Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 17

17 Filistar drógu nú saman hersveitir sínar til bardaga, og söfnuðust þeir saman í Sókó, sem heyrir Júda, og settu þeir herbúðir sínar hjá Efes-Dammím, milli Sókó og Aseka.

En Sál og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Eikidalnum og bjuggust til bardaga í móti Filistum.

Og Filistar stóðu á fjalli öðrumegin og Ísraelsmenn stóðu á fjalli hinumegin, svo að dalurinn var á milli þeirra.

Þá gekk hólmgöngumaður fram úr fylkingum Filista. Hét hann Golíat og var frá Gat. Hann var á hæð sex álnir og spönn betur.

Hann hafði eirhjálm á höfði og var í spangabrynju, og vó brynjan fimm þúsund sikla eirs.

Hann hafði legghlífar af eiri á fótum sér og skotspjót af eiri á herðum sér.

En spjótskaft hans var sem vefjarrifur, og fjöðurin vó sex hundruð sikla járns. Skjaldsveinn hans gekk á undan honum.

Golíat gekk fram og kallaði til fylkinga Ísraels og mælti til þeirra: "Hví farið þér í leiðangur og búist til bardaga? Er ég ekki Filisti og þér þjónar Sáls? Veljið yður mann, sem komi hingað ofan til mín.

Sé hann fær um að berjast við mig og felli mig, þá skulum vér vera yðar þrælar, en beri ég hærra hlut og felli hann, þá skuluð þér vera vorir þrælar og þjóna oss."

10 Og Filistinn mælti: "Ég hefi smánað fylkingar Ísraels í dag. Fáið til mann, að við megum berjast."

11 Og þegar Sál og allur Ísrael heyrði þessi ummæli Filistans, þá skelfdust þeir og urðu mjög hræddir.

12 Davíð var sonur Ísaí, sem var Efratíti í Betlehem í Júda. Ísaí átti átta sonu. Á Sáls dögum var maðurinn orðinn gamall og hniginn að aldri.

13 Og þrír elstu synir Ísaí höfðu farið með Sál í stríðið. Og synir hans þrír, sem í stríðið höfðu farið, hétu: hinn elsti Elíab, annar Abínadab og hinn þriðji Samma.

14 En Davíð var yngstur. Þrír hinir eldri höfðu farið með Sál.

15 Og við og við fór Davíð frá Sál til þess að gæta sauða föður síns í Betlehem.

16 En Filistinn gekk fram morgna og kveld og bauð sig fram fjörutíu daga.

17 Dag nokkurn sagði Ísaí við Davíð son sinn: "Tak þú efu af þessu bakaða korni handa bræðrum þínum og þessi tíu brauð og flýt þér og færðu bræðrum þínum þetta í herbúðirnar.

18 Og þessa tíu mjólkurosta skalt þú færa hersveitarforingjanum, og fáðu að vita, hvernig bræðrum þínum líður, og komdu með jarteikn frá þeim.

19 En Sál og þeir og allir Ísraelsmenn eru í Eikidalnum og eru að berjast við Filista."

20 Davíð reis árla morguninn eftir og fékk sauðina hirði nokkrum til geymslu og lyfti á sig og hélt af stað, eins og Ísaí hafði boðið honum. Þegar hann kom til herbúðanna, gekk herinn fram í fylkingu, og æptu þeir heróp.

21 Stóðu nú hvorir tveggja búnir til bardaga, Ísrael og Filistar, hvor fylkingin gegnt annarri.

22 Og Davíð skildi við sig það, er hann hafði meðferðis, hjá manni þeim, er gætti farangursins, og hljóp að fylkingunni og kom og spurði bræður sína, hvernig þeim liði.

23 En meðan hann var að tala við þá, sjá, þá gekk fram hólmgöngumaðurinn _ hann hét Golíat, Filisti frá Gat _ úr fylkingum Filistanna og mælti sömu orðum sem fyrr, og Davíð hlýddi á.

24 En er Ísraelsmenn sáu manninn, hörfuðu þeir allir undan honum og voru mjög hræddir.

25 Og einn Ísraelsmanna sagði: "Hafið þér séð manninn, sem kemur þarna? Hann kemur til þess að smána Ísrael. Hverjum þeim, sem fellir hann, vill konungurinn veita mikil auðæfi og gefa honum dóttur sína og gjöra ætt hans skattfrjálsa í Ísrael."

26 Þá sagði Davíð við þá, sem næstir honum stóðu: "Hverju verður þeim manni umbunað, sem fellir Filista þennan og rekur svívirðing af Ísrael? Því að hver er þessi óumskorni Filisti, er dirfist að smána herfylkingar lifanda Guðs?"

27 Og fólkið talaði til hans þessum sömu orðum: "Þessu verður þeim umbunað, sem fellir hann."

28 En er Elíab, elsti bróðir hans, heyrði, hvað hann talaði við mennina, þá reiddist hann Davíð og mælti: "Til hvers ert þú hingað kominn, og hjá hverjum skildir þú eftir þessa fáu sauði í eyðimörkinni? Ég þekki ofdirfsku þína og vonsku hjarta þíns: Þú ert hingað kominn til þess að horfa á bardagann."

29 Davíð svaraði: "Nú, hvað hefi ég þá gjört? Var mér ekki frjálst að spyrja?"

30 Og hann sneri sér frá honum og til annars og mælti á sömu leið, og fólkið svaraði honum hinu sama sem hið fyrra skiptið.

31 En er það spurðist, sem Davíð hafði sagt, þá sögðu menn Sál frá því, og lét hann þá sækja hann.

32 Davíð sagði við Sál: "Enginn láti hugfallast! Þjónn þinn mun fara og berjast við Filista þennan."

33 Sál sagði við Davíð: "Þú ert ekki fær um að fara móti Filista þessum og berjast við hann, því að þú ert ungmenni, en hann hefir verið bardagamaður frá barnæsku sinni."

34 Davíð sagði við Sál: "Þjónn þinn gætti sauða hjá föður sínum. Ef þá kom ljón eða björn og tók kind úr hjörðinni,

35 þá hljóp ég á eftir honum og felldi hann og reif kindina úr gini hans, en ef hann réðst í móti mér, þreif ég í kampa hans og laust hann til bana.

36 Bæði ljón og björn hefir þjónn þinn drepið, og þessum óumskorna Filista skal reiða af eins og þeim, því að hann hefir smánað herfylkingar lifanda Guðs."

37 Og Davíð mælti: "Drottinn, sem frelsaði mig úr klóm ljónsins og úr klóm bjarnarins, hann mun frelsa mig af hendi þessa Filista." Þá mælti Sál við Davíð: "Far þú þá, og Drottinn mun vera með þér."

38 Og Sál færði Davíð í brynjukufl sinn og setti eirhjálm á höfuð honum og færði hann í brynju.

39 Og Davíð gyrti sig sverði sínu utan yfir brynjukuflinn og fór að ganga, því að hann hafði aldrei reynt það áður. Þá sagði Davíð við Sál: "Ég get ekki gengið í þessu, því að ég hefi aldrei reynt það áður." Og þeir færðu Davíð úr þessu,

40 en hann tók staf sinn í hönd sér og valdi sér fimm hála steina úr gilinu og lét þá í smalatöskuna, sem hann hafði með sér, í skreppuna, og tók sér slöngvu í hönd og gekk á móti Filistanum.

41 Filistinn gekk nær og nær Davíð, og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk á undan honum.

42 En er Filistinn leit til og sá Davíð, fyrirleit hann hann, af því að hann var ungmenni og rauðleitur og fríður sýnum.

43 Og Filistinn sagði við Davíð: "Er ég þá hundur, að þú kemur með staf á móti mér?" Og Filistinn formælti Davíð við guð sinn.

44 Og Filistinn mælti við Davíð: "Kom þú til mín, svo að ég gefi fuglum loftsins og dýrum merkurinnar hold þitt."

45 Davíð sagði við Filistann: "Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað.

46 Í dag mun Drottinn gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Filista mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael,

47 og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að Drottinn veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er Drottins, og hann mun gefa yður í vorar hendur."

48 Og er Filistinn fór af stað og gekk fram og fór í móti Davíð, þá flýtti Davíð sér og hljóp að fylkingunni í móti Filistanum.

49 Og Davíð stakk hendi sinni ofan í smalatöskuna og tók úr henni stein og slöngvaði og hæfði Filistann í ennið, og steinninn festist í enni hans, og féll hann á grúfu til jarðar.

50 Þannig sigraði Davíð Filistann með slöngvu og steini og felldi hann og drap hann, og þó hafði Davíð ekkert sverð í hendi.

51 Þá hljóp Davíð að og gekk til Filistans, tók sverð hans og dró það úr slíðrum og drap hann og hjó af honum höfuðið með því. En er Filistar sáu, að kappi þeirra var dauður, lögðu þeir á flótta.

52 En Ísraelsmenn og Júdamenn lögðu af stað og æptu heróp og eltu Filista allt til Gat og að borgarhliði Ekron, svo að Filistar lágu vegnir jafnvel á veginum, sem lá inn um borgarhliðið bæði í Gat og Ekron.

53 Og Ísraelsmenn sneru aftur og hættu að elta Filista og rændu herbúðir þeirra.

54 En Davíð tók höfuð Filistans og hafði með sér til Jerúsalem, en vopn hans lagði hann í tjald sitt.

55 Þegar Sál sá Davíð fara móti Filistanum, mælti hann við Abner hershöfðingja: "Abner, hvers son er sveinn þessi?" Abner svaraði: "Svo sannarlega sem þú lifir, konungur, veit ég það ekki."

56 Konungurinn mælti: "Spyr þú að, hvers sonur þetta ungmenni sé."

57 Og er Davíð sneri aftur og hafði lagt Filistann að velli, þá tók Abner hann og leiddi hann fyrir Sál, en hann hélt á höfði Filistans í hendi sér.

58 Og Sál sagði við hann: "Hvers son ert þú, sveinn?" Davíð svaraði: "Sonur þjóns þíns Ísaí Betlehemíta."

Bréf Páls til Rómverja 15

15 Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss.

Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar.

Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig, heldur eins og ritað er: "Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér."

Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.

En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú,

til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.

Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.

Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin,

en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: "Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni."

10 Og enn segir: "Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,"

11 og enn: "Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,"

12 og enn segir Jesaja: "Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona."

13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.

14 En ég er líka sjálfur sannfærður um yður, bræður mínir, að þér og sjálfir eruð fullir góðgirni, auðgaðir alls konar þekkingu og færir um að áminna hver annan.

15 En ég hef sums staðar ritað yður full djarflega, til þess að minna yður á sitthvað. Ég hef gjört það vegna þess að Guð hefur gefið mér þá náð

16 að vera helgiþjónn Krists Jesú hjá heiðingjunum og inna af hendi prestþjónustu við fagnaðarerindi Guðs, til þess að heiðingjarnir mættu verða Guði velþóknanleg fórn, helguð af heilögum anda.

17 Ég hef þá fyrir samfélag mitt við Krist Jesú það, sem ég get hrósað mér af: Starf mitt í þjónustu Guðs.

18 Ekki mun ég dirfast að tala um neitt annað en það, sem Kristur hefur látið mig framkvæma, til að leiða heiðingjana til hlýðni, með orði og verki,

19 með krafti tákna og undra, með krafti heilags anda. Þannig hef ég lokið við að flytja fagnaðarerindið um Krist frá Jerúsalem og allt í kring til Illyríu.

20 Það hefur þannig verið metnaður minn að láta fagnaðarerindið óboðað þar sem Kristur hafði áður nefndur verið, til þess að ég byggði ekki ofan á grundvelli annars,

21 alveg eins og ritað er: "Þeir skulu sjá, sem ekkert var um hann sagt, og þeir, sem ekki hafa heyrt, skulu skilja."

22 Því er það, að mér hefur hvað eftir annað verið meinað að koma til yðar.

23 En nú á ég ekki lengur neitt ógjört á þessum slóðum, og mig hefur auk þess í mörg ár langað til að koma til yðar,

24 þegar ég færi til Spánar. Ég vona, að ég fái að sjá yður, er ég fer um hjá yður, og að þér búið ferð mína þangað, er ég fyrst hef nokkurn veginn fengið nægju mína hjá yður.

25 En nú fer ég á leið til Jerúsalem til að flytja hinum heilögu hjálp.

26 Því að Makedónía og Akkea hafa ákveðið að gangast fyrir samskotum handa fátæklingum meðal hinna heilögu í Jerúsalem.

27 Sjálfir ákváðu þeir það, enda eru þeir í skuld við þá. Fyrst heiðingjarnir hafa fengið hlutdeild í andlegum gæðum þeirra, þá er þeim og skylt að fulltingja þeim í líkamlegum efnum.

28 En þegar ég hef lokið þessu og tryggilega afhent þeim þennan ávöxt, mun ég fara um hjá yður til Spánar.

29 En ég veit, að þegar ég kem til yðar, mun ég koma með blessun Krists í fullum mæli.

30 En mikillega bið ég yður, bræður, fyrir sakir Drottins vors Jesú Krists og fyrir sakir kærleika andans, að þér stríðið með mér með því að biðja til Guðs fyrir mér,

31 til þess að ég frelsist frá hinum vantrúuðu í Júdeu, og hjálpin, sem ég fer með til Jerúsalem, verði vel þegin af hinum heilögu.

32 Þá get ég, ef Guð lofar, komið til yðar með fögnuði og endurhresstst ásamt yður.

33 Guð friðarins sé með yður öllum. Amen.

Harmljóðin 2

Æ, hversu hylur Drottinn í reiði sinni dótturina Síon skýi. Frá himni varpaði hann til jarðar vegsemd Ísraels og minntist ekki fótskarar sinnar á degi reiði sinnar.

Vægðarlaust eyddi Drottinn öll beitilönd Jakobs, reif niður í bræði sinni vígi Júda-dóttur, varpaði til jarðar, vanhelgaði ríkið og höfðingja þess,

hjó af í brennandi reiði öll horn Ísraels, dró að sér hægri hönd sína frammi fyrir óvinunum og brenndi Jakob eins og eldslogi, sem eyðir öllu umhverfis.

Hann benti boga sinn eins og óvinur, hægri hönd hans stóð föst eins og mótstöðumaður og myrti allt sem auganu var yndi í tjaldi dótturinnar Síon, jós út heift sinni eins og eldi.

Drottinn kom fram sem óvinur, eyddi Ísrael, eyddi allar hallir hans, umturnaði virkjum hans og hrúgaði upp í Júda-dóttur hryggð og harmi.

Hann hefir rifið niður skála sinn eins og garð, umturnað hátíðastað sínum. Drottinn lét gleymast í Síon hátíðir og hvíldardaga og útskúfaði í sinni áköfu reiði konungi og prestum.

Drottinn hefir hafnað altari sínu, smáð helgidóm sinn, ofurselt í óvina hendur hallarmúra hennar. Þeir létu óp glymja í musteri Drottins eins og á hátíðardegi.

Drottinn hafði ásett sér að eyða múr dótturinnar Síon. Hann útþandi mælivaðinn, aftraði eigi hendi sinni að eyða og steypti sorg yfir varnarvirki og múr, þau harma bæði saman.

Hlið hennar eru sokkin í jörðu, hann ónýtti og braut slagbranda hennar. Konungur hennar og höfðingjar eru meðal heiðingjanna, lögmálslausir, spámenn hennar fá ekki heldur framar vitranir frá Drottni.

10 Þeir sitja þegjandi á jörðinni, öldungar dótturinnar Síon, þeir hafa ausið mold yfir höfuð sín, gyrst hærusekk, höfuð létu hníga að jörðu Jerúsalem-meyjar.

11 Augu mín daprast af gráti, iður mín ólga, hjarta mitt ætlar að springa yfir tortíming dóttur þjóðar minnar, er börn og brjóstmylkingar hníga magnþrota á strætum borgarinnar.

12 Þau segja við mæður sínar: "Hvar er korn og vín?" er þau hníga magnþrota eins og dauðsærðir menn á strætum borgarinnar, er þau gefa upp öndina í faðmi mæðra sinna.

13 Hvað á ég að taka til dæmis um þig, við hvað líkja þér, þú dóttirin Jerúsalem? Hverju á ég að jafna við þig til að hugga þig, þú mærin, dóttirin Síon? Já, sár þitt er stórt eins og hafið, hver gæti læknað þig?

14 Spámenn þínir birtu þér tálsýnir og hégóma, en drógu ekki skýluna af misgjörð þinni til þess að snúa við högum þínum, heldur birtu þér spár til táls og ginninga.

15 Yfir þér skelltu lófum saman allir þeir er um veginn fóru, blístruðu og skóku höfuðið yfir dótturinni Jerúsalem: "Er þetta borgin, hin alfagra, unun allrar jarðarinnar?"

16 Yfir þér glenntu upp ginið allir óvinir þínir, blístruðu og nístu tönnum, sögðu: "Vér höfum gjöreytt hana! Já, eftir þessum degi höfum vér beðið, vér höfum lifað hann, vér höfum séð hann!"

17 Drottinn hefir framkvæmt það, er hann hafði ákveðið, efnt orð sín, þau er hann hefir boðið frá því forðum daga, hefir rifið niður vægðarlaust og látið óvinina fagna yfir þér, hann hóf horn fjenda þinna.

18 Hrópa þú hátt til Drottins, þú mærin, dóttirin Síon. Lát tárin renna eins og læk dag og nótt, unn þér engrar hvíldar, auga þitt láti ekki hlé á verða.

19 Á fætur! Kveina um nætur, í byrjun hverrar næturvöku, úthell hjarta þínu eins og vatni frammi fyrir augliti Drottins, fórnaðu höndum til hans fyrir lífi barna þinna, sem hníga magnþrota af hungri á öllum strætamótum.

20 Sjá, Drottinn, og lít á, hverjum þú hefir gjört slíkt! Eiga konur að eta lífsafkvæmi sín, börnin sem þær bera á örmum? Eiga myrtir að verða í helgidómi Drottins prestar og spámenn?

21 Vegnir liggja á strætunum sveinar og öldungar. Meyjar mínar og æskumenn féllu fyrir sverði, þú myrtir á degi reiði þinnar, slátraðir vægðarlaust.

22 Þú stefnir eins og á hátíðardegi skelfingum að mér úr öllum áttum. Á reiðidegi Drottins var enginn, er af kæmist og eftir yrði. Þá sem ég hefi fóstrað og uppalið, þá hefir óvinur minn afmáð.

Sálmarnir 33

33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.

Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.

Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.

Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.

Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.

Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.

Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.

Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,

því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.

10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,

11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society