, sem er í eyði og refir nú hlaupa um.

19 Þú, Drottinn, ríkir að eilífu, þitt hásæti stendur frá kyni til kyns.

20 Hví vilt þú gleyma oss eilíflega, yfirgefa oss um langan aldur?

21 Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér við, lát þú daga vora aftur verða eins og forðum!

Sálmarnir 36

36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.

Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.

Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.

Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.

Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.

Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.

10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society