M’Cheyne Bible Reading Plan
13 Sál var þrítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og ríkti í tvö ár yfir Ísrael.
2 Sál valdi sér þrjú þúsund manns af Ísrael. Af þeim voru tvö þúsund hjá Sál í Mikmas og á Betelfjöllum, en eitt þúsund hjá Jónatan í Gíbeu í Benjamín. Hitt liðið lét hann brott fara, hvern heim til sín.
3 Jónatan drap landstjóra Filista, sem sat í Geba, og Filistar fréttu það. Og Sál lét þeyta lúður um allt landið og sagði: "Hebrear skulu heyra það."
4 Og allur Ísrael heyrði sagt: "Sál hefir drepið landstjóra Filista, og Filistar hafa andstyggð á Ísrael." Og liðinu var stefnt saman til þess að fara með Sál til Gilgal.
5 Filistar söfnuðust saman til að berjast við Ísrael, þrjú þúsund vagnar og sex þúsund riddarar og fótgöngulið, svo margt sem sandur á sjávarströndu, og þeir lögðu af stað og settu herbúðir sínar í Mikmas fyrir austan Betaven.
6 Og er Ísraelsmenn sáu, að þeir voru komnir í kreppu, því að að þeim þrengdi, þá faldi liðið sig í hellum, jarðholum, klettaskorum, gjótum og gryfjum.
7 Nokkrir Hebreanna fóru yfir vöðin á Jórdan yfir í Gaðs land og Gíleaðs. Sál var enn í Gilgal, en allt liðið hafði flúið burt frá honum fyrir hræðslu sakir.
8 Og hann beið í sjö daga, til þess tíma, er Samúel hafði til tekið, en Samúel kom ekki til Gilgal, og fólkið dreifðist burt frá honum.
9 Þá sagði Sál: "Færið mér hingað brennifórnina og heillafórnirnar." Og hann fórnaði brennifórninni.
10 En er hann hafði fórnað brennifórninni, sjá, þá kom Samúel. Og Sál gekk út á móti honum til þess að heilsa honum.
11 Og Samúel mælti: "Hvað hefir þú gjört?" Sál svaraði: "Þegar ég sá, að liðið dreifðist burt frá mér og að þú komst ekki á tilteknum tíma, en Filistar söfnuðust saman í Mikmas,
12 þá hugsaði ég: ,Nú munu Filistar fara ofan á móti mér til Gilgal, áður en ég hefi blíðkað Drottin.` Fyrir því herti ég upp hugann og fórnaði brennifórninni."
13 Þá sagði Samúel við Sál: "Heimskulega hefir þér farið. Þú hefir ekki gætt skipunar Drottins, Guðs þíns, sem hann fyrir þig lagði, því að nú hefði Drottinn staðfest konungdóm þinn yfir Ísrael að eilífu.
14 En nú mun konungdómur þinn ekki standa. Drottinn hefir leitað sér að manni eftir sínu hjarta, og hann hefir Drottinn skipað höfðingja yfir lýð sinn, því að þú hefir ekki gætt þess, er Drottinn fyrir þig lagði."
15 Þá tók Samúel sig upp og fór frá Gilgal og hélt leiðar sinnar. En leifarnar af liðinu fóru á eftir Sál í móti herliðinu. Og er þeir voru komnir frá Gilgal til Gíbeu í Benjamín, þá kannaði Sál liðið, sem hjá honum var, um sex hundruð manns.
16 Sál og Jónatan sonur hans og liðið, sem með þeim var, sátu í Geba í Benjamín, en Filistar höfðu sett herbúðir sínar í Mikmas.
17 Ránssveit fór út úr herbúðum Filista í þrem hópum. Einn hópurinn stefndi veginn til Ofra inn í Sjúal-land,
18 annar hópurinn stefndi veginn til Bet Hóron, og þriðji hópurinn stefndi veginn til hæðarinnar, sem gnæfir yfir Sebóímdalinn gegnt eyðimörkinni.
19 Enginn járnsmiður var til í öllu Ísraelslandi, því að Filistar hugsuðu: "Hebrear mega ekki smíða sverð eða spjót." (
20 Ísraelsmenn urðu að fara ofan til Filista, ef þeir vildu láta hvessa plógjárn sín, haka, axir og sigðir.
21 Gjaldið var tveir þriðju úr sikli fyrir plógjárn og haka, og þriðjungur úr sikli fyrir gaffla og axir og fyrir að setja brodd á broddstaf.)
22 Þannig hafði gjörvallt liðið, sem var með Sál og Jónatan, hvorki sverð né spjót í höndum orustudaginn, en Sál og Jónatan sonur hans höfðu það.
23 Varðflokkur Filista fór nú og settist í skarðið hjá Mikmas.
11 Ég spyr nú: Hefur Guð útskúfað lýð sínum? Fjarri fer því. Sjálfur er ég Ísraelsmaður, af kyni Abrahams, ættkvísl Benjamíns.
2 Guð hefur ekki útskúfað lýð sínum, sem hann þekkti fyrirfram. Eða vitið þér ekki, hvað Ritningin segir í kaflanum um Elía, hvernig hann kemur fram fyrir Guð með kæru á hendur Ísrael:
3 "Drottinn, spámenn þína hafa þeir drepið og rifið niður ölturu þín og ég er einn skilinn eftir, og þeir sitja um líf mitt."
4 En hvaða svar fær hann hjá Guði? "Sjálfum mér hef ég eftir skilið sjö þúsundir manna, sem hafa ekki beygt kné fyrir Baal."
5 Svo eru þá líka á vorum tíma leifar orðnar eftir, sem Guð hefur útvalið af náð.
6 En ef það er af náð, þá er það ekki framar af verkum, annars væri náðin ekki framar náð.
7 Hvað þá? Það sem Ísrael sækist eftir, það hlotnaðist honum ekki, en hinum útvöldu hlotnaðist það. Hinir urðu forhertir,
8 eins og ritað er: Guð gaf þeim sljóan anda, augu sem sjá ekki, eyru sem heyra ekki, allt fram á þennan dag.
9 Og Davíð segir: Verði borðhald þeirra snara og gildra, til falls og til hegningar þeim!
10 Blindist augu þeirra, til þess að þeir sjái ekki, og gjör bak þeirra bogið um aldur.
11 Þá spyr ég: Hvort hrösuðu þeir til þess að þeir skyldu farast? Fjarri fer því, heldur hlotnaðist heiðingjunum hjálpræðið af falli þeirra, til þess að það skyldi vekja þá til afbrýði.
12 En ef fall þeirra er heiminum auður og tjón þeirra heiðingjum auður, hve miklu fremur þá ef þeir koma allir?
13 En við yður, þér heiðingjar, segi ég: Að því leyti sem ég er postuli heiðingja, vegsama ég þjónustu mína.
14 Ég gæti ef til vill vakið afbrýði hjá ættmönnum mínum og frelsað einhverja þeirra.
15 Því ef það varð sáttargjörð fyrir heiminn, að þeim var hafnað, hvað verður þá upptaka þeirra annað en líf af dauðum?
16 Ef frumgróðinn er heilagur, þá er einnig deigið það. Og ef rótin er heilög, þá eru einnig greinarnar það.
17 En þótt nokkrar af greinunum hafi verið brotnar af, og hafir þú, sem ert villiolíuviður, verið græddur inn á meðal þeirra og sért orðinn hluttakandi með þeim í rótarsafa olíuviðarins,
18 þá stær þig ekki gegn greinunum. Ef þú stærir þig, þá vit, að þú berð ekki rótina, heldur rótin þig.
19 Þú munt þá segja: "Greinarnar voru brotnar af, til þess að ég yrði græddur við."
20 Rétt er það. Fyrir sakir vantrúarinnar voru þær brotnar af, en vegna trúarinnar stendur þú. Hreyktu þér ekki upp, heldur óttast þú.
21 Því að hafi Guð ekki þyrmt hinum náttúrlegu greinum, þá mun hann ekki heldur þyrma þér.
22 Sjá því gæsku Guðs og strangleika, _ strangleika við þá, sem fallnir eru, en gæsku Guðs við þig, ef þú stendur stöðugur í gæskunni; annars verður þú einnig af höggvinn.
23 En hinir munu og verða græddir við, ef þeir halda ekki áfram í vantrúnni, því að megnugur er Guð þess að græða þá aftur við.
24 Þú varst höggvinn af þeim olíuviði, sem eftir eðli sínu var villiviður, og ert gegn eðli náttúrunnar græddur við ræktaðan olíuvið. Hve miklu fremur munu þá þessar náttúrlegu greinar verða græddar við eigin olíuvið?
25 Ég vil ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þennan leyndardóm, til þess að þér skuluð ekki með sjálfum yður ætla yður hyggna. Forherðing er komin yfir nokkurn hluta af Ísrael og varir þangað til heiðingjarnir eru allir komnir inn.
26 Og þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob.
27 Og þetta er sáttmáli minn við þá, þegar ég tek burt syndir þeirra.
28 Í ljósi fagnaðarerindisins eru þeir óvinir Guðs vegna yðar, en í ljósi útvalningarinnar elskaðir sakir feðranna.
29 Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar.
30 Þér voruð fyrrum óhlýðnir Guði, en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra.
31 Þannig hafa þeir nú líka orðið óhlýðnir, til þess að einnig þeim mætti miskunnað verða fyrir miskunn þá, sem yður er veitt.
32 Guð hefur gefið alla óhlýðninni á vald, til þess að hann geti miskunnað öllum.
33 Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!
34 Hver hefur þekkt huga Drottins? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?
35 Hver hefur að fyrra bragði gefið honum, svo að það eigi að verða honum endurgoldið?
36 Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.
50 Orðið sem Drottinn talaði um Babýlon, um land Kaldea, fyrir munn Jeremía spámanns.
2 Kunngjörið það meðal þjóðanna, boðið það og setjið upp merki! Boðið það, dyljið það ekki! Segið: "Babýlon er unnin! Bel er orðin til skammar! Mardúk niður brotinn! Líkneskin eru orðin til skammar, skurðgoðin niður brotin!"
3 Þjóð kemur á móti henni úr norðurátt, hún gjörir land hennar að auðn, svo að enginn maður býr þar framar, bæði menn og skepnur flýja, fara burt.
4 Á þeim dögum og á þeim tíma _ segir Drottinn _ munu Ísraelsmenn koma, ásamt Júdamönnum. Grátandi munu þeir ganga og leita Drottins, Guðs síns.
5 Þeir spyrja eftir Síon, þangað stefna þeir. Þeir koma og ganga Drottni á hönd með eilífum sáttmála, sem ekki mun gleymast.
6 Þjóð mín var sem týndir sauðir, hirðar þeirra leiddu þá afvega, tældu þá upp í fjöll, þeir reikuðu af hálsi á hæð, gleymdu bóli sínu.
7 Allir, sem hittu þá, átu þá, og mótstöðumenn þeirra sögðu: "Vér bökum oss enga sekt, vegna þess að þeir syndguðu gegn Drottni, haglendi réttlætisins og von feðra þeirra, Drottni."
8 Flýið burt úr Babýlon og farið burt úr landi Kaldea og verið sem hafrar á undan hjörðinni.
9 Sjá, ég læt upp rísa safn mikilla þjóða frá norðlægum löndum, er fer á móti Babýlon. Þær munu skipa sér móti henni. Þaðan mun hún unnin verða. Örvar þeirra eru eins og giftusöm hetja, er ekki hverfur aftur við svo búið.
10 Kaldea skal verða að herfangi, allir, sem hana ræna, fá nægju sína _ segir Drottinn.
11 Gleðjist, já fagnið, þér ránsmenn eignar minnar, já stökkvið eins og þreskjandi kvíga og hvíið eins og stóðhestar.
12 Móðir yðar verður mjög til skammar, hún, sem ól yður, má fyrirverða sig. Sjá, hún er hin síðasta meðal þjóðanna, eyðimörk, þurrt land, heiði!
13 Vegna reiði Drottins mun hún verða óbyggð og verða algjörlega að auðn. Hvern, sem fer fram hjá Babýlon, mun hrylla við, og hann mun hæðast að öllum áföllunum, sem hún hefir orðið fyrir.
14 Skipið yður niður kringum Babýlon, allir þér bogmenn! Skjótið á hana, sparið ekki örvarnar, því að gegn Drottni hefir hún syndgað.
15 Ljóstið upp ópi hringinn í kringum hana: Hún hefir gefist upp, stoðir hennar eru fallnar, múrar hennar niður rifnir, það er hefnd Drottins. Hefnið yðar á henni. Gjörið við hana eins og hún hefir til gjört.
16 Afmáið í Babýlon sáðmanninn og þann, er sigðina ber um uppskerutímann. Fyrir hinu vígfreka sverði munu þeir hver og einn hverfa til sinnar þjóðar og flýja hver og einn til síns lands.
17 Ísrael er sem burtflæmdur sauður, er ljón hafa elt: Fyrst át Assýríukonungur hann og nú síðast hefir Nebúkadresar Babelkonungur nagað bein hans.
18 Fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, ég vitja Babelkonungs og lands hans, eins og ég vitjaði Assýríukonungs.
19 Ég leiði Ísrael aftur heim í haglendi sitt, og hann skal vera á beit á Karmel og í Basan og seðja hungur sitt á Efraím-fjöllum og í Gíleað.
20 Á þeim dögum og á þeim tíma _ segir Drottinn _ mun leitað verða að sekt Ísraels, en hún er ekki framar til, og að syndum Júda, en þær finnast ekki, því að ég mun fyrirgefa þeim, sem ég læt eftir verða.
21 Far móti Maratajím-héraði og gegn íbúum Pekod. Eyð þeim og helga þá banni _ segir Drottinn _ og gjör með öllu svo sem ég hefi fyrir þig lagt.
22 Heyr! Stríð í landinu og mikil eyðilegging!
23 Hversu er hamarinn, sem laust alla jörðina, höggvinn af skafti og sundurbrotinn! Hversu er Babýlon orðin að skelfingu meðal þjóðanna!
24 Ég lagði snöru fyrir þig _ Babýlon, og þú festist og vissir ekki af. Þú náðist og þú varst gripin, því að þú hafðir dirfst að berjast gegn Drottni.
25 Drottinn hefir lokið upp vopnabúri sínu og tekið út vopn reiði sinnar, því að herrann, Drottinn allsherjar, hefir verk með höndum í landi Kaldea.
26 Komið móti henni úr öllum áttum, ljúkið upp hlöðum hennar, kastið henni eins og bundinum í bing og helgið hana banni! Látið engar leifar af henni eftir verða!
27 Drepið alla uxa hennar, þeir skulu hníga niður til slátrunar. Vei þeim, því að dagur þeirra er kominn, hegningartími þeirra.
28 Heyr! Hér eru menn, sem flúið hafa og komist undan frá Babýlon til þess að boða í Síon að Drottinn, Guð vor, hefnir, hefnir fyrir musteri sitt.
29 Bjóðið skyttum út gegn Babýlon, öllum þeim sem benda boga! Setjið herbúðir allt í kringum hana! Látið engan komast undan! Gjaldið henni eftir verkum hennar! Gjörið við hana að öllu svo sem hún hefir til gjört, því að hún hefir ofmetnast gegn Drottni, gegn Hinum heilaga í Ísrael.
30 Fyrir því skulu æskumenn hennar falla á torgunum og allir hermenn hennar farast á þeim degi _ segir Drottinn.
31 Sjá, ég ætla að finna þig, Drambsemi _ segir herrann, Drottinn allsherjar _ því að dagur þinn er kominn, hegningartími þinn.
32 Nú skal Drambsemi hrasa og falla, og enginn skal reisa hana á fætur, og ég mun leggja eld í borgir hennar, og hann skal eyða öllu því, sem umhverfis hana er.
33 Svo segir Drottinn allsherjar: Kúgaðir eru Ísraelsmenn og Júdamenn allir saman. Allir þeir, er þá hafa herleitt, halda þeim föstum, vilja ekki láta þá lausa.
34 En lausnari þeirra er sterkur, _ Drottinn allsherjar heitir hann. Hann mun reka mál þeirra með dugnaði, til þess að hann speki jörðina, en óspeki Babýlonsbúa.
35 Sverð komi yfir Kaldea _ segir Drottinn _ og yfir Babýlonsbúa og yfir höfðingja hennar og vitringa!
36 Sverð komi yfir þvaðrarana, svo að þeir standi eins og afglapar! Sverð komi yfir kappa hennar, svo að þeir verði huglausir!
37 Sverð komi yfir hesta hennar og vagna og yfir allan þjóðblendinginn, sem í henni er, svo að þeir verði að konum! Sverð komi yfir fjársjóðu hennar, svo að þeim verði rænt!
38 Sverð komi yfir vötn hennar, svo að þau þorni! Því að skurðgoðaland er það, og þeir láta sem vitfirringar með skelfingar-líkneskin.
39 Fyrir því munu urðarkettir búa hjá sjökulum, og strútsfuglar búa í henni, og hún skal ekki framar byggð vera að eilífu, né þar verða búið frá kyni til kyns.
40 Eins og Guð umturnaði Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum _ segir Drottinn _ svo skal og enginn maður búa þar né nokkurt mannsbarn hafast við í henni.
41 Sjá, lýður kemur úr norðurátt og mikil þjóð og voldugir konungar rísa upp á útkjálkum jarðar.
42 Þeir bera boga og skotspjót, þeir eru grimmir og sýna enga miskunn, háreysti þeirra er sem hafgnýr, og þeir ríða hestum, búnir sem hermenn til bardaga gegn þér, dóttirin Babýlon.
43 Babelkonungur hefir fengið fregnir af þeim, hendur hans eru magnlausar, angist hefir gripið hann, kvalir, eins og jóðsjúka konu.
44 Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka þá burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana. Því að hver er minn líki? Hver vill stefna mér? Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér?
45 Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Babýlon, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi landi Kaldea: Sannarlega munu þeir draga þá burt, hina lítilmótlegustu úr hjörðinni. Sannarlega skal haglendið verða agndofa yfir þeim.
46 Af ópinu: "Babýlon er unnin" nötrar jörðin, og neyðarkvein heyrist meðal þjóðanna.
28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.
3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.
6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.
8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
by Icelandic Bible Society