M’Cheyne Bible Reading Plan
14 Svo bar við einn dag, að Jónatan sonur Sáls sagði við skjaldsvein sinn: "Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks Filista, sem er þarna hinumegin." En hann sagði ekki föður sínum frá því.
2 En Sál sat utanvert við Gíbeu undir granateplatrénu, sem er hjá Mígron, og liðið, sem hann hafði með sér, var hér um bil sex hundruð manns.
3 Og Ahía, sonur Ahítúbs, bróður Íkabóðs, Pínehassonar, Elísonar, prests Drottins í Síló, bar hökulinn. En liðið vissi ekki, að Jónatan hafði farið.
4 Á milli klifanna, sem Jónatan vildi um fara yfir til varðflokks Filistanna, var hvor hamarinn sínum megin. Hét annar Bóses, en hinn Sene.
5 Annar hamarinn var að norðanverðu og var brattur, gegnt Mikmas, en hinn að sunnanverðu, gegnt Geba.
6 Jónatan sagði við skjaldsvein sinn: "Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks þessara óumskornu manna. Vera má, að Drottinn framkvæmi eitthvað oss í hag, því að ekkert getur tálmað Drottni að veita sigur, hvort heldur er með mörgum eða fáum."
7 Skjaldsveinninn svaraði honum: "Gjör þú öldungis eins og þér leikur hugur á, sjá, ég mun fylgja þér. Vil ég það eitt, er þú vilt."
8 Jónatan mælti: "Sjá, við förum nú yfir til mannanna og látum þá sjá okkur.
9 Ef þeir þá kalla til okkar: ,Nemið staðar, þangað til vér komum til ykkar!` þá skulum við standa kyrrir, þar sem við erum staddir, og eigi fara upp til þeirra.
10 En ef þeir kalla: ,Komið hingað upp til vor!` þá skulum við fara upp þangað, því að þá hefir Drottinn gefið þá í okkar hendur. Skulum við hafa það að marki."
11 Síðan létu þeir báðir varðflokk Filistanna sjá sig, og Filistar sögðu: "Sjá, Hebrear koma fram úr holunum, sem þeir hafa falið sig í."
12 Þá kölluðu varðmennirnir til Jónatans og skjaldsveins hans: "Komið hingað upp til vor, og skulum vér segja ykkur tíðindi." Þá sagði Jónatan við skjaldsvein sinn: "Kom nú upp á eftir mér, því að Drottinn hefir gefið þá í hendur Ísraels."
13 Og Jónatan klifraði upp á höndum og fótum og skjaldsveinn hans á eftir honum. Þá lögðu þeir á flótta fyrir Jónatan. En hann felldi þá, og skjaldsveinn hans vann á þeim á eftir honum.
14 Og þeir sem Jónatan og skjaldsveinn hans lögðu að velli í þessu fyrsta áhlaupi, voru um tuttugu manns, eins og þegar plógur flettir sundur sverðinum á dagplægi lands.
15 Þá sló ótta yfir herbúðirnar á völlunum og yfir allt liðið. Varðsveitin og ránsflokkurinn urðu einnig skelkaðir, og landið nötraði, og varð það að mikilli skelfingu.
16 Sjónarverðir Sáls í Gíbeu í Benjamín lituðust um, og sjá, þá var allt á tjá og tundri í herbúðum Filista.
17 Og Sál sagði við mennina, sem með honum voru: "Kannið nú liðið og hyggið að, hver frá oss hefir farið." Könnuðu þeir þá liðið, og vantaði þá Jónatan og skjaldsvein hans.
18 Þá mælti Sál við Ahía: "Kom þú með hökulinn!" _ því að hann bar þá hökulinn frammi fyrir Ísraelsmönnum.
19 En meðan Sál var að tala við prestinn, varð ysinn í herbúðum Filista æ meiri og meiri, svo að Sál sagði við prestinn: "Hættu við það!"
20 Og Sál og allt liðið, sem með honum var, safnaðist saman. En er þeir komu í orustuna, sjá, þá reiddi þar hver sverð að öðrum, og allt var í uppnámi.
21 En Hebrear þeir, er að undanförnu höfðu lotið Filistum og farið höfðu með þeim í stríðið, snerust nú og í móti þeim og gengu í lið með Ísraelsmönnum, þeim er voru með Sál og Jónatan.
22 Og er allir Ísraelsmenn, þeir er falið höfðu sig á Efraímfjöllum, fréttu, að Filistar væru lagðir á flótta, þá veittu þeir þeim og eftirför til þess að berjast við þá.
23 Þannig veitti Drottinn Ísrael sigur á þeim degi. Orustan þokaðist fram hjá Betaven,
24 og Ísraelsmenn voru mæddir orðnir þann dag. Þá gjörði Sál mikið glappaverk. Hann lét liðið vinna svolátandi eið: "Bölvaður sé sá, sem neytir matar áður en kveld er komið og ég hefi hefnt mín á óvinum mínum!" Fyrir því bragðaði enginn af liðinu mat.
25 En nú voru hunangsbú á völlunum.
26 Og er liðið kom að hunangsbúunum, sjá, þá voru býflugurnar flognar út, en þrátt fyrir það bar enginn hönd að munni, því að liðið hræddist eiðinn.
27 En Jónatan hafði eigi hlýtt á, þá er faðir hans lét liðið vinna eiðinn. Hann rétti því út enda stafsins, sem hann hafði í hendinni, og dýfði honum í hunangsseiminn og bar hönd sína að munni sér. Urðu augu hans þá aftur fjörleg.
28 Þá tók einn úr liðinu til máls og sagði: "Faðir þinn hefir látið liðið vinna svolátandi eið: ,Bölvaður sé sá, sem matar neytir í dag!"` En liðið var þreytt.
29 Jónatan svaraði: "Faðir minn leiðir landið í ógæfu. Sjáið, hversu fjörleg augu mín eru, af því að ég bragðaði ögn af þessu hunangi.
30 Hversu miklu meira mundi mannfallið hafa verið meðal Filista en það nú er orðið, ef liðið hefði etið nægju sína í dag af herfangi óvinanna, er það náði."
31 Og þeir felldu Filista á þeim degi frá Mikmas til Ajalon, og liðið var mjög þreytt.
32 Og liðið fleygði sér yfir herfangið, og tóku þeir bæði sauðfé, naut og kálfa og slátruðu á jörðinni, og fólkið át kjötið með blóðinu.
33 Og menn sögðu Sál frá því og mæltu: "Sjá, fólkið syndgar móti Drottni með því að eta kjötið með blóðinu." Sál sagði: "Þér drýgið glæp. Veltið hingað til mín stórum steini."
34 Og Sál mælti: "Gangið út meðal fólksins og segið þeim: ,Hver og einn af yður komi til mín með sinn uxa og sína sauðkind og slátrið þeim hér og etið, svo að þér syndgið ekki á móti Drottni með því að eta það með blóðinu."` Þá kom hver og einn af liðinu um nóttina með það, er hann hafði, og þeir slátruðu því þar.
35 Og Sál reisti Drottni altari. Það var fyrsta altarið, sem hann reisti Drottni.
36 Og Sál mælti: "Vér skulum fara á eftir Filistum í nótt og ræna meðal þeirra, þar til er birtir af degi, og engan af þeim láta eftir verða." Þeir sögðu: "Gjör þú allt, sem þér gott þykir." En presturinn sagði: "Vér skulum ganga hér fram fyrir Guð."
37 Sál gekk þá til frétta við Guð: "Á ég að fara á eftir Filistum? Munt þú gefa þá í hendur Ísrael?" En hann svaraði honum engu þann dag.
38 Þá sagði Sál: "Gangið hingað, allir höfðingjar fólksins, og grennslist eftir og komist að raun um, hver drýgt hefir þessa synd í dag.
39 Því að svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er veitt hefir Ísrael sigur, þó að það væri Jónatan sonur minn, sem hefði drýgt hana, þá skyldi hann láta lífið." En enginn svaraði honum af öllu fólkinu.
40 Þá sagði hann við allan Ísrael: "Verið þér öðrumegin, en ég og Jónatan sonur minn skulum vera hinumegin." Lýðurinn sagði við Sál: "Gjör þú sem þér gott þykir."
41 Þá mælti Sál: "Drottinn, Ísraels Guð, hví svaraðir þú ekki þjóni þínum í dag? Ef þessi misgjörð hvílir á mér eða Jónatan syni mínum, Drottinn, Ísraels Guð, þá lát þú úrím koma upp, en ef hún hvílir á lýð þínum Ísrael, þá lát þú túmmím koma upp." Þá kom upp hlutur Jónatans og Sáls, en fólkið gekk undan.
42 Og Sál mælti: "Hlutið með mér og Jónatan syni mínum!" Kom þá upp hlutur Jónatans.
43 Og Sál sagði við Jónatan: "Segðu mér, hvað hefir þú gjört?" Þá sagði Jónatan honum frá því og mælti: "Ég bragðaði aðeins ögn af hunangi á stafsendanum, sem ég hafði í hendinni. Sjá, hér er ég, fyrir það á ég að láta lífið?"
44 Sál svaraði: "Guð gjöri við mig það, er hann vill: lífið verður þú að láta, Jónatan!"
45 En lýðurinn sagði við Sál: "Á Jónatan að láta lífið, hann sem unnið hefir þennan mikla sigur í Ísrael? Fjarri sé það! Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt höfuðhár hans falla til jarðar, því að með Guðs hjálp hefir hann unnið í dag." Og fólkið leysti Jónatan út undan lífláti.
46 Og Sál kom aftur, er hann hafði elt Filista, en Filistar fóru heim til sín.
47 Þá er Sál hafði hlotið konungdóm yfir Ísrael, háði hann ófrið við alla óvini sína allt í kring: við Móab, við Ammóníta, við Edóm, við konunginn í Sóba og við Filista, og hvert sem hann sneri sér, vann hann sigur.
48 Hann sýndi og hreysti og vann sigur á Amalek og frelsaði Ísrael af hendi þeirra, er rændu hann.
49 Synir Sáls voru Jónatan, Jísví og Malkísúa; og dætur hans tvær hétu: hin eldri Merab og hin yngri Míkal.
50 Og kona Sáls hét Ahínóam, dóttir Ahímaas. Og hershöfðingi hans hét Abner, sonur Ners, föðurbróður Sáls.
51 Því að Kís, faðir Sáls, og Ner, faðir Abners, voru synir Abíels.
52 Og ófriðurinn við Filista var harður alla ævi Sáls, og sæi Sál einhvern kappa eða eitthvert hraustmenni, þá tók hann þann mann í sína sveit.
12 Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.
2 Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
3 Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.
4 Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa.
5 Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir.
6 Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna.
7 Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni,
8 sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði.
9 Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.
10 Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.
11 Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.
12 Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.
13 Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.
14 Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki.
15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.
16 Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður.
17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.
18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.
19 Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn."
20 En "ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum."
21 Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.
51 Svo segir Drottinn: Sjá, ég vek upp eyðandi storm gegn Babýlon og gegn íbúum Kaldeu.
2 Ég sendi vinsara gegn Babýlon, að þeir vinsi hana og tæmi land hennar. Þegar þeir umkringja hana á óheilladegi,
3 skal enginn benda boga sinn né reigja sig í pansara sínum. Hlífið ekki æskumönnum hennar, helgið banni allan her hennar,
4 svo að vegnir menn falli í landi Kaldea og sverði lagðir hnígi á strætum hennar,
5 af því að land þeirra er fullt af sekt gegn Hinum heilaga í Ísrael. En Ísrael og Júda eru ekki yfirgefin af Guði sínum, Drottni allsherjar.
6 Flýið út úr Babýlon og hver og einn forði lífi sínu. Látið eigi tortíma yður vegna misgjörða hennar. Því að það er hefndartími Drottins, hann endurgeldur henni eins og hún hefir til unnið.
7 Babýlon var gullbikar í hendi Drottins, er gjörði alla jörðina drukkna. Af víni hennar drukku þjóðirnar, fyrir því létu þjóðirnar sem þær væru óðar.
8 Sviplega er Babýlon fallin og sundurmoluð. Kveinið yfir henni! Sækið smyrsl við kvölum hennar, má vera að hún verði læknuð.
9 "Vér ætluðum að lækna Babýlon, en hún var ólæknandi. Yfirgefið hana, og förum hver til síns lands, því að refsidómur sá, er yfir hana gengur, nær til himins og gnæfir við ský."
10 Drottinn hefir leitt í ljós vort réttláta málefni, komið, vér skulum kunngjöra í Síon verk Drottins, Guðs vors!
11 Fægið örvarnar, takið á yður skjölduna! Drottinn hefir vakið hugmóð Medíukonunga, því að fyrirætlan hans er miðuð gegn Babýlon til þess að eyða hana. Því að það er hefnd Drottins, hefnd fyrir musteri hans.
12 Reisið merki gegn Babýlonsmúrum! Aukið vörðinn! Skipið verði! Setjið launsátur! Því að Drottinn hefir ákveðið og framkvæmir það, er hann hefir hótað Babýlonsbúum.
13 Þú, sem býr við hin miklu vötn, auðug að fjársjóðum, endadægur þitt er komið, lífdagar þínir taldir.
14 Drottinn allsherjar sver við sjálfan sig: Þótt ég hefði fyllt þig mönnum, eins og engisprettum, munu menn þó hefja siguróp yfir þér.
15 Hann, sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu, _
16 þegar hann þrumar, svarar vatnagnýr í himninum, _ þegar hann lætur ský upp stíga frá endimörkum jarðar og gjörir leiftur til þess að búa rás regninu og hleypir vindinum út úr forðabúrum hans,
17 þá stendur sérhver maður undrandi og skilur þetta ekki, og sérhver gullsmiður skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál, og í þeim er enginn andi.
18 Hégómi eru þau, háðungar-smíði, þegar hegningartími þeirra kemur, er úti um þau.
19 En hlutdeild Jakobs er ekki þeim lík, heldur er hann skapari alls, og Ísrael er hans eignarkynkvísl. Drottinn allsherjar er nafn hans.
20 Þú varst mér hamar, hervopn, að ég gæti molað sundur með þér þjóðir og eytt með þér konungsríki,
21 að ég gæti molað sundur með þér hesta og reiðmenn, að ég gæti molað sundur með þér vagna og þá, sem í þeim óku,
22 að ég gæti molað sundur með þér karla og konur, að ég gæti molað sundur með þér gamla og unga, að ég gæti molað sundur með þér æskumenn og meyjar,
23 að ég gæti molað sundur með þér hirða og hjarðir, að ég gæti molað sundur með þér akurmenn og sameyki þeirra, að ég gæti molað sundur með þér jarla og landstjóra!
24 Ég endurgeld Babel og öllum íbúum Kaldeu allt það illt, er þeir hafa gjört Síon að yður áhorfandi _ segir Drottinn.
25 Sjá, ég ætla að finna þig, þú Skaðræðisfjall _ segir Drottinn _ þú sem skaðræði vannst allri jörðinni, og ég útrétti hönd mína gegn þér og velti þér ofan af hömrunum og gjöri þig að brenndu fjalli.
26 Úr þér skulu menn ekki sækja hornsteina, né undirstöðusteina, heldur skalt þú verða að eilífri auðn _ segir Drottinn.
27 Reisið merki á jörðinni! Þeytið lúðurinn meðal þjóðanna! Vígið þjóðir móti henni! Kallið móti henni konungsríki Ararats, Minní og Askenas! Skipið herforingja móti henni! Færið fram hesta, líka byrstum engisprettum!
28 Vígið þjóðir móti henni, konunga Medíu, jarla hennar og landstjóra og allt land ríkis þeirra.
29 Þá nötrar jörðin og bifast, því að fyrirætlanir Drottins gegn Babýlon rætast, með því að hann gjörir Babýlon að auðn, svo að enginn býr þar.
30 Kappar Babýlons hætta við að berjast, þeir halda kyrru fyrir í virkjunum, hreysti þeirra er þorrin, þeir eru orðnir að konum. Menn hafa lagt eld í híbýli hennar, slagbrandar hennar eru brotnir.
31 Hlaupasveinn hleypur móti hlaupasveini og sendiboði móti sendiboða til þess að boða Babelkonungi að borg hans sé unnin öllumegin,
32 brýrnar teknar, sefmýrarnar brenndar í eldi og hermennirnir skelfdir.
33 Já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Dóttirin Babýlon líkist láfa á þeim tíma, þá er hann er troðinn. Innan skamms kemur og uppskerutími fyrir hana.
34 "Nebúkadresar Babelkonungur hefir etið oss, hefir eytt oss, hann gjörði úr oss tómt ílát. Hann svalg oss eins og dreki, kýldi vömb sína og rak oss burt úr unaðslandi voru!"
35 "Það ofbeldi og sú misþyrming, sem ég hefi orðið fyrir, komi yfir Babýlon," segi Síonbúar, og "blóð mitt komi yfir íbúa Kaldeu," segi Jerúsalem.
36 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég tek að mér málefni þitt og læt þig ná rétti þínum. Ég þurrka upp vatn Babýlons og læt uppsprettu hennar þorna.
37 Og hún skal verða að grjóthrúgu, að sjakalabæli, að skelfing og háði, enginn skal þar búa.
38 Þeir öskra allir eins og ung ljón, gnöllra eins og ljónshvolpar.
39 En þegar græðgihitinn er kominn í þá, vil ég búa þeim veislu og gjöra þá drukkna, til þess að þeir verði kátir. Því næst skulu þeir sofna eilífum svefni og ekki vakna framar! _ segir Drottinn.
40 Ég læt þá hníga sem lömb til slátrunar, sem hrúta ásamt höfrum.
41 Hversu varð Sesak unnin og tekin, hún er fræg var um víða veröld! Hversu er Babýlon orðin að skelfingu meðal þjóðanna!
42 Sjórinn gekk yfir Babýlon, hún huldist gnýjandi bylgjum hans.
43 Borgir hennar urðu að auðn, að þurru landi og heiði. Enginn maður mun framar búa þar né nokkurt mannsbarn fara þar um.
44 Ég vitja Bels í Babýlon og tek út úr munni hans það, er hann hefir gleypt, og eigi skulu þjóðir framar streyma til hans. Babýlonsmúr hrynur einnig.
45 Far út úr henni, lýður minn, og hver og einn forði lífi sínu undan hinni brennandi reiði Drottins.
46 Látið ekki hugfallast og verðið ekki hræddir við tíðindin, sem heyrast í landinu. Þessi tíðindi koma þetta árið og því næst önnur tíðindi annað árið: ofbeldi er framið í landinu, og drottnari rís mót drottnara.
47 Fyrir því, sjá, þeir dagar koma, að ég vitja skurðgoða Babýlons, og þá mun allt land hennar verða til skammar og allir vegnir menn hennar falla inni í henni.
48 Þá mun himinn og jörð og allt, sem í þeim er, hlakka yfir Babýlon, því að úr norðri brjótast eyðendurnir inn yfir hana _ segir Drottinn.
49 Babýlon verður að falla vegna hinna vegnu manna af Ísrael, eins og vegnir menn hafa orðið að falla um alla jörðina vegna Babýlon.
50 Þér, sem undan sverðinu hafið komist, haldið þér áfram, standið ekki við. Minnist Drottins í fjarlægð og hafið Jerúsalem í huga.
51 Vér erum orðnir til skammar, því að vér urðum varir við fyrirlitningu, blygðun hylur auglit vor, því að útlendir menn hafa brotist inn yfir helgidóma musteris Drottins.
52 Fyrir því, sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég vitja skurðgoða hennar, og sverði lagðir menn skulu stynja í öllu landi hennar.
53 Þó að Babýlon hefji sig til himins og þó að hún gjöri vígi sitt svo hátt, að það verði ókleift, þá munu þó frá mér koma eyðendur yfir hana _ segir Drottinn.
54 Heyr! Neyðarkvein frá Babýlon og mikil eyðilegging úr landi Kaldea!
55 Já, Drottinn eyðir Babýlon og upprætir úr henni hinn mikla hávaða. Bylgjur þeirra gnýja eins og stór vötn, gjallandi kveður við óp þeirra.
56 Því að eyðandi kemur yfir hana, yfir Babýlon, og kappar hennar verða teknir höndum og bogar þeirra brotnir, því að Drottinn er Guð endurgjaldsins, hann endurgeldur áreiðanlega.
57 Ég gjöri drukkna höfðingja hennar og vitringa, jarla hennar og landstjóra og kappa hennar. Þeir skulu sofna eilífum svefni og eigi vakna framar _ segir konungurinn. Drottinn allsherjar er nafn hans.
58 Svo segir Drottinn allsherjar: Hinn víði Babýlonsmúr skal rifinn verða til grunna og hin háu borgarhlið hennar brennd í eldi, _ já, lýðir vinna fyrir gýg og þjóðir leggja á sig erfiði fyrir eldinn!
59 Skipunin sem Jeremía spámaður lagði fyrir Seraja Neríason, Mahasejasonar, þá er hann fór í erindum Sedekía Júdakonungs til Babýlon, á fjórða ári ríkisstjórnar hans. En Seraja var herbúðastjóri.
60 En Jeremía skrifaði alla þá ógæfu, er koma mundi yfir Babýlon, í eina bók _ allar þessar ræður, sem ritaðar eru um Babýlon.
61 Jeremía sagði við Seraja: "Þá er þú kemur til Babýlon, þá sjá til, að þú lesir upp öll þessi orð,
62 og seg: ,Drottinn, þú hefir sjálfur hótað þessum stað að afmá hann, svo að enginn byggi framar í honum, hvorki menn né skepnur, því að eilífri auðn skal hún verða.`
63 Og þegar þú hefir lesið bók þessa til enda, þá bind þú við hana stein og kasta þú henni út í Efrat,
64 og seg: ,Svo skal Babýlon sökkva og ekki rísa upp aftur, vegna þeirrar ógæfu, er ég læt yfir hana koma!"` Hér lýkur orðum Jeremía.
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
by Icelandic Bible Society