Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 17

17 Maður hét Míka. Hann var frá Efraímfjöllum.

Hann sagði við móður sína: "Þeir ellefu hundruð siklar silfurs, sem hafa verið teknir frá þér og þú hefir beðið bölbæna fyrir og talað það í mín eyru, _ sjá, það silfur er nú hjá mér. Ég var sá, sem tók það." Þá sagði móðir hans: "Blessaður veri sonur minn af Drottni."

Síðan skilaði hann móður sinni þessum ellefu hundruð siklum silfurs aftur, og móðir hans sagði: "Ég helga að öllu leyti Drottni silfrið úr minni hendi til heilla fyrir son minn, til þess að úr því verði gjört útskorið og steypt líkneski, og fyrir því fæ ég þér það nú aftur."

Er hann hafði skilað móður sinni aftur silfrinu, þá tók móðir hans tvö hundruð sikla silfurs og fékk þá gullsmið, og hann gjörði úr þeim útskorið og steypt líkneski, og það var í húsi Míka.

Þessi maður, Míka, átti goðahús, og hann bjó til hökullíkneski og húsgoð, og hann vígði einn sona sinna, og varð hann prestur hans.

Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, er honum vel líkaði.

Í Betlehem í Júda var ungur maður, af ætt Júda. Hann var levíti og var þar dvalarmaður.

Þessi maður fór burt úr borginni Betlehem í Júda til þess að fá sér dvalarvist, hvar sem hann gæti. Og hann kom upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og ætlaði að halda áfram ferð sinni.

Míka sagði við hann: "Hvaðan kemur þú?" Hann svaraði honum: "Ég er levíti frá Betlehem í Júda, og er ég á ferðalagi til þess að fá mér dvalarvist, hvar sem ég get."

10 Þá sagði Míka við hann: "Sestu að hjá mér, og skaltu vera faðir minn og prestur, og ég mun gefa þér tíu sikla silfurs um árið og fullan klæðnað og viðurværi þitt." Og levítinn gekk inn til hans.

11 Levítinn lét sér vel líka að setjast að hjá manninum, og fór hann með hinn unga mann sem væri hann einn af sonum hans.

12 Og Míka setti levítann inn í embætti, og varð hinn ungi maður prestur hans og var í húsi Míka.

13 Þá sagði Míka: "Nú veit ég, að Drottinn muni gjöra vel við mig, af því að ég hefi levíta fyrir prest."

Postulasagan 21

21 Þegar vér höfðum slitið oss frá þeim, létum vér í haf og héldum beina leið til Kós, næsta dag til Ródus og þaðan til Patara.

Þar hittum vér á skip, er fara átti til Fönikíu. Stigum vér á það og létum í haf.

Vér höfðum landsýn af Kýpur, létum hana á bakborða og sigldum til Sýrlands og tókum höfn í Týrus. Þar átti skipið að leggja upp farminn.

Vér fundum lærisveinana og dvöldumst þar sjö daga. Þeir sögðu Páli af gift andans, að hann skyldi ekki halda áfram til Jerúsalem.

Að þessum dögum liðnum lögðum vér af stað. Fylgdu þeir oss allir á veg með konum og börnum út fyrir borgina. Vér féllum á kné í fjörunni og báðumst fyrir.

Þar kvöddumst vér. Vér stigum á skip, en hinir sneru aftur heim til sín.

Vér komum til Ptólemais frá Týrus og lukum þar sjóferðinni. Vér heilsuðum bræðrunum og dvöldumst hjá þeim einn dag.

Daginn eftir fórum vér þaðan og komum til Sesareu, gengum inn í hús Filippusar trúboða, sem var einn af þeim sjö, og dvöldumst hjá honum.

Hann átti fjórar ógiftar dætur, gæddar spádómsgáfu.

10 Þegar vér höfðum dvalist þar nokkra daga, kom spámaður einn ofan frá Júdeu, Agabus að nafni.

11 Hann kom til vor, tók belti Páls, batt fætur sína og hendur og mælti: "Svo segir heilagur andi: ,Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda þann mann, sem þetta belti á, og selja hann í hendur heiðingjum."`

12 Þegar vér heyrðum þetta, lögðum vér og heimamenn að Páli að fara ekki upp til Jerúsalem.

13 En hann sagði: "Hví grátið þér og hrellið hjarta mitt? Ég er eigi aðeins reiðubúinn að láta binda mig, heldur og að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú."

14 Honum varð eigi talið hughvarf. Þá létum vér kyrrt og sögðum: "Verði Drottins vilji."

15 Að þessum dögum liðnum bjuggumst vér til ferðar og héldum upp til Jerúsalem.

16 Nokkrir lærisveinar frá Sesareu urðu oss samferða. Þeir fóru með oss til Mnasons nokkurs frá Kýpur, lærisveins frá elstu tíð, og skyldum vér gista hjá honum.

17 Þegar vér komum til Jerúsalem, tóku bræðurnir oss feginsamlega.

18 Næsta dag gekk Páll með oss til Jakobs, og allir öldungarnir komu þangað.

19 Páll heilsaði þeim og lýsti síðan nákvæmlega öllu, sem Guð hafði gjört meðal heiðingjanna með þjónustu hans.

20 Þeir vegsömuðu Guð fyrir það, sem þeir heyrðu, og sögðu við hann: "Þú sérð, bróðir hve margir tugir þúsunda það eru meðal Gyðinga, sem trú hafa tekið, og allir eru þeir vandlátir um lögmálið.

21 En þeim hefur verið sagt, að þú kennir öllum Gyðingum, sem eru meðal heiðingja, að hverfa frá Móse og segir, að þeir skuli hvorki umskera börn sín né fylgja siðum vorum.

22 Hvað á nú að gjöra? Víst mun það spyrjast, að þú ert kominn.

23 Gjör því þetta, sem vér nú segjum þér. Hjá oss eru fjórir menn, sem heit hvílir á.

24 Tak þá með þér, lát hreinsast með þeim og ber kostnaðinn fyrir þá, að þeir geti látið raka höfuð sín. Þá mega allir sjá, að ekkert er hæft í því, sem þeim hefur verið sagt um þig, heldur gætir þú lögmálsins sjálfur í breytni þinni.

25 En um heiðingja, sem trú hafa tekið, höfum vér gefið út bréf og ályktað, að þeir skuli varast kjöt fórnað skurðgoðum, blóð, kjöt af köfnuðum dýrum og saurlifnað."

26 Páll tók að sér mennina og lét hreinsast með þeim daginn eftir. Síðan gekk hann inn í helgidóminn og gjörði kunnugt, hvenær hreinsunardagarnir væru á enda og fórnin fyrir hvern þeirra skyldi fram borin.

27 Þegar dagarnir sjö voru nær liðnir, sáu Gyðingar frá Asíu Pál í helgidóminum. Þeir komu öllu fólkinu í uppnám, lögðu hendur á hann

28 og hrópuðu: "Ísraelsmenn, veitið nú lið. Þetta er maðurinn, sem alls staðar kennir öllum það, sem er andstætt lýðnum, lögmálinu og þessum stað. Og nú hefur hann auk heldur farið með Grikki inn í helgidóminn og saurgað þennan heilaga stað."

29 En þeir höfðu áður séð Trófímus frá Efesus með honum í borginni og hugðu, að Páll hefði farið með hann inn í helgidóminn.

30 Öll borgin varð uppvæg, fólk þusti að, þeir tóku Pál og drógu hann út úr helgidóminum. Jafnskjótt var dyrunum læst.

31 Þeir ætluðu að lífláta hann, en hersveitarforingjanum var tjáð, að öll Jerúsalem væri í uppnámi.

32 Hann brá við og tók með sér hermenn og hundraðshöfðingja og hljóp niður til þeirra. Þegar þeir sáu hersveitarforingjann og hermennina, hættu þeir að berja Pál.

33 Hersveitarforinginn kom þá að, tók hann og skipaði að binda hann tvennum fjötrum og spurði, hver hann væri og hvað hann hefði gjört.

34 En sitt kallaði hver í mannfjöldanum. Þegar hann gat ekki orðið neins vísari sökum óróans, bauð hann að fara með hann upp í kastalann.

35 Þegar komið var að þrepunum, urðu hermennirnir að bera hann vegna ofsans í fólkinu,

36 en múgur manns fylgdi eftir og æpti: "Burt með hann!"

37 Um leið og fara átti með Pál inn í kastalann, segir hann við hersveitarforingjann: "Leyfist mér að tala nokkur orð við þig?" Hann svaraði: "Kannt þú grísku?

38 Ekki ert þú þá Egyptinn, sem æsti til uppreisnar á dögunum og fór með morðvargana fjögur þúsund út í óbyggðir."

39 Páll sagði: "Ég er Gyðingur, frá Tarsus í Kilikíu, borgari í ekki ómerkum bæ. Ég bið þig, leyf mér að tala til fólksins."

40 Hann leyfði það. Páll bandaði hendi til fólksins, þar sem hann stóð á þrepunum. Þegar hann hafði fengið gott hljóð, mælti hann til þeirra á hebreska tungu:

Jeremía 30-31

30 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Skrifa þú öll þau orð, er ég hefi til þín talað, í bók.

Því sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun snúa við hag lýðs míns, Ísraels og Júda _ segir Drottinn _ og láta þá hverfa aftur til þess lands, sem ég gaf feðrum þeirra, og þeir skulu taka það til eignar.

Þessi eru orðin, sem Drottinn talaði um Ísrael og Júda.

Svo segir Drottinn: Hræðsluóp heyrum vér, ótti er á ferðum, en engin heill!

Spyrjið um og gætið að, hvort karlmaður ali barn! Hvers vegna sé ég þá alla menn með hendur á lendum, líkt og jóðsjúk kona væri, og hvers vegna eru öll andlit orðin nábleik?

Vei, mikill er sá dagur, hann á ekki sinn líka og angistartími er það fyrir Jakob, en hann mun frelsast frá því.

Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ mun ég sundur brjóta okið af hálsi hans og slíta af honum böndin, og útlendir menn skulu ekki lengur halda honum í þrældómi.

Þeir skulu þjóna Drottni, Guði sínum, og Davíð, konungi sínum, er ég mun uppvekja þeim.

10 Óttast þú ekki, þjónn minn Jakob _ segir Drottinn _ og hræðst þú ekki, Ísrael, því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi og leysi niðja þína úr landinu, þar sem þeir eru herleiddir, til þess að Jakob hverfi heim aftur og njóti hvíldar og búi óhultur, án þess nokkur hræði hann.

11 Ég er með þér _ segir Drottinn _ til þess að frelsa þig. Ég vil gjöreyða öllum þeim þjóðum, sem ég hefi tvístrað þér á meðal. Þér einni vil ég ekki gjöreyða, heldur vil ég hirta þig í hófi, en ég vil ekki láta þér með öllu óhegnt.

12 Svo segir Drottinn: Áverki þinn er illkynjaður, sár þitt ólæknandi.

13 Enginn tekur að sér málefni þitt, við meininu er engin lækning, engin smyrsl til handa þér.

14 Allir ástmenn þínir hafa gleymt þér, þeir spyrja ekki eftir þér, af því að ég hefi lostið þig, eins og óvinur lýstur, með grimmilegri hirting, sakir fjölda misgjörða þinna, sakir þess að syndir þínar eru margar.

15 Hví æpir þú af áverka þínum, af þinni ólæknandi kvöl? Sakir fjölda misgjörða þinna, sakir þess að syndir þínar eru margar, hefi ég gjört þér þetta.

16 Fyrir því skulu allir þeir, sem þig eta, etnir verða, og allir þeir, sem þér þröngva, herleiddir verða. Og þeir, sem rupla þig, skulu verða öðrum að herfangi, og alla þá, sem þig ræna, mun ég framselja til ráns.

17 Ég mun láta koma hyldgan á sár þín og lækna þig af áverkum þínum _ segir Drottinn _ af því að þeir kalla þig "hina brottreknu," "Síon, sem enginn spyr eftir."

18 Svo segir Drottinn: Sjá, ég sný við högum Jakobs tjalda og miskunna mig yfir bústaði hans, til þess að borgin verði aftur reist á hæð sinni og aftur verði búið í höllinni á hennar vanastað.

19 Og þaðan skal hljóma þakkargjörð og gleðihljóð, og ég læt þeim fjölga og eigi fækka, og ég gjöri þá vegsamlega, svo að þeir séu ekki lengur lítilsvirtir.

20 Synir hans skulu vera mér sem áður, og söfnuður hans skal vera grundvallaður frammi fyrir mér, en allra kúgara hans mun ég vitja.

21 Höfðingi hans mun frá honum koma og drottnari hans fram ganga úr flokki hans. Og ég mun láta hann nálgast mig, og hann mun koma til mín, því að hver skyldi af sjálfsdáðum hætta lífi sínu í það að koma til mín? _ segir Drottinn.

22 Og þá munuð þér vera mín þjóð, og ég mun vera yðar Guð.

23 Sjá, stormur Drottins brýst fram _ reiði og hvirfilbylur _ hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.

24 Hinni brennandi reiði Drottins linnir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt fyrirætlanir hjarta síns og komið þeim til vegar. Síðar meir munuð þér skilja það.

31 Á þeim tíma mun ég _ segir Drottinn _ vera Guð fyrir allar ættkvíslir Ísraels, og þeir munu vera mín þjóð.

Svo segir Drottinn: Sá lýður, er undan sverðinu komst, fann náð í óbyggðum, er Ísrael leitaði hvíldar.

Úr fjarlægð birtist Drottinn mér: "Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig."

Enn vil ég endurreisa þig, svo að þú verðir endurreist, mærin Ísrael. Enn munt þú skreyta þig með bjöllum og ganga út í dansi fagnandi manna.

Þú munt enn planta víngarða á Samaríufjöllum. Þeir, sem hafa gróðursett þá, munu og hafa nytjar þeirra.

Já, sá dagur mun koma, að varðmennirnir kalla á Efraím-fjöllum: Standið upp, förum upp til Síon, til Drottins, Guðs vors!

Svo segir Drottinn: Fagnið yfir Jakob með gleði og kætist yfir öndvegisþjóð þjóðanna. Kunngjörið, vegsamið og segið: Frelsa, Drottinn, þjóð þína, leifarnar af Ísrael!

Sjá, ég flyt þá úr landinu norður frá og safna þeim saman frá útkjálkum jarðar, á meðal þeirra eru bæði blindir og lamir, bæði þungaðar og jóðsjúkar konur, í stórum hóp hverfa þeir hingað aftur.

Þeir munu koma grátandi, og ég mun fylgja þeim huggandi, leiða þá að vatnslækjum, um sléttan veg, þar sem þeir geta eigi hrasað, því að ég er orðinn Ísrael faðir, og Efraím er frumgetinn sonur minn.

10 Heyrið orð Drottins, þér þjóðir, og kunngjörið það á fjarlægu eyjunum og segið: Sá, sem tvístraði Ísrael, safnar honum saman og mun gæta hans, eins og hirðir gætir hjarðar sinnar.

11 Drottinn frelsar Jakob og leysir hann undan valdi þess, sem honum var yfirsterkari.

12 Þeir skulu koma og fagna á Síonhæð og streyma til gæða Drottins, til kornsins, vínberjalagarins, olíunnar og ungu sauðanna og nautanna, og sál þeirra skal verða eins og vökvaður aldingarður, og þeir skulu eigi framar vanmegnast.

13 Þá munu meyjarnar skemmta sér við dans og unglingar og gamalmenni gleðjast saman. Ég mun breyta sorg þeirra í gleði og hugga þá og gleðja eftir harma þeirra.

14 Og ég mun endurnæra sál prestanna á feiti, og lýður minn mun seðja sig á gæðum mínum _ segir Drottinn.

15 Svo segir Drottinn: Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur: Rakel grætur börnin sín. Hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna, því að þau eru eigi framar lífs.

16 Svo segir Drottinn: Halt raust þinni frá gráti og augum þínum frá tárum, því að enn er til umbun fyrir verk þitt _ segir Drottinn _: Þeir skulu hverfa heim aftur úr landi óvinanna.

17 Já, enn er von um framtíð þína _ segir Drottinn _: Börnin skulu hverfa heim aftur í átthaga sína.

18 Að sönnu heyri ég Efraím kveina: "Þú hefir hirt mig, og ég lét hirtast eins og óvaninn kálfur, _ lát mig snúa heim, þá skal ég snúa við, því að þú ert Drottinn, Guð minn!

19 Því að eftir að ég hafði snúið mér frá þér, gjörðist ég iðrandi, og eftir að ég vitkaðist, barði ég mér á brjóst. Ég blygðast mín, já, ég er sneyptur, því að ég ber skömm æsku minnar."

20 Er Efraím mér þá svo dýrmætur sonur eða slíkt eftirlætisbarn, að þótt ég hafi oft hótað honum, þá verð ég ávallt að minnast hans að nýju? Fyrir því kemst hjarta mitt við vegna hans, ég hlýt að miskunna mig yfir hann _ segir Drottinn.

21 Reis þér vörður! Set þér vegamerki! Haf athygli á brautinni, veginum, sem þú fórst! Hverf heim, mærin Ísrael! Hverf heim til þessara borga þinna!

22 Hversu lengi ætlar þú að reika fram og aftur, þú hin fráhverfa dóttir? Því að Drottinn skapar nýtt á jörðu: Kvenmaðurinn verndar karlmanninn.

23 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Enn munu menn mæla þessum orðum í Júda og í borgum hans, þá er ég hefi snúið við högum þeirra: "Drottinn blessi þig, bústaður réttlætisins, heilaga fjall!"

24 Júda og allar borgir hans munu búa þar saman, akuryrkjumenn og þeir, sem fara um með hjarðir,

25 því að ég drykkja hinar sárþyrstu sálir og metta sérhverja örmagna sál.

26 Við þetta vaknaði ég og litaðist um, og svefninn hafði verið mér þægilegur.

27 Sjá, þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að ég sái Ísraels hús og Júda hús með mannsáði og fénaðarsáði,

28 og eins og ég vakti yfir þeim til þess að uppræta og umturna, rífa niður og eyða og vinna þeim mein, þannig mun ég og vaka yfir þeim til þess að byggja og gróðursetja _ segir Drottinn.

29 Á þeim dögum munu menn eigi framar segja: "Feðurnir átu súr vínber og tennur barnanna urðu sljóar!"

30 Heldur mun hver deyja fyrir eigin misgjörð. Hver sá maður, er etur súr vínber, hans tennur munu sljóar verða.

31 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús,

32 ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra _ segir Drottinn.

33 En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta _ segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.

34 Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: "Lærið að þekkja Drottin," því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir _ segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.

35 Svo segir Drottinn, sem sett hefir sólina til að lýsa um daga, tunglið og stjörnurnar til að lýsa um nætur, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja _ Drottinn allsherjar er nafn hans:

36 Svo sannarlega sem þessi fasta skipan mun aldrei breytast fyrir mér _ segir Drottinn _ svo sannarlega munu Ísraels niðjar ekki hætta að vera þjóð fyrir mér alla daga.

37 Svo segir Drottinn: Svo sannarlega sem himinninn hið efra verður eigi mældur né undirstöður jarðarinnar hið neðra rannsakaðar, svo sannarlega mun ég ekki hafna öllum Ísraels niðjum sakir alls þess, er þeir hafa gjört _ segir Drottinn.

38 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að borgin verður endurreist Drottni til handa, frá Hananel-turni allt að Hornhliðinu,

39 og enn fremur skal mælisnúran ganga beint á Gareb-hæð og beygja þaðan til Góa.

40 Og allur hræva- og öskudalurinn og allir vellirnir að Kídronlæk, allt austur að horni Hrossahliðs, skulu vera helgaðir Drottni. Eigi skal þar verða upprætt framar né rifið niður að eilífu.

Markúsarguðspjall 16

16 Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.

Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.

Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?"

En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór.

Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: "Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann.

En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`."

Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.

Þegar hann var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu, en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda.

10 Hún fór og kunngjörði þetta þeim, er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.

11 Þá er þeir heyrðu, að hann væri lifandi og hún hefði séð hann, trúðu þeir ekki.

12 Eftir þetta birtist hann í annarri mynd tveimur þeirra, þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit.

13 Þeir sneru við og kunngjörðu hinum, en þeir trúðu þeim ekki heldur.

14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn.

15 Hann sagði við þá: "Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.

16 Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.

17 En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum,

18 taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir."

19 Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society