M’Cheyne Bible Reading Plan
1 Maður er nefndur Elkana. Hann var frá Ramataím-Sófím, frá Efraímfjöllum; hann var sonur Jeróhams Elíhúsonar, Tóhúsonar, Súfssonar Efraímíta.
2 Elkana átti tvær konur. Hét önnur Hanna, en hin Peninna. Peninna átti börn, en Hanna átti engin börn.
3 Þessi maður fór á ári hverju úr borg sinni til þess að biðjast fyrir og til þess að færa Drottni allsherjar fórnir í Síló. En þar voru báðir synir Elí, Hofní og Pínehas, prestar Drottins.
4 Í hvert sinn er Elkana fórnaði, þá gaf hann Peninnu, konu sinni, og öllum sonum hennar og dætrum sinn hlut hverju.
5 Hann gaf Hönnu ekki nema einn hlut, þótt hann elskaði hana, en Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar.
6 Elja hennar skapraunaði henni einnig til þess að reita hana til reiði, af því að Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar.
7 Svo gjörði Elkana ár eftir ár, í hvert skipti sem þau fóru upp til húss Drottins, og þannig skapraunaði hún henni. Hanna grét og neytti eigi matar.
8 Þá sagði Elkana, maður hennar, við hana: "Hanna, hví grætur þú og hví neytir þú eigi matar og hví liggur svo illa á þér? Er ég þér ekki betri en tíu synir?"
9 Og Hanna stóð upp, þá er þau höfðu etið í Síló og þá er þau höfðu drukkið. En Elí prestur sat á stól við dyrastafinn á musteri Drottins.
10 Hanna var sárhrygg. Hún bað til Drottins og grét mjög,
11 gjörði heit og mælti: "Drottinn allsherjar! Ef þú lítur á eymd ambáttar þinnar og minnist mín og gleymir eigi ambátt þinni og gefur ambátt þinni son, þá skal ég gefa hann Drottni alla daga ævi hans, og eigi skal rakhnífur koma á höfuð honum."
12 Er hún gjörði lengi bæn sína fyrir augliti Drottins, og Elí tók eftir munni hennar, _
13 en Hanna mæltist fyrir í hljóði; bærðust aðeins varirnar, en rödd hennar heyrðist ekki _, þá hélt Elí, að hún væri drukkin.
14 Þá sagði Elí við hana: "Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þig drukkna? Láttu vímuna renna af þér!"
15 Hanna svaraði og sagði: "Nei, herra minn, ég er kona með hryggð í hjarta. Vín hefi ég ekki drukkið né áfengan drykk, en ég hefi úthellt hjarta mínu fyrir Drottni.
16 Ætla þú eigi, að ambátt þín sé afhrak, því að af mínum mikla harmi og trega hefi ég talað hingað til."
17 Elí svaraði og sagði: "Far þú í friði. Ísraels Guð mun veita þér það, er þú hefir beðið hann um."
18 Hanna mælti: "Ó að ambátt þín mætti finna náð í augum þínum!" Síðan fór konan leiðar sinnar og mataðist og var eigi framar með döpru bragði.
19 Morguninn eftir risu þau árla og gjörðu bæn sína fyrir augliti Drottins, sneru síðan aftur og komu heim til Rama. Og Elkana kenndi Hönnu konu sinnar, og Drottinn minntist hennar.
20 Og er ár var liðið, hafði Hanna orðið þunguð og alið son, og hún nefndi hann Samúel, "því að ég hefi beðið Drottin um hann."
21 Elkana fór nú með alla fjölskyldu sína til þess að færa Drottni hina árlegu fórn og áheit sitt.
22 En Hanna fór ekki, heldur sagði við mann sinn: "Ég fer ekki fyrr en sveinninn er vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann, svo að hann birtist fyrir augliti Drottins og verði þar ávallt upp frá því."
23 Elkana, maður hennar, sagði við hana: "Gjör þú sem þér vel líkar. Ver þú kyrr heima, uns þú hefir vanið hann af brjósti. Drottinn láti aðeins orð þín rætast." Síðan var konan kyrr heima og hafði son sinn á brjósti, uns hún vandi hann af.
24 En er hún hafði vanið hann af brjósti, fór hún með hann og hafði með sér þriggja ára gamalt naut og eina efu mjöls og legil víns. Og hún fór með hann í hús Drottins í Síló. En sveinninn var þá ungur.
25 Þau slátruðu nautinu og fóru með sveininn til Elí.
26 Og hún sagði: "Heyr, herra minn! Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, er ég kona sú, er stóð hér hjá þér til þess að gjöra bæn mína til Drottins.
27 Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um.
28 Fyrir því vil ég og ljá Drottni hann. Svo lengi sem hann lifir, skal hann vera Drottni léður." Og þau féllu þar fram fyrir Drottin.
1 Páll heilsar yður, þjónn Jesú Krists, kallaður til postula, kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs,
2 sem hann gaf áður fyrirheit um fyrir munn spámanna sinna í helgum ritningum,
3 fagnaðarerindið um son hans, Jesú Krist, Drottin vorn, sem að holdinu er fæddur af kyni Davíðs,
4 en að anda heilagleikans með krafti auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum.
5 Fyrir hann hef ég öðlast náð og postuladóm til að vekja hlýðni við trúna meðal allra heiðingjanna, vegna nafns hans.
6 Meðal þeirra eruð þér einnig, þér sem Jesús Kristur hefur kallað sér til eignar.
7 Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm, sem heilagir eru samkvæmt köllun. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
8 Fyrst þakka ég Guði mínum sakir Jesú Krists fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum.
9 Guð, sem ég þjóna í anda mínum með fagnaðarerindinu um son hans, er mér vottur þess, hve óaflátanlega ég minnist yðar
10 í bænum mínum. Ég bið stöðugt um það, að mér mætti loks einhvern tíma auðnast, ef Guð vildi svo verða láta, að koma til yðar.
11 Því að ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist,
12 eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.
13 Ég vil ekki, bræður, að yður sé ókunnugt um, að ég hef oftsinnis ásett mér að koma til yðar, en hef verið hindraður allt til þessa. Ég vildi fá einhvern ávöxt einnig á meðal yðar, eins og með öðrum heiðnum þjóðum.
14 Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa.
15 Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður, sem eruð í Róm.
16 Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum.
17 Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú."
18 Reiði Guðs opinberast af himni yfir öllu guðleysi og rangsleitni þeirra manna, er kefja sannleikann með rangsleitni,
19 með því að það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það.
20 Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.
21 Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum, heldur hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri.
22 Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar.
23 Þeir skiptu á vegsemd hins ódauðlega Guðs og myndum, sem líktust dauðlegum manni, fuglum, ferfætlingum og skriðkvikindum.
24 Þess vegna hefur Guð ofurselt þá fýsnum hjartna þeirra til saurlifnaðar, til þess að þeir svívirtu líkami sína hver með öðrum.
25 Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans, hans sem er blessaður að eilífu. Amen.
26 Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg,
27 og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.
28 Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt,
29 fylltir alls konar rangsleitni, vonsku, ágirnd, illsku, fullir öfundar, manndrápa, deilu, sviksemi, illmennsku. Þeir eru rógberar,
30 bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir, foreldrum óhlýðnir,
31 óskynsamir, óáreiðanlegir, kærleikslausir, miskunnarlausir,
32 þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir. Samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum.
39 Á níunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, í tíunda mánuðinum, kom Nebúkadresar konungur í Babýlon og allur her hans til Jerúsalem, og settust um hana.
2 En á ellefta ríkisári Sedekía, í fjórða mánuðinum, níunda dag mánaðarins, var brotið skarð inn í borgina.
3 En er Jerúsalem var unnin, komu allir hershöfðingjar Babelkonungs og settust að í Miðhliðinu, þeir Nergalsareser, höfðingi í Símmagir, Nebúsarsekím hirðstjóri og margir aðrir höfðingjar Babelkonungs.
4 En er Sedekía Júdakonungur og allir hermennirnir sáu þetta, flýðu þeir og fóru um nóttina út úr borginni, veginn sem liggur út að konungsgarðinum, gegnum hliðið milli beggja múranna og héldu leiðina til Jórdandalsins.
5 En her Kaldea veitti þeim eftirför og náði Sedekía á Jeríkó-völlum. Tóku þeir hann og fluttu hann til Ribla í Hamathéraði til Nebúkadresars Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans.
6 Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía í Ribla fyrir augum hans. Sömuleiðis lét Babelkonungur drepa alla tignarmenn í Júda.
7 En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon.
8 Kaldear brenndu konungshöllina og hús lýðsins og rifu niður múra Jerúsalem.
9 En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með honum, og leifar lýðsins, þá er eftir voru, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon,
10 en af almúgamönnum, sem ekkert áttu, lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir í Júda og gaf þeim þann dag víngarða og akra.
11 En um Jeremía gaf Nebúkadresar Babelkonungur út svolátandi skipun fyrir milligöngu Nebúsaradans lífvarðarforingja:
12 "Tak hann og annast hann og gjör honum ekkert illt, heldur gjör við hann svo sem hann mælist til við þig!"
13 Þá sendu þeir Nebúsaradan lífvarðarforingi og Nebúsasban hirðstjóri og Nergalsareser hershöfðingi og allir yfirmenn Babelkonungs
14 menn og létu sækja Jeremía í varðgarðinn og seldu hann í hendur Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, að hann færi með hann heim. Og þannig varð hann kyrr meðal lýðsins.
15 Meðan Jeremía sat innilokaður í varðgarðinum, hafði orð Drottins komið til hans:
16 Far og seg við Ebed-Melek Blálending: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég læt orð mín um ógæfu, en eigi um hamingju, koma fram á þessari borg, og þau skulu rætast fyrir augum þínum á þeim degi.
17 En ég skal frelsa þig á þeim degi _ segir Drottinn _ og þú skalt ekki seldur verða á vald mönnum þeim, er þú hræðist,
18 heldur skal ég láta þig komast undan og þú skalt ekki falla fyrir sverði, og þú skalt hljóta líf þitt að herfangi, af því að þú hefir treyst mér _ segir Drottinn.
13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
3 Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?
4 Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,
5 að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.
6 Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.
14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.
4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
by Icelandic Bible Society