Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 9

Maður er nefndur Kís. Hann var úr Benjamín og var sonur Abíels, Serórssonar, Bekóratssonar, Afíasonar, sonar Benjamíníta nokkurs, auðugur maður.

Hann átti son, er Sál hét, fyrirmannlegan og fríðan. Enginn af Ísraelsmönnum var fríðari en hann. Hann var höfði hærri en allur lýður.

Ösnur Kíss, föður Sáls, týndust, og Kís sagði við Sál, son sinn: "Tak með þér einn af sveinunum og farðu og leitaðu að ösnunum."

Og þeir fóru um Efraímfjöll og þeir fóru um Salísaland, en fundu þær ekki. Síðan fóru þeir um Saalímland, en þær voru þar eigi. Þá fóru þeir um Benjamínsland, en fundu þær ekki.

En er þeir voru komnir í Súf-land, þá sagði Sál við svein sinn, þann er með honum var: "Kom þú, við skulum snúa við, svo að faðir minn fari ekki að undrast um okkur, í stað þess að hugsa um ösnurnar."

Sveinninn svaraði honum: "Sjá, í borg þessari er guðsmaður einn, og er maðurinn frægur. Allt rætist, sem hann segir. Nú skulum við fara þangað; má vera að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda."

Sál sagði við hann: "Sjá, ef við förum, hvað eigum við þá að færa manninum? Því að brauðið er þrotið í malpokum okkar og gjöf höfum við enga að færa guðsmanninum. Hvað höfum við?"

Þá svaraði sveinninn Sál aftur og mælti: "Sjá, ég hefi hjá mér fjórðung úr silfursikli. Hann ætla ég að gefa guðsmanninum, til þess að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda." (

Fyrrum komust menn svo að orði í Ísrael, þá er þeir gengu til frétta við Guð: "Komið, vér skulum fara til sjáandans!" Því að þeir, sem nú eru kallaðir spámenn, voru fyrrum kallaðir sjáendur.)

10 Þá sagði Sál við svein sinn: "Þú hefir rétt að mæla. Kom þú, við skulum fara!" Síðan fóru þeir til borgarinnar, þar sem guðsmaðurinn var.

11 Er þeir voru að ganga upp stíginn upp að borginni, hittu þeir stúlkur, sem gengu út að sækja vatn, og sögðu við þær: "Er sjáandinn hér?"

12 Þær svöruðu þeim og sögðu: "Já, hann er rétt á undan ykkur. Hann er alveg nýkominn til borgarinnar, því að lýðurinn ætlar í dag að færa sláturfórnir á fórnarhæðinni.

13 Óðara en þið komið inn í borgina, munuð þið finna hann, áður en hann gengur upp á fórnarhæðina til að eta, því að lýðurinn etur ekki fyrr en hann kemur, af því að hann blessar fórnirnar; eftir það eta þeir, sem boðnir eru. Og gangið nú upp þangað, því að einmitt nú munuð þið finna hann."

14 Síðan gengu þeir upp til borgarinnar. Þegar þeir komu inn í borgina, sjá, þá gekk Samúel út á móti þeim og ætlaði upp á fórnarhæðina.

15 Nú hafði Drottinn, daginn áður en Sál kom, opinberað Samúel þetta:

16 "Í þetta mund á morgun mun ég senda til þín mann úr Benjamínslandi, og skalt þú smyrja hann til höfðingja yfir lýð minn Ísrael, og hann mun frelsa minn lýð af hendi Filistanna, því að ég hefi séð ánauð míns lýðs, og kvein hans hefir borist til mín."

17 En er Samúel sá Sál, sagði Drottinn við hann: "Þetta er maðurinn, sem ég sagði um við þig: ,Hann skal drottna yfir mínum lýð."`

18 Sál gekk þá til Samúels í miðju borgarhliðinu og mælti: "Seg mér, hvar á sjáandinn heima?"

19 Samúel svaraði Sál og mælti: "Ég er sjáandinn. Gakk á undan mér upp á fórnarhæðina. Þið skuluð eta með mér í dag, en á morgun snemma mun ég láta þig fara og fræða þig um allt það, er þú ber fyrir brjósti.

20 Og að því er snertir ösnurnar, sem töpuðust hjá þér fyrir þremur dögum, þá vertu ekki áhyggjufullur út af þeim, því að þær eru fundnar. En hver mun hljóta allar hnossir Ísraels, hver nema þú og öll ætt föður þíns?"

21 Sál svaraði og mælti: "Er ég ekki Benjamíníti, kominn af einni af hinum minnstu kynkvíslum Ísraels, og ætt mín hin lítilmótlegasta af öllum ættum Benjamíns kynkvíslar? Hví mælir þú þá slíkt við mig?"

22 Samúel tók Sál og svein hans og leiddi þá inn í matsalinn, og hann vísaði þeim til sætis efst meðal boðsmannanna, en þeir voru um þrjátíu manns.

23 Og Samúel sagði við matsveininn: "Kom þú nú með stykkið, sem ég fékk þér og sagði þér að taka frá."

24 Þá bar matsveinninn fram bóginn og rófuna og setti fyrir Sál. Og Samúel mælti: "Sjá, það sem afgangs varð, er nú sett fyrir þig. Et, því að á hinum ákveðna tíma var það geymt þér, þá er sagt var: Ég hefi boðið fólkinu!" Og Sál át með Samúel þann dag.

25 Og þeir gengu niður af hæðinni ofan í borgina, og var búið um Sál á þakinu, og lagðist hann til svefns.

26 Þegar lýsti af degi, kallaði Samúel á Sál uppi á þakinu og mælti: "Rís nú á fætur, svo að ég geti fylgt þér á leið." Þá reis Sál á fætur, og þeir gengu báðir út, hann og Samúel.

27 En er þeir voru komnir út fyrir borgina, sagði Samúel við Sál: "Segðu sveininum að fara á undan okkur, _ og hann fór á undan _ en statt þú kyrr, svo að ég megi flytja þér orð frá Guði."

Bréf Páls til Rómverja 7

Vitið þér ekki, bræður, _ ég er hér að tala til þeirra, sem lögmál þekkja, _ að lögmálið drottnar yfir manninum svo lengi sem hann lifir.

Gift kona er að lögum bundin manni sínum, meðan hann lifir. En deyi maðurinn, er hún leyst undan lögmálinu, sem bindur hana við manninn.

Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns. En deyi maðurinn er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns.

Eins er um yður, bræður mínir. Þér eruð dánir lögmálinu fyrir líkama Krists, til þess að verða öðrum gefnir, honum sem var upp vakinn frá dauðum, svo að vér mættum bera Guði ávöxt.

Þegar vér lifðum að holdsins hætti, störfuðu ástríður syndanna, sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt.

En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, og þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs.

Hvað eigum vér þá að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. En satt er það: Ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið. Ég hefði ekki vitað um girndina, hefði ekki lögmálið sagt: "Þú skalt ekki girnast."

En syndin sætti lagi og vakti í mér alls kyns girnd með boðorðinu. Án lögmáls er syndin dauð.

Ég lifði einu sinni án lögmáls, en er boðorðið kom lifnaði syndin við,

10 en ég dó. Og boðorðið, sem átti að verða til lífs, það reyndist mér vera til dauða.

11 Því að syndin sætti lagi, dró mig á tálar með boðorðinu og deyddi mig með því.

12 Þannig er þá lögmálið heilagt og boðorðið heilagt, réttlátt og gott.

13 Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því! Nei, það var syndin. Til þess að hún birtist sem synd, olli hún mér dauða með því, sem gott er. Þannig skyldi syndin verða yfir sig syndug fyrir boðorðið.

14 Vér vitum, að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina.

15 Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég.

16 En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott.

17 En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr.

18 Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða.

19 Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.

20 En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.

21 Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast.

22 Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs,

23 en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.

24 Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?

25 Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu.

Jeremía 46

46 Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um þjóðirnar.

Um Egyptaland. Viðvíkjandi her Faraós, Nekós Egyptalandskonungs. Herinn var við Efratfljót, hjá Karkemis, er Nebúkadresar Babelkonungur vann sigur á honum á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs:

Búið út törgu og skjöld og gangið fram til orustu!

Beitið fyrir hestana og stígið á bak herfákunum og fylkið yður hjálmaðir! Fægið lensurnar! Klæðist pansara!

Hví sé ég þá skelfda hörfa aftur á bak? Og kappar þeirra eru yfirkomnir af ótta og flýja allt hvað af tekur og líta ekki við _ skelfing allt um kring _ segir Drottinn.

Eigi mun hinn frái forða sér né kappinn komast undan. Norður frá, á bökkum Efratfljóts, hrasa þeir og falla.

Hver var það, sem belgdist upp eins og Níl, hvers vötn komu æðandi eins og fljót?

Egyptaland belgdist upp eins og Níl, og vötn þess komu æðandi eins og fljót, og það sagði: "Ég vil stíga upp, þekja landið, eyða borgir og íbúa þeirra.

Komið, hestar, og æðið, vagnar, og kapparnir leggi af stað, Blálendingar og Pút-menn, sem bera skjöld, og Lúdítar, sem benda boga!"

10 En sá dagur er hefndardagur herranum, Drottni allsherjar, að hann hefni sín á mótstöðumönnum sínum. Þá mun sverðið eta og seðjast og drekka sig drukkið af blóði þeirra, því að herrann, Drottinn allsherjar, heldur fórnarhátíð í landinu norður frá, við Efratfljót.

11 Far upp til Gíleað og sæk smyrsl, þú mærin, dóttirin Egyptaland! Til einskis munt þú viðhafa mörg læknislyf, enginn plástur er til handa þér!

12 Þjóðirnar fréttu smán þína, og jörðin er full af harmakveini þínu, því að einn kappinn hrasaði um annan, féllu báðir jafnsaman.

13 Orðið sem Drottinn talaði til Jeremía spámanns, um það að Nebúkadresar Babelkonungur mundi vinna sigur á Egyptalandi.

14 Kunngjörið í Egyptalandi og boðið í Migdól, já boðið í Nóf og Takpanes, segið: Gakk fram og gjör þig vígbúinn, því að sverðið hefir þegar etið umhverfis þig!

15 Hví eru þínir sterku menn að velli lagðir? Þeir fengu eigi staðist, því að Drottinn kollvarpaði þeim.

16 Hann lét marga hrasa, og þeir féllu hver um annan þveran, svo að þeir sögðu: "Á fætur, og hverfum aftur til þjóðar vorrar, til ættlands vors, undan hinu vígfreka sverði!"

17 Þeir munu nefna Faraó, Egyptalandskonung: "Tortíming! _ hann lét hinn hentuga tíma líða hjá."

18 Svo sannarlega sem ég lifi, segir konungurinn, Drottinn allsherjar er nafn hans: Líkur Tabor meðal fjallanna og líkur Karmel við sjóinn mun hann koma.

19 Gjör þér áhöld til brottfarar, þú sem þar býr, dóttirin Egyptaland, því að Nóf mun verða að auðn og hún mun verða brennd og verða mannauð.

20 Egyptaland er mjög fögur kvíga, kleggjar úr norðri koma yfir hana.

21 Jafnvel málaliðið, sem það hefir hjá sér, eins og alikálfa _ já, jafnvel það snýr við, flýr allt saman, fær eigi staðist. Því að glötunardagur þeirra er yfir þá kominn, hegningartími þeirra.

22 Rödd þess er orðin eins og þruskið í höggorminum, sem skríður burt, því með herliði bruna þeir áfram og með öxum ryðjast þeir inn á það, eins og viðarhöggsmenn.

23 Þeir höggva upp skóg þess _ segir Drottinn _ því að um hann verður ekki farið, því að þeir eru fleiri en engisprettur og á þá verður engri tölu komið.

24 Dóttirin Egyptaland varð til skammar, hún var seld á vald þjóð að norðan.

25 Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, segir: Sjá, ég vitja Amóns frá Þebu og Faraós og þeirra, sem á hann treysta,

26 og sel þá á vald þeirra, er sækjast eftir lífi þeirra, og á vald Nebúkadresars Babelkonungs og á vald þjóna hans. En eftir það skal það byggt vera, eins og fyrri á dögum _ segir Drottinn.

27 En óttast þú ekki, þjónn minn Jakob, og hræðst þú ekki, Ísrael, því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi og niðja þína úr landinu, þar sem þeir eru herleiddir, til þess að Jakob hverfi heim aftur og njóti hvíldar og búi óhultur, án þess nokkur hræði hann.

28 Óttast þú ekki, þjónn minn Jakob _ segir Drottinn _ því að ég er með þér! Því að ég vil gjöreyða öllum þeim þjóðum, er ég hefi rekið þig til, en þér vil ég ekki gjöreyða, heldur vil ég hirta þig í hófi; en ég vil ekki láta þér með öllu óhegnt.

Sálmarnir 22

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.

17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.

18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,

19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.

20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,

21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.

22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society