Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 19

19 Um þær mundir bar svo til _ en þá var enginn konungur í Ísrael _ að levíti nokkur bjó innst inni í Efraímfjöllum, og tók hann sér að hjákonu kvenmann nokkurn frá Betlehem í Júda.

En þessi hjákona hans var honum ótrú og fór frá honum til húss föður síns í Betlehem í Júda og var þar fjögra mánaða tíma.

En maður hennar tók sig upp og fór eftir henni til þess að tala um fyrir henni og til þess að sækja hana, og hafði hann með sér svein sinn og tvo asna. Hún leiddi hann þá inn í hús föður síns, og er faðir stúlkunnar sá hann, gladdist hann yfir komu hans.

En tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, hélt honum, svo að hann dvaldist hjá honum í þrjá daga. Átu þeir og drukku og voru þar um nóttina.

En fjórða daginn risu þeir árla um morguninn og bjóst hinn nú til ferðar. Þá sagði faðir stúlkunnar við tengdason sinn: "Hresstu þig fyrst á matarbita og síðan megið þið fara."

Þá settust þeir niður og átu báðir saman og drukku. En faðir stúlkunnar sagði við manninn: "Lát þér það lynda að vera í nótt, og lát liggja vel á þér."

En maðurinn bjóst til að fara. Þá lagði tengdafaðir hans svo að honum, að hann settist aftur og var þar um nóttina.

Fimmta daginn reis hann árla um morguninn og ætlaði að halda af stað. Þá sagði faðir stúlkunnar: "Hresstu þig þó fyrst, og bíðið þið uns degi hallar." Og þeir átu báðir saman.

En er maðurinn bjóst til að fara, ásamt hjákonu sinni og sveini sínum, þá sagði tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, við hann: "Það er orðið áliðið og dagur að kveldi kominn; verið í nótt. Sjá, degi hallar. Ver þú í nótt og láttu liggja vel á þér, en á morgun getið þið lagt upp snemma, svo að þú getir náð heim til þín."

10 En maðurinn vildi ekki vera um nóttina, heldur bjóst til ferðar og hélt af stað og komst norður á móts við Jebús, það er Jerúsalem, og hann hafði með sér tvo söðlaða asna og hjákonu sína.

11 Þegar þau voru hjá Jebús og mjög var liðið á dag, þá sagði sveinninn við húsbónda sinn: "Kom þú, við skulum fara inn í þessa Jebúsíta borg og gista þar."

12 En húsbóndi hans sagði við hann: "Ekki skulum við fara inn í borg ókunnugra manna, þar sem engir Ísraelsmenn búa, höldum heldur áfram til Gíbeu."

13 Og hann sagði við svein sinn: "Kom þú, við skulum fara í einhvern af stöðunum og gista í Gíbeu eða Rama."

14 Síðan héldu þeir áfram leið sína, en sól gekk undir, er þeir voru hjá Gíbeu, sem heyrir Benjamín.

15 Viku þeir þar af leið til þess að fara inn í Gíbeu til gistingar. Og er hann kom þangað, staðnæmdist hann á bæjartorginu, en enginn tók þau inn í hús sitt til gistingar.

16 Maður nokkur gamall kom frá vinnu sinni utan af akri um kveldið. Hann var frá Efraímfjöllum og bjó sem útlendingur í Gíbeu, en mennirnir, sem þarna bjuggu, voru Benjamínítar.

17 Og er honum varð litið upp, sá hann ferðamanninn á bæjartorginu. Þá sagði gamli maðurinn: "Hvert ætlar þú að fara og hvaðan kemur þú?"

18 Hinn svaraði honum: "Við komum frá Betlehem í Júda og ætlum innst inn í Efraímfjöll. Þaðan er ég. Ég fór suður til Betlehem og er nú á heimleið, en enginn hefir boðið mér hér inn til sín.

19 Við höfum bæði hálm og fóður handa ösnum okkar, svo og brauð og vín handa mér og ambátt þinni og sveininum, sem er með þjónum þínum. Hér er einskis vant."

20 Þá sagði gamli maðurinn: "Vertu velkominn! Lofaðu mér nú að annast allt, sem þig kann að bresta, en úti máttu ekki liggja í nótt hér á torginu."

21 Og hann leiddi hann inn í hús sitt og gaf ösnunum, og þau þvoðu fætur sína og átu og drukku.

22 Nú sem þau gæddu sér, sjá, þá umkringdu borgarmenn _ hrakmenni nokkur _ húsið, lömdu utan hurðina og kölluðu til gamla mannsins, húsbóndans: "Leið út manninn, sem til þín er kominn, að vér megum kenna hans."

23 Þá gekk maðurinn, húsbóndinn, út til þeirra og sagði við þá: "Nei, bræður mínir, fyrir hvern mun fremjið ekki óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn inn í mitt hús, þá fremjið ekki slíka svívirðingu.

24 Hér er dóttir mín, sem er mey, og hjákona hans, ég ætla að leiða þær út, og þær megið þér taka nauðugar og gjöra við þær sem yður vel líkar, en á manni þessum skuluð þér ekki fremja slíka svívirðingu."

25 En mennirnir vildu ekki hlýða á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og leiddi hana út á strætið til þeirra, og þeir kenndu hennar og misþyrmdu henni alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann.

26 Þegar birta tók af degi, kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins, þar sem bóndi hennar var inni, og lá þar, uns bjart var orðið.

27 En er bóndi hennar reis um morguninn og lauk upp húsdyrunum og gekk út og ætlaði að halda af stað, sjá, þá lá konan, hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum.

28 Hann mælti þá til hennar: "Stattu upp, við skulum halda af stað!" _ en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann, og maðurinn tók sig upp og hélt heim til sín.

29 En er hann kom heim, tók hann hníf, þreif hjákonu sína og hlutaði hana alla sundur í tólf hluti og sendi þá út um alla Ísraels byggð.

30 En hverjum þeim, er sá það, varð að orði: "Eigi hefir slíkt við borið og eigi hefir slíkt sést síðan er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi allt fram á þennan dag! Hugleiðið þetta, leggið á ráð og segið til!"

Postulasagan 23

23 En Páll hvessti augun á ráðið og mælti: "Bræður, ég hef í öllu breytt með góðri samvisku fyrir Guði fram á þennan dag."

En Ananías æðsti prestur skipaði þeim, er hjá stóðu, að ljósta hann á munninn.

Þá sagði Páll við hann: "Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur. Hér situr þú til að dæma mig samkvæmt lögmálinu og skipar þó þvert ofan í lögmálið að slá mig."

Þeir, sem hjá stóðu sögðu: "Smánar þú æðsta prest Guðs?"

Páll svaraði: "Ekki vissi ég, bræður, að hann væri æðsti prestur, því ritað er: ,Þú skalt ekki illmæla höfðingja lýðs þíns."`

Nú vissi Páll, að sumir þeirra voru saddúkear, en aðrir farísear, og hann hrópaði upp í ráðinu: "Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra."

Þegar hann sagði þetta, varð deila milli farísea og saddúkea, og þingheimur skiptist í flokka.

Því saddúkear segja, að ekki sé til upprisa, englar né andar, en farísear játa allt þetta.

Nú varð hróp mikið, og nokkrir fræðimenn af flokki farísea risu upp og fullyrtu: "Vér sjáum ekki, að þessi maður hafi brotið af sér. Gæti ekki hugsast, að andi hafi talað við hann eða engill?"

10 Deilan harðnaði og hersveitarforinginn fór að óttast, að þeir ætluðu að rífa Pál í sundur. Því skipaði hann herliðinu að koma ofan, taka hann af þeim og færa hann inn í kastalann.

11 Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: "Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm."

12 Þegar dagur rann, bundust Gyðingar samtökum og sóru þess eið að eta hvorki né drekka, fyrr en þeir hefðu ráðið Pál af dögum.

13 Voru þeir fleiri en fjörutíu, sem þetta samsæri gjörðu.

14 Þeir fóru til æðstu prestanna og öldunganna og sögðu: "Vér höfum svarið þess dýran eið að neyta einskis, fyrr en vér höfum ráðið Pál af dögum.

15 Nú skuluð þér og ráðið leggja til við hersveitarforingjann, að hann láti senda hann niður til yðar, svo sem vilduð þér kynna yður mál hans rækilegar. En vér erum við því búnir að vega hann, áður en hann kemst alla leið."

16 En systursonur Páls heyrði um fyrirsátina. Hann gekk inn í kastalann og sagði Páli frá.

17 Páll kallaði til sín einn hundraðshöfðingjann og mælti: "Far þú með þennan unga mann til hersveitarforingjans, því að hann hefur nokkuð að segja honum."

18 Hundraðshöfðinginn tók hann með sér, fór með hann til hersveitarforingjans og sagði: "Fanginn Páll kallaði mig til sín og bað mig fara til þín með þennan unga mann. Hann hefur eitthvað að segja þér."

19 Hersveitarforinginn tók í hönd honum, leiddi hann afsíðis og spurði: "Hvað er það, sem þú hefur að segja mér?"

20 Hinn svaraði: "Gyðingar hafa komið sér saman um að biðja þig að senda Pál niður í ráðið á morgun, þar eð þeir ætli að rannsaka mál hans rækilegar.

21 En lát þú ekki að vilja þeirra, því að menn þeirra, fleiri en fjörutíu, sitja fyrir honum og hafa svarið þess eið að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hafi vegið hann. Nú eru þeir viðbúnir og bíða eftir, að svarið komi frá þér."

22 Hersveitarforinginn lét piltinn fara og bauð honum: "Þú mátt engum segja, að þú hafir gjört mér viðvart um þetta."

23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: "Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða.

24 Hafið og til fararskjóta handa Páli, svo að þér komið honum heilum til Felixar landstjóra."

25 Og hann ritaði bréf, svo hljóðandi:

26 "Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga Felix landstjóra.

27 Mann þennan höfðu Gyðingar tekið höndum og voru í þann veginn að taka af lífi, er ég kom að með hermönnum. Ég komst að því, að hann var rómverskur, og bjargaði honum.

28 En ég vildi vita, fyrir hverja sök þeir ákærðu hann, og fór með hann niður í ráð þeirra.

29 Komst ég þá að raun um, að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra, en engin sök var honum gefin, er sætir dauða eða fangelsi.

30 En þar sem ég hef fengið bendingu um, að setið sé um líf mannsins, sendi ég hann tafarlaust til þín. Ég hef jafnframt boðið ákærendum hans að flytja mál sitt gegn honum fyrir þér."

31 Hermennirnir tóku þá Pál, eins og þeim var boðið, og fóru með hann um nótt til Antípatris.

32 Daginn eftir sneru þeir aftur til kastalans, en létu riddarana fara með honum.

33 Þeir fóru inn í Sesareu, skiluðu bréfinu til landstjórans og færðu Pál fyrir hann.

34 Hann las bréfið og spurði, úr hvaða skattlandi hann væri. Var honum tjáð, að hann væri frá Kilikíu.

35 Þá mælti hann: "Ég mun rannsaka mál þitt, þegar kærendur þínir koma." Og hann bauð að geyma hann í höll Heródesar.

Jeremía 33

33 Og orð Drottins kom til Jeremía annað sinn, þá er hann enn var innilokaður í varðgarðinum:

Svo segir Drottinn, sá er framkvæmir það, Drottinn, sá er upphugsar það, til þess að koma því til vegar _ Drottinn er nafn hans:

Kalla þú á mig og mun ég svara þér og kunngjöra þér mikla hluti og óskiljanlega, er þú hefir eigi þekkt.

Já, svo segir Drottinn, Ísraels Guð, um hús þessarar borgar og um hallir Júdakonunga, sem rifin voru niður vegna hervirkjanna og sverðsins:

Það koma einhverjir til þess að berjast gegn Kaldeum og til þess að fylla húsin líkum þeirra manna, er ég hefi lostið í reiði minni og heift, því ég hefi byrgt auglit mitt fyrir þessari borg sakir allrar illsku þeirra.

Sjá, ég legg við hana umbúðir og græðslulyf og lækna þá og opna þeim gnægð stöðugrar hamingju,

og ég leiði heim aftur hina herleiddu frá Júda og hina herleiddu frá Ísrael og byggi þá upp aftur eins og áður.

Og ég hreinsa þá af allri misgjörð þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og fyrirgef þeim allar misgjörðir þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og uppreisn þeirra gegn mér,

til þess að borgin verði mér til frægðar, til ununar, til lofs og dýrðar hjá öllum þjóðum jarðarinnar, sem spyrja munu öll þau gæði, er ég veiti þeim, og skelfast munu og titra vegna allra þeirra gæða og allrar þeirrar hamingju, sem ég veiti henni.

10 Svo segir Drottinn: Á þessum stað, er þér segið um: "Hann er eyddur, mannlaus og skepnulaus!" í borgum Júda og á Jerúsalemstrætum, sem nú eru gjöreydd, mannlaus, íbúalaus og skepnulaus,

11 skulu aftur heyrast ánægjuhljóð og gleðihljóð, fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, fagnaðarlæti þeirra, er færa þakkarfórn í musteri Drottins og segja: Þakkið Drottni allsherjar, því að Drottinn er góður, því að miskunn hans varir að eilífu! Því að ég mun leiða hið herleidda fólk landsins heim aftur, til þess að þeir séu eins og áður, segir Drottinn.

12 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn skal á þessum stað, sem nú er eyddur, bæði mannlaus og skepnulaus, og í öllum borgum hans vera haglendi fyrir hjarðmenn, sem bæla þar hjarðir sínar.

13 Í fjallborgunum, í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu og í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í Júdaborgum munu enn sauðir renna fram hjá þeim, sem telur þá, segir Drottinn.

14 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun láta rætast fyrirheit það, er ég hefi gefið um Ísraels hús og Júda hús.

15 Á þeim dögum og á þeim tíma mun ég Davíð láta upp vaxa réttan kvist, og hann skal iðka rétt og réttlæti í landinu.

16 Á þeim dögum mun Júda hólpinn verða og Jerúsalem búa óhult, og þetta mun verða nafnið, er menn nefna hana: "Drottinn er vort réttlæti."

17 Svo segir Drottinn: Davíð skal aldrei vanta eftirmann, sem sitji í hásæti Ísraels húss.

18 Og levítaprestana skal aldrei vanta eftirmann frammi fyrir mér, er framberi brennifórnir, brenni matfórnum og fórni sláturfórnum alla daga.

19 Og orð Drottins kom til Jeremía:

20 Svo segir Drottinn: Svo sannarlega sem þér getið ekki rofið sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina, svo að dagur og nótt komi ekki á sínum tíma,

21 svo sannarlega mun sáttmáli minn við Davíð þjón minn eigi rofinn verða, svo að hann hafi ekki niðja, er ríki í hásæti hans, og við prestalevítana, þjóna mína.

22 Eins og himinsins her verður ekki talinn og sjávarsandurinn ekki mældur, svo vil ég margfalda niðja Davíðs þjóns míns og levítana, er mér þjóna.

23 Og orð Drottins kom til Jeremía:

24 Hefir þú ekki tekið eftir, hvað þessi lýður talar, er hann segir: "Báðum ættkvíslunum, sem Drottinn útvaldi, hefir hann hafnað!" og að þeir segja fyrirlitlega um lýð minn, að hann sé ekki þjóð framar í þeirra augum?

25 Svo segir Drottinn: Ég, sem hefi gjört sáttmála við dag og nótt og sett himni og jörðu föst lög,

26 skyldi ég hafna niðjum Jakobs og Davíðs, þjóns míns? Skyldi ég leiða hjá mér að velja af niðjum hans drottnara yfir ætt Abrahams, Ísaks og Jakobs? Nei, ég mun snúa við högum þeirra og miskunna þeim.

Sálmarnir 3-4

Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.

Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.

Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]

En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.

Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]

Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.

Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.

Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.

Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]

Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.

Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.

Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]

Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.

Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]

Færið réttar fórnir og treystið Drottni.

Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.

Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.

Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society