Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 21

21 Ísraelsmenn höfðu unnið eið í Mispa og sagt: "Enginn af oss skal gifta Benjamíníta dóttur sína."

Og lýðurinn fór til Betel, og þeir dvöldu þar fram á kveld fyrir augliti Guðs og hófu þar mikið harmakvein

og sögðu: "Drottinn, Ísraels Guð! Hví hefir þetta við borið í Ísrael, að nú skuli vanta eina ættkvíslina í Ísrael?"

Morguninn eftir reis lýðurinn árla og reisti þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum.

Því næst sögðu Ísraelsmenn: "Mun nokkur vera sá af öllum ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi komið upp hingað til Drottins með söfnuðinum?" Því að það hafði verið föstum svardögum bundið, að hver sá, er ekki kæmi upp til Drottins í Mispa, sá hinn sami skyldi lífi týna.

Og Ísraelsmenn tók sárt til Benjamíns bróður síns og þeir sögðu: "Nú er ein ættkvísl upphöggvin úr Ísrael!

Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar eð vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum?"

Þá sögðu þeir: "Er nokkur sá af ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi farið upp til Drottins í Mispa?" Og sjá, frá Jabes í Gíleað hafði enginn komið í herbúðirnar til samkomunnar.

Fór nú fram liðskönnun, og sjá, enginn var þar af íbúum Jabes í Gíleað.

10 Þá sendi lýðurinn þangað tólf þúsundir hraustra manna og lagði svo fyrir þá: "Farið og fellið íbúana í Jabes í Gíleað með sverðseggjum, ásamt konum og börnum.

11 En þannig skuluð þér að fara: Alla karlmenn og allar konur, er samræði hafa átt við mann, skuluð þér banni helga, en meyjar skuluð þér láta lífi halda." Þeir gjörðu svo.

12 Og þeir fundu meðal íbúanna í Jabes í Gíleað fjögur hundruð meyjar, er eigi höfðu samræði átt við mann, og þeir fóru með þær til herbúðanna í Síló, sem er í Kanaanlandi.

13 Þá sendi allur lýðurinn og lét tala við Benjamíns sonu, þá er voru hjá Rimmónkletti, og bauð þeim frið.

14 Þá hurfu Benjamínítar aftur og þeir gáfu þeim konur þær, er þeir höfðu látið lífi halda af konunum í Jabes í Gíleað. Þær voru þó ekki nógu margar handa þeim.

15 Lýðinn tók sárt til Benjamíns, því að Drottinn hafði höggvið skarð í ættkvíslir Ísraels.

16 Þá sögðu öldungar lýðsins: "Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim, sem eftir eru, konur, því að konur hafa verið gjöreyddar úr Benjamín?"

17 Og þeir sögðu: "Hvernig mega þeir af Benjamínítum, er undan hafa komist, halda arfleifð sinni, svo að eigi verði ættkvísl afmáð úr Ísrael?

18 En ekki getum vér gift þeim neina af dætrum vorum." Því að Ísraelsmenn höfðu svarið: "Bölvaður sé sá, sem gefur Benjamín konu!"

19 Þá sögðu þeir: "Sjá, hátíð Drottins er árlega haldin í Síló, sem liggur fyrir norðan Betel, fyrir austan þjóðveginn, sem liggur frá Betel upp til Síkem, og fyrir sunnan Lebóna."

20 Og þeir lögðu svo fyrir Benjamíns sonu: "Farið og liggið í leyni í víngörðunum.

21 Og er þér sjáið Sílódætur ganga út til dansleika, þá skuluð þér spretta upp úr víngörðunum og ræna yður sinni konunni hver af Sílódætrum. Farið síðan heim í Benjamínsland.

22 En þegar feður þeirra eða bræður koma að kæra þetta fyrir oss, þá skulum vér segja við þá: ,Gefið oss þær, því að vér fengum engar konur í stríðinu. Þér hafið ekki heldur gefið þeim þær. Ef svo væri, þá væruð þér sekir."`

23 Benjamíns synir gjörðu svo og tóku sér konur, eins og þeir voru margir til, meðal dansmeyjanna, sem þeir rændu. Síðan fóru þeir og hurfu aftur til óðals síns og reistu að nýju borgirnar og bjuggu í þeim.

24 Þá fóru og Ísraelsmenn þaðan, hver til sinnar kynkvíslar og sinnar ættar, og þeir héldu þaðan hver til óðals síns.

Postulasagan 25

25 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu, fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem.

Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann

að veita sér að málum gegn honum og gera sér þann greiða að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni.

Festus svaraði, að Páll væri í varðhaldi í Sesareu, en sjálfur mundi hann bráðlega fara þangað.

"Látið því," sagði hann, "ráðamenn yðar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn, ef hann er um eitthvað sekur."

Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram.

Þegar hann kom, umkringdu hann Gyðingar þeir, sem komnir voru ofan frá Jerúsalem, og báru á hann margar þungar sakir, sem þeir gátu ekki sannað.

En Páll varði sig og sagði: "Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum."

Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: "Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?"

10 Páll svaraði: "Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans, og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gjört, það veistu fullvel.

11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað, sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því, sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans."

12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: "Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara."

13 Eftir nokkra daga komu Agrippa konungur og Berníke til Sesareu að bjóða Festus velkominn.

14 Þegar þau höfðu dvalist þar nokkra daga, lagði Festus mál Páls fyrir konung og sagði: "Hér er fangi nokkur, sem Felix skildi eftir.

15 Þegar ég kom til Jerúsalem, báru æðstu prestar og öldungar Gyðinga á hann sakir og heimtuðu hann dæmdan.

16 Ég svaraði þeim, að það væri ekki venja Rómverja að selja fram nokkurn sakborning fyrr en hann hefði verið leiddur fyrir ákærendur sína og átt þess kost að bera fram vörn gegn sakargiftinni.

17 Þeir urðu nú samferða hingað, og lét ég engan drátt á verða, heldur settist daginn eftir á dómstólinn og bauð að leiða fram manninn.

18 Þegar ákærendurnir komu fram, báru þeir ekki á hann sakir fyrir nein þau illræði, sem ég hafði búist við,

19 heldur áttu þeir í einhverjum deilum við hann um átrúnað sjálfra þeirra og um Jesú nokkurn, látinn mann, sem Páll segir lifa.

20 Fannst mér vandi fyrir mig að fást við þetta og spurði Pál, hvort hann vildi fara til Jerúsalem og láta dæma málið þar.

21 En hann skaut máli sínu til keisarans og krafðist þess að vera hafður í haldi, þar til hans hátign hefði skorið úr. Því bauð ég að hafa hann í haldi, þangað til ég gæti sent hann til keisarans."

22 Agrippa sagði þá við Festus: "Ég vildi sjálfur fá að heyra manninn." Hinn svaraði: "Á morgun skalt þú hlusta á hann."

23 Daginn eftir komu Agrippa og Berníke með mikilli viðhöfn og gengu ásamt hersveitarforingjum og æðstu mönnum borgarinnar inn í málstofuna. Var þá Páll leiddur inn að boði Festusar.

24 Festus mælti: "Agrippa konungur og þér menn allir, sem hjá oss eruð staddir. Þarna sjáið þér mann, sem veldur því, að allir Gyðingar, bæði í Jerúsalem og hér, hafa leitað til mín. Þeir heimta hástöfum, að hann sé tekinn af lífi.

25 Mér varð ljóst, að hann hefur ekkert það framið, er dauða sé vert, en sjálfur skaut hann máli sínu til hans hátignar, og þá ákvað ég að senda hann þangað.

26 Nú hef ég ekkert áreiðanlegt að skrifa herra vorum um hann. Þess vegna hef ég leitt hann fram fyrir yður og einkum fyrir þig, Agrippa konungur, svo að ég hafi eitthvað að skrifa að lokinni yfirheyrslu.

27 Því það líst mér fráleitt að senda fanga og tjá eigi um leið sakargiftir gegn honum."

Jeremía 35

35 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á dögum Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs:

"Gakk til ættflokks Rekabíta og tala við þá og kom með þá í musteri Drottins, inn í eitt herbergið, og gef þeim vín að drekka."

Þá sótti ég Jaasanja Jeremíason, Habasinjasonar, og bræður hans og alla sonu hans og allan Rekabíta-ættflokkinn

og fór með þá í musteri Drottins, inn í herbergi sona Hanans, Jigdaljasonar, guðsmannsins, sem er við hliðina á herbergi höfðingjanna, uppi yfir herbergi Maaseja Sallúmssonar þröskuldsvarðar.

Og ég setti skálar fullar af víni og bikara fyrir ættmenn Rekabíta-flokksins og sagði við þá: "Drekkið vín!"

Þá sögðu þeir: "Vér drekkum ekki vín, því að Jónadab Rekabsson ættfaðir vor hefir lagt svo fyrir oss: ,Þér skuluð aldrei drekka vín að eilífu, hvorki þér né synir yðar,

og þér skuluð ekki reisa hús, né sá sæði, né planta víngarða, né eiga nokkuð slíkt, heldur skuluð þér búa í tjöldum alla ævi yðar, til þess að þér lifið langa ævi í því landi, þar er þér dveljið sem útlendingar.`

Og vér höfum hlýtt skipun Jónadabs Rekabssonar ættföður vors í öllu því, er hann bauð oss, svo að vér drekkum alls ekki vín alla ævi vora, hvorki vér sjálfir, konur vorar, synir vorir né dætur vorar,

og reisum oss ekki hús til að búa í og eigum hvorki víngarða, akra né sáð.

10 Vér höfum því búið í tjöldum og hlýtt og farið eftir öllu því, er Jónadab ættfaðir vor bauð oss.

11 En er Nebúkadresar Babelkonungur braust inn í landið, sögðum vér: ,Komið, vér skulum halda inn í Jerúsalem undan her Kaldea og undan her Sýrlendinga!` og settumst að í Jerúsalem."

12 Þá kom orð Drottins til Jeremía:

13 "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Far og seg við Júdamenn og Jerúsalembúa: Viljið þér ekki taka umvöndun, svo að þér hlýðið á orð mín? _ segir Drottinn.

14 Orð Jónadabs Rekabssonar eru haldin, þau er hann lagði fyrir sonu sína, að drekka ekki vín. Þeir hafa ekki vín drukkið allt fram á þennan dag, af því að þeir hafa hlýtt skipun ættföður síns. En ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki hlýtt mér.

15 Og ég hefi sent til yðar alla þjóna mína, spámennina, seint og snemma, til þess að segja: "Snúið yður, hver frá sínum vonda vegi, og bætið gjörðir yðar og eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem ég gaf yður og feðrum yðar!" _ en þér lögðuð ekki við eyrun og hlýdduð ekki á mig.

16 Já, niðjar Jónadabs Rekabssonar hafa haldið skipun ættföður síns, þá er hann fyrir þá lagði, en þessi lýður hefir ekki hlýtt mér.

17 Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, nú leiði ég yfir Júda og alla Jerúsalembúa alla ógæfuna, er ég hefi hótað þeim, af því að þeir hafa ekki hlýtt, þótt ég hafi talað til þeirra, né svarað, þótt ég hafi kallað til þeirra.

18 En við ættflokk Rekabíta sagði Jeremía: "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Af því að þér hafið hlýtt skipun Jónadabs ættföður yðar og haldið allar skipanir hans og farið í öllu eftir því, er hann fyrir yður lagði,

19 fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Jónadab Rekabsson skal aldrei vanta mann, er standi frammi fyrir mér."

Sálmarnir 7-8

Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.

Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,

svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.

Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,

hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,

þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]

Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.

Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.

Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.

10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!

11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.

12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.

13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,

14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.

15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.

16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.

17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.

18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.

Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,

fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society