Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 20

20 Þá lögðu allir Ísraelsmenn af stað, og safnaðist lýðurinn saman sem einn maður frá Dan til Beerseba, svo og Gíleaðland, fram fyrir Drottin í Mispa.

Og höfðingjar alls lýðsins, allar ættkvíslir Ísraels, gengu fram í söfnuði Guðs fólks _ fjögur hundruð þúsund fótgangandi menn, vopnum búnir.

Benjamíns synir fréttu, að Ísraelsmenn væru farnir upp til Mispa. Ísraelsmenn sögðu: "Segið frá, hvernig atvikaðist óhæfuverk þetta."

Þá svaraði levítinn, maður konunnar, er myrt hafði verið, og sagði: "Ég kom til Gíbeu, sem heyrir Benjamín, ásamt hjákonu minni og ætlaði að vera þar nætursakir.

Þá risu Gíbeubúar upp á móti mér og umkringdu húsið um nóttina og létu ófriðlega. Mig hugðust þeir að drepa og hjákonu minni nauðguðu þeir svo, að hún beið bana af.

Þá tók ég hjákonu mína og hlutaði hana sundur og sendi hana út um allt arfleifðarland Ísraels, því að þeir höfðu framið níðingsverk og óhæfu í Ísrael.

Þér eruð hér allir, Ísraelsmenn! Kveðið nú upp tillögur yðar og ráð!"

Þá reis upp allur lýður, sem einn maður væri, og sagði: "Enginn af oss skal fara heim til sín og enginn snúa heim til húss síns.

Og nú skulum vér fara þannig að við Gíbeu: Vér skulum ráðast gegn henni eftir hlutkesti.

10 Vér skulum taka tíu menn af hundraði af öllum ættkvíslum Ísraels og hundrað af þúsundi og þúsund af tíu þúsundum til þess að sækja vistir handa liðinu. Þegar þeir koma aftur, verður farið með Gíbeu í Benjamín með öllu svo sem maklegt er fyrir óhæfuverk það, er þeir hafa framið í Ísrael."

11 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn saman í móti borginni, allir samhuga sem einn maður væri.

12 Ættkvíslir Ísraels sendu menn um alla ættkvísl Benjamíns og létu þá segja: "Hvílík óhæfa er þetta, sem framin hefir verið yðar á meðal.

13 Framseljið því hrakmennin í Gíbeu, svo að vér fáum drepið þá og upprætt hið illa úr Ísrael." En Benjamíns synir vildu ekki gefa gaum orðum bræðra sinna, Ísraelsmanna.

14 Söfnuðust Benjamíns synir þá saman úr borgunum til Gíbeu til þess að fara í hernað móti Ísraelsmönnum.

15 En Benjamíns synir, þeir er úr borgunum komu, voru á þeim degi tuttugu og sex þúsundir vopnaðra manna að tölu, auk Gíbeu-búa, en þeir voru sjö hundruð að tölu, einvala lið.

16 Af öllu þessu liði voru sjö hundruð úrvals menn örvhentir. Hæfðu þeir allir hárrétt með slöngusteini og misstu ekki.

17 En Ísraelsmenn voru að tölu, fyrir utan Benjamín, fjögur hundruð þúsund vopnaðra manna, og voru þeir allir hermenn.

18 Ísraelsmenn tóku sig upp og fóru upp til Betel og gengu til frétta við Guð og sögðu: "Hver af oss skal fyrstur fara í hernaðinn móti Benjamíns sonum?" Drottinn svaraði: "Júda skal fyrstur fara".

19 Ísraelsmenn tóku sig upp um morguninn og settu herbúðir sínar hjá Gíbeu.

20 Og Ísraelsmenn fóru til bardaga í móti Benjamín, og Ísraelsmenn fylktu sér til orustu gegn þeim nálægt Gíbeu.

21 Þá fóru Benjamíns synir út úr Gíbeu og lögðu að velli tuttugu og tvær þúsundir manna af Ísrael á þeim degi.

22 En lið Ísraelsmanna herti upp hugann, og fylktu þeir sér af nýju til orustu á þeim stað, sem þeir höfðu fylkt sér hinn fyrri daginn.

23 Og Ísraelsmenn fóru upp eftir og grétu frammi fyrir Drottni allt til kvelds, og þeir gengu til frétta við Drottin og sögðu: "Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors?" Drottinn svaraði: "Farið á móti þeim."

24 Fóru Ísraelsmenn nú í móti Benjamíns sonum á öðrum degi.

25 Og Benjamín fór út í móti þeim úr Gíbeu á öðrum degi, og lögðu þeir enn að velli átján þúsund manns af Ísraelsmönnum, og voru þeir allir vopnum búnir.

26 Þá fóru allir Ísraelsmenn og allur lýðurinn upp eftir og komu til Betel og höfðust þar við grátandi fyrir augliti Drottins og föstuðu þann dag til kvelds. Og þeir fórnuðu brennifórnum og heillafórnum fyrir augliti Drottins.

27 Síðan gengu Ísraelsmenn til frétta við Drottin, en þar var sáttmálsörk Guðs í þá daga,

28 og Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar, gegndi þjónustu fyrir augliti hans í þá daga. Þeir sögðu: "Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors, eða eigum vér að hætta?" Drottinn svaraði: "Farið, því að á morgun mun ég gefa þá í yðar hendur."

29 Nú setti Ísrael menn í launsát hringinn í kringum Gíbeu.

30 Og Ísraelsmenn fóru í móti Benjamíns sonum á þriðja degi og fylktu þeir sér gegnt Gíbeu, eins og hin fyrri skiptin.

31 Þá fóru Benjamíns synir út á móti liðinu og létu teygjast burt frá borginni og tóku að fella nokkra af liðinu, eins og hin fyrri skiptin, úti á þjóðvegunum (annar þeirra liggur upp til Betel, en hinn til Gíbeu yfir haglendið), um þrjátíu manns af Ísrael.

32 Þá hugsuðu Benjamíns synir: "Þeir bíða ósigur fyrir oss eins og í fyrsta sinnið." En Ísraelsmenn höfðu sagt: "Vér skulum flýja, svo að vér fáum teygt þá frá borginni út á þjóðvegina."

33 Og allir Ísraelsmenn tóku sig upp úr sínum stað og fylktu sér í Baal Tamar, og þeir Ísraelsmanna, er í launsát voru, þustu fram úr sínum stað fyrir vestan Geba.

34 Því næst sóttu tíu þúsundir einvala liðs úr öllum Ísrael fram móti Gíbeu og tókst þar hörð orusta, en hinir vissu ekki að ógæfan vofði yfir þeim.

35 Þannig lét Drottinn Benjamín bíða ósigur fyrir Ísrael, og Ísraelsmenn drápu tuttugu og fimm þúsund og eitt hundrað manns af Benjamín á þeim degi, og voru þeir allir vopnum búnir.

36 Þá sáu Benjamíns synir, að þeir höfðu beðið ósigur. Ísraelsmenn gáfu Benjamín rúm, því að þeir treystu launsátinni, er þeir höfðu sett hjá Gíbeu.

37 En þeir, sem í launsátinni voru, spruttu upp og geystust fram mót Gíbeu og fóru til og felldu alla borgarbúa með sverðseggjum.

38 Það var samkomulag milli Ísraelsmanna og þeirra, er í launsátinni voru, að þeir skyldu láta reyk leggja upp af borginni til merkis.

39 Þegar nú Ísraelsmenn snerust á flótta í bardaganum og Benjamínítar tóku að fella nokkra af Ísraelsmönnum, um þrjátíu manns, með því að þeir hugsuðu: "Þeir hafa þegar beðið ósigur fyrir oss, eins og í fyrstu orustunni!"

40 þá tók merkið að stíga upp af borginni, reykjarmökkurinn, og er Benjamínítar sneru sér við, sjá, þá stóð öll borgin í björtu báli.

41 Þá sneru Ísraelsmenn við, og sló felmti á Benjamíníta, því að þeir sáu, að ógæfan var yfir þá komin.

42 Sneru þeir nú undan Ísraelsmönnum á leið til eyðimerkurinnar, og hélst þó orustan á hælum þeim, og þeir, sem komu úr borgunum, drápu þá mitt á meðal þeirra.

43 Þeir umkringdu Benjamíníta, eltu þá og tróðu þá undir fótum sér, þar sem þeir höfðu leitað sér hvíldar, alla leið austur fyrir Gíbeu.

44 Og þar féllu af Benjamín átján þúsundir manna, og voru það allt hraustir menn.

45 Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, og í eftirleitinni um þjóðvegina drápu þeir fimm þúsund manns, og þeir eltu þá allt til Gídeóm og drápu enn af þeim tvö þúsund manns.

46 Þannig féllu alls af Benjamín á þeim degi tuttugu og fimm þúsundir vopnbúinna manna, og voru það allt hraustir menn.

47 Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, sex hundruð manns, og höfðust við hjá Rimmónkletti í fjóra mánuði.

48 En Ísraelsmenn sneru aftur til Benjamíns sona og felldu þá með sverðseggjum, bæði menn og fénað og allt, sem þeir fundu. Þeir lögðu og eld í allar borgirnar, sem fyrir þeim urðu.

Postulasagan 24

24 Fimm dögum síðar fór Ananías æðsti prestur ofan þangað og með honum nokkrir öldungar og Tertúllus nokkur málafærslumaður. Þeir báru sakir á Pál fyrir landstjóranum.

Hann var nú kallaður fyrir, en Tertúllus hóf málsóknina og sagði: "Fyrir þitt tilstilli, göfugi Felix, sitjum vér í góðum friði, og þjóð vor hefur sakir þinnar forsjár öðlast umbætur í öllum greinum og alls staðar.

Þetta viðurkennum vér mjög þakksamlega.

En svo að ég tefji þig sem minnst, bið ég, að þú af mildi þinni viljir heyra oss litla hríð.

Vér höfum komist að raun um, að maður þessi er skaðræði, kveikir ófrið með öllum Gyðingum um víða veröld og er forsprakki villuflokks Nasarea.

Hann reyndi meira að segja að vanhelga musterið, og þá tókum vér hann höndum.

Með því að yfirheyra hann mátt þú sjálfur ganga úr skugga um öll sakarefni vor gegn honum."

Gyðingarnir tóku undir sakargiftirnar og kváðu þetta rétt vera.

10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: "Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt.

11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir.

12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni.

13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um.

14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.

15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.

16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.

17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna.

18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér.

19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka.

20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu.

21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður."`

22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu, og mælti: "Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað, skal ég skera úr máli yðar."

23 Hann bauð hundraðshöfðingjanum að hafa Pál í vægu varðhaldi og varna engum félaga hans að vitja um hann.

24 Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú.

25 En er hann ræddi um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm, varð Felix skelkaður og mælti: "Far burt að sinni. Ég læt kalla þig, þegar ég fæ tóm til."

26 Meðfram gjörði hann sér von um, að Páll mundi gefa sér fé. Því var það, að hann lét alloft sækja hann og átti tal við hann.

27 Þegar tvö ár voru liðin, tók Porkíus Festus við landstjórn af Felix. Felix vildi koma sér vel við Gyðinga og lét því Pál eftir í haldi.

Jeremía 34

34 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þá er Nebúkadresar Babelkonungur og allur her hans og öll konungsríki jarðarinnar, þau er lutu hans valdi, og allar þjóðirnar herjuðu á Jerúsalem og allar borgir umhverfis hana:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Far og mæl til Sedekía Júdakonungs og seg við hann: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel borg þessa á vald Babelkonungs, til þess að hann brenni hana í eldi,

og þú munt sjálfur ekki komast undan honum, en áreiðanlega gripinn verða og framseldur á hans vald, og augu þín munu líta augu Babelkonungs og munnur hans tala við þinn munn, og til Babýlon munt þú fara.

En heyr orð Drottins, Sedekía Júdakonungur: Svo segir Drottinn um þig: Þú skalt ekki deyja fyrir sverði.

Í friði munt þú deyja, og eins og brennt var ilmreykelsi við jarðarför feðra þinna, hinna fyrri konunga, sem voru á undan þér, eins munu menn brenna þér til heiðurs og harma þig og segja: "Æ, drottnari!" því að það hefi ég talað _ segir Drottinn.

Jeremía spámaður talaði öll þessi orð við Sedekía Júdakonung í Jerúsalem,

þá er her Babelkonungs herjaði á Jerúsalem og allar Júdaborgir, sem enn voru eftir, Lakís og Aseka. Því að þessar einar voru eftir orðnar af borgunum í Júda, af víggirtu borgunum.

Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Sedekía konungur hafði gjört sáttmála við allan lýðinn í Jerúsalem um að boðað skyldi frelsi:

Hver maður skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, ef þau væru hebreskur maður og hebresk kona, svo að enginn Júdamaður hefði ættbræður sína að þrælum.

10 Og allir höfðingjarnir hlýddu því og allur lýðurinn, þeir er gengist höfðu undir sáttmálann, að hver skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, svo að hann hefði þau eigi framar að þrælum. Þeir hlýddu og gáfu þau frjáls.

11 En seinna sóttu þeir aftur þrælana og ambáttirnar, er þeir höfðu gefið frjáls, og gjörðu þau að ánauðugum þrælum og ambáttum.

12 Þá kom þetta orð Drottins til Jeremía:

13 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég gjörði svohljóðandi sáttmála við feður yðar, þá er ég flutti þá burt af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu:

14 "Að sjö árum liðnum skuluð þér hver og einn gefa lausan hebreskan bróður yðar, sem kann að hafa selt sig þér. Í sex ár skal hann vera þræll þinn, en síðan skalt þú láta hann lausan frá þér fara." En feður yðar hlýddu mér ekki og lögðu ekki við eyrun.

15 En nú tókuð þér sinnaskiptum og gjörðuð það, sem rétt var í mínum augum, með því að boða hver öðrum frelsi, og gjörðuð sáttmála fyrir mínu augliti í musterinu, sem kennt er við nafn mitt.

16 En þér hafið snúið yður aftur og vanhelgað nafn mitt, þar sem þér hafið hver og einn sótt aftur þræl sinn og ambátt, er þér höfðuð gefið algjörlega frjáls, og neytt þau til að vera þræla yðar og ambáttir.

17 Fyrir því segir Drottinn svo: Þér hafið eigi hlýtt mér um að boða frelsi, hver sínum bróður og hver sínum náunga. Sjá, ég ætla því að boða yður frelsi _ segir Drottinn _ svo að þér verðið ofurseldir sverðinu, drepsóttinni og hungrinu, og ég gjöri yður að grýlu öllum konungsríkjum jarðar.

18 Ég framsel þá menn, er brotið hafa sáttmála minn, og eigi hafa haldið orð sáttmálans, er þeir gjörðu fyrir mínu augliti, þá er þeir slátruðu kálfinum, sem þeir skáru í tvennt og gengu á milli hlutanna, _

19 höfðingja Júda og höfðingja Jerúsalem, hirðmennina og prestana og allan landslýðinn, er gengið hafa milli hluta kálfsins.

20 Ég sel þá á vald óvina þeirra og á vald þeirra, sem sækjast eftir lífi þeirra, og lík þeirra skulu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar.

21 En Sedekía konung í Júda og höfðingja hans sel ég á vald óvinum þeirra og á vald þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og á vald her Babelkonungs, þeim sem nú eru frá yður farnir.

22 Sjá, ég mun gefa þeim skipun _ segir Drottinn _ og láta þá koma aftur til þessarar borgar, til þess að þeir herji á hana, vinni hana og brenni hana í eldi, og borgirnar í Júda gjöri ég að auðn, svo að enginn búi í þeim.

Sálmarnir 5-6

Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.

Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.

Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.

Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.

Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.

Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.

10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.

11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.

12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.

13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.

Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.

Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?

Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?

Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.

Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.

Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.

10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.

11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society