Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 18

18 Í þá daga var enginn konungur í Ísrael, og í þá daga var ættkvísl Daníta að leita sér að arfleifð til búsetu, því að henni hafði eigi til þess dags hlotnast nein arfleifð meðal ættkvísla Ísraels.

Dans synir sendu þá fimm hrausta menn af kynþætti sínum, úr sínum hóp, frá Sorea og Estaól til þess að kanna landið og rannsaka það, og sögðu við þá: "Farið og rannsakið landið." Og þeir komu upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og voru þar nætursakir.

Þegar þeir voru staddir hjá húsi Míka, þekktu þeir málfæri hins unga manns, levítans, og viku þangað og sögðu við hann: "Hver hefir fært þig hingað? Hvað hefst þú hér að og hverja kosti hefir þú hér?"

Og hann sagði við þá: "Svo og svo hefir Míka gjört við mig. Hann leigði mig, og gjörðist ég prestur hans."

Þá sögðu þeir við hann: "Gakk þú til frétta við Guð, svo að vér fáum að vita, hvort för sú muni lánast, sem vér nú erum að fara."

Presturinn svaraði þeim: "Farið heilir. Förin, sem þér eruð að fara, er Drottni þóknanleg."

Síðan fóru mennirnir fimm leiðar sinnar og komu til Laís, og sáu þeir að fólkið, sem bjó þar, var óhult um sig að hætti Sídoninga, öruggt og óhult, og að ekki var skortur á neinu þar í landi og að fólkið var auðugt. Þeir voru og langt frá Sídoningum og höfðu engin mök við neinn.

Og þeir komu til bræðra sinna í Sorea og Estaól. Og bræður þeirra sögðu við þá: "Hvað hafið þér að segja?"

Þeir svöruðu: "Af stað! Vér skulum fara í móti þeim, því að vér höfum séð landið, og sjá, það er mjög gott. Og þér eruð aðgjörðalausir! Verið ekki tregir að leggja af stað í ferð þessa til þess að taka landið til eignar.

10 Þegar þér komið þangað, munuð þér hitta ugglaust fólk, og landið er víðáttumikið á allar hliðar, því að Guð hefir gefið það í yðar hendur, land, þar sem ekki er skortur á neinu því, sem til er á jörðinni."

11 Þá tóku sig upp þaðan, frá Sorea og Estaól, sex hundruð menn, búnir hervopnum, af kynþætti Daníta.

12 Héldu þeir norður eftir og settu herbúðir sínar í Kirjat Jearím í Júda. Fyrir því er sá staður kallaður "Dans herbúðir" fram á þennan dag, sjá, það er fyrir vestan Kirjat Jearím.

13 Þaðan fóru þeir yfir á Efraímfjöll og komu til húss Míka.

14 Þá hófu mennirnir fimm máls, þeir er farið höfðu til Laís til þess að kanna landið, og sögðu við frændur sína: "Vitið þér, að í þessum húsum er hökullíkneski, húsgoð, skurðlíkneski og steypt líkneski? Hyggið nú að, hvað þér eigið að gjöra!"

15 Og þeir viku þangað og komu í hús hins unga manns, levítans, í hús Míka, og spurðu hann, hvernig honum liði.

16 En þeir sex hundruð menn, sem voru af sonum Dans, stóðu búnir hervopnum fyrir utan hliðið,

17 og mennirnir fimm, sem farið höfðu að kanna landið, fóru upp og komu þangað, tóku skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. En presturinn stóð fyrir utan hliðið og þeir sex hundruð menn, búnir hervopnum.

18 En er þeir voru komnir inn í hús Míka, þá tóku þeir skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. Og presturinn sagði við þá: "Hvað hafist þér að?"

19 En þeir svöruðu honum: "Þegi þú! Legg þú hönd þína á munn þér og far með oss, og ver þú faðir vor og prestur! Er þér það betra að vera heimilisprestur eins manns heldur en að vera prestur hjá ættkvísl og kynþætti í Ísrael?"

20 Prestur tók þessu feginsamlega og tók hökullíkneskið, húsgoðin og skurðlíkneskið og slóst í för með mönnunum.

21 Sneru þeir nú á leið og héldu af stað og létu börn og búsmala og verðmæta hluti fara á undan sér.

22 En er þeir voru komnir langt í burt frá húsi Míka, þá voru þeir menn, sem bjuggu í húsunum hjá húsi Míka, kallaðir saman, og eltu þeir Dans syni og náðu þeim.

23 Og þeir kölluðu til Dans sona, og sneru þeir sér þá við og sögðu við Míka: "Hvað stendur til fyrir þér, er þú kemur svo fjölmennur?"

24 Hann svaraði: "Þér hafið tekið guði mína, sem ég hafði gjört mér, og prestinn, og eruð farnir burt. Hvað á ég þá eftir? Hvernig getið þér þá spurt mig: Hvað stendur til fyrir þér?"

25 Þá sögðu Dans synir við hann: "Haf engin orð við oss, ella kynnu gremjufullir menn að ráðast á yður og þú verða valdur að því, að bæði þú og þitt hús týni lífi."

26 Síðan fóru Dans synir leiðar sinnar. En Míka sá, að þeir voru honum ofurefli, og sneri því við og fór aftur heim til sín.

27 Þeir tóku skurðlíkneskið, sem Míka hafði til búið, svo og prestinn, sem hann hafði haft, og réðust á Laís, ugglaust fólk og óhult um sig, og felldu þá með sverðseggjum, en lögðu eld í borgina.

28 Og þar var enginn, sem kæmi þeim til hjálpar, því að borgin lá langt frá Sídon og þeir höfðu ekki mök við nokkurn mann, enda lá borgin í dalnum, sem er hjá Bet-Rehób. Síðan endurreistu þeir borgina og settust þar að.

29 Þeir nefndu borgina Dan, eftir nafni Dans, föður þeirra, er fæddist Ísrael, en í öndverðu hafði borgin heitið Laís.

30 Og Dans synir reistu upp skurðlíkneskið handa sér, og Jónatan Gersómsson, Mósesonar, og synir hans voru prestar hjá ættkvísl Daníta, til þess er fólkið var flutt burt úr landinu.

31 Og þeir settu upp skurðlíkneski Míka handa sér, það er hann hafði til búið, og stóð það alla þá stund er Guðs hús var í Síló.

Postulasagan 22

22 "Bræður og feður, hlustið á það, sem ég ætla að flytja yður mér til varnar."

En er þeir heyrðu hann ávarpa sig á hebresku, urðu þeir enn hljóðari. Hann heldur áfram:

"Ég er Gyðingur, fæddur í Tarsus í Kilikíu, en alinn upp í þessari borg. Við fætur Gamalíels hlaut ég fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra vorra. Guðs stríðsmaður vildi ég vera ekki síður en þér allir í dag.

Ég ofsótti þá, sem voru þessa vegar, og sparði ekki líf þeirra, færði í fjötra og hneppti í fangelsi karla og konur.

Æðsti presturinn og allt öldungaráðið geta borið mér vitni um þetta. Hjá þeim fékk ég bréf til bræðranna í Damaskus og fór þangað til að flytja einnig þá, er þar voru, í böndum til Jerúsalem, að þeim yrði refsað.

En á leiðinni, er ég nálgaðist Damaskus, bar svo við um hádegisbil, að ljós mikið af himni leiftraði skyndilega um mig.

Ég féll til jarðar og heyrði raust, er sagði við mig: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?`

Ég svaraði: ,Hver ert þú, herra?` Og hann sagði við mig: ,Ég er Jesús frá Nasaret, sem þú ofsækir.`

Þeir, sem með mér voru, sáu ljósið, en raust þess, er við mig talaði, heyrðu þeir ekki.

10 Þá sagði ég: ,Hvað á ég að gjöra, herra?` En Drottinn sagði við mig: ,Rís upp og far til Damaskus. Þar mun þér verða sagt allt, sem þér er ætlað að gjöra.`

11 En með því að ég var blindaður af ljóma þessa ljóss, urðu förunautar mínir að leiða mig, og þannig komst ég til Damaskus.

12 En Ananías nokkur, maður guðrækinn eftir lögmálinu og í góðum metum hjá öllum Gyðingum, er þar bjuggu,

13 kom til mín, nam staðar hjá mér og sagði: ,Sál, bróðir, fá þú aftur sjón þína!` Á sömu stundu fékk ég sjónina og sá hann.

14 En hann sagði: ,Guð feðra vorra hefur útvalið þig til að þekkja vilja sinn, að sjá hinn réttláta og heyra raustina af munni hans.

15 Því að þú skalt honum vottur vera hjá öllum mönnum um það, sem þú hefur séð og heyrt.

16 Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.`

17 En þegar ég var kominn aftur til Jerúsalem og baðst fyrir í helgidóminum, varð ég frá mér numinn

18 og sá hann, og hann sagði við mig: ,Flýt þér og far sem skjótast burt úr Jerúsalem, því að þeir munu ekki veita viðtöku vitnisburði þínum um mig.`

19 Ég sagði: ,Drottinn, þeir vita, að ég hef verið að hneppa í fangelsi þá, sem trúðu á þig, og láta húðstrýkja þá í samkunduhúsunum.

20 Og þegar úthellt var blóði Stefáns, vottar þíns, stóð ég sjálfur þar hjá og lét mér vel líka og varðveitti klæði þeirra, sem tóku hann af lífi.`

21 Hann sagði við mig: ,Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu."`

22 Allt að þessu orði hlýddu þeir á hann, en nú hófu þeir upp raust sína og hrópuðu: "Burt með slíkan mann af jörðinni! Eigi hæfir, að hann lifi!"

23 Nú sem þeir æptu og vingsuðu klæðum sínum og þyrluðu ryki í loft upp,

24 skipaði hersveitarforinginn að fara með hann inn í kastalann og hýða hann og kúga hann með því til sagna, svo að hann kæmist að því, fyrir hverja sök þeir gjörðu slík óp að honum.

25 En þá er þeir strengdu hann undir höggin, sagði Páll við hundraðshöfðingjann, er hjá stóð: "Leyfist yður að húðstrýkja rómverskan mann og það án dóms og laga?"

26 Þegar hundraðshöfðinginn heyrði þetta, fór hann til hersveitarforingjans, skýrði honum frá og sagði: "Hvað ert þú að gjöra? Maður þessi er rómverskur."

27 Hersveitarforinginn kom þá og sagði við Pál: "Seg mér, ert þú rómverskur borgari?" Páll sagði: "Já."

28 Hersveitarforinginn sagði: "Fyrir ærið fé keypti ég þennan þegnrétt." En Páll sagði: "Ég er meira að segja með honum fæddur."

29 Þeir, sem áttu að kúga hann til sagna, viku nú jafnskjótt frá honum. Og hersveitarforinginn varð hræddur, er hann varð þess vís, að það var rómverskur maður, sem hann hafði látið binda.

30 Daginn eftir vildi hann ganga úr skugga um, fyrir hvað Gyðingar kærðu hann, lét leysa hann og bauð, að æðstu prestarnir og allt ráðið kæmi saman. Síðan kom hann ofan með Pál og leiddi hann fram fyrir þá.

Jeremía 32

32 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á tíunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, það var átjánda ríkisár Nebúkadresars.

Þá sat her Babelkonungs um Jerúsalem, en Jeremía spámaður var í varðhaldi í varðgarðinum, sem heyrir til hallar Júdakonungs.

En Sedekía Júdakonungur hafði látið setja hann inn með þeim ummælum: "Hví spáir þú og segir: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel þessa borg í hendur Babelkonungi, að hann vinni hana,

og Sedekía Júdakonungur mun ekki komast undan valdi Kaldea, heldur mun hann áreiðanlega verða seldur á vald Babelkonungi, og hann mun tala við hann munni til munns og sjá hann augliti til auglitis,

og til Babýlon mun hann flytja Sedekía, og þar mun hann verða, uns ég vitja hans _ segir Drottinn. Þegar þér berjist við Kaldea, munuð þér enga sigurför fara?"

Jeremía svaraði: "Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

Sjá, Hanameel, sonur Sallúms föðurbróður þíns, mun til þín koma og segja: ,Kaup þú akur minn í Anatót, því að þú átt innlausnarréttinn að kaupa hann.`

Og Hanameel frændi minn kom til mín í varðgarðinn, eins og Drottinn hafði fyrir sagt, og sagði við mig: ,Kaup þú akur minn í Anatót, sem er í Benjamínslandi, því að þú átt erfða- og innlausnarréttinn _ kaup þú hann!` Þá sá ég, að það var orð frá Drottni,

keypti akurinn í Anatót af Hanameel frænda mínum og vó honum út andvirðið, seytján sikla silfurs.

10 Og ég skrifaði það á bréf og innsiglaði það og tók votta að og vó silfrið á vog.

11 Síðan tók ég kaupbréfið, hið innsiglaða _ ákvæðin og skilmálana _ og opna bréfið,

12 og fékk kaupbréfið Barúk Neríasyni, Mahasejasonar, í viðurvist Hanameels frænda míns og í viðurvist vottanna, er skrifað höfðu undir kaupbréfið, í viðurvist allra þeirra Júdamanna, er sátu í varðgarðinum,

13 og lagði svo fyrir Barúk í viðurvist þeirra:

14 ,Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Tak þessi bréf, þetta innsiglaða kaupbréf og þetta opna kaupbréf, og legg þau í leirker, til þess að þau varðveitist lengi.

15 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Enn skulu hús keypt verða og akrar og víngarðar í þessu landi.`

16 Og er ég hafði fengið Barúk Neríasyni kaupbréfið, bað ég til Drottins á þessa leið:

17 ,Æ, herra Drottinn, sjá, þú hefir með þínum mikla mætti og útrétta armlegg gjört himin og jörð. Þér er enginn hlutur um megn!

18 Þú sem auðsýnir miskunn þúsundum og geldur misgjörð feðranna í skaut sonum þeirra eftir þá, _ þú mikli, voldugi Guð, er nefnist Drottinn allsherjar,

19 mikill í ráðum og máttugur í athöfnum, þú hvers augu standa opin yfir öllum vegum mannanna barna til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans og eftir ávexti verka hans,

20 þú sem hefir gjört tákn og undur á Egyptalandi og allt fram á þennan dag, bæði á Ísrael og á öðrum mönnum, og afrekað þér mikið nafn fram á þennan dag.

21 Þú fluttir þjóð þína Ísrael af Egyptalandi með táknum og undrum og með sterkri hendi og útréttum armlegg og mikilli skelfingu

22 og gafst þeim þetta land, er þú sórst feðrum þeirra að gefa þeim, land, sem flýtur í mjólk og hunangi.

23 En er þeir voru komnir inn í það og höfðu tekið það til eignar, þá hlýddu þeir ekki þinni raustu, breyttu ekki eftir lögmáli þínu og gjörðu ekki neitt af því, er þú hafðir boðið þeim að gjöra. Þá lést þú alla þessa ógæfu þeim að höndum bera.

24 Sjá, sóknarvirkin eru þegar komin að borginni til að vinna hana, og borgin er fyrir sakir sverðs, hungurs og drepsóttar seld á vald Kaldea, sem á hana herja, og það, sem þú hótaðir, er fram komið, og sjá, þú horfir á það.

25 Og þó sagðir þú við mig, herra Drottinn: "Kaup þér akurinn fyrir silfur og tak votta að!" _ þótt borgin sé seld á vald Kaldea."`

26 Þá kom orð Drottins til Jeremía:

27 Sjá, ég er Drottinn, Guð alls holds. Er mér nokkur hlutur um megn?

28 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég sel þessa borg á vald Kaldea og á vald Nebúkadresars Babelkonungs, að hann vinni hana,

29 og Kaldear, sem herja á þessa borg, munu brjótast inn í hana, og leggja eld í þessa borg og brenna hana og húsin, þar sem þeir á þökunum færðu Baal reykelsisfórnir og færðu öðrum guðum dreypifórnir til þess að egna mig til reiði.

30 Því að Ísraelsmenn og Júdamenn hafa frá æsku sinni verið vanir að gjöra það eitt, sem mér mislíkaði, því að Ísraelsmenn hafa aðeins egnt mig til reiði með handaverkum sínum _ segir Drottinn.

31 Já, þessi borg hefir verið mér tilefni til reiði og gremi frá þeim degi, er hún var reist, allt fram á þennan dag, svo að ég verð að taka hana burt frá augliti mínu,

32 sökum allrar illsku Ísraelsmanna og Júdamanna, er þeir hafa í frammi haft til þess að egna mig til reiði, _ konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar.

33 Þeir sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu, og þótt ég fræddi þá seint og snemma, þá hlýddu þeir ekki, svo að þeir tækju umvöndun.

34 Heldur reistu þeir viðurstyggðir sínar upp í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, til þess að saurga það.

35 Þeir byggðu Baal fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal, til þess að láta sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn Mólok til handa, _ sem ég hefi ekki boðið þeim og mér hefir ekki í hug komið, að þeir mundu fremja slíka svívirðing, til þess að tæla Júda til syndar.

36 Og nú _ fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um þessa borg, er þér segið að seld sé á vald Babelkonungs með sverði, hungri og drepsótt:

37 Sjá, ég safna þeim saman úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hefi rekið þá í reiði minni og heift og í mikilli gremi, og læt þá snúa aftur hingað og búa hér óhulta.

38 Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð,

39 og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá.

40 Og ég vil gjöra við þá eilífan sáttmála, að ég muni aldrei snúa frá þeim með velgjörðir mínar, og ég vil leggja ótta fyrir mér í hjörtu þeirra, til þess að þeir víki ekki frá mér.

41 Og það skal verða unun mín að gjöra vel við þá, og ég mun gróðursetja þá í þessu landi í trúfesti, af öllu hjarta og af allri sálu.

42 Því að svo segir Drottinn: Eins og ég hefi leitt yfir þessa þjóð alla þessa miklu óhamingju, svo leiði ég og yfir þá alla þá hamingju, sem ég heiti þeim.

43 Og akrar munu aftur keyptir verða í þessu landi, sem þér segið um: "Það er auðn, mannlaust og skepnulaust! Það er selt á vald Kaldea!"

44 Akra munu menn kaupa fyrir silfur og skrifa kaupbréf og innsigla og taka votta að, bæði í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í borgum Júda og í fjallborgunum og í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu, því að ég mun leiða heim aftur hina herleiddu menn þeirra _ segir Drottinn.

Sálmarnir 1-2

Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,

heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.

Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.

Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.

Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.

Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?

Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:

"Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."

Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.

Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:

"Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."

Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.

Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.

Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."

10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.

11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.

12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,

13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society