Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 10:1-11:11

10 Eftir Abímelek reis upp Tóla Púason, Dódóssonar, maður af Íssakar, til að frelsa Ísrael. Hann bjó í Samír á Efraímfjöllum,

og var hann dómari í Ísrael í tuttugu og þrjú ár. Síðan andaðist hann og var grafinn í Samír.

Eftir hann reis upp Jaír Gíleaðíti og var dómari í Ísrael í tuttugu og tvö ár.

Hann átti þrjátíu sonu, sem riðu á þrjátíu ösnufolum, þeir áttu þrjátíu borgir. Eru þær kallaðar Jaírs-þorp allt fram á þennan dag. Þær liggja í Gíleaðlandi.

Síðan andaðist Jaír og var grafinn í Kamón.

Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins, og dýrkuðu Baala og Astörtur, guði Arams, guði Sídonar, guði Móabs, guði Ammóníta og guði Filista, og yfirgáfu Drottin og dýrkuðu hann ekki.

Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann seldi þá í hendur Filistum og í hendur Ammónítum.

Og þeir þjáðu og þjökuðu Ísraelsmenn það ár. Í átján ár þjökuðu þeir alla Ísraelsmenn, sem bjuggu hinumegin Jórdanar í landi Amoríta, þá er bjuggu í Gíleað.

Enn fremur fóru Ammónítar yfir Jórdan til þess að herja einnig á Júda, Benjamín og Efraíms hús, svo að Ísrael komst í miklar nauðir.

10 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og sögðu: "Vér höfum syndgað móti þér, því að vér höfum yfirgefið Guð vorn og dýrkað Baala."

11 En Drottinn sagði við Ísraelsmenn: "Hafa ekki Egyptar, Amorítar, Ammónítar, Filistar,

12 Sídoningar, Amalekítar og Midíanítar kúgað yður? Þá hrópuðuð þér til mín og ég frelsaði yður úr höndum þeirra.

13 En þér hafið yfirgefið mig og dýrkað aðra guði. Fyrir því vil ég eigi framar hjálpa yður.

14 Farið og hrópið til guða þeirra, er þér hafið kjörið. Hjálpi þeir yður, þegar þér eruð í nauðum."

15 Þá sögðu Ísraelsmenn við Drottin: "Vér höfum syndgað. Gjör við oss rétt sem þér líkar, frelsa oss aðeins í dag."

16 Síðan köstuðu þeir burt frá sér útlendu guðunum og dýrkuðu Drottin. Eirði hann þá illa eymd Ísraels.

17 Þá var Ammónítum stefnt saman, og settu þeir herbúðir sínar í Gíleað. Og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Mispa.

18 En lýðurinn, höfðingjarnir í Gíleað sögðu hver við annan: "Hver er sá maður, er fyrstur vill hefja ófrið við Ammóníta? Hann skal vera höfðingi yfir öllum Gíleaðbúum!"

11 Jefta Gíleaðíti var kappi mikill, en hann var skækjuson. Gíleað hafði getið Jefta,

og er kona Gíleaðs fæddi honum sonu og synir hennar uxu upp, þá ráku þeir Jefta burt og sögðu við hann: "Eigi skalt þú taka arf í ætt vorri, því að þú ert sonur annarrar konu."

Þá flýði Jefta burt frá bræðrum sínum og settist að í landinu Tób. Þá söfnuðust til Jefta lausingjar og fylgdu þeir honum.

Nokkrum tíma eftir þetta hófu Ammónítar hernað á hendur Ísrael.

En er Ammónítar herjuðu á Ísrael, lögðu öldungarnir í Gíleað af stað til þess að sækja Jefta í landið Tób.

Og þeir sögðu við Jefta: "Kom þú og ver þú fyrirliði vor, og munum vér berjast við Ammóníta."

Jefta sagði við öldungana í Gíleað: "Hafið þér ekki lagt hatur á mig og rekið mig burt úr ætt minni? Hví komið þér þá nú til mín, þá er þér eruð í nauðum staddir?"

Öldungarnir í Gíleað sögðu við Jefta: "Fyrir því erum vér nú aftur komnir til þín, og ef þú fer með oss og berst við Ammóníta, þá skalt þú vera höfðingi vor, allra þeirra er búa í Gíleað."

Þá sagði Jefta við öldungana í Gíleað: "Ef þér sækið mig til þess að berjast við Ammóníta, og Drottinn gefur þá á mitt vald, þá vil ég vera höfðingi yfir yður!"

10 Þá sögðu öldungarnir í Gíleað við Jefta: "Drottinn veri heyrnarvottur að tali voru og hegni oss, ef vér gjörum eigi það, sem þú hefir mælt."

11 Og Jefta fór með öldungunum í Gíleað, og lýðurinn tók hann til höfðingja yfir sig og fyrirliða. Og Jefta talaði öll orð sín frammi fyrir Drottni í Mispa.

Postulasagan 14

14 Í Íkóníum gengu þeir á sama hátt inn í samkundu Gyðinga og töluðu þannig, að mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú.

En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum.

Dvöldust þeir þar alllangan tíma og töluðu djarflega í trausti til Drottins, sem staðfesti orð náðar sinnar með því að láta tákn og undur gerast fyrir hendur þeirra.

Skiptust nú borgarbúar í tvo flokka, og voru sumir með Gyðingum, aðrir með postulunum.

Heiðingjar og Gyðingar gjörðu ásamt yfirvöldum sínum samblástur um að misþyrma þeim og grýta þá.

Þeir komust að þessu og flýðu til borganna Lýstru og Derbe í Lýkaóníu og héraðsins umhverfis.

Þar héldu þeir áfram að flytja fagnaðarerindið.

Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið.

Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill,

10 og sagði hárri raustu: "Rís upp og stattu í fæturna!" Hann spratt upp og tók að ganga.

11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: "Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor."

12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.

13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu.

14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu:

15 "Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.

16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.

17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði."

18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir.

19 Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál, og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn.

20 En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.

21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu,

22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: "Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar."

23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á.

24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu.

25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu

26 og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað.

27 Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.

28 Dvöldust þeir nú alllengi hjá lærisveinunum.

Jeremía 23

23 Vei hirðunum, sem eyða og tvístra gæsluhjörð minni! segir Drottinn.

Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um hirðana, sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki litið eftir þeim. Sjá, ég skal vitja vonskuverka yðar á yður _ segir Drottinn.

En ég vil sjálfur safna leifum hjarðar minnar saman úr öllum löndum, þangað sem ég hefi rekið þá, og leiða þá aftur í haglendi þeirra, og þeir skulu frjóvgast og þeim fjölga.

Og ég vil setja hirða yfir þá, og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast og einskis þeirra skal saknað verða _ segir Drottinn.

Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun uppvekja fyrir Davíð réttan kvist, er ríkja skal sem konungur og breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu.

Á hans dögum mun Júda hólpinn verða og Ísrael búa óhultur, og þetta mun verða nafn hans, það er menn nefna hann með: "Drottinn er vort réttlæti!"

Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að menn munu eigi framar segja: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi!"

heldur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi og flutti heim niðja Ísraels húss úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hafði rekið þá, svo að þeir mættu búa í landi sínu!"

Um spámennina: Hjartað í brjósti mér er sundurmarið, öll bein mín skjálfa. Ég er eins og drukkinn maður, eins og maður sem vínið hefir bugað, vegna Drottins og vegna hans heilögu orða.

10 Landið er fullt af hórkörlum, já, vegna bölvunarinnar syrgir landið, og beitilöndin í öræfunum eru skrælnuð. Þeir hlaupa á eftir vonsku og styrkur þeirra er ósannsögli.

11 Bæði spámenn og prestar eru guðlausir, jafnvel í húsi mínu hefi ég rekið mig á vonsku þeirra _ segir Drottinn.

12 Fyrir því mun vegur þeirra verða þeim eins og sleipir staðir í myrkri. Þeim skal verða hrundið, svo að þeir detti á honum, því að ég leiði óhamingju yfir þá árið sem þeim verður refsað _ segir Drottinn.

13 Hjá spámönnum Samaríu sá ég hneykslanlegt athæfi: Þeir spáðu í nafni Baals og leiddu lýð minn Ísrael afvega.

14 En hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi: Þeir drýgja hór og fara með lygar og veita illgjörðarmönnum liðveislu, svo að enginn þeirra snýr sér frá illsku sinni. Þeir eru allir orðnir mér eins og Sódóma og íbúar hennar eins og Gómorra.

15 Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo um spámennina: Sjá, ég vil gefa þeim malurt að eta og eiturvatn að drekka, því að frá spámönnum Jerúsalem hefir guðleysi breiðst út um allt landið.

16 Svo segir Drottinn allsherjar: Hlýðið ekki á orð spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, en ekki fengið frá Drottni.

17 Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði Drottins: "Yður mun heill hlotnast!" Og við alla sem fara eftir þverúð hjarta síns, segja þeir: "Engin ógæfa mun yfir yður koma!"

18 Já, hver stendur í ráði Drottins? Hver sér og heyrir orð hans? Hver gefur gaum að orðum mínum og kunngjörir þau?

19 Sjá, stormur Drottins brýst fram _ reiði og hvirfilbylur _ hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.

20 Reiði Drottins léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það greinilega.

21 Ég hefi ekki sent spámennina, og þó hlupu þeir. Ég hefi eigi talað til þeirra, og þó spáðu þeir.

22 Hefðu þeir staðið í mínu ráði, þá mundu þeir kunngjöra þjóð minni mín orð og snúa þeim frá þeirra vonda vegi og frá þeirra vondu verkum.

23 Er ég þá aðeins Guð í nánd _ segir Drottinn _ og ekki Guð í fjarlægð?

24 Getur nokkur falið sig í fylgsnum, svo að ég sjái hann ekki? _ segir Drottinn. Uppfylli ég ekki himin og jörð? _ segir Drottinn.

25 Ég heyri hvað spámennirnir segja, þeir sem boða lygar í mínu nafni. Þeir segja: "Mig dreymdi, mig dreymdi!"

26 Hversu lengi á þetta svo að ganga? Ætla spámennirnir, þeir er boða lygar og flytja tál, er þeir sjálfir hafa upp spunnið _

27 hvort hyggjast þeir að koma þjóð minni til að gleyma nafni mínu, með draumum sínum, er þeir segja hver öðrum, eins og feður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals?

28 Sá spámaður, sem dreymir draum, segi drauminn, og sá, sem hefir mitt orð, flytji hann mitt orð í sannleika. Hvað er sameiginlegt hálmstrái og korni? _ segir Drottinn.

29 Er ekki orð mitt eins og eldur _ segir Drottinn _ og eins og hamar, sem sundurmolar klettana?

30 Sjá, þess vegna skal ég finna spámennina _ segir Drottinn _ sem stela orðum mínum hver frá öðrum.

31 Ég skal finna spámennina _ segir Drottinn _ sem taka til sinnar eigin tungu til þess að umla guðmæli.

32 Ég skal finna spámennina, sem kunngjöra lygadrauma _ segir Drottinn _ og segja frá þeim og leiða þjóð mína afvega með lygum sínum og gorti, og þó hefi ég ekki sent þá og ekkert umboð gefið þeim, og þeir gjöra þessari þjóð alls ekkert gagn _ segir Drottinn.

33 Þegar þessi lýður spyr þig, eða einhver spámaðurinn eða einhver presturinn, og segir: "Hver er byrði Drottins?" þá skalt þú segja við þá: Þér eruð byrðin, og ég mun varpa yður af mér _ segir Drottinn.

34 En sá spámaður og sá prestur og sá lýður, sem talar um "byrði Drottins" _ slíks manns vil ég vitja og húss hans.

35 Svo skuluð þér segja hver við annan og einn við annan: "Hverju hefir Drottinn svarað?" eða "Hvað hefir Drottinn sagt?"

36 En "byrði Drottins" skuluð þér ekki framar nefna, því að hverjum manni munu þau orð hans verða "byrði", þar sem þér hafið rangfært orð hins lifanda Guðs, Drottins allsherjar, vors Guðs.

37 Svo skulu menn segja við spámanninn: "Hverju hefir Drottinn svarað þér?" eða "Hvað hefir Drottinn sagt?"

38 En ef þér talið um "byrði" Drottins _ þá segir Drottinn svo: Af því að þér viðhafið þetta orð "byrði Drottins", þótt ég gjörði yður þá orðsending: Þér skuluð ekki tala um "byrði Drottins" _

39 sjá, fyrir því vil ég hefja yður upp og varpa yður og borginni, sem ég gaf yður og feðrum yðar, burt frá mínu augliti.

40 Og ég legg á yður eilífa smán og eilífa skömm, sem aldrei mun gleymast.

Markúsarguðspjall 9

Og hann sagði við þá: "Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki komið með krafti."

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra,

og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.

Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú.

Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: "Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."

Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir.

Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: "Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!"

Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.

10 Þeir festu orðin í minni og ræddu um, hvað væri að rísa upp frá dauðum.

11 Og þeir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"

12 Hann svaraði þeim: "Víst kemur Elía fyrst og færir allt í lag. En hvernig er ritað um Mannssoninn? Á hann ekki margt að líða og smáður verða?

13 En ég segi yður: Elía er kominn, og þeir gjörðu honum allt, sem þeir vildu, eins og ritað er um hann."

14 Þegar þeir komu til lærisveinanna, sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá.

15 En um leið og fólkið sá hann, sló þegar felmtri á alla, og þeir hlupu til og heilsuðu honum.

16 Hann spurði þá: "Um hvað eruð þér að þrátta við þá?"

17 En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: "Meistari, ég færði til þín son minn, sem málleysis andi er í.

18 Hvar sem andinn grípur hann, slengir hann honum flötum, og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."

19 Jesús svarar þeim: "Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann til mín."

20 Þeir færðu hann þá til Jesú, en um leið og andinn sá hann, teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.

21 Jesús spurði þá föður hans: "Hve lengi hefur honum liðið svo?" Hann sagði: "Frá bernsku.

22 Og oft hefur hann kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur."

23 Jesús sagði við hann: "Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir."

24 Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: "Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni."

25 Nú sér Jesús, að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: "Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann."

26 Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór, en sveinninn varð sem nár, svo að flestir sögðu: "Hann er dáinn."

27 En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp, og hann stóð á fætur.

28 Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum, spurðu þeir hann: "Hví gátum vér ekki rekið hann út?"

29 Hann mælti: "Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn."

30 Þeir héldu nú brott þaðan og fóru um Galíleu, en hann vildi ekki, að neinn vissi það,

31 því að hann var að kenna lærisveinum sínum. Hann sagði þeim: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur, og þeir munu lífláta hann, en þá er hann hefur líflátinn verið, mun hann upp rísa eftir þrjá daga."

32 En þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann.

33 Þeir komu til Kapernaum. Þegar hann var kominn inn, spurði hann þá: "Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?"

34 En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni, hver væri mestur.

35 Hann settist niður, kallaði á þá tólf og sagði við þá: "Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra."

36 Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá:

37 "Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur ekki aðeins við mér, heldur og við þeim er sendi mig."

38 Jóhannes sagði við hann: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgdi oss ekki."

39 Jesús sagði: "Varnið honum þess ekki, því að enginn er sá, að hann gjöri kraftaverk í mínu nafni og geti þegar á eftir talað illa um mig.

40 Sá sem er ekki á móti oss, er með oss.

41 Hver sem gefur yður bikar vatns að drekka, vegna þess að þér eruð Krists, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.

42 Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.

43 Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. [

44 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]

45 Ef fótur þinn tælir þig til falls, þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. [

46 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]

47 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti,

48 þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.

49 Sérhver mun eldi saltast.

50 Saltið er gott, en ef saltið missir seltuna, með hverju viljið þér þá krydda það? Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar á milli."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society