M’Cheyne Bible Reading Plan
13 Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Filistum í fjörutíu ár.
2 Maður er nefndur Manóa. Hann var frá Sorea, af ætt Daníta. Kona hans var óbyrja og hafði eigi barn alið.
3 Engill Drottins birtist konunni og sagði við hana: "Sjá, þú ert óbyrja og hefir eigi barn alið, en þú munt þunguð verða og son ala.
4 Og haf nú gætur á þér, drekk hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint.
5 Því sjá, þú munt þunguð verða og ala son, og skal rakhnífur ekki koma á höfuð hans, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi, og hann mun byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista."
6 Þá fór konan og sagði við mann sinn á þessa leið: "Guðsmaður nokkur kom til mín, og var hann ásýndum sem engill Guðs, ægilegur mjög; en ég spurði hann ekki, hvaðan hann væri, og nafn sitt sagði hann mér ekki.
7 Hann sagði við mig: ,Sjá, þú munt þunguð verða og son ala. Drekk því hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi til dauðadags."`
8 Þá bað Manóa Drottin og sagði: "Æ, herra! Lát guðsmanninn, sem þú sendir, koma til okkar aftur, svo að hann megi kenna okkur, hvernig við eigum að fara með sveininn, sem fæðast á."
9 Guð heyrði bæn Manóa, og engill Guðs kom aftur til konunnar. Var hún þá stödd úti á víðavangi og maður hennar Manóa ekki hjá henni.
10 Þá hljóp konan sem skjótast og sagði manni sínum frá og mælti við hann: "Sjá, maðurinn, sem til mín kom um daginn, hefir birst mér."
11 Þá reis Manóa upp og fór á eftir konu sinni, og hann kom til mannsins og sagði við hann: "Ert þú maðurinn, sem talaði við konuna?" Hann svaraði: "Já."
12 Þá sagði Manóa: "Ef það nú kemur fram, sem þú hefir sagt, hvernig á þá að fara með sveininn, og hvað á hann að gjöra?"
13 Engill Drottins sagði við Manóa: "Konan skal forðast allt það, sem ég hefi sagt henni.
14 Hún skal ekkert það eta, er af vínviði kemur, ekki drekka vín né áfengan drykk, og ekkert óhreint eta. Hún skal gæta alls þess, er ég hefi boðið henni."
15 Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Leyf okkur að tefja þig stundarkorn, svo að við getum matbúið handa þér hafurkið."
16 En engill Drottins sagði við Manóa: "Þó að þú fáir mig til að tefja, þá et ég samt ekki af mat þínum. En ef þú vilt tilreiða brennifórn, þá fær þú hana Drottni."
17 Því að Manóa vissi ekki, að það var engill Drottins. Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Hvert er nafn þitt? Því að rætist orð þín, munum við tigna þig."
18 Engill Drottins svaraði honum: "Hví spyr þú um nafn mitt? Nafn mitt er undursamlegt."
19 Þá tók Manóa geithafurinn og matfórnina og færði það Drottni á kletti einum. Þá varð undur mikið að þeim Manóa og konu hans ásjáandi.
20 Því að þegar logann lagði upp af altarinu til himins, þá fór engill Drottins upp í altarisloganum. Og er þau Manóa og kona hans sáu það, féllu þau fram á ásjónur sínar til jarðar.
21 Eftir það birtist engill Drottins eigi framar Manóa og konu hans. Þá sá Manóa að það hafði verið engill Drottins.
22 Manóa sagði við konu sína: "Vissulega munum við deyja, því að við höfum séð Guð!"
23 En kona hans svaraði honum: "Ef Drottinn hefði viljað deyða okkur, þá hefði hann eigi þegið brennifórn og matfórn af okkur, né látið okkur sjá allt þetta, og þá hefði hann eigi nú látið okkur heyra slíka hluti."
24 Og konan ól son og nefndi hann Samson; og sveinninn óx upp, og Drottinn blessaði hann.
25 Og andi Drottins tók að knýja hann í herbúðum Dans millum Sorea og Estaól.
17 Þeir fóru nú um Amfípólis og Apollóníu og komu til Þessaloníku. Þar áttu Gyðingar samkundu.
2 Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum,
3 lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir, að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum. Hann sagði: "Jesús, sem ég boða yður, hann er Kristur."
4 Nokkrir þeirra létu sannfærast og gengu til fylgis við Pál og Sílas, auk þess mikill fjöldi guðrækinna Grikkja og mikilsháttar konur eigi allfáar.
5 En Gyðingar fylltust afbrýði og fengu með sér götuskríl, æstu til uppþota og hleyptu borginni í uppnám. Þustu þeir að húsi Jasonar og vildu færa þá fyrir lýðinn.
6 En þegar þeir fundu þá ekki, drógu þeir Jason og nokkra bræður fyrir borgarstjórana og hrópuðu: "Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað,
7 og Jason hefur tekið á móti þeim. Allir þessir breyta gegn boðum keisarans, því þeir segja, að annar sé konungur og það sé Jesús."
8 Og þeir vöktu óhug með fólkinu og einnig borgarstjórunum með þessum orðum.
9 Slepptu þeir ekki þeim Jasoni fyrr en þeir höfðu látið þá setja tryggingu.
10 En bræðurnir sendu þá Pál og Sílas þegar um nóttina til Beroju. Þegar þeir komu þangað, gengu þeir inn í samkunduhús Gyðinga.
11 Þeir voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.
12 Margir þeirra tóku trú og einnig Grikkir ekki allfáir, tignar konur og karlar.
13 En er Gyðingar í Þessaloníku fréttu, að Páll hefði einnig boðað orð Guðs í Beroju, komu þeir og hleyptu líka ólgu og æsingu í múginn þar.
14 Þá sendu bræðurnir jafnskjótt með Pál af stað til sjávar, en Sílas og Tímóteus urðu eftir.
15 Leiðsögumenn Páls fylgdu honum allt til Aþenu og sneru aftur með boð til Sílasar og Tímóteusar að koma hið bráðasta til hans.
16 Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, var honum mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum.
17 Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn, og hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans.
18 En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: "Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?" Aðrir sögðu: "Hann virðist boða ókennda guði," _ því að hann flutti fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna.
19 Og þeir tóku hann og fóru með hann á Aresarhæð og sögðu: "Getum vér fengið að vita, hver þessi nýja kenning er, sem þú ferð með?
20 Því að eitthvað nýstárlegt flytur þú oss til eyrna, og oss fýsir að vita, hvað þetta er."
21 En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.
22 Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: "Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn,
23 því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ,Ókunnum guði`. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður.
24 Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð.
25 Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti.
26 Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra.
27 Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss.
28 Í honum lifum, hrærumst og erum vér. Svo hafa og sum skáld yðar sagt: ,Því að vér erum líka hans ættar.`
29 Fyrst vér erum nú Guðs ættar, megum vér eigi ætla, að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna.
30 Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum,
31 því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum."
32 Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra, gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: "Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni."
33 Þannig skildi Páll við þá.
34 En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.
26 Í byrjun ríkisstjórnar Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð frá Drottni:
2 Svo segir Drottinn: Gakk í forgarð musteris Drottins, og tala til allra þeirra manna úr Júdaborgum, sem komnir eru til þess að falla fram í musteri Drottins, öll þau orð, sem ég hefi boðið þér að tala til þeirra. Þú skalt ekki draga neitt orð undan.
3 Ef til vill hlýða þeir og snúa sér, hver og einn frá sínum vonda vegi. Mun mig þá iðra þeirrar óhamingju, sem ég hygg að leiða yfir þá sakir illra verka þeirra.
4 Og þú skalt segja þeim: Svo segir Drottinn: Ef þér hlýðið mér ekki, svo að þér breytið eftir lögmáli mínu, sem ég hefi fyrir yður lagt,
5 svo að þér hlýðið orðum þjóna minna, spámannanna, er ég hefi sent til yðar æ að nýju óaflátanlega, _ en þér hafið ekki hlýtt þeim _,
6 þá vil ég fara með þetta hús eins og húsið í Síló, og gjöra þessa borg að formæling fyrir allar þjóðir jarðarinnar.
7 En er prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn heyrði Jeremía flytja þessi orð í musteri Drottins,
8 og Jeremía hafði lokið að tala allt það, sem Drottinn hafði boðið honum að tala til alls lýðsins, þá tóku prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn hann höndum og sögðu: "Þú skalt vissulega deyja!
9 Hví hefir þú spáð í nafni Drottins og sagt: Þetta hús skal verða eins og húsið í Síló, og þessi borg skal í eyði lögð og mannlaus verða!" Og allur lýðurinn safnaðist gegn Jeremía í musteri Drottins.
10 En er höfðingjarnir í Júda fréttu þetta, fóru þeir úr konungshöllinni upp til musteris Drottins og settust úti fyrir Hinu nýja hliði musterisins.
11 Og prestarnir og spámennirnir töluðu til höfðingjanna og alls lýðsins og sögðu: "Þessi maður er dauða sekur, því að hann hefir spáð gegn þessari borg, eins og þér hafið heyrt með eigin eyrum."
12 Jeremía mælti til allra höfðingjanna og alls lýðsins á þessa leið: "Drottinn hefir sent mig til þess að boða öll þessi orð, sem þér hafið heyrt, gegn þessu húsi og þessari borg.
13 Og bætið nú framferði yðar og athafnir og hlýðið raustu Drottins, Guðs yðar, svo að Drottin megi iðra þeirrar óhamingju, er hann hefir hótað yður.
14 En að því er til sjálfs mín kemur, þá er ég á yðar valdi. Gjörið við mig það, sem yður þykir gott og rétt.
15 En það skuluð þér vita, að ef þér deyðið mig, þá leiðið þér saklaust blóð yfir yður og yfir þessa borg og yfir íbúa hennar, því að Drottinn hefir sannlega sent mig til yðar til þess að flytja yður öll þessi orð."
16 Þá sögðu höfðingjarnir og allur lýðurinn við prestana og spámennina: "Þessi maður er ekki dauða sekur, því að hann hefir talað til vor í nafni Drottins, Guðs vors."
17 Þá gengu nokkrir af öldungum landsins fram og mæltu til alls mannsafnaðarins á þessa leið:
18 "Míka frá Móreset kom fram sem spámaður á dögum Hiskía konungs í Júda og mælti til alls Júdalýðs á þessa leið: ,Svo segir Drottinn allsherjar: Síon mun plægð verða sem akur og Jerúsalem mun verða að rústum og musterisfjallið að skógarhæðum.`
19 Hvort deyddi Hiskía Júdakonungur og allur Júdalýður hann? Óttaðist hann ekki Drottin og blíðkaði Drottin, svo að Drottin iðraði þeirrar óhamingju, er hann hafði hótað þeim? En vér erum rétt að því komnir að baka oss mikla óhamingju!"
20 Annar maður var og, sem spáði í nafni Drottins, Úría Semajason frá Kirjat-Jearím. Hann spáði og gegn þessari borg og þessu landi, alveg á sama hátt og Jeremía.
21 En er Jójakím konungur og allir kappar hans og allir höfðingjarnir spurðu orð hans, leitaðist konungur við að láta drepa hann. En er Úría frétti það, varð hann hræddur, flýði burt og fór til Egyptalands.
22 En Jójakím konungur gjörði menn til Egyptalands, Elnatan Akbórsson og menn með honum.
23 Og þeir sóttu Úría til Egyptalands og fóru með hann til Jójakíms konungs, og hann lét drepa hann með sverði og kasta líkinu á grafir múgamanna.
24 En Ahíkam Safansson verndaði Jeremía, svo að hann var eigi framseldur í hendur lýðsins til lífláts.
12 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: "Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.
2 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins.
3 En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan.
4 Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu.
5 Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu.
6 Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.`
7 En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.`
8 Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.
9 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.
10 Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn.
11 Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum."
12 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögunni. Og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.
13 Þá sendu þeir til hans nokkra farísea og Heródesarsinna, og skyldu þeir veiða hann í orðum.
14 Þeir koma og segja við hann: "Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki? Eigum vér að gjalda eða ekki gjalda?"
15 En hann sá hræsni þeirra og sagði við þá: "Hví freistið þér mín? Fáið mér denar, látið mig sjá."
16 Þeir fengu honum pening. Hann spyr: "Hvers mynd og yfirskrift er þetta?" Þeir svöruðu: "Keisarans."
17 En Jesús sagði við þá: "Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er." Og þá furðaði stórlega á honum.
18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:
19 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.`
20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus.
21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji,
22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan.
23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana."
24 Jesús svaraði þeim: "Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs?
25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum.
26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`
27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega."
28 Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: "Hvert er æðst allra boðorða?"
29 Jesús svaraði: "Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn.
30 Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.`
31 Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.` Ekkert boðorð annað er þessum meira."
32 Fræðimaðurinn sagði þá við hann: "Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann.
33 Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira."
34 Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: "Þú ert ekki fjarri Guðs ríki." Og enginn þorði framar að spyrja hann.
35 Þegar Jesús var að kenna í helgidóminum, sagði hann: "Hvernig geta fræðimennirnir sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?
36 Sjálfur mælti Davíð af heilögum anda: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.
37 Davíð kallar hann sjálfur drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?" Og hinn mikli mannfjöldi hlýddi fúslega á hann.
38 Í kenningu sinni sagði hann: "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum,
39 vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.
40 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."
41 Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið.
42 Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.
43 Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna.
44 Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína."
by Icelandic Bible Society