Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 16

16 Drottinn sagði við Samúel: "Hversu lengi ætlar þú að vera sorgmæddur út af Sál, þar sem ég hefi þó hafnað honum og svipt hann konungdómi yfir Ísrael? Fyll þú horn þitt olíu og legg af stað; ég sendi þig til Ísaí Betlehemíta, því að ég hefi kjörið mér konung meðal sona hans."

Samúel svaraði: "Hversu má ég fara? Frétti Sál það, mun hann drepa mig." En Drottinn sagði: "Tak þú með þér kvígu og segðu: ,Ég er kominn til þess að færa Drottni fórn.`

Og bjóð þú Ísaí til fórnarmáltíðarinnar, og ég skal sjálfur láta þig vita, hvað þú átt að gjöra, og þú skalt smyrja mér þann, sem ég mun segja þér."

Samúel gjörði það, sem Drottinn sagði. Og er hann kom til Betlehem, gengu öldungar borgarinnar í móti honum hræddir í huga og sögðu: "Kemur þú góðu heilli?"

Hann svaraði: "Já, ég er kominn til þess að færa Drottni fórn. Helgið yður og komið með mér til fórnarmáltíðarinnar." Og hann helgaði Ísaí og sonu hans og bauð þeim til fórnarmáltíðarinnar.

En er þeir komu, sá Samúel Elíab og hugsaði: "Vissulega stendur hér frammi fyrir Drottni hans smurði."

En Drottinn sagði við Samúel: "Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað."

Þá kallaði Ísaí á Abínadab og leiddi hann fyrir Samúel. En hann mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."

Þá leiddi Ísaí fram Samma. En Samúel mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."

10 Þannig leiddi Ísaí fram sjö sonu sína fyrir Samúel, en Samúel sagði við Ísaí: "Engan af þessum hefir Drottinn kjörið."

11 Og Samúel sagði við Ísaí: "Eru þetta allir sveinarnir?" Hann svaraði: "Enn er hinn yngsti eftir, og sjá, hann gætir sauða." Samúel sagði við Ísaí: "Send eftir honum og lát sækja hann, því að vér setjumst ekki til borðs fyrr en hann er kominn hingað."

12 Þá sendi hann eftir honum og lét hann koma, en hann var rauðleitur, fagureygur og vel vaxinn. Og Drottinn sagði: "Statt þú upp, smyr hann, því að þessi er það."

13 Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi Drottins kom yfir Davíð upp frá þeim degi. En Samúel tók sig upp og fór til Rama.

14 Andi Drottins var vikinn frá Sál, en illur andi frá Drottni sturlaði hann.

15 Þá sögðu þjónar Sáls við hann: "Illur andi frá Guði sturlar þig.

16 Herra vor þarf ekki nema að skipa; þjónar þínir standa frammi fyrir þér og munu leita upp mann, sem kann að leika hörpu. Þá mun svo fara, að þegar hinn illi andi frá Guði kemur yfir þig, og hann leikur hörpuna hendi sinni, þá mun þér batna."

17 Og Sál sagði við þjóna sína: "Finnið mér mann, sem vel leikur á strengjahljóðfæri, og færið mér hann."

18 Þá svaraði einn af sveinunum og mælti: "Sjá, ég hefi séð son Ísaí Betlehemíta, sem kann að leika á strengjahljóðfæri og er hreystimenni og bardagamaður, vel máli farinn og vaxinn vel, og Drottinn er með honum."

19 Þá gjörði Sál menn til Ísaí og lét segja honum: "Sendu Davíð son þinn til mín, þann er sauðanna gætir."

20 Þá tók Ísaí tíu brauð, vínbelg og einn geithafur og sendi Sál með Davíð syni sínum.

21 Og Davíð kom til Sáls og þjónaði honum. Lagði Sál mikinn þokka á hann og gjörði hann að skjaldsveini sínum.

22 Þá sendi Sál til Ísaí og lét segja honum: "Lát þú Davíð ganga í þjónustu mína, því að hann fellur mér vel í geð."

23 Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.

Bréf Páls til Rómverja 14

14 Takið að yður hina óstyrku í trúnni, án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra.

Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta en hinn óstyrki neytir einungis jurtafæðu.

Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér.

Hver ert þú, sem dæmir annars þjón? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.

Einn gjörir mun á dögum, en annar metur alla daga jafna. Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum.

Sá, sem tekur tillit til daga, gjörir það vegna Drottins. Og sá, sem neytir kjöts, gerir það vegna Drottins, því að hann gjörir Guði þakkir. Sá, sem lætur óneytt, hann lætur óneytt vegna Drottins og gjörir Guði þakkir.

Því að enginn af oss lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér.

Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins.

Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi, að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi.

10 En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.

11 Því að ritað er: "Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skulu öll kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð."

12 Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.

13 Dæmum því ekki framar hver annan. Ásetjið yður öllu heldur að verða bróður yðar ekki til ásteytingar eða falls.

14 Ég veit það og er þess fullviss, af því að ég lifi í samfélagi við Drottin Jesú, að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér, nema þá þeim, sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt.

15 Ef bróðir þinn hryggist sökum þess, sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni, sem Kristur dó fyrir.

16 Látið því ekki hið góða, sem þér eigið, verða fyrir lasti.

17 Því að ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda.

18 Hver sem þjónar Kristi á þann hátt, hann er Guði velþóknanlegur og vel metinn manna á meðal.

19 Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.

20 Brjóttu ekki niður verk Guðs vegna matar! Allt er að sönnu hreint, en það er þó illt þeim manni, sem etur öðrum til ásteytingar.

21 Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á.

22 Halt þú þeirri trú, sem þú hefur með sjálfum þér fyrir Guði. Sæll er sá, sem þarf ekki að áfella sig fyrir það, sem hann velur.

23 En sá sem er efablandinn og etur þó, hann er dæmdur af því að hann etur ekki af trú. Allt sem ekki er af trú er synd.

Harmljóðin 1

Æ, hversu einmana er nú borgin, sú er áður var svo fjölbyggð, orðin eins og ekkja, sú er voldug var meðal þjóðanna, furstafrúin meðal héraðanna orðin kvaðarkona.

Hún grætur sáran um nætur, og tárin streyma ofan vanga hennar. Enginn er sá er huggi hana af öllum ástmönnum hennar. Allir vinir hennar hafa brugðist henni, þeir eru orðnir óvinir hennar.

Júda hefir flúið land fyrir eymd og fyrir mikilli ánauð. Hann býr meðal heiðingjanna, finnur engan hvíldarstað. Allir ofsækjendur hans náðu honum í þrengslunum.

Vegirnir til Síonar syrgja, af því að engir koma til hátíðahalds. Öll hlið hennar eru eydd, prestar hennar andvarpa, meyjar hennar eru sorgbitnar, og sjálf er hún hrygg í hjarta.

Fjendur hennar eru orðnir ofan á, óvinir hennar lifa ánægðir. Því að Drottinn hefir hrellt hana vegna hennar mörgu synda, börn hennar fóru burt herleidd fyrir kúgaranum.

Þannig fór burt frá Síonarborg allt skraut hennar. Höfðingjar hennar eru orðnir eins og hrútar, sem ekkert haglendi finna, og þeir fóru magnþrota burt fyrir ofsóknaranum.

Jerúsalem minnist á eymdardögum sínum og mæðudögum allra kjörgripa sinna, er hún átti forðum daga. Þegar lýður hennar féll í hendur kúgarans, hjálpaði enginn henni. Kúgararnir horfðu á það, hlógu að hrakförum hennar.

Jerúsalem hefir syndgað stórlega, fyrir því varð hún að viðurstyggð. Allir þeir er dáðu hana, fyrirlíta hana, af því að þeir hafa séð blygðan hennar, og hún andvarpar sjálf og snýr sér undan.

Saurugleiki hennar loðir við klæðafald hennar, hún hugsaði ekki um endalokin. Hún féll undradjúpt, enginn verður til að hugga hana. Lít, Drottinn, á eymd mína, því að óvinirnir hrósa sigri.

10 Kúgarinn rétti út hönd sína eftir öllum dýrgripum hennar. Já, hún sá, hversu heiðingjarnir gengu inn í helgidóm hennar, sem þú hefir um boðið: "Þeir skulu ekki koma í söfnuð þinn."

11 Allur lýður hennar andvarpar, leitar sér viðurværis, gefur dýrgripi sína fyrir matbjörg til þess að draga fram lífið. Sjá þú, Drottinn, og lít á, hversu ég er fyrirlitin.

12 Komið til mín allir þér, sem um veginn farið, sjáið og skoðið, hvort til sé önnur eins kvöl og mín, sú er mér hefir verið gjörð, mér, sem Drottinn hrelldi á degi sinnar brennandi reiði.

13 Af hæðum sendi hann eld og lét hann fara niður í bein mín, lagði net fyrir fætur mér, rak mig aftur, gjörði mig auða, sífelldlega sjúka.

14 Ok synda minna er þungt orðið fyrir hendi hans. Þær eru bundnar saman, lagðar mér á háls, hann hefir lamað þrótt minn. Drottinn hefir selt mig í hendur þeirra, er ég fæ eigi staðist í móti.

15 Drottinn hefir hafnað hetjum mínum, öllum þeim, er í mér voru, hann hefir boðað hátíð gegn mér til þess að knosa æskumenn mína. Drottinn hefir troðið vínlagarþró meynni Júda-dóttur.

16 Yfir þessu græt ég, augu mín fljóta í tárum. Því að huggarinn er langt í burtu frá mér, sá er hressti sál mína. Börn mín eru komin í örbirgð, því að óvinirnir báru hærri hlut.

17 Síon réttir út hendur sínar, enginn verður til að hugga hana. Drottinn bauð út á móti Jakob fjendum hans allt í kring. Jerúsalem er orðin að viðurstyggð meðal þeirra.

18 Drottinn er réttlátur, því að ég þrjóskaðist gegn boði hans. Ó, heyrið það, allir lýðir, og sjáið kvöl mína. Meyjar mínar og yngismenn fóru burt herleidd.

19 Ég kallaði á ástmenn mína, þeir sviku mig. Prestar mínir og öldungar önduðust í borginni, þá er þeir leituðu sér bjargar til þess að draga fram lífið.

20 Sjá, Drottinn, hve ég er hrædd, hve iður mín ólga. Hjartað berst í brjósti mér, því að ég var svo þverúðarfull. Sverðið svipti mig börnunum úti fyrir, drepsóttin í húsum inni.

21 Þeir heyrðu, hversu ég andvarpaði, enginn varð til að hugga mig. Allir óvinir mínir spurðu óhamingju mína, glöddust, af því að þú hefir gjört þetta. Þú lætur þann dag koma, er þú hefir boðað, þá verða þeir jafningjar mínir.

22 Lát alla illsku þeirra koma fyrir auglit þitt, og gjör við þá, eins og þú hefir gjört við mig vegna allra synda minna. Því að andvörp mín eru mörg, og hjarta mitt er sjúkt.

Sálmarnir 32

32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.

Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.

Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,

því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]

Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]

Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.

Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]

Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:

Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.

10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.

11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society