Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 11

11 Nahas Ammóníti fór og settist um Jabes í Gíleað. Þá sögðu allir Jabesbúar við Nahas: "Gjör þú sáttmála við oss, og munum vér þjóna þér."

Nahas Ammóníti svaraði þeim: "Með þeim kostum vil ég gjöra sáttmála við yður, að ég stingi út á yður öllum hægra augað og gjöri öllum Ísrael háðung með því."

Öldungarnir í Jabes sögðu við hann: "Gef oss sjö daga frest, og munum vér senda sendiboða um allt Ísraels land, og ef enginn þá hjálpar oss, munum vér gefast upp fyrir þér."

Þegar sendiboðarnir komu til Gíbeu Sáls og báru upp erindi sitt í áheyrn lýðsins, þá hóf allur lýðurinn upp raust sína og grét.

Og sjá, þá kom Sál á eftir nautunum utan af akri. Og Sál mælti: "Hvað ber til þess, að fólkið er að gráta?" Og þeir sögðu honum erindi Jabesmanna.

Þá kom andi Guðs yfir Sál, er hann heyrði þessi tíðindi, og varð hann reiður mjög.

Og hann tók tvo uxa og brytjaði þá og sendi stykkin um allt Ísraels land með sendiboðunum og lét þá orðsending fylgja: "Svo skal farið með naut hvers þess manns, er eigi fylgir Sál og Samúel í hernað." Þá kom ótti Drottins yfir fólkið, svo að þeir lögðu af stað sem einn maður.

Og hann kannaði liðið í Besek, og voru þá Ísraelsmenn þrjú hundruð þúsund og Júdamenn þrjátíu þúsund.

Og þeir sögðu við sendiboðana, sem komnir voru: "Segið svo mönnunum í Jabes í Gíleað: Á morgun um hádegisbil skal yður koma hjálp." Og sendimennirnir komu og sögðu Jabesbúum frá þessu, og urðu þeir glaðir við.

10 Og Jabesbúar sögðu við Nahas: "Á morgun munum vér gefast upp fyrir yður. Þá getið þér gjört við oss hvað sem yður gott þykir."

11 En morguninn eftir skipti Sál liðinu í þrjá flokka, og brutust þeir inn í herbúðirnar um morgunvökuna og felldu Ammóníta fram til hádegis. Og þeir, sem af komust, dreifðust víðsvegar, svo að ekki urðu eftir af þeim tveir saman.

12 Þá sagði fólkið við Samúel: "Hverjir voru það, sem sögðu: ,Á Sál að verða konungur yfir oss?` Framseljið þá menn, svo að vér getum drepið þá."

13 En Sál sagði: "Engan mann skal deyða á þessum degi, því að í dag hefir Drottinn veitt Ísrael sigur."

14 Samúel sagði við lýðinn: "Komið, vér skulum fara til Gilgal og endurnýja þar konungdóminn."

15 Þá fór allur lýðurinn til Gilgal og gjörði Sál þar að konungi frammi fyrir Drottni í Gilgal. Og þeir fórnuðu þar heillafórnum frammi fyrir Drottni, og Sál og allir Ísraelsmenn glöddu sig þar mikillega.

Bréf Páls til Rómverja 9

Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar það með mér, upplýst af heilögum anda,

að ég hef hryggð mikla og sífellda kvöl í hjarta mínu.

Ég gæti óskað, að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi, ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn,

Ísraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin.

Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður um aldir. Amen.

Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir.

Ekki eru heldur allir börn Abrahams, þótt þeir séu niðjar hans, heldur: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."

Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur hans Guðs börn, heldur teljast fyrirheitsbörnin sannir niðjar.

Því að þetta orð er fyrirheit: "Í þetta mund mun ég aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið."

10 Og ekki nóg með það. Því var líka svo farið með Rebekku. Hún var þunguð að tveim sveinum af eins manns völdum, Ísaks föður vors.

11 Nú, til þess að það stæði stöðugt, að ákvörðun Guðs um útvalningu væri óháð verkunum og öll komin undir vilja þess, er kallar,

12 þá var henni sagt, áður en sveinarnir voru fæddir og áður en þeir höfðu aðhafst gott eða illt: "Hinn eldri skal þjóna hinum yngri."

13 Eins og ritað er: "Jakob elskaði ég, en Esaú hataði ég."

14 Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því.

15 Því hann segir við Móse: "Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna."

16 Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar.

17 Því er í Ritningunni sagt við Faraó: "Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina."

18 Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill.

19 Þú munt nú vilja segja við mig: "Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans?"

20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: "Hví gjörðir þú mig svona?"

21 Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar?

22 En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar,

23 og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar?

24 Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.

25 Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn, og þá elskaða, sem ekki var elskuð,

26 og á þeim stað, þar sem við þá var sagt: þér eruð ekki minn lýður, þar munu þeir verða kallaðir synir Guðs lifanda.

27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: "Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða.

28 Drottinn mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, binda enda á hann og ljúka við hann í skyndi,"

29 og eins hefur Jesaja sagt: "Ef Drottinn hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru."

30 Hvað eigum vér þá að segja? Heiðingjarnir, sem ekki sóttust eftir réttlæti, hafa öðlast réttlæti, _ réttlæti, sem er af trú.

31 En Ísrael, sem vildi halda lögmál er veitt gæti réttlæti, náði því ekki.

32 Hvers vegna? Af því að þeir ætluðu sér að réttlætast með verkum, ekki af trú. Þeir hnutu um ásteytingarsteininn,

33 eins og ritað er: Sjá ég set í Síon ásteytingarstein og hrösunarhellu. Sérhver, sem á hann trúir, mun ekki verða til skammar.

Jeremía 48

48 Um Móab. Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Vei yfir Nebó, því að hún er eydd, orðin til skammar, Kirjataím er unnin, háborgin er orðin til skammar og skelfd.

Frægð Móabs er farin. Í Hesbon brugga menn ill ráð gegn borginni: "Komið, vér skulum uppræta hana, svo að hún sé eigi framar þjóð!" Einnig þú, Madmen, munt gjöreydd verða, sverðið eltir þig!

Neyðarkvein heyrist frá Hórónaím: "Eyðing og ógurleg tortíming!"

Móab er í eyði lagður, þeir láta neyðarkvein heyrast allt til Sóar,

því að grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít, já, í hlíðinni hjá Hórónaím heyra menn neyðarkvein tortímingarinnar.

Flýið, forðið lífi yðar, og verðið eins og einirunnur í eyðimörkinni!

Af því að þú reiddir þig á káksmíðar þínar og fjársjóðu þína, verður þú og unnin, og Kamos verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hver með öðrum.

Eyðandinn kemur yfir hverja borg, engin borg kemst undan. Dalurinn ferst og sléttlendið eyðileggst, eins og Drottinn hefir sagt.

Fáið Móab vængi, því að á flugferð skal hann brott fara, og borgir hans skulu verða að auðn og enginn í þeim búa.

10 Bölvaður sé sá, sem slælega framkvæmir verk Drottins, og bölvaður sé sá, sem synjar sverði sínu um blóð!

11 Móab hefir lifað í friði frá æsku og legið í náðum á dreggjum sínum. Honum hefir ekki verið hellt úr einu kerinu í annað, og aldrei hefir hann farið í útlegð. Fyrir því hefir bragðið af honum haldist og ilmurinn af honum eigi breytst.

12 Sjá, þeir dagar munu því koma, segir Drottinn, að ég sendi honum tæmendur, sem tæma hann. Þeir skulu hella úr kerum hans og mölva sundur krúsir hans.

13 Þá mun Móab verða til skammar vegna Kamoss, eins og Ísraels hús varð til skammar vegna Betel, er það treysti á.

14 Hvernig getið þér sagt: "Vér erum hetjur og öflugir hermenn?"

15 Eyðandi Móabs og borga hans kemur þegar, og úrval æskumanna hans hnígur niður til slátrunar _ segir konungurinn. Drottinn allsherjar er nafn hans.

16 Eyðilegging Móabs er komin nærri og óhamingja hans hraðar sér mjög.

17 Vottið honum hluttekning, allir þér nábúar hans, og allir þér, sem þekkið nafn hans. Segið: "Hvernig brotnaði stafurinn sterki, sprotinn dýrlegi!"

18 Stíg niður úr vegsemdinni og sest í duftið, þú sem þar býr, dóttirin Díbon, því að eyðandi Móabs kemur í móti þér, eyðir vígi þín.

19 Gakk út á veginn og skyggnst um, þú sem býr í Aróer, spyr flóttamanninn og þá konu, er undan hefir komist, og seg: "Hvað hefir til borið?"

20 Móab varð til skammar, já skelfdist. Hljóðið og kveinið! Kunngjörið hjá Arnon, að Móab sé eyddur.

21 Dómur er genginn yfir sléttulandið, yfir Hólon og Jahsa og Mefaat,

22 yfir Díbon, Nebó og Bet-Díblataím,

23 yfir Kirjataím, Bet-Gamúl og Bet-Meon,

24 yfir Keríót, Bosra, og allar borgir Móabslands, fjær og nær.

25 Horn Móabs er afhöggvið og armur hans brotinn _ segir Drottinn.

26 Gjörið hann drukkinn _ því að gegn Drottni hefir hann miklast _, til þess að Móab skelli ofan í spýju sína og verði líka að athlægi.

27 Eða var Ísrael þér eigi hlátursefni? Var hann gripinn með þjófum, þar sem þú hristir höfuðið í hvert sinn sem þú talar um hann?

28 Yfirgefið borgirnar og setjist að í klettaskorum, þér íbúar Móabs, og verið eins og dúfan, sem hreiðrar sig hinum megin á gjárbarminum.

29 Heyrt höfum vér um drambsemi Móabs _ hann er mjög hrokafullur _ um hroka hans, drambsemi, ofmetnað og yfirlæti hans.

30 Já, ég þekki _ segir Drottinn _ ofsa hans: Svo marklaus eru stóryrði hans, svo marklaust það, er þeir gjöra.

31 Fyrir því kveina ég yfir Móab og hljóða yfir Móab öllum, yfir mönnunum frá Kír-Heres mun andvarpað verða.

32 Meir en grátið verður yfir Jaser, græt ég yfir þér, vínviður Síbma. Greinar þínar fóru yfir hafið, komust til Jaser, á sumargróða þinn og vínberjatekju hefir eyðandinn ráðist.

33 Fögnuður og kæti er horfin úr aldingörðunum og úr Móabslandi. Vínið læt ég þverra í vínþröngunum, troðslumaðurinn mun eigi framar troða, fagnaðarópið er ekkert fagnaðaróp.

34 Frá hinni kveinandi Hesbon allt til Eleale, allt til Jahas láta þeir raust sína glymja, frá Sóar allt til Hórónaím, allt til Eglat-Selisía, því að einnig Nimrímvötn verða að öræfum.

35 Og ég eyði úr Móab _ segir Drottinn _ sérhverjum þeim, sem stígur upp á fórnarhæð og færir guði sínum reykelsi.

36 Fyrir því kveinar hjarta mitt yfir Móab eins og hljóðpípur og hjarta mitt kveinar yfir mönnunum frá Kír-Heres eins og hljóðpípur, fyrir því misstu þeir það, er þeir höfðu dregið saman.

37 Því að hvert höfuð er sköllótt orðið og allt skegg af rakað, á öllum handleggjum eru skinnsprettur, og hærusekkur um mjaðmir.

38 Uppi á öllum þökum í Móab og á torgunum heyrist ekki annað en harmakvein, því að ég hefi brotið Móab eins og ker, sem engum manni geðjast að, _ segir Drottinn.

39 Hversu er hann skelfdur! Hljóðið! Hversu hefir Móab snúið baki við! Fyrirverð þig! Og Móab skal verða til athlægis og skelfingar öllum nágrönnum sínum.

40 Svo segir Drottinn: Sjá, hann kemur fljúgandi eins og örn og breiðir vængi sína út yfir Móab.

41 Borgirnar eru teknar og vígin unnin, og hjarta Móabs kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð.

42 En Móab mun afmáður verða, svo að hann verði eigi þjóð framar, því að hann hefir miklast gegn Drottni.

43 Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, Móabsbúi _ segir Drottinn.

44 Sá, sem flýr undan geignum, fellur í gröfina, og sá, sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni. Því að þetta leiði ég yfir Móab árið, sem þeim verður hegnt _ segir Drottinn.

45 Í skugga Hesbon nema flóttamenn staðar magnlausir, en eldur brýst út úr Hesbon og logi úr höll Síhons, hann eyðir þunnvanganum á Móab og hvirflinum á hávaðamönnum.

46 Vei þér, Móab! Það er úti um lýð Kamoss! Því að synir þínir munu verða fluttir burt til herleiðingar og dætur þínar hernumdar.

47 En ég mun snúa við högum Móabs, þá er fram líða stundir _ segir Drottinn. Hér lýkur dómsorðunum yfir Móab.

Sálmarnir 25

25 Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.

Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.

Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.

Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.

13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.

14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.

16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.

17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.

18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.

19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.

21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.

22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society