Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 19

19 Sál talaði við Jónatan son sinn og við alla þjóna sína um að drepa Davíð. En Jónatan, sonur Sáls, hafði miklar mætur á Davíð.

Fyrir því sagði Jónatan Davíð frá þessu og mælti: "Sál faðir minn situr um að drepa þig. Ver því var um þig á morgun snemma og fel þig og ver þú kyrr í því leyni.

En ég ætla sjálfur að fara út og nema staðar við hlið föður míns á mörkinni, þar sem þú ert, og ég ætla að tala um þig við föður minn; og ef ég verð nokkurs vísari, mun ég segja þér það."

Jónatan talaði vel um Davíð við Sál föður sinn og sagði við hann: "Syndgast þú ekki, konungur, á Davíð þjóni þínum, því að hann hefir ekki syndgað á móti þér og verk hans hafa verið þér mjög gagnleg.

Hann lagði líf sitt í hættu og felldi Filistann, og þannig veitti Drottinn öllum Ísrael mikinn sigur. Þú sást það og gladdist. Hvers vegna vilt þú syndgast á saklausu blóði með því að deyða Davíð án saka?"

Sál skipaðist við orð Jónatans og sór: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal hann ekki verða drepinn."

Þá kallaði Jónatan á Davíð og tjáði honum öll þessi orð. Síðan leiddi Jónatan Davíð til Sáls, og hann var hjá honum sem áður.

Er ófriður hófst að nýju, fór Davíð og barðist við Filista og felldi mikinn fjölda af þeim, svo að þeir flýðu fyrir honum.

Þá kom illur andi frá Drottni yfir Sál; en hann sat í húsi sínu og hafði spjót í hendi sér, og Davíð lék hörpuna hendi sinni.

10 Þá reyndi Sál að reka Davíð í gegn með spjótinu upp við vegginn, en hann skaut sér undan Sál, svo að hann rak spjótið inn í vegginn. Og Davíð flýði og komst undan.

11 Hina sömu nótt sendi Sál sendimenn í hús Davíðs til þess að hafa gætur á honum, svo að hann fengi drepið hann um morguninn. En Míkal, kona hans, sagði Davíð frá og mælti: "Ef þú forðar ekki lífi þínu í nótt, þá verður þú drepinn á morgun."

12 Þá lét Míkal Davíð síga niður út um gluggann, og hann fór og flýði og komst undan.

13 Síðan tók Míkal húsgoðið og lagði í rúmið, og hún lagði blæju úr geitarhári yfir höfðalagið og breiddi ábreiðu yfir.

14 Og þegar Sál sendi menn til þess að sækja Davíð, þá sagði hún: "Hann er sjúkur."

15 Þá sendi Sál mennina aftur til að vitja um Davíð og sagði: "Færið mér hann í rúminu, til þess að ég geti drepið hann."

16 En er sendimennirnir komu, sjá, þá lá húsgoðið í rúminu og geitarhársblæjan yfir höfðalaginu.

17 Þá sagði Sál við Míkal: "Hví hefir þú svikið mig svo og látið óvin minn í burt fara, svo að hann hefir komist undan?" Míkal sagði við Sál: "Hann sagði við mig: ,Lát mig komast burt, ella mun ég drepa þig!"`

18 Davíð flýði og komst undan og kom til Samúels í Rama og sagði honum frá öllu, sem Sál hafði gjört honum. Og hann fór með Samúel og þeir bjuggu í Najót.

19 Nú var Sál sagt svo frá: "Sjá, Davíð er í Najót í Rama!"

20 Sendi Sál þá menn til að sækja Davíð. En er þeir sáu hóp spámanna, sem voru í spámannlegum guðmóði, og Samúel standa þar sem foringja þeirra, þá kom Guðs andi yfir sendimenn Sáls, svo að þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð.

21 Og menn sögðu Sál frá þessu, og hann sendi aðra menn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. Þá sendi Sál enn menn hið þriðja sinn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð.

22 Þá fór hann sjálfur til Rama. Og er hann kom að vatnsþrónni miklu í Sekó, þá spurði hann og mælti: "Hvar eru þeir Samúel og Davíð?" Og menn sögðu: "Þeir eru í Najót í Rama."

23 En er hann fór þaðan til Najót í Rama, þá kom og Guðs andi yfir hann, og var hann stöðugt í spámannlegum guðmóði alla leiðina til Najót í Rama.

24 Þá fór hann einnig af klæðum sínum, og hann var líka í spámannlegum guðmóði frammi fyrir Samúel og lá þar nakinn allan þennan dag og alla nóttina. Fyrir því segja menn: "Er og Sál meðal spámannanna?"

Fyrra bréf Páls til Korin 1

Páll, kallaður að Guðs vilja til að vera postuli Jesú Krists, og Sósþenes, bróðir vor, heilsa

söfnuði Guðs í Korintu, þeim sem helgaðir eru í Kristi Jesú, heilagir að köllun til, ásamt öllum þeim, sem alls staðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists, sem er þeirra Drottinn og vor.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú.

Í honum eruð þér auðgaðir orðnir í öllu, í hvers konar ræðu og hvers konar þekkingu.

Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar,

svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists.

Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists.

Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors.

10 En ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.

11 Því að mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar.

12 Ég á við þetta, að sumir yðar segja: "Ég er Páls," og aðrir: "Ég er Apollóss," eða: "Ég er Kefasar," eða: "Ég er Krists."

13 Er þá Kristi skipt í sundur? Mun Páll hafa verið krossfestur fyrir yður? Eða eruð þér skírðir til nafns Páls?

14 Ég þakka Guði fyrir, að ég hef engan yðar skírt nema Krispus og Gajus,

15 til þess að enginn skuli segja, að þér séuð skírðir til nafns míns.

16 Jú, ég skírði líka Stefanas og heimamenn hans. Annars veit ég ekki til, að ég hafi skírt neinn annan.

17 Ekki sendi Kristur mig til að skíra, heldur til að boða fagnaðarerindið, _ og ekki með orðspeki, til þess að kross Krists missti ekki gildi sitt.

18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs.

19 Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.

20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?

21 Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.

22 Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki,

23 en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,

24 en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.

25 Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.

26 Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.

27 En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.

28 Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er,

29 til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.

30 Honum er það að þakka að þér eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn.

31 Eins og ritað er: "Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni."

Harmljóðin 4

Æ, hversu blakkt er gullið orðið, umbreyttur málmurinn dýri, æ, hversu var helgum steinum fleygt út á öllum strætamótum.

Síon-búar hinir dýrmætu, jafnvægir skíragulli, hversu voru þeir metnir jafnt og leirker, jafnt og smíð úr pottara höndum.

Jafnvel sjakalarnir bjóða júgrið og gefa hvolpum sínum að sjúga, en dóttir þjóðar minnar er orðin harðbrjósta, eins og strútsfuglarnir í eyðimörkinni.

Tunga brjóstmylkingsins loddi við góminn af þorsta, börnin báðu um brauð, en enginn miðlaði þeim neinu.

Þeir sem vanir hafa verið að eta krásir, örmagnast nú á strætunum, þeir sem bornir voru á purpura, faðma nú mykjuhauga.

Því að misgjörð dóttur þjóðar minnar var meiri en synd Sódómu, sem umturnað var svo að segja á augabragði, án þess að manna hendur kæmu þar nærri.

Höfðingjar hennar voru hreinni en mjöll, hvítari en mjólk, líkami þeirra rauðari en kórallar, ásýnd þeirra eins og safír.

Útlit þeirra er orðið blakkara en sót, þeir þekkjast ekki á strætunum. Skinnið á þeim er skorpið að beinum, það er þornað eins og tré.

Sælli voru þeir er féllu fyrir sverði heldur en þeir er féllu fyrir hungri, þeir er hnigu hungurmorða, af því að enginn var akurgróðinn.

10 Viðkvæmar konur suðu með eigin höndum börnin sín, þau voru þeim til næringar, þá er dóttir þjóðar minnar var eydd.

11 Drottinn tæmdi heift sína, úthellti sinni brennandi reiði og kveikti eld í Síon, er eyddi henni til grunna.

12 Konungar jarðarinnar hefðu ekki trúað því, né neinn af íbúum jarðríkis, að fjendur og óvinir mundu inn fara um hlið Jerúsalem.

13 Vegna synda spámanna hennar, misgjörða presta hennar, er úthelltu inni í henni blóði réttlátra,

14 reika þeir eins og blindir menn um strætin, ataðir blóði, svo að eigi mættu menn snerta klæði þeirra.

15 "Víkið úr vegi! Óhreinn maður!" kölluðu menn á undan þeim, "víkið úr vegi, víkið úr vegi, snertið hann eigi!" Þegar þeir skjögruðu, sögðu menn meðal heiðingjanna: "Þeir skulu eigi dveljast hér lengur."

16 Reiðitillit Drottins hefir tvístrað þeim, hann lítur eigi framar við þeim. Hann virti prestana að vettugi og miskunnaði sig ekki yfir gamalmennin.

17 Hversu lengi störðu augu vor sig þreytt eftir hjálp sem ekki kom. Af sjónarhól vorum mændum vér eftir þjóð sem ekki hjálpar.

18 Menn röktu slóðir vorar, svo að vér gátum ekki gengið á götum vorum. Endalok vor nálguðust, dagar vorir fullnuðust, já, endalok vor komu.

19 Ofsækjendur vorir voru léttfærari en ernirnir í loftinu, þeir eltu oss yfir fjöllin, sátu um oss í eyðimörkinni.

20 Andi nasa vorra, Drottins smurði, varð fanginn í gryfjum þeirra _ hann sem vér sögðum um: "Í skjóli hans skulum vér lifa meðal þjóðanna!"

21 Fagna þú og ver glöð, dóttirin Edóm, þú sem býr í Ús-landi: Til þín mun og bikarinn koma, þú munt verða drukkin og bera blygðan þína!

22 Sekt þín er á enda, dóttirin Síon, hann mun eigi framar gjöra þig landræka. Hann vitjar misgjörðar þinnar, dóttirin Edóm, dregur skýluna af syndum þínum.

Sálmarnir 35

35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.

Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.

Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"

Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.

Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.

Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.

Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.

Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.

En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.

10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"

11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.

12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.

13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,

14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.

15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.

16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.

17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.

18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.

19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.

20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.

21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"

22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.

23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.

24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,

25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."

26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.

27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"

28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society