Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 11:12-40

12 Þá gjörði Jefta sendimenn á fund konungs Ammóníta og lét segja honum: "Hvað er þér á höndum við mig, er þú hefir farið í móti mér til þess að herja á land mitt?"

13 Konungur Ammóníta svaraði sendimönnum Jefta: "Ísrael lagði undir sig land mitt, þá er hann fór af Egyptalandi, frá Arnon til Jabbok og að Jórdan. Skila þú því nú aftur með góðu!"

14 Jefta gjörði enn menn á fund Ammónítakonungs

15 og lét segja honum: "Svo segir Jefta: Ísrael lagði ekki undir sig Móabsland né land Ammóníta,

16 því að þegar þeir fóru af Egyptalandi og Ísrael hafði farið um eyðimörkina að Sefhafi og var kominn til Kades,

17 þá gjörði Ísrael menn á fund Edómkonungs og lét segja honum: ,Leyf mér að fara um land þitt!` En Edómkonungur daufheyrðist við. Þá sendi hann og til Móabskonungs, en hann vildi ekki. Hélt Ísrael nú kyrru fyrir í Kades,

18 hélt síðan áfram um eyðimörkina og fór í bug kringum Edómland og Móabsland og kom austan að Móabslandi og setti búðir sínar hinumegin Arnon. En inn yfir landamæri Móabs komu þeir ekki, því að Arnon ræður landamærum Móabs.

19 Þá gjörði Ísrael sendimenn á fund Síhons Amorítakonungs, konungs í Hesbon, og Ísrael lét segja honum: ,Leyf oss að fara um land þitt, þangað sem ferðinni er heitið.`

20 En Síhon treysti eigi Ísrael svo, að hann vildi leyfa honum að fara um land sitt, heldur safnaði Síhon öllu liði sínu, og settu þeir herbúðir sínar í Jahsa, og hann barðist við Ísrael.

21 En Drottinn, Ísraels Guð, gaf Síhon og allt hans lið í hendur Ísraels, svo að þeir unnu sigur á þeim, og lagði Ísrael undir sig allt land Amoríta, er byggðu það land.

22 Lögðu þeir þannig undir sig allt land Amoríta frá Arnon að Jabbok, og frá eyðimörkinni að Jórdan.

23 Drottinn, Guð Ísraels, hefir því stökkt Amorítum burt undan lýð sínum Ísrael, og nú ætlar þú að taka land hans til eignar?

24 Hvort tekur þú ekki til eignar það, sem Kamos, guð þinn, gefur þér til eignar? Svo tökum vér og til eignar land allra þeirra, sem Drottinn, Guð vor, stökkvir burt undan oss.

25 Og hvort munt þú nú vera nokkru betri en Balak Sippórsson, konungur í Móab? Átti hann í deilum við Ísrael eða fór hann með hernað á hendur þeim?

26 Þar sem Ísrael hefir búið í Hesbon og smáborgunum, er að liggja, og í Aróer og smáborgunum, er að liggja, og í öllum borgunum, sem liggja meðfram Arnon báðumegin, í þrjú hundruð ár, hvers vegna hafið þér þá ekki náð þeim aftur allan þennan tíma?

27 Ég hefi ekki gjört þér neitt mein, en þú beitir mig ranglæti, er þú herjar á mig. Drottinn, dómarinn, dæmi í dag milli Ísraelsmanna og Ammóníta!"

28 En konungur Ammóníta sinnti ekki orðum Jefta, þeim er hann lét færa honum.

29 Þá kom andi Drottins yfir Jefta, og hann fór um Gíleað og Manasse og hann fór til Mispe í Gíleað, og frá Mispe í Gíleað fór hann í móti Ammónítum.

30 Og Jefta gjörði Drottni heit og sagði: "Ef þú gefur Ammóníta í hendur mér,

31 þá skal sá, er fyrstur gengur út úr dyrum húss míns í móti mér, er ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, heyra Drottni, og skal ég fórna honum að brennifórn."

32 Síðan fór Jefta í móti Ammónítum til þess að berjast við þá, og Drottinn gaf þá í hendur honum.

33 Hann vann mjög mikinn sigur á þeim frá Aróer alla leið til Minnít, tuttugu borgir, og til Abel-Keramím. Þannig urðu Ammónítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum.

34 En er Jefta kom heim til húss síns í Mispa, sjá, þá gekk dóttir hans út í móti honum með bumbum og dansi. Hún var einkabarnið hans. Hann átti engan son né dóttur nema hana.

35 Og er hann sá hana, reif hann klæði sín og sagði: "Æ, dóttir mín, mjög beygir þú mig nú. Sjálf veldur þú mér nú sárustum trega. Ég hefi upp lokið munni mínum gagnvart Drottni, og ég get ekki tekið það aftur."

36 En hún sagði við hann: "Faðir minn, ef þú hefir upp lokið munni þínum gagnvart Drottni, þá gjör þú við mig eins og fram gengið er af munni þínum, fyrst Drottinn hefir látið þig koma fram hefndum á óvinum þínum, Ammónítum."

37 Og enn sagði hún við föður sinn: "Gjör þetta fyrir mig: Lát mig fá tveggja mánaða frest, svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og grátið það með stallsystrum mínum, að ég verð að deyja ung mær."

38 Hann sagði: "Far þú!" og lét hana burt fara í tvo mánuði. Fór hún þá burt með stallsystrum sínum og grét það á fjöllunum, að hún varð að deyja ung mær.

39 En að tveim mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns, og hann gjörði við hana samkvæmt heiti því, er hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmann kennt. Og varð það siður í Ísrael:

40 Ár frá ári fara Ísraels dætur að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á ári hverju.

Postulasagan 15

15 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum svo: "Eigi getið þér hólpnir orðið, nema þér látið umskerast að sið Móse."

Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar, og réðu menn af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.

Söfnuðurinn bjó síðan ferð þeirra, og fóru þeir um Fönikíu og Samaríu og sögðu frá afturhvarfi heiðingjanna og vöktu mikinn fögnuð meðal allra bræðranna.

Þegar þeir komu til Jerúsalem, tók söfnuðurinn á móti þeim og postularnir og öldungarnir, og skýrðu þeir frá, hversu mikið Guð hefði látið þá gjöra.

Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea, er trú höfðu tekið, og sögðu: "Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse."

Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál.

Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: "Bræður, þér vitið, að Guð kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú.

Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss.

Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni.

10 Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?

11 Vér trúum þó því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir."

12 Þá sló þögn á allan hópinn, og menn hlýddu á Barnabas og Pál, er þeir sögðu frá, hve mörg tákn og undur Guð hafði látið þá gjöra meðal heiðingjanna.

13 Þegar þeir höfðu lokið máli sínu, sagði Jakob: "Bræður, hlýðið á mig.

14 Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans.

15 Í samræmi við þetta eru orð spámannanna, svo sem ritað er:

16 Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur,

17 svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta

18 kunnugt frá eilífð.

19 Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs,

20 heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði.

21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag."

22 Postularnir og öldungarnir, ásamt öllum söfnuðinum, samþykktu þá að kjósa menn úr sínum hópi og senda með Páli og Barnabasi til Antíokkíu þá Júdas, er kallaður var Barsabbas, og Sílas, forystumenn meðal bræðranna.

23 Þeir rituðu með þeim: "Postularnir og öldungarnir, bræður yðar, senda bræðrunum í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, er áður voru heiðnir, kveðju sína.

24 Vér höfum heyrt, að nokkrir frá oss hafi óróað yður með orðum sínum og komið róti á hugi yðar, án þess vér hefðum þeim neitt um boðið.

25 Því höfum vér einróma ályktað að kjósa menn og senda til yðar með vorum elskuðu Barnabasi og Páli,

26 mönnum, er lagt hafa líf sitt í hættu vegna nafns Drottins vors Jesú Krists.

27 Vér sendum því Júdas og Sílas, og boða þeir yður munnlega hið sama.

28 Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er,

29 að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir."

30 Þeir voru nú sendir af stað og komu norður til Antíokkíu, kölluðu saman söfnuðinn og skiluðu bréfinu.

31 En er menn lásu það, urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun.

32 Júdas og Sílas, sem sjálfir voru spámenn, hvöttu bræðurna með mörgum orðum og styrktu þá.

33 Þegar þeir höfðu dvalist þar um hríð, kvöddu þeir bræðurna og báðu þeim friðar og héldu aftur til þeirra, sem höfðu sent þá.

35 En Páll og Barnabas héldu kyrru fyrir í Antíokkíu, kenndu og boðuðu ásamt mörgum öðrum orð Drottins.

36 Eftir nokkra daga sagði Páll við Barnabas: "Förum nú aftur og vitjum bræðranna í hverri borg, þar sem vér höfum boðað orð Drottins, og sjáum, hvað þeim líður."

37 Barnabas vildi þá líka taka með Jóhannes, er kallaður var Markús.

38 En Páli þótti eigi rétt að taka með þann mann, er skilið hafði við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim.

39 Varð þeim mjög sundurorða, og skildi þar með þeim. Tók Barnabas Markús með sér og sigldi til Kýpur.

40 En Páll kaus sér Sílas og fór af stað, og fólu bræðurnir hann náð Drottins.

41 Fór hann um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.

Jeremía 24

24 Drottinn lét mig sjá: Tvær karfir fullar af fíkjum voru settar fyrir framan musteri Drottins, eftir að Nebúkadresar Babelkonungur hafði herleitt Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og höfðingjana í Júda og trésmiðina og járnsmiðina burt frá Jerúsalem og flutt þá til Babýlon.

Í annarri körfinni voru mjög góðar fíkjur, líkar árfíkjum, en í hinni körfinni voru mjög vondar fíkjur, sem voru svo vondar, að þær voru óætar.

Þá sagði Drottinn við mig: Hvað sér þú, Jeremía? Og ég svaraði: Fíkjur! Góðu fíkjurnar eru mjög góðar, en þær vondu eru mjög vondar, já svo vondar, að þær eru óætar.

Þá kom orð Drottins til mín:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Eins og á þessar góðu fíkjur, svo lít ég á hina herleiddu úr Júda, sem ég hefi sent héðan til Kaldealands, þeim til heilla.

Ég beini augum mínum á þá þeim til heilla og flyt þá aftur inn í þetta land, svo að ég megi byggja þá upp og ekki rífa þá niður aftur og gróðursetja þá og ekki uppræta þá aftur.

Og ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er Drottinn, og þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, þegar þeir snúa sér til mín af öllu hjarta.

Og eins og vondu fíkjurnar, sem eru svo vondar, að þær eru óætar _ já, svo segir Drottinn _, þannig vil ég fara með Sedekía konung í Júda og höfðingja hans og leifarnar af Jerúsalem, þá sem eftir eru í þessu landi og þá sem setst hafa að í Egyptalandi.

Ég mun gjöra þá að grýlu, að andstyggð öllum konungsríkjum jarðar, að háðung, orðskvið, spotti og formæling á öllum þeim stöðum, þangað sem ég rek þá.

10 Og ég sendi sverð, hungur og drepsótt í móti þeim, þar til er þeir eru gjöreyddir úr landinu, sem ég gaf þeim og feðrum þeirra.

Markúsarguðspjall 10

10 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Júdeu og yfir um Jórdan. Fjöldi fólks safnast enn til hans, og hann kenndi þeim, eins og hann var vanur.

Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans.

Hann svaraði þeim: "Hvað hefur Móse boðið yður?"

Þeir sögðu: "Móse leyfði að ,rita skilnaðarbréf og skilja við hana."`

Jesús mælti þá til þeirra: "Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð,

en frá upphafi sköpunar ,gjörði Guð þau karl og konu.

Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni,

og þau tvö skulu verða einn maður.` Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.

Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."

10 Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta.

11 En hann sagði við þá: "Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni.

12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór."

13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.

14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.

15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."

16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

17 Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

18 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.

19 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður."`

20 Hinn svaraði honum: "Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku."

21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: "Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér."

22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.

23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki."

24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki.

25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."

26 En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: "Hver getur þá orðið hólpinn?"

27 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt."

28 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér."

29 Jesús sagði: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins,

30 án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.

31 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir."

32 Þeir voru nú á leið upp til Jerúsalem. Jesús gekk á undan þeim, en þeir voru skelfdir, og þeir sem eftir fylgdu voru hræddir. Og enn tók hann til sín þá tólf og fór að segja þeim, hvað fram við sig ætti að koma.

33 "Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum.

34 Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta, en eftir þrjá daga mun hann upp rísa."

35 Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: "Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig."

36 Hann spurði þá: "Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?"

37 Þeir svöruðu: "Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri."

38 Jesús sagði við þá: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?"

39 Þeir sögðu við hann: "Það getum við." Jesús mælti: "Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist.

40 En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið."

41 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes.

42 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.

43 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.

44 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll.

45 Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."

46 Þeir komu til Jeríkó. Og þegar hann fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda, sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður.

47 Þegar hann heyrði, að þar færi Jesús frá Nasaret, tók hann að hrópa: "Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!"

48 Margir höstuðu á hann, að hann þegði, en hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"

49 Jesús nam staðar og sagði: "Kallið á hann." Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: "Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig."

50 Hann kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.

51 Jesús spurði hann: "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Blindi maðurinn svaraði honum: "Rabbúní, að ég fái aftur sjón."

52 Jesús sagði við hann: "Far þú, trú þín hefur bjargað þér." Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society