Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 12

12 Efraímsmönnum var stefnt saman. Þeir héldu í norður og sögðu við Jefta: "Hví hefir þú farið að berjast við Ammóníta og eigi kvatt oss þér til fylgdar? Nú munum vér leggja eld í hús þitt yfir þér."

Þá sagði Jefta við þá: "Ég og þjóð mín áttum í miklum deilum við Ammóníta. Beiddist ég þá liðs hjá yður, en þér hjálpuðuð mér ekki úr höndum þeirra.

Og er ég sá, að þér ætluðuð ekki að hjálpa mér, þá lagði ég líf mitt í hættu og fór í móti Ammónítum, og Drottinn gaf þá í hendur mér. Hvers vegna komið þér þá í dag til mín til þess að berjast við mig?"

Og Jefta safnaði saman öllum mönnum í Gíleað og barðist við Efraímíta, og unnu Gíleaðsmenn sigur á Efraímítum, því að Efraímítar höfðu sagt: "Þér eruð flóttamenn frá Efraím! Gíleað liggur mitt í Efraím, mitt í Manasse."

Gíleaðítar settust um Jórdanvöðin yfir til Efraím. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: "Leyf mér yfir um!" þá sögðu Gíleaðsmenn við hann: "Ert þú Efraímíti?" Ef hann svaraði: "Nei!"

þá sögðu þeir við hann: "Segðu ,Sjibbólet."` Ef hann þá sagði: "Sibbólet," og gætti þess eigi að bera það rétt fram, þá gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanvöðin. Féllu þá í það mund af Efraím fjörutíu og tvær þúsundir.

Jefta var dómari í Ísrael í sex ár. Síðan andaðist Jefta Gíleaðíti og var grafinn í einni af Gíleaðs borgum.

Eftir Jefta var Íbsan frá Betlehem dómari í Ísrael.

Hann átti þrjátíu sonu, og þrjátíu dætur gifti hann burt frá sér, og þrjátíu konur færði hann sonum sínum annars staðar að. Hann var dómari í Ísrael í sjö ár.

10 Síðan andaðist Íbsan og var grafinn í Betlehem.

11 Eftir hann var Elón Sebúloníti dómari í Ísrael. Hann var dómari í Ísrael í tíu ár.

12 Síðan andaðist Elón Sebúloníti og var grafinn í Ajalon í Sebúlon-landi.

13 Eftir hann var Abdón Híllelsson Píratóníti dómari í Ísrael.

14 Hann átti fjörutíu sonu og þrjátíu sonasonu, sem riðu sjötíu ösnufolum. Hann var dómari í Ísrael í átta ár.

15 Síðan andaðist Abdón Híllelsson Píratóníti og var grafinn í Píratón í Efraímlandi á Amalekítafjöllum.

Postulasagan 16

16 Hann kom til Derbe og Lýstru. Þar var lærisveinn nokkur, Tímóteus að nafni, sonur trúaðrar konu af Gyðinga ætt, en faðir hans var grískur.

Bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð.

Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga, er voru í þeim byggðum, því að allir vissu þeir, að faðir hans var grískur.

Þeir fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir, sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt, og buðu að varðveita þær.

En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.

Þeir fóru um Frýgíu og Galataland, því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu.

Og sem þeir voru komnir að Mýsíu, reyndu þeir að fara til Biþýníu, en andi Jesú leyfði það eigi.

Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas.

Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: "Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!"

10 En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komast til Makedóníu, þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim fagnaðarerindið.

11 Nú lögðum vér út frá Tróas og sigldum beint til Samóþrake, en næsta dag til Neapólis

12 og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst vér nokkra daga.

13 Hvíldardaginn gengum vér út fyrir hliðið að á einni, en þar hugðum vér vera bænastað. Settumst vér niður og töluðum við konurnar, sem voru þar saman komnar.

14 Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði.

15 Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: "Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin." Þessu fylgdi hún fast fram.

16 Eitt sinn, er vér gengum til bænastaðarins, mætti oss ambátt nokkur, sem hafði spásagnaranda og aflaði húsbændum sínum mikils gróða með því að spá.

17 Hún elti Pál og oss og hrópaði: "Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta, og boða þeir yður veg til hjálpræðis!"

18 Þetta gjörði hún dögum saman. Páli féll það illa. Loks sneri hann sér við og sagði við andann: "Ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni." Og hann fór út á samri stundu.

19 Nú sem húsbændur hennar sáu, að þar fór ábatavon þeirra, gripu þeir Pál og Sílas og drógu þá á torgið fyrir valdsmennina.

20 Þeir færðu þá til höfuðsmannanna og sögðu: "Menn þessir gjöra mestu óspektir í borg vorri. Þeir eru Gyðingar

21 og boða siði, sem oss, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að þýðast né fylgja."

22 Múgurinn réðst og gegn þeim, og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá.

23 Og er þeir höfðu lostið þá mörg högg, vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega.

24 Þegar hann hafði fengið slíka skipun, varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim.

25 Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði, en bandingjarnir hlustuðu á þá.

26 Þá varð skyndilega landskjálfti mikill, svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr, og fjötrarnir féllu af öllum.

27 Fangavörðurinn vaknaði við, og er hann sá fangelsisdyrnar opnar, dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér, þar eð hann hugði fangana flúna.

28 Þá kallaði Páll hárri raustu: "Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!"

29 En hann bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi.

30 Síðan leiddi hann þá út og sagði: "Herrar mínir, hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?"

31 En þeir sögðu: "Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt."

32 Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans.

33 Á þessari sömu næturstund tók hann þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk.

34 Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat, og var hann og allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð.

35 Þegar dagur rann, sendu höfuðsmennirnir vandsveina og sögðu: "Lát þú menn þessa lausa."

36 Fangavörðurinn flutti Páli þessi orð: "Höfuðsmennirnir hafa sent boð um, að þið skuluð látnir lausir. Gangið nú út og farið í friði."

37 En Páll sagði við þá: "Þeir hafa opinberlega látið húðstrýkja okkur, rómverska menn, án dóms og laga og varpa í fangelsi, og nú ætla þeir leynilega að hleypa okkur út. Ég held nú síður. Þeir skulu koma sjálfir og leiða okkur út."

38 Vandsveinarnir fluttu höfuðsmönnunum þessi orð. En þeir urðu hræddir, er þeir heyrðu, að þeir væru rómverskir,

39 og komu og friðmæltust við þá, leiddu þá út og báðu þá að fara burt úr borginni.

40 Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu, fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan héldu þeir af stað.

Jeremía 25

25 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda _ það var fyrsta ríkisár Nebúkadresars Babelkonungs _,

orðið, sem Jeremía spámaður talað til alls Júdalýðs og til allra Jerúsalembúa:

Frá þrettánda ríkisári Jósía Amónssonar, Júdakonungs, og fram á þennan dag, nú í tuttugu og þrjú ár, hefir orð Drottins komið til mín og ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt.

Og Drottinn hefir sent til yðar alla þjóna sína, spámennina, bæði seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt, né heldur lagt við eyrun til þess að heyra.

Hann sagði: "Snúið yður, hver og einn frá sínum vonda vegi og frá yðar vondu verkum, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem Drottinn gaf yður og feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.

En eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim, og egnið mig ekki til reiði með handaverkum yðar, svo að ég láti yður ekkert böl að höndum bera."

En þér hlýdduð ekki á mig _ segir Drottinn _ heldur egnduð mig til reiði með handaverkum yðar, yður sjálfum til ills.

Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Af því að þér hlýdduð ekki orðum mínum,

þá vil ég láta sækja allar kynkvíslir norðursins _ segir Drottinn _ og Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og láta þá brjótast inn yfir þetta land og inn á íbúa þess og inn á allar þessar þjóðir hér umhverfis, og ég vil helga þá banni og gjöra þá að skelfing og spotti og eilífri háðung,

10 og ég vil láta gjörsamlega hverfa meðal þeirra öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, öll kvarnarhljóð og lampaljós.

11 Og allt þetta land skal verða að rúst, að auðn, og þessar þjóðir skulu þjóna Babelkonungi í sjötíu ár.

12 En þegar sjötíu ár eru liðin, mun ég refsa Babelkonungi og þessari þjóð _ segir Drottinn _ fyrir misgjörð þeirra, og gjöra land Kaldea að eilífri auðn.

13 Og ég mun láta fram koma á þessu landi öll þau hótunarorð, er ég hefi talað gegn því, allt það sem ritað er í þessari bók, það sem Jeremía hefir spáð um allar þjóðir.

14 Því að voldugar þjóðir og miklir konungar munu og gjöra þá að þrælum, og ég mun gjalda þeim eftir athæfi þeirra og eftir handaverkum þeirra.

15 Svo sagði Drottinn, Ísraels Guð, við mig: Tak við þessum bikar reiðivínsins af hendi mér og lát allar þjóðirnar drekka af honum, þær er ég sendi þig til,

16 svo að þær drekki og reiki og verði vitskertar af sverðinu, er ég sendi meðal þeirra.

17 Þá tók ég við bikarnum af hendi Drottins og lét allar þær þjóðir drekka, sem Drottinn hafði sent mig til:

18 Jerúsalem og borgirnar í Júda, konunga hennar og höfðingja, til að gjöra þá að rúst, að skelfing, að spotti og formæling, eins og nú er fram komið,

19 Faraó, Egyptalandskonung, og þjóna hans og höfðingja, alla þjóð hans og allan þjóðblending,

20 alla konunga í Ús-landi, alla konunga í Filistalandi, sem sé Askalon, Gasa, Ekron og leifarnar af Asdód,

21 Edóm og Móab og Ammóníta,

22 alla konunga í Týrus og alla konunga í Sídon og konungana á ströndunum, hinum megin hafsins,

23 Dedan og Tema og Bús og alla sem skera hár sitt við vangann,

24 alla konunga Arabíu og alla konunga þjóðblendinganna, sem búa í eyðimörkinni,

25 alla konungana í Simrí og alla konungana í Elam og alla konungana í Medíu,

26 alla konungana norður frá, hvort sem þeir búa nálægt hver öðrum eða langt hver frá öðrum, í stuttu máli öll konungsríki á jörðinni. En konungurinn í Sesak skal drekka á eftir þeim.

27 En þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Drekkið, til þess að þér verðið drukknir, spúið og dettið og standið ekki upp aftur, af sverðinu, sem ég sendi meðal yðar.

28 En færist þeir undan að taka við bikarnum af hendi þinni til þess að drekka, þá seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Drekka skuluð þér!

29 Því sjá, hjá borginni, sem nefnd er eftir nafni mínu, læt ég ógæfuna fyrst ríða yfir, _ og þér skylduð sleppa óhegndir? Þér skuluð ekki sleppa óhegndir, því að sverði býð ég út gegn öllum íbúum jarðarinnar _ segir Drottinn allsherjar.

30 Þú skalt kunngjöra þeim öll þessi orð og segja við þá: Af hæðum kveða við reiðarþrumur Drottins. Hann lætur rödd sína gjalla frá sínum heilaga bústað. Hann þrumar hátt út yfir haglendi sitt, raust hans gellur, eins og hróp þeirra, sem vínber troða.

31 Dynurinn berst öllum þeim sem á jörðu búa, út á enda jarðar, því að Drottinn þreytir deilu við þjóðirnar, hann gengur í dóm við allt hold. Hina óguðlegu ofurselur hann sverðinu! _ segir Drottinn.

32 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ógæfa fer frá einni þjóð til annarrar, og ákafur stormur rís á útjaðri jarðar.

33 Þeir sem Drottinn hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum.

34 Æpið, hirðar, og kveinið! Veltið yður í duftinu, þér leiðtogar hjarðarinnar! Því að yðar tími er kominn, að yður verði slátrað og yður tvístrað, og þér skuluð detta niður eins og verðmætt ker.

35 Þá er ekkert athvarf lengur fyrir hirðana og engin undankoma fyrir leiðtoga hjarðarinnar.

36 Heyr kvein hirðanna og óp leiðtoga hjarðarinnar, af því að Drottinn eyðir haglendi þeirra,

37 og hin friðsælu beitilönd eru gjöreydd orðin fyrir hinni brennandi reiði Drottins.

38 Hann hefir yfirgefið skógarrunn sinn, eins og ljónið, já, að auðn varð land þeirra fyrir hinu vígfreka sverði og fyrir hans brennandi reiði.

Markúsarguðspjall 11

11 Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sendir hann tvo lærisveina sína

og segir við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur. Um leið og þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann, og komið með hann.

Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna gjörið þið þetta?` Þá svarið: ,Herrann þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað."`

Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann.

Nokkrir sem stóðu þar, sögðu við þá: "Hvers vegna eruð þið að leysa folann?"

Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt, og þeir létu þá fara.

Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín, en hann settist á bak.

Og margir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir lim, sem þeir höfðu skorið á völlunum.

Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu, hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins!

10 Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!"

11 Hann fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt, en þar sem komið var kvöld, fór hann til Betaníu með þeim tólf.

12 Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi hann hungurs.

13 Þá sá hann álengdar laufgað fíkjutré og fór að gá, hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því, fann hann ekkert nema blöð, enda var ekki fíknatíð.

14 Hann sagði þá við tréð: "Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!" Þetta heyrðu lærisveinar hans.

15 Þeir komu til Jerúsalem, og hann gekk í helgidóminn og tók að reka út þá, sem voru að selja þar og kaupa, og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna.

16 Og engum leyfði hann að bera neitt um helgidóminn.

17 Og hann kenndi þeim og sagði: "Er ekki ritað: ,Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?` En þér hafið gjört það að ræningjabæli."

18 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum. Þeim stóð ótti af honum, því að allur lýðurinn hreifst mjög af kenningu hans.

19 Þegar leið að kvöldi, fóru þeir úr borginni.

20 Árla morguns fóru þeir hjá fíkjutrénu og sáu, að það var visnað frá rótum.

21 Pétur minntist þess, sem gerst hafði, og segir við hann: "Rabbí, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað."

22 Jesús svaraði þeim: "Trúið á Guð.

23 Sannlega segi ég yður: Hver sem segir við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og efar ekki í hjarta sínu, heldur trúir, að svo fari sem hann mælir, honum mun verða að því.

24 Fyrir því segi ég yður: Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast.

25 Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar. [

26 Ef þér fyrirgefið ekki, mun faðir yðar á himnum ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar. ]"

27 Þeir koma aftur til Jerúsalem, og þegar hann var á gangi í helgidóminum, koma til hans æðstu prestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir

28 og segja við hann: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér það vald, að þú gjörir þetta?"

29 Jesús sagði við þá: "Ég vil leggja eina spurningu fyrir yður. Svarið henni, og ég mun segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

30 Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum? Svarið mér!"

31 Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: "Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki?

32 Eða ættum vér að svara: Frá mönnum?" _ það þorðu þeir ekki fyrir lýðnum, því allir töldu, að Jóhannes hefði verið sannur spámaður.

33 Þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Jesús sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society