M’Cheyne Bible Reading Plan
12 Samúel mælti til alls Ísraels: "Sjá, ég hefi látið að orðum yðar í öllu því, sem þér hafið beiðst af mér, og ég hefi sett yfir yður konung.
2 Og sjá, nú gengur konungurinn frammi fyrir yður, en ég er orðinn gamall og grár fyrir hærum, og synir mínir eru meðal yðar. En ég hefi gengið fyrir augliti yðar frá barnæsku fram á þennan dag.
3 Hér er ég, vitnið á móti mér frammi fyrir Drottni og hans smurða: Hvers uxa hefi ég tekið? Og hvers asna hefi ég tekið? Og hvern hefi ég féflett? Hverjum hefi ég sýnt ofríki? Og af hverjum hefi ég þegið mútu eða jafnvel eina skó? Vitnið móti mér, og mun ég gjalda yður það aftur."
4 Þeir svöruðu: "Eigi hefir þú féflett oss, og eigi hefir þú sýnt oss ofríki, og við engu hefir þú af nokkurs manns hendi tekið."
5 Hann sagði við þá: "Drottinn sé vitni móti yður, og hans smurði sé vitni í dag, að þér hafið ekkert fundið í minni hendi." Og þeir sögðu: "Já, þeir skulu vera vitni!"
6 Þá sagði Samúel við lýðinn: "Drottinn sé vitni, hann sem skóp Móse og Aron og leiddi feður yðar út af Egyptalandi.
7 Gangið nú fram, til þess að ég deili á yður frammi fyrir Drottni og minni yður á allar velgjörðir Drottins, sem hann hefir auðsýnt yður og feðrum yðar.
8 Þegar Jakob var kominn til Egyptalands, þjáðu Egyptar þá. Þá hrópuðu feður yðar til Drottins, og Drottinn sendi Móse og Aron, og þeir leiddu feður yðar út af Egyptalandi, og hann fékk þeim bústað í þessu landi.
9 En þeir gleymdu Drottni, Guði sínum. Þá seldi hann þá í hendur Sísera, hershöfðingja Jabíns konungs í Hasór, og í hendur Filistum og í hendur Móabskonungi, svo að þeir herjuðu á þá.
10 En þeir hrópuðu til Drottins og sögðu: ,Vér höfum syndgað, þar sem vér höfum yfirgefið Drottin og þjónað Baölum og Astörtum; en frelsa oss nú af hendi óvina vorra, þá skulum vér þjóna þér.`
11 Þá sendi Drottinn Jerúbbaal, Barak, Jefta og Samúel og frelsaði yður af hendi óvina yðar allt í kring, svo að þér bjugguð óhultir.
12 En er þér sáuð, að Nahas, konungur Ammóníta, fór í móti yður, þá sögðuð þér við mig: ,Nei, konungur skal drottna yfir oss!` _ en Drottinn, Guð yðar, er þó konungur yðar.
13 Þarna er nú konungurinn, sem þér hafið valið, sem þér hafið beðið um. Drottinn hefir nú sett yfir yður konung.
14 Ef þér óttist Drottin og þjónið honum og hlýðið hans raustu og óhlýðnist ekki skipun Drottins, og ef þér, bæði þér sjálfir og konungurinn, sem ríkir yfir yður, fylgið Drottni, Guði yðar, þá fer vel,
15 en ef þér hlýðið ekki raustu Drottins og óhlýðnist skipun Drottins, þá mun hönd Drottins vera á móti yður og konungi yðar.
16 Gangið nú fram og sjáið þann mikla atburð, er Drottinn lætur verða fyrir augum yðar.
17 Er nú ekki hveitiuppskera? Ég ætla að biðja Drottin að senda þrumur og regn. Þá skuluð þér kannast við og skilja, hversu mikið illt þér gjörðuð í augum Drottins, er þér beiddust að fá konung."
18 Og Samúel ákallaði Drottin, og Drottinn sendi þrumur og regn þennan sama dag. Þá varð lýðurinn mjög hræddur við Drottin og við Samúel.
19 Og allur lýðurinn sagði við Samúel: "Bið til Drottins Guðs þíns fyrir þjónum þínum, svo að vér deyjum ekki, því að vér höfum bætt þeirri misgjörð ofan á allar syndir vorar, að vér höfum beiðst konungs."
20 Samúel sagði við lýðinn: "Óttist ekki. Þér hafið að vísu framið þessa misgjörð, en víkið nú ekki frá Drottni og þjónið Drottni af öllu hjarta yðar
21 og eltið ekki fánýtin, sem að engu liði eru og eigi frelsa, því að fánýt eru þau.
22 Því að Drottinn mun eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns, af því að Drottni hefir þóknast að gjöra yður að sínum lýð.
23 Og fjarri sé það mér að syndga á móti Drottni með því að hætta að biðja fyrir yður. Ég vil kenna yður hinn góða og rétta veg.
24 Óttist aðeins Drottin og þjónið honum trúlega af öllu hjarta yðar, því sjáið, hversu mikið hann hefir fyrir yður gjört.
25 En ef þér breytið illa, þá verður bæði yður og konungi yðar í burtu kippt."
10 Bræður, það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða.
2 Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi.
3 Með því þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast við að koma til vegar eigin réttlæti, hafa þeir ekki gefið sig undir réttlæti Guðs.
4 En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist sérhver sá, sem trúir.
5 Því að Móse ritar um réttlætið, sem lögmálið veitir: "Sá maður, sem breytir eftir lögmálinu, mun lifa fyrir það."
6 En réttlætið af trúnni mælir þannig: "Seg þú ekki í hjarta þínu: Hver mun fara upp í himininn?" _ það er: til að sækja Krist ofan, _
7 eða: "Hver mun stíga niður í undirdjúpið?" _ það er: til að sækja Krist upp frá dauðum.
8 Hvað segir það svo? "Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu." Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum.
9 Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn _ og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.
10 Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.
11 Ritningin segir: "Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða."
12 Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;
13 því að "hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða."
14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?
15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: "Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu."
16 En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: "Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?"
17 Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.
18 En ég spyr: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, "raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar."
19 Og ég spyr: Hvort skildi Ísrael það ekki? Fyrst segir Móse: "Vekja vil ég yður til afbrýði gegn þjóð, sem ekki er þjóð, egna vil ég yður til reiði gegn óviturri þjóð."
20 Og Jesaja er svo djarfmáll að segja: "Ég hef látið þá finna mig, sem leituðu mín ekki. Ég er orðinn augljós þeim, sem spurðu ekki að mér."
21 En við Ísrael segir hann: "Allan daginn breiddi ég út hendur mínar móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð."
49 Um Ammóníta. Svo segir Drottinn: Á þá Ísrael enga sonu, eða á hann engan erfingja? Hví hefir Milkóm erft Gað og hví hefir lýður hans setst að í borgum hans?
2 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég læt heróp heyrast til Rabba, borgar Ammóníta, og hún skal verða að grjóthrúgu og dæturnar eyðast í eldi, og þá skal Ísrael erfa aftur erfingja sína _ segir Drottinn.
3 Hljóða þú, Hesbon, yfir því að borgin er unnin! Kveinið Rabbadætur! Gyrðist hærusekk, harmið og reikið um innan fjárgirðinganna, því að Milkóm verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hverjir með öðrum.
4 Hví stærir þú þig af dölunum, af frjósemi dals þíns, fráhverfa dóttir, sem reiðir sig á fjársjóðu sína og segir: "Hver skyldi ráða á mig?"
5 Sjá, ég læt skelfingu koma yfir þig _ segir herrann, Drottinn allsherjar _ úr öllum áttum í kringum þig, og þér skuluð verða reknir brott, hver það sem horfir, og enginn safnar þeim saman, er flýja.
6 En síðar meir mun ég leiða heim aftur hina herleiddu af Ammónítum _ segir Drottinn.
7 Um Edóm. Svo segir Drottinn allsherjar: Er þá engin viska framar í Teman? Eru góð ráð horfin hinum hyggnu, er viska þeirra þrotin?
8 Flýið, hverfið brott, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Dedans! Því að Esaús glötun læt ég yfir hann koma, þá er ég hegni honum.
9 Ef vínlestursmenn ráðast á þig, þá skilja þeir ekki neinn eftirtíning eftir. Ef þjófar koma að þér á náttarþeli, þá skemma þeir, þar til er þeim nægir.
10 En af því að ég sjálfur afhjúpa Esaú, gjöri ber fylgsni hans, svo að hann getur ekki falið sig, þá verða niðjar hans unnir og frændþjóðir hans og nábúar, og úti er um hann.
11 Yfirgef munaðarleysingja þína, _ ég mun halda lífinu í þeim, og ekkjur þínar mega reiða sig á mig!
12 Svo segir Drottinn: Sjá, þeim sem eigi bar að drekka bikarinn, þeir urðu að drekka hann _ og þú ættir að sleppa óhegndur? Þú munt ekki sleppa óhegndur, heldur skalt þú drekka.
13 Því að ég sver við sjálfan mig _ segir Drottinn _, að Bosra skal verða að skelfing, háðung, undrun og formæling, og allar borgir hennar skulu verða að eilífum rústum.
14 Ég hefi fengið vitneskju frá Drottni, og boðberi er sendur meðal þjóðanna! Safnist saman og farið gegn borginni og búist til bardaga!
15 Sjá, ég vil gjöra þig litla meðal þjóðanna, fyrirlitna meðal mannanna.
16 Skelfingin, sem þú skaust öðrum í brjóst, og hroki hjarta þíns hafa dregið þig á tálar, þú sem átt byggð í klettaskorum, situr á háa hnúknum. Þó að þú byggðir hreiður þitt hátt, eins og örninn, þá steypi ég þér þaðan niður _ segir Drottinn.
17 Edóm skal verða að skelfingu, hver sem fer þar um mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, er hann hefir orðið fyrir.
18 Eins og Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum var umturnað, segir Drottinn, svo skal og enginn maður búa þar, né nokkurt mannsbarn hafast þar við.
19 Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka hann burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana. Því að hver er minn líki? Hver vill stefna mér? Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér?
20 Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Edóm, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi Teman-búum: Sannarlega munu þeir draga hina lítilmótlegustu úr hjörðinni burt. Sannarlega skal haglendi þeirra verða agndofa yfir þeim.
21 Af dyn falls þeirra nötrar jörðin, neyðarkveinið _ ómurinn af því heyrist við Rauðahafið.
22 Sjá, sem örn stígur hann upp og flýgur hingað og breiðir út vængi sína yfir Bosra, og hjarta Edóms kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð.
23 Um Damaskus. Hamat og Arpad eru agndofa, því að þær hafa spurt ill tíðindi, þær eru hræddar, fullar af óró, eins og hafið, sem getur ekki verið kyrrt.
24 Damaskus er orðin huglaus, hefir snúist á flótta, og ótti hefir gripið hana, angist og kvalir hafa altekið hana, eins og jóðsjúka konu.
25 Hví var hún ekki yfirgefin, hin vegsamaða borg, ununar-borgin mín?
26 Fyrir því verða nú æskumenn hennar að falla á torgunum og allir hermenn hennar að farast á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar.
27 Og ég kveiki eld við múra Damaskus, til þess að hann eyði höllum Benhadads.
28 Um Kedar og konungsríki Hasórs, er Nebúkadresar Babelkonungur vann. Svo segir Drottinn: Standið upp, farið á móti Kedar og herjið á austurbyggja.
29 Tjöld þeirra og sauði munu þeir taka, og tjalddúka þeirra og öll áhöld og úlfalda þeirra munu þeir flytja burt frá þeim. Þá munu menn hrópa yfir þeim: "Skelfing allt um kring!"
30 Leggið á flótta, flýið sem hraðast, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Hasórs _ segir Drottinn, því að Nebúkadresar Babelkonungur hefir gjört ráðsályktun gegn yður og hefir í huga ráðagjörð gegn yður.
31 Af stað! Farið á móti meinlausri þjóð, sem býr örugg _ segir Drottinn _, og hvorki hefir hurðir né slagbranda. Þeir búa einir sér.
32 Úlfaldar þeirra skulu verða að ránsfeng og mergð nautahjarða þeirra að herfangi, og ég mun dreifa þeim fyrir öllum vindum, þeim sem skera hár sitt við vangann, og láta ógæfu hvaðanæva yfir þá koma _ segir Drottinn.
33 Hasór skal verða að sjakalabæli, að auðn um eilífð. Enginn maður mun framar búa þar og ekkert mannsbarn hafast þar við.
34 Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um Elam í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Júdakonungs:
35 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég brýt sundur boga Elamíta, meginstyrk þeirra.
36 Og ég hleypi á Elamíta fjórum vindum úr fjórum áttum himins og tvístra þeim fyrir öllum þessum vindum, og engin skal sú þjóð til vera, að þangað komi ekki flóttamenn frá Elam.
37 Ég læt Elamíta skelfast fyrir óvinum þeirra og fyrir þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og leiði yfir þá óhamingju, mína brennandi reiði _ segir Drottinn _ og sendi sverðið á eftir þeim, uns ég hefi gjöreytt þeim.
38 Ég reisi hásæti mitt í Elam og eyði þaðan konungi og höfðingjum _ segir Drottinn.
39 En þá er fram líða stundir mun ég snúa við högum Elams _ segir Drottinn.
26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.
4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.
6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.
9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.
11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?
2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.
3 Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.
4 Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.
5 Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.
6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
by Icelandic Bible Society