Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Rutarbók 3-4

Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel?

Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum.

Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið.

En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."

Og hún svaraði henni: "Ég vil gjöra allt, sem þú segir."

Síðan gekk hún ofan í láfann og gjörði allt svo sem tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt.

Er Bóas hafði etið og drukkið og var í góðu skapi, þá fór hann og lagðist til hvíldar við endann á kornbingnum. Þá kom hún hljóðlega, fletti upp ábreiðunni til fóta honum og lagðist niður.

En um miðnætti varð manninum bilt við, og er hann settist upp, sjá, þá lá kona til fóta honum.

Og hann sagði: "Hver ert þú?" Hún svaraði: "Ég er Rut ambátt þín. Breið þú væng þinn yfir ambátt þína, því að þú ert lausnarmaður."

10 Þá sagði hann: "Blessuð sért þú af Drottni, dóttir mín! Þú hefir nú síðast sýnt elsku þína enn betur en áður, með því að elta ekki ungu mennina, hvorki fátækan né ríkan.

11 Og ver þú nú óhrædd, dóttir mín. Að öllu, svo sem þú segir, mun ég við þig gjöra, því að allir samborgarmenn mínir vita, að þú ert væn kona.

12 Nú er það að vísu satt, að ég er lausnarmaður, en þó er til annar lausnarmaður, sem er nákomnari en ég.

13 Vertu hér í nótt, en á morgun, ef hann þá vill leysa þig, gott og vel, þá gjöri hann það, en vilji hann ekki leysa þig, þá mun ég leysa þig, svo sannarlega sem Drottinn lifir. Liggðu nú kyrr til morguns."

14 Hún lá til fóta honum til morguns. Þá stóð hún upp, áður en menn gátu þekkt hvor annan. Því að hann hugsaði: "Það má eigi spyrjast, að konan hafi komið í láfann."

15 Og hann sagði: "Kom þú með möttulinn, sem þú ert í, og haltu honum út." Og hún hélt honum út. Þá mældi hann sex mæla byggs og lyfti á hana. Síðan fór hún inn í borgina.

16 Er Rut kom til tengdamóður sinnar, mælti hún: "Hvernig gekk þér, dóttir mín?" Þá sagði hún henni frá öllu því, er maðurinn hafði við hana gjört.

17 Og hún sagði: "Þessa sex mæla byggs gaf hann mér, því að hann sagði: ,Þú mátt ekki fara heim til tengdamóður þinnar með tvær hendur tómar."`

18 Þá sagði Naomí: "Ver þú nú kyrr, dóttir mín, uns þú fréttir, hvernig málum lýkur, því að maðurinn mun ekki hætta fyrr en hann leiðir þetta mál til lykta í dag."

Bóas gekk upp í borgarhliðið og settist þar. Þá bar svo við, að lausnarmaðurinn gekk fram hjá, sá er Bóas hafði talað um. Bóas sagði: "Kom þú og sestu hér, þú þarna!" Og hann sneri þangað og settist niður.

Þá tók hann tíu menn af öldungum borgarinnar og sagði: "Setjist hér!" Og þeir settust niður.

Síðan sagði hann við lausnarmanninn: "Akurland það, er Elímelek frændi okkar átti, hefir Naomí selt, sú sem heim er komin úr Móabslandi.

Og ég hugsaði, að ég skyldi láta þig vita það og segja: ,Kaup það nú í viðurvist þeirra, er hér eru, og í viðurvist öldunga fólks míns.` Ef þú vilt leysa, þá leystu. En ef þú vilt ekki leysa, þá segðu mér frá því, svo að ég viti það. Því að enginn er til, sem getur leyst, nema þú, og ég eftir þig." Hinn sagði: "Ég ætla að leysa."

Þá sagði Bóas: "Um leið og þú kaupir landið af Naomí, hefir þú og keypt Rut hina móabítísku, ekkju hins framliðna, til þess að reisa nafn hins framliðna á arfleifð hans."

Þá sagði lausnarmaðurinn: "Ég get ekki leyst það handa mér, því að þá kynni ég að spilla arfleifð minni. Leys þú handa þér það, sem ég átti að leysa, því að ég get ekki leyst það."

Það var fyrrum siður í Ísrael við endurlausn og skipti, er menn vildu staðfesta allar gjörðir, að annar tók af sér skóinn og fékk hinum. Þetta var vottfesting í Ísrael.

Þá sagði lausnarmaðurinn við Bóas: "Kaup þú það handa þér!" og tók af sér skóinn.

Bóas sagði við öldungana og allt fólkið: "Þér eruð í dag vottar að því, að ég hefi keypt af Naomí allt það, sem Elímelek átti, svo og allt það, sem þeir Kiljón og Mahlón áttu.

10 Einnig hefi ég keypt Rut hina móabítísku, ekkju Mahlóns, mér að konu, til þess að reisa nafn hins framliðna á arfleifð hans, svo að nafn hins framliðna upprætist eigi meðal bræðra hans og úr borgarhliði hans. Þér eruð vottar þess í dag."

11 Þá sagði allt fólkið, sem var í hliðinu, og öldungarnir: "Vér erum vottar að því. Drottinn gjöri konuna, sem í hús þitt kemur, slíka sem þær voru Rakel og Lea, er báðar reistu Ísraels hús. Veitist þér vald í Efrata og verðir þú frægur í Betlehem.

12 Og verði hús þitt sem hús Peres, sem Tamar fæddi Júda, fyrir afsprengi það, sem Drottinn gefur þér við þessari ungu konu."

13 Síðan gekk Bóas að eiga Rut, og hún varð kona hans. Og hann gekk inn til hennar, og Drottinn veitti henni getnað, og ól hún son.

14 Þá sögðu konurnar við Naomí: "Lofaður sé Drottinn, sem eigi hefir látið þig bresta lausnarmann í dag, svo að nafn hans mun nefnt verða í Ísrael.

15 Hann mun verða huggun þín og ellistoð, því að tengdadóttir þín, sem elskar þig, hefir alið hann, hún, sem er þér betri en sjö synir."

16 Naomí tók barnið og lagði það á skaut sér og varð fóstra þess.

17 Og grannkonurnar gáfu honum nafn og sögðu: "Naomí er fæddur sonur!" og nefndu hann Óbeð. Hann var faðir Ísaí, föður Davíðs.

18 Þetta er ættartala Peres: Peres gat Hesron,

19 og Hesron gat Ram, og Ram gat Ammínadab,

20 og Ammínadab gat Nakson, og Nakson gat Salmón,

21 og Salmón gat Bóas, og Bóas gat Óbeð,

Postulasagan 28

28 Nú sem vér vorum heilir á land komnir, fengum vér að vita, að eyjan hét Malta.

Eyjarskeggjar sýndu oss einstaka góðmennsku. Þeir kyntu bál og hlynntu að oss öllum, en kalt var í veðri og farið að rigna.

Páll tók saman hrísvöndul og lagði á eldinn. Skreið þá út naðra undan hitanum og festi sig á hönd hans.

Þegar eyjarskeggjar sáu kvikindið hanga á hendi hans, sögðu þeir hver við annan: "Það er víst, að þessi maður er manndrápari, fyrst refsinornin lofar honum ekki að lifa, þótt hann hafi bjargast úr sjónum."

En hann hristi kvikindið af sér í eldinn og sakaði ekki.

Þeir bjuggust við, að hann mundi bólgna upp eða detta sviplega dauður niður. En þá er þeir höfðu beðið þess lengi og sáu, að honum varð ekkert meint af, skiptu þeir um og sögðu hann guð vera.

Í grennd við stað þennan átti búgarð æðsti maður á eynni, Públíus að nafni. Hann tók við oss og hélt oss í góðu yfirlæti þrjá daga.

Svo vildi til, að faðir Públíusar lá sjúkur með hitaköstum og blóðsótt. Páll gekk inn til hans, baðst fyrir, lagði hendur yfir hann og læknaði hann.

Eftir þetta komu aðrir þeir, er sjúkir voru á eynni, og voru læknaðir.

10 Höfðu þeir oss í hávegum, og er vér skyldum sigla, gáfu þeir oss allt, sem vér þurftum til fararinnar.

11 Að liðnum þrem mánuðum lögðum vér til hafs á skipi frá Alexandríu, sem legið hafði við eyna um veturinn og bar merki Tvíburanna.

12 Vér tókum höfn í Sýrakúsu og dvöldumst þar þrjá daga.

13 Þaðan sigldum vér í sveig og komum til Regíum. Að degi liðnum fengum vér sunnanvind og komum á öðrum degi til Púteólí.

14 Þar hittum vér bræður, og báðu þeir oss að dveljast hjá sér í viku. Síðan héldum vér til Rómar.

15 Bræðurnir þar fréttu um oss og komu til móts við oss allt til Appíusartorgs og Þríbúða. Þegar Páll sá þá, gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga.

16 Er vér vorum komnir til Rómar, var Páli leyft að búa út af fyrir sig með hermanni þeim, sem gætti hans.

17 Eftir þrjá daga stefndi hann saman helstu mönnum Gyðinga. Þegar þeir voru saman komnir, sagði hann við þá: "Bræður, ekkert hef ég brotið gegn lýðnum eða siðum feðranna, en samt er ég fangi, framseldur Rómverjum í Jerúsalem.

18 Þeir yfirheyrðu mig og vildu láta mig lausan, af því á mér hvíldi engin dauðasök.

19 En Gyðingar mæltu á móti, og neyddist ég til að skjóta máli mínu til keisarans, þó eigi svo að skilja, að ég sé að kæra þjóð mína.

20 Sakir þessa hef ég kallað yður hingað, að ég mætti sjá yður og tala við yður, því vegna vonar Ísraels ber ég þessa hlekki."

21 Þeir svöruðu: "Vér höfum ekki fengið bréf um þig frá Júdeu, og eigi hefur heldur neinn bræðranna komið hingað og birt eða talað nokkuð illt um þig.

22 Rétt þykir oss að heyra hjá þér, hvað þér býr í huga, en það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt."

23 Þeir tóku til dag við hann, og komu þá mjög margir til hans í herbergi hans. Frá morgni til kvölds skýrði hann og vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki og reyndi að sannfæra þá um Jesú, bæði eftir lögmáli Móse og spámönnunum.

24 Sumir létu sannfærast af orðum hans, en aðrir trúðu ekki.

25 Fóru þeir burt, ósamþykkir sín í milli, en Páll sagði þetta eitt: "Rétt er það, sem heilagur andi mælti við feður yðar fyrir munn Jesaja spámanns:

26 Far til lýðs þessa og seg þú: Með eyrum munuð þér heyra og alls eigi skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.

27 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skynji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.

28 Nú skuluð þér vita, að þetta hjálpræði Guðs hefur verið sent heiðingjunum, og þeir munu hlusta."

30 Full tvö ár var Páll þar í húsnæði, sem hann hafði leigt sér, og tók á móti öllum þeim, sem komu til hans.

Jeremía 38

38 Þá fréttu þeir Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal Selemjason og Pashúr Malkíason þau orð, er Jeremía talaði til alls lýðsins:

"Svo segir Drottinn: Þeir, sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir, sem fara út til Kaldea, munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi og lifa.

Svo segir Drottinn: Þessi borg mun vissulega verða gefin her Babelkonungs á vald og hann mun vinna hana!"

Þá sögðu höfðingjarnir við konung: "Lát drepa mann þennan! Því að hann gjörir hermennina, sem eftir eru í þessari borg, huglausa og allan lýðinn með því að tala slík orð til þeirra, því að þessi maður leitar ekki þess, sem þessum lýð er til heilla, heldur þess, sem honum er til ógæfu."

En Sedekía konungur svaraði: "Sjá, hann er á yðar valdi, því að konungurinn megnar ekkert á móti yður."

Þá tóku þeir Jeremía og köstuðu honum í gryfju Malkía konungssonar, sem var í varðgarðinum, og létu þeir Jeremía síga niður í böndum, en í gryfjunni var ekkert vatn, heldur leðja, og Jeremía sökk ofan í leðjuna.

En er Ebed-Melek, blálenskur geldingur, sem var í konungshöllinni, frétti, að þeir hefðu varpað Jeremía í gryfjuna, _ en konungur sat þá í Benjamínshliði _,

þá gekk Ebed-Melek út úr konungshöllinni og mælti til konungs á þessa leið:

"Minn herra konungur! Illverk hafa þessir menn framið með öllu því, er þeir hafa gjört við Jeremía spámann, sem þeir köstuðu í gryfjuna, svo að hann hlýtur að deyja þar úr hungri, því að ekkert brauð er framar til í borginni."

10 Þá skipaði konungur Ebed-Melek Blálendingi á þessa leið: "Tak héðan með þér þrjá menn og drag Jeremía spámann upp úr gryfjunni, áður en hann deyr."

11 Og Ebed-Melek tók mennina með sér og fór inn í konungshöllina, inn undir féhirsluna, og tók þar sundurrifna fataræfla og klæðaslitur og lét síga í böndum niður í gryfjuna til Jeremía.

12 Síðan mælti Ebed-Melek Blálendingur til Jeremía: "Legg rifnu og slitnu fataræflana undir hendur þér undir böndin!" Og Jeremía gjörði svo.

13 Og þeir drógu Jeremía upp með böndunum og hófu hann upp úr gryfjunni. Og sat nú Jeremía í varðgarðinum.

14 Sedekía konungur sendi menn og lét sækja Jeremía spámann til sín að þriðju dyrunum, sem eru í musteri Drottins, og konungur mælti til Jeremía: "Ég vil spyrja þig nokkurs, leyn mig engu!"

15 En Jeremía mælti til Sedekía: "Hvort munt þú ekki deyða mig, ef ég segi þér það? Og þótt ég ráðleggi þér eitthvað, þá hlýðir þú mér ekki!"

16 Þá vann Sedekía konungur Jeremía eið á laun og mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er skapað hefir í oss þetta líf, skal ég ekki deyða þig né selja þig á vald þessara manna, sem sitja um líf þitt."

17 Þá sagði Jeremía við Sedekía: "Svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð: Ef þú gengur á vald höfðingjum Babelkonungs, þá munt þú lífi halda og borg þessi eigi verða brennd í eldi, og þú munt lífi halda og fólk þitt.

18 En gangir þú ekki á vald höfðingjum Babelkonungs, þá mun borg þessi seld verða á vald Kaldea, og þeir munu brenna hana í eldi, og þú munt ekki heldur komast undan þeim."

19 Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: "Ég óttast þá Júdamenn, sem þegar hafa hlaupist yfir til Kaldea, að menn kynnu að selja mig þeim á vald og þeir draga dár að mér!"

20 En Jeremía sagði: "Þeir munu eigi framselja þig. Hlýð þú boði Drottins í því, er ég segi þér, þá mun þér vel vegna og þú lífi halda.

21 En ef þú færist undan að ganga á vald þeirra, þá hefir Drottinn birt mér þetta:

22 Sjá, allar þær konur, sem eftir munu verða í höll Júdakonungs, munu fluttar verða til höfðingja Babelkonungs, og þær munu segja: ,Menn, sem voru í vináttu við þig, hafa ginnt þig og orðið þér yfirsterkari. Þegar fætur þínir sukku í foræðið, hörfuðu þeir aftur á bak!`

23 Og allar konur þínar og börn þín munu færð verða Kaldeum, og ekki munt þú heldur komast undan þeim, heldur munt þú gripinn verða og seldur á vald Babelkonungs, og þessi borg mun brennd verða í eldi."

24 Þá sagði Sedekía við Jeremía: "Enginn maður má vita af þessum viðræðum, ella verður það þinn bani.

25 En þegar höfðingjarnir frétta, að ég hafi talað við þig, og þeir koma til þín og segja við þig: ,Seg oss, hvað þú talaðir við konung, _ leyn oss engu, ella drepum vér þig _ og hvað konungur talaði við þig,`

26 þá seg við þá: ,Ég bað konung auðmjúklega að láta mig ekki fara aftur í hús Jónatans til þess að deyja þar."`

27 Og allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann, en hann skýrði þeim með öllu svo frá sem konungur hafði lagt fyrir. Þá gengu þeir rólegir burt frá honum, því að þetta hafði ekki orðið hljóðbært.

28 Og Jeremía sat í varðgarðinum allt til þess dags, er Jerúsalem var unnin.

Sálmarnir 11-12

11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"

Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.

Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?

Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.

Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.

Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.

Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society