M’Cheyne Bible Reading Plan
18 Þegar Davíð hafði endað tal sitt við Sál, þá lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu.
2 Og Sál tók Davíð að sér upp frá þeim degi og leyfði honum ekki að fara heim aftur til föður síns.
3 Og Jónatan gjörði fóstbræðralag við Davíð, af því að hann unni honum sem lífi sínu.
4 Og Jónatan fór úr skikkju sinni, sem hann var í, og gaf Davíð hana, svo og brynjukufl sinn og jafnvel sverð sitt, boga sinn og belti.
5 Og Davíð fór í leiðangra. Var hann giftudrjúgur, hvert sem Sál sendi hann. Setti Sál hann því yfir hermennina. Og hann var vel þokkaður af öllum lýð og einnig þjónum Sáls.
6 Þegar þeir komu heim, þá er Davíð hafði lagt Filistann að velli, þá gengu konur úr öllum borgum Ísraels syngjandi og dansandi út í móti Sál konungi, með bumbum, strengleik og mikilli gleði.
7 Og konurnar stigu dansinn, hófu upp söng og mæltu: Sál felldi sín þúsund, en Davíð sín tíu þúsund.
8 Þá varð Sál reiður mjög, og honum mislíkuðu þessi orð og hann sagði: "Davíð hafa þær gefið tíu þúsundin, en mér hafa þær gefið þúsundin. Nú vantar hann ekki nema konungdóminn!"
9 Og Sál leit Davíð öfundarauga ávallt upp frá því.
10 Daginn eftir kom illur andi frá Guði yfir Sál, og æði greip hann inni í húsinu, en Davíð var að leika hörpuna hendi sinni, eins og hann var vanur að gjöra á degi hverjum, og Sál hafði spjót í hendi.
11 Þá reiddi Sál spjótið og hugsaði með sér: "Ég skal reka það gegnum Davíð og inn í vegginn." En Davíð skaut sér tvívegis undan.
12 Sál var hræddur við Davíð, því að Drottinn var með honum, en var vikinn frá Sál.
13 Fyrir því lét Sál hann frá sér og gjörði hann að hersveitarforingja. Var hann nú fyrir liðinu bæði þegar það fór og kom.
14 En Davíð var giftudrjúgur í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, af því að Drottinn var með honum.
15 Og er Sál sá, að hann var giftusamur mjög, tók honum að standa uggur af honum.
16 En allur Ísrael og Júda elskaði Davíð, því að hann gekk jafnan þeirra fremstur.
17 Sál sagði við Davíð: "Sjá, ég vil gefa þér Merab, eldri dóttur mína, fyrir konu. En þú verður að reynast mér hraustur maður og þú verður að heyja bardaga Drottins!" En Sál hugsaði með sér: "Ég skal ekki leggja hönd á hann, en Filistar skulu leggja hönd á hann."
18 Davíð sagði við Sál: "Hver er ég og hvert er kyn mitt, ætt föður míns í Ísrael, að ég skuli verða tengdasonur konungsins?"
19 En er sá tími kom, að gifta skyldi Davíð Merab, dóttur Sáls, þá var hún gefin Adríel frá Mehóla fyrir konu.
20 En Míkal, dóttir Sáls, elskaði Davíð. Og Sál var sagt frá því, og honum líkaði það vel.
21 Þá hugsaði Sál með sér: "Ég vil gefa honum hana, svo að hún verði honum að tálsnöru og Filistar leggi hönd á hann." Og Sál sagði í annað sinn við Davíð: "Þú skalt verða tengdasonur minn í dag."
22 Og Sál bauð þjónum sínum: "Talið leynilega við Davíð og segið: ,Sjá, konungur hefir mætur á þér, og allir þjónar hans elska þig, og því skalt þú mægjast við konung."`
23 Þjónar Sáls töluðu þessi orð í eyru Davíðs. En Davíð sagði: "Sýnist yður það lítils um vert að mægjast við konung, þar sem ég er maður fátækur og lítilsháttar?"
24 Þjónar Sáls báru honum þetta og sögðu: "Slíkum orðum hefir Davíð mælt."
25 Þá sagði Sál: "Mælið svo við Davíð: ,Eigi girnist konungur annan mund en hundrað yfirhúðir Filista til þess að hefna sín á óvinum konungs."` En Sál hugsaði sér að láta Davíð falla fyrir hendi Filista.
26 Og þjónar hans báru Davíð þessi orð, og Davíð líkaði það vel að eiga að mægjast við konung. En tíminn var enn ekki liðinn,
27 er Davíð tók sig upp og lagði af stað með menn sína og drap hundrað manns meðal Filista. Og Davíð fór með yfirhúðir þeirra og lagði þær allar með tölu fyrir konung, til þess að hann næði mægðum við konung. Þá gaf Sál honum Míkal dóttur sína fyrir konu.
28 Sál sá það æ betur og betur, að Drottinn var með Davíð og að allur Ísrael elskaði hann.
29 Þá varð Sál enn miklu hræddari við Davíð. Varð Sál nú óvinur Davíðs alla ævi.
30 Og höfðingjar Filistanna fóru í leiðangur. En í hvert skipti, sem þeir fóru í leiðangur, varð Davíð giftudrýgri en allir þjónar Sáls, svo að nafn hans varð víðfrægt.
16 Ég fel yður á hendur Föbe, systur vora, sem er þjónn safnaðarins í Kenkreu.
2 Veitið henni viðtöku í Drottni eins og heilögum hæfir og liðsinnið henni í hverju því, sem hún þarf yðar við, því að hún hefur verið bjargvættur margra og mín sjálfs.
3 Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú.
4 Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.
5 Heilsið einnig söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða, sem er frumgróði Asíu Kristi til handa.
6 Heilsið Maríu, sem mikið hefur erfiðað fyrir yður.
7 Heilsið Andróníkusi og Júníasi, ættmönnum mínum og sambandingjum. Þeir skara fram úr meðal postulanna og hafa á undan mér gengið Kristi á hönd.
8 Heilsið Amplíatusi, mínum elskaða í Drottni.
9 Heilsið Úrbanusi, samverkamanni vorum í Kristi, og Stakkýsi, mínum elskaða.
10 Heilsið Apellesi, sem hefur reynst hæfur í þjónustu Krists. Heilsið heimilismönnum Aristóbúls.
11 Heilsið Heródíon, ættingja mínum. Heilsið þeim á heimili Narkissusar, sem tilheyra Drottni.
12 Heilsið Trýfænu og Trýfósu, sem hafa lagt hart á sig fyrir Drottin. Heilsið Persis, hinni elskuðu, sem mikið hefur starfað fyrir Drottin.
13 Heilsið Rúfusi, hinum útvalda í Drottni, og móður hans, sem er mér einnig móðir.
14 Heilsið Asýnkritusi, Flegon, Hermes, Patróbasi, Hermasi og bræðrunum, sem hjá þeim eru.
15 Heilsið Fílólógusi og Júlíu, Nerevs og systur hans og Ólympasi og öllum heilögum, sem með þeim eru.
16 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir söfnuðir Krists senda yður kveðju.
17 Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.
18 Því að slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi, heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna.
19 Hlýðni yðar er alkunn orðin. Því gleðst ég yfir yður og ég vil, að þér séuð vitrir í því, sem gott er, en einfaldir í því, sem illt er.
20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar. Náðin Drottins vors Jesú Krist sé með yður.
21 Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus, Jason og Sósípater, ættmenn mínir, biðja að heilsa yður.
22 Ég, Tertíus, sem hef ritað bréfið, bið að heilsa yður í Drottni.
23 Gajus, sem ljær mér og öllum söfnuðinum hús, biður að heilsa yður; Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus biðja að heilsa yður.
25 Honum, sem megnar að styrkja yður með fagnaðarerindinu, sem ég boða, og í prédikuninni um Jesú Krist samkvæmt opinberun þess leyndardóms, sem frá eilífum tíðum hefur verið dulinn,
26 en nú er opinberaður og fyrir spámannlegar ritningar, eftir skipun hins eilífa Guðs, kunngjörður öllum þjóðum til að vekja hlýðni við trúna,
3 Ég er maðurinn, sem eymd hefi reynt undir sprota reiði hans.
2 Mig hefir hann rekið og fært út í myrkur og niðdimmu.
3 Já, gegn mér snýr hann æ að nýju hendi sinni allan daginn.
4 Hann hefir tálgað af mér hold mitt og hörund, brotið sundur bein mín,
5 hlaðið hringinn í kringum mig fári og mæðu,
6 hneppt mig í myrkur eins og þá sem dánir eru fyrir löngu.
7 Hann hefir girt fyrir mig, svo að ég kemst ekki út, gjört fjötra mína þunga.
8 Þótt ég hrópi og kalli, hnekkir hann bæn minni.
9 Hann girti fyrir vegu mína með höggnum steinum, gjörði stigu mína ófæra.
10 Hann var mér eins og björn, sem situr um bráð, eins og ljón í launsátri.
11 Hann hefir leitt mig afleiðis og tætt mig sundur, hann hefir látið mig eyddan,
12 hann hefir bent boga sinn og reist mig að skotspæni fyrir örina,
13 hefir sent í nýru mín sonu örvamælis síns.
14 Ég varð öllum þjóðum að athlægi, þeim að háðkvæði liðlangan daginn.
15 Hann mettaði mig á beiskum jurtum, drykkjaði mig á malurt
16 og lét tennur mínar myljast sundur á malarsteinum, lét mig velta mér í ösku.
17 Þú sviptir sálu mína friði, ég gleymdi því góða
18 og sagði: "Horfinn er lífskraftur minn, von mín fjarri Drottni."
19 Minnstu eymdar minnar og mæðu, malurtarinnar og eitursins.
20 Sál mín hugsar stöðugt um þetta og er döpur í brjósti mér.
21 Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona:
22 Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda,
23 hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín!
24 Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vil ég vona á hann.
25 Góður er Drottinn þeim er á hann vona, og þeirri sál er til hans leitar.
26 Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins.
27 Gott er fyrir manninn að bera ok í æsku.
28 Hann sitji einmana og hljóður, af því að Hann hefir lagt það á hann.
29 Hann beygi munninn ofan að jörðu, vera má að enn sé von,
30 hann bjóði þeim kinnina sem slær hann, láti metta sig með smán.
31 Því að ekki útskúfar Drottinn um alla eilífð,
32 heldur miskunnar hann aftur, þegar hann hrellir, eftir sinni miklu náð.
33 Því að ekki langar hann til að þjá né hrella mannanna börn.
34 Að menn troða undir fótum alla bandingja landsins,
35 að menn halla rétti manns fyrir augliti hins Hæsta,
36 að menn beita mann ranglæti í máli hans, _ skyldi Drottinn ekki sjá það?
37 Hver er sá er talaði, og það varð, án þess að Drottinn hafi boðið það?
38 Fram gengur ekki af munni hins Hæsta bæði hamingja og óhamingja?
39 Hví andvarpar maðurinn alla ævi? Hver andvarpi yfir eigin syndum!
40 Rannsökum breytni vora og prófum og snúum oss til Drottins.
41 Fórnum hjarta voru og höndum til Guðs í himninum.
42 Vér höfum syndgað og verið óhlýðnir, þú hefir ekki fyrirgefið,
43 þú hefir hulið þig í reiði og ofsótt oss, myrt vægðarlaust,
44 þú hefir hulið þig í skýi, svo að engin bæn kemst í gegn.
45 Þú gjörðir oss að afhraki og viðbjóð mitt á meðal þjóðanna.
46 Yfir oss glenntu upp ginið allir óvinir vorir.
47 Geigur og gildra urðu hlutskipti vort, eyðing og tortíming.
48 Táralækir streyma af augum mér út af tortíming þjóðar minnar.
49 Hvíldarlaust fljóta augu mín í tárum, án þess að hlé verði á,
50 uns niður lítur og á horfir Drottinn af himnum.
51 Auga mitt veldur sál minni kvöl, vegna allra dætra borgar minnar.
52 Með ákefð eltu mig, eins og fugl, þeir er voru óvinir mínir án saka.
53 Þeir gjörðu því nær út af við mig í gryfju og köstuðu steinum á mig.
54 Vatn flóði yfir höfuð mitt, ég hugsaði: "Ég er frá."
55 Ég hrópaði á nafn þitt, Drottinn, úr hyldýpi gryfjunnar.
56 Þú heyrðir hróp mitt: "Byrg ekki eyra þitt, kom mér til fróunar, kom mér til hjálpar."
57 Þú varst nálægur, þá er ég hrópaði til þín, sagðir: "Óttastu ekki!"
58 Þú varðir, Drottinn, mál mitt, leystir líf mitt.
59 Þú hefir, Drottinn, séð undirokun mína, rétt þú hluta minn!
60 Þú hefir séð alla hefnigirni þeirra, allt ráðabrugg þeirra gegn mér,
61 þú hefir heyrt smánanir þeirra, Drottinn, allt ráðabrugg þeirra í gegn mér,
62 skraf mótstöðumanna minna og hinar stöðugu ráðagjörðir þeirra gegn mér.
63 Lít þú á, hvort sem þeir sitja eða standa, þá er ég háðkvæði þeirra.
64 Þú munt endurgjalda þeim, Drottinn, eins og þeir hafa til unnið.
65 Þú munt leggja hulu yfir hjarta þeirra, bölvan þín komi yfir þá.
66 Þú munt ofsækja þá í reiði og afmá þá undan himni Drottins.
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
by Icelandic Bible Society