M’Cheyne Bible Reading Plan
7 Og íbúarnir í Kirjat Jearím komu og sóttu örk Drottins og fluttu hana í hús Abínadabs á hæðinni, og vígðu þeir Eleasar son hans til þess að gæta arkar Drottins.
2 Frá þeim degi, er örkin kom til Kirjat Jearím, leið langur tími, og urðu það tuttugu ár. Þá sneri allt Ísraels hús sér til Drottins.
3 Samúel sagði við allt Ísraels hús: "Ef þér viljið snúa yður til Drottins af öllu hjarta, þá fjarlægið hin útlendu goð frá yður og Astörturnar og snúið hjarta yðar til Drottins og þjónið honum einum. Mun hann þá frelsa yður af hendi Filista."
4 Þá köstuðu Ísraelsmenn burt Baölum og Astörtum og þjónuðu Drottni einum.
5 Samúel sagði: "Stefnið saman öllum Ísrael í Mispa, og skal ég þá biðja fyrir yður til Drottins."
6 Söfnuðust þeir þá saman í Mispa og jusu vatn og úthelltu því fyrir Drottni. Og þeir föstuðu þann dag og sögðu þar: "Vér höfum syndgað móti Drottni!" Og Samúel dæmdi Ísraelsmenn í Mispa.
7 En er Filistar heyrðu, að Ísraelsmenn höfðu safnast saman í Mispa, þá fóru höfðingjar Filista á móti Ísrael. Og er Ísraelsmenn heyrðu það, urðu þeir hræddir við Filista.
8 Og Ísraelsmenn sögðu við Samúel: "Lát eigi af að hrópa til Drottins, Guðs vors, fyrir oss, að hann frelsi oss af hendi Filista."
9 Þá tók Samúel dilklamb og fórnaði í brennifórn _ alfórn _ Drottni til handa. Og Samúel hrópaði til Drottins fyrir Ísrael, og Drottinn bænheyrði hann.
10 En meðan Samúel var að fórna brennifórninni, voru Filistar komnir í nánd til að berjast við Ísrael. En Drottinn sendi þrumuveður með miklum gný yfir Filista á þeim degi og gjörði þá felmtsfulla, svo að þeir biðu ósigur fyrir Ísrael.
11 Og Ísraelsmenn fóru út frá Mispa og eltu Filista og drápu þá á flóttanum, allt þar til komið var niður fyrir Betkar.
12 Þá tók Samúel stein og reisti hann upp milli Mispa og Jesjana og kallaði hann Ebeneser og sagði: "Hingað til hefir Drottinn hjálpað oss."
13 Þannig voru Filistar yfirbugaðir, og komu þeir ekki framar inn í land Ísraels. Og hönd Drottins var gegn Filistum meðan Samúel lifði.
14 En borgir þær, sem Filistar höfðu tekið frá Ísrael, komu aftur undir Ísrael, frá Ekron allt til Gat, og landinu, er að þeim lá, náði Ísrael einnig úr höndum Filista. Og friður komst á milli Ísraels og Amoríta.
15 Samúel dæmdi Ísrael meðan hann lifði.
16 Og hann ferðaðist um á ári hverju og kom til Betel, Gilgal og Mispa og dæmdi Ísrael á öllum þessum stöðum.
17 Og hann sneri aftur til Rama, því að þar átti hann heima, og þar dæmdi hann Ísrael. Og hann reisti Drottni þar altari.
8 Er Samúel var orðinn gamall, setti hann sonu sína dómara yfir Ísrael.
2 Frumgetinn sonur hans hét Jóel, en annar sonur hans Abía. Þeir dæmdu í Beerseba.
3 En synir hans fetuðu ekki í fótspor hans, heldur hneigðust þeir til ágirndar og þágu mútur og hölluðu réttinum.
4 Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman og fóru á fund Samúels í Rama
5 og sögðu við hann: "Sjá, þú ert nú orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Set oss því konung til að dæma oss, eins og er hjá öllum öðrum þjóðum."
6 En Samúel mislíkaði það, að þeir sögðu: "Gef oss konung til þess að dæma oss!" Og Samúel bað til Drottins.
7 Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, því að þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim.
8 Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag. Þeir hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Öldungis á sama hátt fara þeir nú og með þig.
9 Lát því nú að orðum þeirra. Þó skalt þú vara þá alvarlega við, og segja þeim háttu konungsins, sem ríkja á yfir þeim."
10 Þá sagði Samúel lýðnum, sem heimti af honum konung, öll orð Drottins
11 og mælti: "Þessi mun verða háttur konungsins, sem yfir yður á að ríkja: Sonu yðar mun hann taka og setja þá við vagn sinn og á hesta sína, og þeir munu hlaupa fyrir vagni hans,
12 og hann mun skipa þá höfuðsmenn yfir þúsund og höfuðsmenn yfir fimmtíu, og setja þá til að plægja akurland sitt og skera upp korn sitt og gjöra hernaðartygi sín og ökutygi.
13 Og dætur yðar mun hann taka og láta þær búa til smyrsl, elda og baka.
14 Og bestu lendur yðar, víngarða og olífugarða mun hann taka og gefa þjónum sínum,
15 og af sáðlöndum yðar og víngörðum mun hann taka tíund og gefa hana geldingum sínum og þjónum sínum.
16 Og þræla yðar og ambáttir og hina bestu uxa yðar og asna yðar mun hann taka og hafa til sinna verka.
17 Af sauðfénaði yðar mun hann taka tíund, en sjálfir munuð þér verða þrælar hans.
18 Þá munuð þér hrópa undan konungi yðar, er þér þá hafið kjörið yður, en þá mun Drottinn ekki svara yður."
19 En fólkið vildi ekki hlýða fortölum Samúels og sagði: "Nei, konungur skal yfir oss vera,
20 svo að vér séum eins og allar aðrar þjóðir, og konungur vor skal dæma oss og vera fyrirliði vor og heyja bardaga vora."
21 Samúel hlýddi á öll ummæli lýðsins og tjáði þau fyrir Drottni.
22 En Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum þeirra og set yfir þá konung." Þá sagði Samúel við Ísraelsmenn: "Farið burt, hver til síns heimkynnis."
6 Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist?
2 Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni?
3 Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans?
4 Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.
5 Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans.
6 Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni.
7 Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.
8 Ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa.
9 Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum.
10 Með dauða sínum dó hann syndinni í eitt skipti fyrir öll, en með lífi sínu lifir hann Guði.
11 Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú.
12 Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans.
13 Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn.
14 Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð.
15 Hvað þá? Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því.
16 Vitið þér ekki, að ef þér bjóðið öðrum sjálfa yður fyrir þjóna og hlýðið honum, þá eruð þér þjónar þess, sem þér hlýðið, hvort heldur er syndar til dauða eða hlýðni til réttlætis?
17 En þökk sé Guði! Þér voruð þjónar syndarinnar, en urðuð af hjarta hlýðnir þeirri kenningu, sem þér voruð á vald gefnir.
18 Og þér gjörðust þjónar réttlætisins eftir að hafa verið leystir frá syndinni.
19 Ég tala á mannlegan hátt, sökum veikleika yðar. Því að eins og þér hafið boðið limi yðar óhreinleikanum og ranglætinu fyrir þjóna til ranglætis, svo skuluð þér nú bjóða limi yðar réttlætinu fyrir þjóna til helgunar.
20 Þegar þér voruð þjónar syndarinnar, þá voruð þér lausir við réttlætið.
21 Hvaða ávöxtu höfðuð þér þá? Þá sem þér nú blygðist yðar fyrir, því að þeir leiða að lokum til dauða.
22 En nú, með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og eilíft líf að lokum.
23 Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.
44 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn, sem bjuggu í Egyptalandi, þá er bjuggu í Migdól, Takpanes, Nóf og í Patróslandi:
2 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þér hafið séð alla þá óhamingju, sem ég hefi leitt yfir Jerúsalem og yfir allar borgirnar í Júda. Þær eru nú eyðirústir, og enginn maður býr í þeim.
3 Er það sakir illsku þeirrar, er þeir höfðu í frammi, að egna mig til reiði með því að fara og færa öðrum guðum reykelsisfórnir, er þeir ekki þekktu, hvorki þeir, né þér, né feður yðar.
4 Ég sendi til yðar alla þjóna mína, spámennina, bæði seint og snemma, til þess að segja yður: "Fremjið eigi slíka svívirðing, sem ég hata!"
5 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, að þeir sneru sér frá vonsku sinni, svo að þeir færðu ekki öðrum guðum reykelsisfórnir.
6 Þá var heift minni og reiði úthellt, og hún brann í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum, svo að þær urðu að rúst, að auðn, eins og þær nú eru.
7 Og nú _ svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð _ hví viljið þér gjöra sjálfum yður mikið tjón, með því að uppræta fyrir yður bæði menn og konur, börn og brjóstmylkinga úr Júda, svo að þér látið engar leifar af yður eftir verða,
8 þar sem þér egnið mig til reiði með handaverkum yðar, þar sem þér færið öðrum guðum reykelsisfórnir í Egyptalandi, þangað sem þér eruð komnir, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, til þess að þér verðið upprættir og til þess að þér verðið að formæling og spotti meðal allra þjóða á jörðu?
9 Hafið þér gleymt illgjörðum feðra yðar og illgjörðum Júdakonunga og illgjörðum höfðingja yðar og yðar eigin illgjörðum og illgjörðum kvenna yðar, er framdar hafa verið í Júda og á strætum Jerúsalem?
10 Ekki hafa þeir auðmýkt sig enn og ekki hafa þeir óttast né farið eftir lögmáli mínu og setningum, er ég lagði fyrir yður og fyrir feður yðar.
11 Fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég sný andliti mínu gegn yður til óhamingju, og það til þess að uppræta allan Júda.
12 Og ég vil hrífa burt leifar Júdamanna, þá er ásettu sér að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn. Allir skulu þeir farast, falla í Egyptalandi, fyrir sverði og af hungri skulu þeir farast, bæði smáir og stórir, fyrir sverði og af hungri skulu þeir deyja. Og þeir skulu verða að bölvun, að skelfing, að formæling og að spotti.
13 Og ég mun vitja þeirra, sem búa í Egyptalandi, eins og ég vitjaði Jerúsalem, með sverði, hungri og drepsótt.
14 Og af leifum Júdamanna, þeim er komnir eru til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skal enginn af bjargast eða undan komast, svo að hann geti horfið aftur til Júda, þangað sem þá langar til að hverfa aftur, til þess að búa þar, því að þeir munu eigi hverfa heim aftur, nema fáeinir, sem undan komast.
15 Þá svöruðu allir mennirnir, sem vissu að konur þeirra færðu öðrum guðum reykelsisfórnir, og allar konurnar, sem stóðu þar í miklum hóp, og allur lýðurinn, sem bjó í Egyptalandi, í Patrós, Jeremía á þessa leið:
16 "Viðvíkjandi því, er þú hefir til vor talað í nafni Drottins, þá ætlum vér ekki að hlýða þér,
17 heldur ætlum vér að halda með öllu heit það, er vér höfum gjört, að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, eins og vér gjörðum og feður vorir, konungar vorir og höfðingjar vorir í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum. Þá höfðum vér nægð brauðs og oss leið vel, og vér litum enga óhamingju.
18 En síðan vér hættum að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, hefir oss skort allt, og vér höfum farist fyrir sverði og af hungri.
19 Og þar sem vér nú færum himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, er það án vilja og vitundar manna vorra, að vér gjörum henni kökur, til þess að gjöra þann veg mynd af henni, og færum henni dreypifórnir?"
20 Þá mælti Jeremía á þessa leið til alls lýðsins, til karlmannanna og kvennanna og til alls lýðsins, er honum hafði svo svarað:
21 "Reykjargjörð sú, er þér gjörðuð í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum, þér og feður yðar, konungar yðar og höfðingjar og landslýðurinn, _ hvort minntist Drottinn hennar ekki, hvort kom hún honum ekki í hug?
22 Og Drottinn gat ekki lengur þolað vonskuverk yðar og svívirðingar þær, er þér frömduð. Og þannig varð land yðar að auðn og skelfing og formæling, íbúalaust, svo sem það enn er,
23 sakir þess að þér færðuð reykelsisfórnir og syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð ekki skipun Drottins og fóruð ekki eftir lögmáli hans, setningum og boðorðum. Fyrir því kom þessi ógæfa yfir yður, eins og nú er fram komið."
24 Og Jeremía sagði við allan lýðinn og við allar konurnar: Heyrið orð Drottins, allir þér Júdamenn, sem í Egyptalandi eruð!
25 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þér konur. Þér hafið talað það með munni yðar og framkvæmt það með höndum yðar, sem þér segið: "Vér viljum halda heit vor, er vér höfum gjört, að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir!" Þá efnið heit yðar og haldið heit yðar!
26 Heyrið því orð Drottins, allir Júdamenn, þér sem í Egyptalandi búið: Sjá, ég sver við mitt mikla nafn _ segir Drottinn: Nafn mitt skal eigi framar nefnt verða af nokkurs Júdamanns munni í öllu Egyptalandi, að hann segi: "Svo sannarlega sem herrann Drottinn lifir."
27 Sjá, ég vaki yfir þeim til óhamingju og eigi til hamingju, og allir Júdamenn, sem í Egyptalandi eru, skulu farast fyrir sverði og af hungri, uns þeir eru gjöreyddir.
28 En þeir, sem komast undan sverðinu, skulu hverfa aftur frá Egyptalandi til Júda, en aðeins fáir menn. Og allar leifar Júda, þeir er komnir eru til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skulu komast að raun um, hvers orð rætist, mitt eða þeirra!
29 Og hafið þetta til marks _ segir Drottinn _ um að ég mun hegna yður á þessum stað, til þess að þér komist að raun um, að ógnanir mínar til yðar um óhamingju muni rætast:
30 Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel Hofra Faraó, Egyptalandskonung, á vald óvinum hans og á vald þeirra, sem sækjast eftir lífi hans, eins og ég seldi Sedekía Júdakonung á vald Nebúkadresars Babelkonungs, er var óvinur hans og sóttist eftir lífi hans.
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!
3 Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]
4 Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.
5 Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.
6 Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.
7 Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.
8 Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.
9 Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.
10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.
11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,
12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.
13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.
14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!
by Icelandic Bible Society