Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 5-6

Filistar höfðu tekið Guðs örk og flutt hana frá Ebeneser til Asdód.

Nú tóku þeir Guðs örk og fluttu hana í musteri Dagóns og settu hana við hliðina á Dagón.

En er Asdód-menn risu árla morguninn eftir, sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Tóku þeir þá Dagón og settu hann aftur á sinn stað.

Og þeir risu árla um morguninn daginn eftir, og sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Höfuð Dagóns og báðar hendur voru brotnar af honum og lágu á þröskuldinum, bolurinn einn var eftir af Dagón. (

Fyrir því stíga prestar Dagóns og allir þeir, sem ganga inn í musteri Dagóns, ekki á þröskuld Dagóns í Asdód, og helst það enn í dag.)

Hönd Drottins lá þungt á Asdód-mönnum, hann skelfdi þá og sló þá með kýlum, bæði Asdód og héraðið umhverfis.

En þegar Asdód-búar sáu, að þetta var þannig, þá sögðu þeir: "Örk Ísraels Guðs skal eigi lengur hjá oss vera, því að hörð er hönd hans á oss og á Dagón, guði vorum."

Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista til sín og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra við örk Ísraels Guðs?" Þeir sögðu: "Flytja skal örk Ísraels Guðs til Gat." Og þeir fluttu örk Ísraels Guðs þangað.

En eftir að þeir höfðu flutt hana þangað, þá kom hönd Drottins yfir borgina með feikna mikilli skelfingu. Hann sló borgarbúa, bæði smáa og stóra, svo að kýli brutust út um þá.

10 Þá sendu þeir Guðs örk til Ekron. En er Guðs örk kom til Ekron, þá kveinuðu Ekroningar og sögðu: "Þeir hafa flutt til mín örk Ísraels Guðs til þess að deyða mig og fólk mitt!"

11 Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista og sögðu: "Sendið burt örk Ísraels Guðs, svo að hún komist á sinn stað og deyði mig ekki og fólk mitt." Því að dauðans angist hafði gripið alla borgina. Hönd Guðs lá þar mjög þungt á.

12 Þeir menn, sem eigi dóu, urðu slegnir kýlum, og kvein borgarinnar sté upp til himins.

Örk Drottins var sjö mánuði í Filistalandi.

Og Filistar kölluðu prestana og spásagnarmennina og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra við örk Drottins? Segið oss til, hvernig vér eigum að senda hana heim á sinn stað."

Þeir svöruðu: "Ef þér sendið burt örk Ísraels Guðs, þá sendið hana ekki gjafalaust, heldur greiðið henni sektarfórn. Þá munuð þér heilir verða, og yður mun verða kunnugt, hvers vegna hönd hans hefir ekki frá yður vikið."

Þá sögðu Filistar: "Hvaða sektarfórn eigum vér að greiða henni?" Þeir svöruðu: "Fimm kýli af gulli og fimm mýs af gulli, eins og höfðingjar Filista eru margir til, því að sama plágan hefir gengið yfir yður og höfðingja yðar.

Búið nú til myndir af kýlum yðar og myndir af músum yðar, þeim er eyða landið, og gefið Ísraels Guði dýrðina: Má vera að hann létti þá af yður hendi sinni og af guði yðar og af landi yðar.

Hvers vegna viljið þér herða hjörtu yðar, eins og Egyptar og Faraó hertu hjarta sitt? Var ekki svo, að þegar hann hafði leikið þá hart, þá slepptu þeir þeim, svo að þeir fóru burt?

Og takið nú og gjörið nýjan vagn og tvær kýr, sem kálfar ganga undir og ok hefir ekki komið á, og beitið kúnum fyrir vagninn, en takið kálfana undan þeim og farið heim með þá.

Takið síðan örk Drottins og setjið hana á vagninn, en gullgripi þá, er þér greiðið henni í sektarfórn, skuluð þér láta í kistil við hlið hennar. Látið hana síðan fara leiðar sinnar.

Og hyggið að: Ef hún fer veginn til síns lands upp til Bet Semes, þá er það hann, sem hefir látið oss þessa miklu ógæfu að höndum bera. En fari hún ekki veginn, þá vitum vér, að ekki er það hönd hans, sem hefir lostið oss; þá er það tilviljun, er oss hefir að höndum borið."

10 Og menn gjörðu svo. Þeir tóku tvær kýr, er kálfar gengu undir, og beittu þeim fyrir vagninn, en kálfana byrgðu þeir inni heima.

11 Síðan settu þeir örk Drottins á vagninn, svo og kistilinn með gullmúsunum og kýlamyndunum.

12 Og kýrnar fóru beina leið til Bet Semes. Þræddu þær brautina og bauluðu án afláts og viku hvorki til hægri né vinstri, og höfðingjar Filista fóru á eftir þeim allt að landamærum Bet Semes.

13 Bet Semes-búar voru að hveitiuppskeru í dalnum. Varð þeim nú litið upp og sáu þeir örkina, og urðu þeir fegnir að sjá hana.

14 Og vagninn kom inn á akur Jósúa í Bet Semes og nam þar staðar. En þar var stór steinn. Og þeir klufu viðinn úr vagninum og fórnuðu kúnum í brennifórn Drottni til handa.

15 En levítarnir tóku örk Drottins niður og kistilinn, sem hjá henni var og gullgripirnir voru í, og settu á stóra steininn. Og Bet Semes-búar fórnuðu brennifórnum og slátruðu sláturfórnum á þeim degi Drottni til handa.

16 Og höfðingjar Filistanna fimm sáu það og fóru þann sama dag aftur til Ekron.

17 En þessi voru gullkýlin, sem Filistar greiddu Drottni í sektarfórn: eitt fyrir Asdód, eitt fyrir Gasa, eitt fyrir Askalon, eitt fyrir Gat, eitt fyrir Ekron,

18 auk þess gullmýsnar, jafnmargar og allar borgir Filistahöfðingjanna fimm, bæði víggirtu borgirnar og bændaþorpin. Og stóri steinninn, er þeir settu örk Drottins niður á, er vottur þessa fram á þennan dag á akri Jósúa í Bet Semes.

19 Drottinn laust nokkra af mönnunum í Bet Semes, af því að þeir skoðuðu örk Drottins, og hann laust af fólkinu sjötíu manns. En fólkið harmaði það, að Drottinn hafði gjört svo mikið mannfall meðal fólksins.

20 Og Bet Semes-búar sögðu: "Hver fær staðist fyrir Drottni, þessum heilaga Guði? Og til hvers mun hann nú fara, er hann fer frá oss?"

21 Þá gerðu þeir sendimenn á fund íbúanna í Kirjat Jearím og létu segja þeim: "Filistar hafa skilað aftur örk Drottins; komið hingað og flytjið hana til yðar."

Bréf Páls til Rómverja 5

Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist.

Fyrir hann höfum vér aðgang að þeirri náð, sem vér lifum í, og vér fögnum í von um dýrð Guðs.

En ekki það eitt: Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði,

en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von.

En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn.

Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega.

Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, _ fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. _

En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.

Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni.

10 Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir.

11 Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir.

12 Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.

13 Því að allt fram að lögmálinu var synd í heiminum, en synd tilreiknast ekki meðan ekki er lögmál.

14 Samt sem áður hefur dauðinn ríkt frá Adam til Móse einnig yfir þeim, sem ekki höfðu syndgað á sömu lund og Adam braut, en Adam vísar til hans sem koma átti.

15 En náðargjöfinni og misgjörðinni verður ekki jafnað saman. Því að hafi hinir mörgu dáið sakir þess að einn féll, því fremur hefur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í hinum eina manni Jesú Kristi, sem er náðargjöf Guðs.

16 Og ekki verður gjöfinni jafnað til þess, sem leiddi af synd hins eina manns. Því að dómurinn vegna þess, sem hinn eini hafði gjört, varð til sakfellingar, en náðargjöfin vegna misgjörða margra til sýknunar.

17 Ef misgjörð hins eina manns hafði í för með sér, að dauðinn tók völd með þeim eina manni, því fremur munu þá þeir, sem þiggja gnóttir náðarinnar og gjafar réttlætisins, lifa og ríkja vegna hins eina Jesú Krists.

18 Eins og af misgjörð eins leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins sýknun og líf fyrir alla menn.

19 Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns, þannig mun hlýðni hins eina réttlæta hina mörgu.

20 En hér við bættist svo lögmálið, til þess að misgjörðin yrði meiri. En þar sem syndin jókst, þar flóði náðin yfir enn meir.

21 Og eins og syndin ríkti í dauðanum, svo skyldi og náðin ríkja fyrir réttlæti til eilífs lífs í Jesú Kristi, Drottni vorum.

Jeremía 43

43 En er Jeremía hafði lokið að mæla til alls lýðsins öll orð Drottins, Guðs þeirra, öll þau orð, er Drottinn, Guð þeirra, hafði sent hann með til þeirra,

þá sögðu Asarja Hósajason og Jóhanan Kareason og allir ofstopafullu mennirnir við Jeremía: "Þú talar lygi! Drottinn, Guð vor, hefir eigi sent þig og sagt: ,Þér skuluð eigi fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn!`

heldur egnir Barúk Neríason þig upp á móti oss, til þess að selja oss á vald Kaldeum, að þeir drepi oss eða herleiði oss til Babýlon."

Og ekki hlýddu Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir og allur lýðurinn skipun Drottins, að vera kyrrir í Júda,

heldur tóku þeir Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir allar leifar Júdamanna, er aftur voru heim komnar frá öllum þeim þjóðum, þangað sem þeir höfðu verið brott reknir, til þess að dveljast í Júda,

menn og konur og börn og konungsdæturnar og allar þær sálir, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði skilið eftir hjá Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, svo og Jeremía spámann og Barúk Neríason,

og fóru til Egyptalands, því að þeir hlýddu ekki skipun Drottins. Og þeir fóru til Takpanes.

Orð Drottins kom til Jeremía í Takpanes:

Tak þér í hönd stóra steina og graf þá í steinlími niður í steinhlaðið, sem er úti fyrir dyrum hallar Faraós í Takpanes, í viðurvist flóttamannanna frá Júda

10 og seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég sendi og læt sækja Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og reisi hásæti hans yfir þessum steinum, er ég hefi grafið niður, og hann skal breiða hásætisdúk sinn yfir þá.

11 Og hann mun koma og ljósta Egyptaland: Hann mun framselja dauðanum þann, sem dauða er ætlaður, herleiðingunni þann, sem herleiðingu er ætlaður, og sverðinu þann, sem sverði er ætlaður!

12 Ég mun leggja eld í musteri guða Egyptalands, og hann mun brenna þau til ösku og flytja burt guði þeirra, og hann mun vefja um sig Egyptalandi, eins og hirðir vefur um sig skikkju sinni. Síðan mun hann fara þaðan óáreittur.

13 Og hann mun brjóta sundur súlurnar í Betsemes í Egyptalandi og brenna musteri guða Egyptalands í eldi.

Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society