M’Cheyne Bible Reading Plan
4 Orð Samúels kom til alls Ísraels. Og Ísrael fór í móti Filistum til hernaðar, og settu þeir herbúðir sínar hjá Ebeneser, en Filistar settu herbúðir sínar hjá Afek.
2 Og Filistar fylktu liði sínu gegn Ísrael, og hallaðist bardaginn: Ísrael beið ósigur fyrir Filistum, og þeir felldu í valinn á vígvellinum um fjögur þúsund manns.
3 Og er lýðurinn kom aftur í herbúðirnar, þá sögðu öldungar Ísraels: "Hví hefir Drottinn látið oss bíða ósigur í dag fyrir Filistum? Vér skulum sækja sáttmálsörk Drottins til Síló, og þegar hún er komin hér meðal vor, mun hún frelsa oss af hendi óvina vorra."
4 Þá sendi lýðurinn menn til Síló, og þeir tóku þaðan sáttmálsörk Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum. Báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, fóru með sáttmálsörk Guðs.
5 En þegar sáttmálsörk Drottins kom í herbúðirnar, þá laust allur Ísrael upp svo miklu fagnaðarópi, að jörðin dundi.
6 Þegar Filistar heyrðu óminn af fagnaðarópinu, sögðu þeir: "Hvað merkir þetta glymjandi fagnaðaróp í herbúðum Hebrea?" Og er þeir urðu þess vísir, að örk Drottins væri komin í herbúðirnar,
7 þá urðu þeir skelkaðir, því að þeir hugsuðu: "Guð er kominn til þeirra í herbúðirnar," og sögðu: "Vei oss, því að slíkt hefir aldrei áður til borið!
8 Vei oss! Hver mun frelsa oss af hendi þessara voldugu guða? Það voru þessir guðir, sem lustu Egypta með alls konar plágum í eyðimörkinni.
9 Herðið ykkur upp og verið menn, Filistar, svo að þér verðið ekki ánauðugir Hebreum, eins og þeir hafa verið yður ánauðugir. Verið því menn og berjist!"
10 Og Filistar börðust, og Ísrael hafði ósigur, og þeir flýðu, hver heim til sín. Og mannfallið var mjög mikið: féllu af Ísrael þrjátíu þúsundir fótgangandi manna.
11 Og Guðs örk var tekin, og báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, létu lífið.
12 Benjamíníti nokkur hljóp úr orustunni og kom til Síló þennan sama dag í rifnum klæðum og með mold á höfði sér.
13 Og er hann kom, sjá, þá sat Elí á stól við hliðið og starði út á veginn, því að hann var hugsjúkur um örk Guðs. Og er maðurinn kom að segja þessi tíðindi í borginni, þá tók öll borgin að kveina.
14 En er Elí heyrði óminn af harmakveininu, sagði hann: "Hvað merkir þessi háreysti?" Og maðurinn hraðaði sér og kom og sagði Elí tíðindin.
15 En Elí var níutíu og átta ára gamall og augu hans stirðnuð, svo að hann mátti ekki sjá.
16 Og maðurinn sagði við Elí: "Ég kem úr orustunni, ég flýði í dag úr orustunni." Þá sagði Elí: "Hvernig hefir það gengið, sonur minn?"
17 Maðurinn, sem tíðindin flutti, svaraði og mælti: "Ísrael er flúinn fyrir Filistum, og líka var mikið mannfall meðal fólksins, og einnig eru báðir synir þínir, þeir Hofní og Pínehas, dauðir, og Guðs örk er tekin."
18 En er hann nefndi Guðs örk, þá féll Elí aftur á bak úr stólnum við hliðið og hálsbrotnaði, og varð það hans bani, því að hann var gamall maður og þungur. En hann hafði verið dómari í Ísrael í fjörutíu ár.
19 Tengdadóttir hans, kona Pínehasar, var þunguð og komin að falli, og er hún heyrði tíðindin, að Guðs örk væri tekin og tengdafaðir hennar og maður dauðir, þá hné hún niður og fæddi, því að jóðsóttin kom yfir hana.
20 En er hún var komin í dauðann, sögðu konurnar, er yfir henni stóðu: "Óttast ekki, því að þú hefir son fætt." En hún svaraði engu og gaf því engan gaum,
21 heldur nefndi sveininn Íkabóð og sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael" _ vegna þess að Guðs örk var tekin, og vegna tengdaföður síns og manns síns.
22 Hún sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael, því að Guðs örk er tekin."
4 Hvað eigum vér þá að segja um Abraham, forföður vorn, hvað ávann hann?
2 Ef hann réttlættist af verkum, þá hefur hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði.
3 Því hvað segir ritningin: "Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis."
4 Þeim sem vinnur verða launin ekki reiknuð af náð, heldur eftir verðleika.
5 Hinum aftur á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann sem réttlætir óguðlegan, er trú hans reiknuð til réttlætis.
6 Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan, sem Guð tilreiknar réttlæti án tillits til verka:
7 Sælir eru þeir, sem afbrotin eru fyrirgefin og syndir þeirra huldar.
8 Sæll er sá maður, sem Drottinn tilreiknar ekki synd.
9 Nær þá sæluboðun þessi aðeins til umskorinna manna? Eða líka til óumskorinna? Vér segjum: "Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð."
10 Hvernig var hún þá tilreiknuð honum? Umskornum eða óumskornum? Hann var ekki umskorinn, heldur óumskorinn.
11 Og hann fékk tákn umskurnarinnar sem staðfestingu þess réttlætis af trú, sem hann átti óumskorinn. Þannig skyldi hann vera faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir, til þess að réttlætið tilreiknist þeim,
12 og eins faðir þeirra umskornu manna, sem eru ekki aðeins umskornir heldur feta veg þeirrar trúar, er faðir vor Abraham hafði óumskorinn.
13 Ekki var Abraham eða niðjum hans fyrir lögmál gefið fyrirheitið, að hann skyldi verða erfingi heimsins, heldur fyrir trúar-réttlæti.
14 Ef lögmálsmennirnir eru erfingjar, er trúin ónýtt og fyrirheitið að engu gjört.
15 Því að lögmálið vekur reiði. En þar sem ekki er lögmál, þar eru ekki heldur lögmálsbrot.
16 Því er fyrirheitið byggt á trú, til þess að það sé af náð, og megi stöðugt standa fyrir alla niðja hans, ekki fyrir þá eina, sem hafa lögmálið, heldur og fyrir þá, sem eiga trú Abrahams. Hann er faðir vor allra,
17 eins og skrifað stendur: "Föður margra þjóða hef ég sett þig." Og það er hann frammi fyrir Guði, sem hann trúði á, honum sem lífgar dauða og kallar fram það, sem ekki er til eins og það væri til.
18 Abraham trúði með von, gegn von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða, samkvæmt því sem sagt hafði verið: "Svo skal afkvæmi þitt verða."
19 Og ekki veiklaðist hann í trúnni þótt hann minntist þess, að hann var kominn að fótum fram _ hann var nálega tíræður, _ og að Sara gat ekki orðið barnshafandi sakir elli.
20 Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina,
21 og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.
22 "Fyrir því var það honum og til réttlætis reiknað."
23 En að það var honum tilreiknað, það var ekki ritað hans vegna einungis,
24 heldur líka vor vegna. Oss mun það tilreiknað verða, sem trúum á hann, sem uppvakti Jesú, Drottin vorn, frá dauðum,
25 hann sem var framseldur vegna misgjörða vorra og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.
42 Þá komu allir hershöfðingjarnir og meðal þeirra Jóhanan Kareason og Asarja Hósajason og allur lýðurinn, bæði smáir og stórir,
2 og sögðu við Jeremía spámann: "Veit oss auðmjúka bæn vora og bið þú til Drottins, Guðs þíns, fyrir oss, fyrir öllum þessum leifum, sem vér erum, því að fáir erum vér eftir orðnir af mörgum, eins og þú sjálfur sér á oss.
3 Bið þú þess, að Drottinn, Guð þinn, gjöri oss kunnan þann veg, er vér eigum að fara, og það, sem vér eigum að gjöra."
4 En Jeremía spámaður sagði við þá: "Gott og vel! Ég skal biðja til Drottins, Guðs yðar, samkvæmt tilmælum yðar, og allt það, er Drottinn svarar yður, það skal ég segja yður. Engu skal ég leyna yður."
5 Og þeir sögðu við Jeremía: "Drottinn sé sannur og áreiðanlegur vottur gegn oss! Vér munum með öllu fara eftir þeim orðum, er Drottinn, Guð þinn, sendir þig með til vor,
6 hvort sem það verður gott eða illt. Skipun Drottins, Guðs vors, sem vér sendum þig til, viljum vér hlýða, til þess að oss megi vel vegna, er vér hlýðum skipun Drottins, Guðs vors."
7 Og að tíu dögum liðnum kom orð Drottins til Jeremía,
8 og hann kallaði Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana saman, sem með honum voru, og allan lýðinn, bæði smáa og stóra,
9 og sagði við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð, er þér senduð mig til, að ég bæri fram fyrir hann auðmjúka bæn yðar:
10 Ef þér búið kyrrir í þessu landi, vil ég uppbyggja yður og ekki rífa niður, og ég vil gróðursetja yður og ekki uppræta, því að mig iðrar hins illa, er ég hefi gjört yður.
11 Óttist ekki Babelkonung, sem þér nú óttist, óttist hann ekki _ segir Drottinn _ því að ég er með yður til þess að hjálpa yður og til þess að frelsa yður undan hans valdi.
12 Og ég vil veita yður þá miskunn, að hann miskunni yður og láti yður snúa aftur heim í land yðar.
13 En ef þér segið: "Vér viljum eigi búa kyrrir í þessu landi!" og hlýðið eigi skipun Drottins, Guðs yðar,
14 en segið: "Nei, heldur viljum vér fara til Egyptalands, svo að vér þurfum ekki að sjá stríð, né heyra lúðurþyt, né hungra eftir brauði, og þar viljum vér setjast að!" _
15 þá heyrið nú þess vegna orð Drottins, þér leifar Júdamanna: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ef þér eruð alvarlega að hugsa um að fara til Egyptalands og komist þangað, til þess að dveljast þar sem flóttamenn,
16 þá skal sverðið, sem þér nú óttist, ná yður þar, í Egyptalandi, og hungrið, sem þér nú hræðist, skal elta yður til Egyptalands, og þar skuluð þér deyja.
17 Og allir þeir menn, sem eru að hugsa um að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skulu deyja fyrir sverði og af hungri og drepsótt, og enginn þeirra skal sleppa við né komast undan ógæfu þeirri, er ég leiði yfir þá.
18 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Eins og reiði minni og heift var úthellt yfir Jerúsalembúa, svo skal og heift minni úthellt verða yfir yður, er þér farið til Egyptalands, og þér skuluð verða að formæling, að skelfing, að bölbænarformála og að háðung, og eigi framar sjá þennan stað.
19 Drottinn hefir svo til yðar talað, þér leifar Júdamanna: Farið eigi til Egyptalands! Vita skuluð þér, að nú hefi ég varað yður við.
20 Því að þér dróguð sjálfa yður á tálar, er þér senduð mig til Drottins, Guðs yðar, og sögðuð: "Bið til Drottins, Guðs vors, fyrir oss og seg oss nákvæmlega svo frá sem Drottinn, Guð vor, mælir, og vér skulum gjöra það!"
21 Nú hefi ég sagt yður frá því í dag, en þér hafið ekki hlýtt skipun Drottins, Guðs yðar, viðvíkjandi öllu því, er hann hefir sent mig með til yðar.
22 Og vita skuluð þér nú, að þér munuð deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt á þeim stað, þangað sem yður lystir að fara, til þess að dveljast þar sem flóttamenn.
18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.
2 Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.
3 Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.
5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.
7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.
8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,
9 reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.
10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.
11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.
12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.
13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.
14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.
16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.
17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.
18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.
19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.
20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.
21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,
22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.
23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.
24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.
25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.
26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,
27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.
28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.
29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.
30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.
31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.
32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?
33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,
34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,
35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.
36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.
37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.
38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.
39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.
40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.
41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.
42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.
43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.
44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.
45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.
46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.
47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,
48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,
49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.
50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.
51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.
by Icelandic Bible Society