Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 9

Abímelek Jerúbbaalsson fór til Síkem til móðurbræðra sinna og talaði við þá og við allt frændlið móðurættar sinnar á þessa leið:

"Talið svo í eyru allra Síkembúa: ,Hvort mun yður betra, að sjötíu menn, allir synir Jerúbbaals, drottni yfir yður, eða að einn maður drottni yfir yður?` Minnist þess og, að ég er yðar hold og bein."

Móðurbræður hans töluðu öll þessi orð um hann í eyru Síkembúa, svo að hugur þeirra hneigðist að Abímelek, því að þeir sögðu: "Hann er bróðir vor."

Þeir gáfu honum sjötíu sikla silfurs úr musteri Sáttmála-Baals, og Abímelek leigði fyrir það lausingja og óvendismenn og gjörðist fyrirliði þeirra.

Því næst fór hann til húss föður síns í Ofra og drap bræður sína, sonu Jerúbbaals, sjötíu manns á einum steini. Jótam, yngsti sonur Jerúbbaals, varð einn eftir, því að hann hafði falið sig.

En allir Síkembúar söfnuðust nú saman og allir þeir, sem bjuggu í Síkemkastala, og fóru til og tóku Abímelek til konungs hjá merkisteinseikinni, sem er hjá Síkem.

Er Jótam spurði þetta, fór hann og nam staðar á tindi Garísímfjalls, hóf upp raust sína, kallaði og mælti til þeirra: "Heyrið mig, Síkembúar, svo að Guð heyri yður!

Einu sinni fóru trén að smyrja konung sér til handa. Og þau sögðu við olíutréð: Ver þú konungur yfir oss!

En olíutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa feiti mína, sem Guð og menn virða mig fyrir, og fara að sveima uppi yfir trjánum?

10 Þá sögðu trén við fíkjutréð: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

11 En fíkjutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa sætleik minn og ágætan ávöxt minn og fara að sveima uppi yfir trjánum?

12 Þá sögðu trén við vínviðinn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

13 En vínviðurinn sagði við þau: Á ég að yfirgefa vínlög minn, sem gleður bæði Guð og menn, og fara að sveima uppi yfir trjánum?

14 Þá sögðu öll trén við þyrninn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

15 En þyrnirinn sagði við trén: Ef það er alvara yðar að smyrja mig til konungs, þá komið og fáið yður skjól í skugga mínum. En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá þyrninum og eyði sedrustrjánum á Líbanon.

16 Nú ef þér hafið sýnt hreinskilni og einlægni í því að taka Abímelek til konungs, og ef þér hafið gjört vel við Jerúbbaal og hús hans og ef þér hafið breytt við hann, eins og hann hafði til unnið _

17 því að fyrir yður barðist faðir minn og stofnaði lífi sínu í hættu, og yður frelsaði hann úr höndum Midíans,

18 en þér hafið í dag risið upp í gegn húsi föður míns og drepið sonu hans, sjötíu að tölu, á einum steini og tekið Abímelek, son ambáttar hans, til konungs yfir Síkembúa, af því að hann er bróðir yðar _

19 ef þér því hafið sýnt Jerúbbaal og húsi hans hreinskilni og einlægni í dag, þá gleðjist yfir Abímelek, og hann gleðjist þá og yfir yður.

20 En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá Abímelek og eyði Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og þá gangi eldur út frá Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og eyði Abímelek."

21 Síðan lagði Jótam á flótta og flýði burt og fór til Beer. Þar settist hann að, til þess að vera óhultur fyrir Abímelek bróður sínum.

22 Abímelek réð nú fyrir Ísrael í þrjú ár.

23 Þá lét Guð sundurþykkis anda koma upp milli Abímeleks og Síkembúa, svo að Síkembúar rufu tryggðir við Abímelek,

24 til þess að hefnd kæmi fyrir níðingsverkið á þeim sjötíu sonum Jerúbbaals og að blóð þeirra kæmi yfir Abímelek, bróður þeirra, sem drepið hafði þá, og yfir Síkembúa, sem styrkt höfðu hann til að drepa bræður hans.

25 Settu Síkembúar þá menn í launsát í móti honum hæst á fjöllum uppi, og rændu þeir alla þá, er um veginn fóru fram hjá þeim. Og Abímelek var sagt frá því.

26 Þá kom Gaal Ebedsson og bræður hans, og héldu þeir inn í Síkem, og Síkembúar fengu traust á honum.

27 Þeir fóru út á akurinn og lásu vínberin í víngörðum sínum og tróðu þau og héldu hátíð, fóru inn í musteri guðs síns og átu og drukku og bölvuðu Abímelek.

28 Og Gaal Ebedsson sagði: "Hver er Abímelek og hverjir erum vér í Síkem, að vér eigum að lúta honum? Er hann ekki sonur Jerúbbaals og Sebúl höfuðsmaður hans? Lútið mönnum Hemors, föður Síkems! En hví skyldum vér eiga að lúta honum?

29 Ég vildi að fólk þetta væri undir minni hendi, þá skyldi ég ekki vera lengi að reka Abímelek burt og segja við Abímelek: Auk her þinn og kom út!"

30 Er Sebúl, höfuðsmaður borgarinnar, spurði ummæli Gaals Ebedssonar, upptendraðist reiði hans,

31 og sendi hann menn á laun til Abímeleks og lét segja honum: "Sjá, Gaal Ebedsson og bræður hans eru komnir til Síkem og æsa þeir borgina upp í móti þér.

32 Tak þig því upp um nótt með liðið, sem hjá þér er, og leggstu í launsátur úti á víðavangi,

33 og að morgni, þegar sól rennur upp, þá skalt þú vera árla á fótum og ráðast á borgina. Þá mun hann og liðið, sem með honum er, fara út í móti þér, og skalt þú þá með hann fara svo sem þú færð færi á."

34 Þá tók Abímelek sig upp um nótt með allt liðið, sem hjá honum var, og þeir lögðust í launsát í fjórum flokkum móti Síkem.

35 Og er Gaal Ebedsson kom út og nam staðar fyrir utan borgarhliðið, þá spratt Abímelek upp úr launsátinni og liðið, sem með honum var.

36 Og Gaal sá liðið og sagði við Sebúl: "Sjá, þarna kemur fólk ofan af fjöllunum." En Sebúl sagði við hann: "Þú sérð skuggann í fjöllunum og ætlar menn vera."

37 En Gaal hélt áfram að mæla og sagði: "Sjá, þarna kemur fólk ofan af háhæðinni, og einn hópur kemur frá veginum að spásagnaeikinni."

38 Þá mælti Sebúl við hann: "Hvar eru nú stóryrði þín, er þú sagðir: ,Hver er Abímelek, að vér eigum að lúta honum?` Er þetta ekki liðið, sem þú fyrirleist? Láttu nú sjá, far út og berst við það."

39 Fór Gaal þá fyrir Síkembúum og barðist við Abímelek.

40 En Abímelek sótti svo hart að honum, að hann flýði fyrir honum, og varð þar mannfall mikið allt að borgarhliðinu.

41 Eftir það dvaldist Abímelek í Arúma, en Sebúl rak Gaal og bræður hans burt, svo að þeir fengu ekki að búa í Síkem.

42 En daginn eftir fór fólkið út á akurinn, og sögðu menn Abímelek frá því.

43 Þá tók hann lið sitt og skipti því í þrjár sveitir og lagðist í launsát úti á víðavangi, og er hann sá fólkið koma út úr borginni, réðst hann á það og vann sigur á því.

44 Abímelek sjálfur og sveitin, sem með honum var, þusti fram og nam staðar fyrir borgarhliðinu, en báðar hinar sveitirnar gjörðu áhlaup á alla þá, sem úti á víðavangi voru, og unnu sigur á þeim.

45 Því næst herjaði Abímelek á borgina allan þann dag og vann borgina, og drap fólkið, sem í henni var; braut síðan niður borgina og stráði yfir hana salti.

46 Er allir þeir menn, sem bjuggu í Síkemkastala, heyrðu þetta, gengu þeir inn í hvelfinguna í musteri Sáttmála-guðs.

47 Og er Abímelek var sagt frá því, að allir menn í Síkemkastala hefðu safnast þar saman,

48 þá fór Abímelek upp á Salmónfjall með allt liðið, sem hjá honum var. Og Abímelek tók öxi í hönd sér og hjó af trjágrein, hóf á loft og lagði á herðar sér og sagði við liðið, sem með honum var: "Gjörið nú sem skjótast slíkt hið sama, er þér sáuð mig gjöra."

49 Þá hjó og allt fólkið hver sína grein, og fylgdu þeir Abímelek og báru að hvelfingunni og lögðu síðan eld í hvelfinguna yfir þeim, svo að allir menn í Síkemkastala dóu, hér um bil eitt þúsund karla og kvenna.

50 Síðan fór Abímelek til Tebes og settist um Tebes og vann hana.

51 En í miðri borginni var sterkur turn. Þangað flýðu allir menn og konur, já, allir borgarbúar. Lokuðu þeir sig þar inni og stigu síðan upp á þakið á turninum.

52 Nú kom Abímelek að turninum og gjörði áhlaup á hann. En er hann gekk að dyrum turnsins, til þess að leggja eld í hann,

53 þá kastaði kona ein efri kvarnarsteini í höfuð Abímelek og mölvaði sundur hauskúpuna.

54 Þá kallaði hann sem skjótast til skjaldsveins síns og mælti við hann: "Bregð sverði þínu og deyð mig, svo að eigi verði um mig sagt: Kona drap hann!" Þá lagði sveinn hans hann í gegn, og varð það hans bani.

55 En er Ísraelsmenn sáu, að Abímelek var dauður, fóru þeir hver heim til sín.

56 Þannig galt Guð illsku Abímeleks, þá er hann hafði í frammi haft við föður sinn, er hann drap sjötíu bræður sína.

57 Og Guð lét alla illsku Síkembúa koma þeim í koll. Rættist þannig á þeim formæling Jótams Jerúbbaalssonar.

Postulasagan 13

13 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál.

Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: "Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til."

Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.

Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur.

Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar.

Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús.

Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð.

Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni.

En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda:

10 "Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins?

11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma." Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig.

12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.

13 Þeir Páll lögðu út frá Pafos og komu til Perge í Pamfýlíu, en Jóhannes skildi við þá og sneri aftur til Jerúsalem.

14 Sjálfir héldu þeir áfram frá Perge og komu til Antíokkíu í Pisidíu, gengu á hvíldardegi inn í samkunduhúsið og settust.

15 En eftir upplestur úr lögmálinu og spámönnunum sendu samkundustjórarnir til þeirra og sögðu: "Bræður, ef þér hafið einhver hvatningarorð til fólksins, takið þá til máls."

16 Þá stóð Páll upp, benti til hljóðs með hendinni og sagði: "Ísraelsmenn og aðrir þér, sem óttist Guð, hlýðið á.

17 Guð lýðs þessa, Ísraels, útvaldi feður vora og hóf upp lýðinn í útlegðinni í Egyptalandi. Með upplyftum armi leiddi hann þá út þaðan.

18 Og um fjörutíu ára skeið fóstraði hann þá í eyðimörkinni.

19 Hann stökkti burt sjö þjóðum úr Kanaanslandi og gaf þeim land þeirra til eignar.

20 Svo stóð um fjögur hundruð og fimmtíu ára skeið. Eftir þetta gaf hann þeim dómara allt til Samúels spámanns.

21 Síðan báðu þeir um konung, og Guð gaf þeim Sál Kísson, mann af Benjamíns ætt. Hann ríkti í fjörutíu ár.

22 Þegar Guð hafði sett hann af, hóf hann Davíð til konungs yfir þeim. Um hann vitnaði hann: ,Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta, er gjöra mun allan vilja minn.`

23 Af kyni hans sendi Guð Ísrael frelsara, Jesú, samkvæmt fyrirheiti.

24 En áður en hann kom fram, boðaði Jóhannes öllum Ísraelslýð iðrunarskírn.

25 Þegar Jóhannes var að enda skeið sitt, sagði hann: ,Hvern hyggið þér mig vera? Ekki er ég hann. Annar kemur eftir mig, og er ég eigi verður þess að leysa skó af fótum honum.`

26 Bræður, niðjar Abrahams, og aðrir yðar á meðal, sem óttist Guð, oss er sent orð þessa hjálpræðis.

27 Þeir, sem í Jerúsalem búa, og höfðingjar þeirra þekktu hann eigi né skildu orð spámannanna, sem upp eru lesin hvern hvíldardag, en uppfylltu þau með því að dæma hann.

28 Þótt þeir fyndu enga dauðasök hjá honum, báðu þeir Pílatus að láta lífláta hann.

29 En er þeir höfðu fullnað allt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af krossinum og lögðu í gröf.

30 En Guð vakti hann frá dauðum.

31 Marga daga birtist hann þeim, sem með honum fóru frá Galíleu upp til Jerúsalem, og eru þeir nú vottar hans hjá fólkinu.

32 Og vér flytjum yður þau gleðiboð,

33 að fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum, hefur hann efnt við oss börn þeirra með því að reisa Jesú upp. Svo er ritað í öðrum sálminum: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.

34 En um það, að hann reisti hann frá dauðum, svo að hann hverfur aldrei aftur í greipar dauðans, hefur hann talað þannig: Yður mun ég veita heilögu, óbrigðulu fyrirheitin, sem Davíð voru gefin.

35 Á öðrum stað segir: Eigi munt þú láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.

36 Davíð þjónaði sinni kynslóð að Guðs ráði. Síðan sofnaði hann, safnaðist til feðra sinna og varð rotnun að bráð.

37 En sá, sem Guð uppvakti, varð ekki rotnun að bráð.

38 Það skuluð þér því vita, bræður, að yður er fyrir hann boðuð fyrirgefning syndanna

39 og að sérhver, er trúir, réttlætist í honum af öllu því, er lögmál Móse gat ekki réttlætt yður af.

40 Gætið nú þess, að eigi komi það yfir yður, sem sagt er hjá spámönnunum:

41 Sjáið, þér spottarar, undrist, og verðið að engu, því að verk vinn ég á dögum yðar, verk, sem þér alls ekki munduð trúa, þótt einhver segði yður frá því."

42 Þegar þeir gengu út, báðu menn um, að mál þetta yrði rætt við þá aftur næsta hvíldardag.

43 Og er samkomunni var slitið, fylgdu margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, þeim Páli og Barnabasi. En þeir töluðu við þá og brýndu fyrir þeim að halda sér fast við náð Guðs.

44 Næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð Drottins.

45 En er Gyðingar litu mannfjöldann, fylltust þeir ofstæki og mæltu gegn orðum Páls með guðlasti.

46 Páll og Barnabas svöruðu þá einarðlega: "Svo hlaut að vera, að orð Guðs væri fyrst flutt yður. Þar sem þér nú vísið því á bug og metið sjálfa yður ekki verða eilífs lífs, þá snúum vér oss nú til heiðingjanna.

47 Því að svo hefur Drottinn boðið oss: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar."

48 En er heiðingjar heyrðu þetta, glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs, og allir þeir, sem ætlaðir voru til eilífs lífs, tóku trú.

49 Og orð Drottins breiddist út um allt héraðið.

50 En Gyðingar æstu upp guðræknar hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar og vöktu ofsókn gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr byggðum sínum.

51 En þeir hristu dustið af fótum sér móti þeim og fóru til Íkóníum.

52 En lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.

Jeremía 22

22 Svo mælti Drottinn: Gakk þú ofan að höll Júdakonungs og flyt þar þessi orð

og seg: Heyr orð Drottins, konungur í Júda, þú sem situr í hásæti Davíðs, þú og þjónar þínir og lýður þinn, þeir sem ganga inn um þessi hlið!

Svo segir Drottinn: Iðkið rétt og réttlæti og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans. Undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og hafið ekki órétt í frammi, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað.

Því ef þér gjörið þetta, munu inn um hlið þessa húss fara konungar, er sitja í hásæti Davíðs sem eftirmenn hans, akandi í vögnum og ríðandi á hestum _ konungurinn sjálfur, þjónar hans og lýður hans.

En ef þér hlýðið ekki þessum orðum, þá sver ég við sjálfan mig _ segir Drottinn _ að höll þessi skal verða að eyðirúst.

Svo segir Drottinn um höll Júdakonungs: Þú ert mér sem Gíleað, sem Líbanonstindur. Vissulega vil ég gjöra þig að eyðimörk, eins og óbyggðar borgir,

og vígja spillvirkja í móti þér, hvern með sín vopn, til þess að þeir höggvi þín ágætu sedrustré og varpi þeim á eldinn.

Margar þjóðir skulu ganga fram hjá þessari borg og menn segja hver við annan: "Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þessa miklu borg?"

Og þá munu menn svara: "Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs síns, og féllu fram fyrir öðrum guðum og þjónuðu þeim."

10 Grátið ekki þann, sem dauður er, og harmið hann ekki. Grátið miklu heldur þann, sem burt er farinn, því að hann mun aldrei koma heim aftur og sjá ættland sitt.

11 Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason, konung í Júda, sem ríki tók eftir Jósía föður sinn og burt er farinn úr þessum stað: Hann mun aldrei framar koma hingað aftur,

12 heldur mun hann deyja á þeim stað, þangað sem þeir hafa flutt hann hertekinn, en þetta land mun hann aldrei framar líta.

13 Vei þeim, sem byggir hús sitt með ranglæti og veggsvalir sínar með rangindum, sem lætur náunga sinn vinna fyrir ekki neitt og greiðir honum ekki kaup hans,

14 sem segir: "Ég vil reisa mér rúmgott hús og loftgóðar svalir!" og heggur sér glugga, þiljar með sedrusviði og málar fagurrautt!

15 Ert þú konungur, þótt þú keppir við aðra með húsagjörð úr sedrusviði? Át ekki faðir þinn og drakk? En hann iðkaði rétt og réttlæti, þá vegnaði honum vel.

16 Hann rak réttar hinna aumu og fátæku, þá gekk allt vel. Er slíkt ekki að þekkja mig? _ segir Drottinn.

17 En augu þín og hjarta stefna eingöngu að eigin ávinning og að því að úthella saklausu blóði og beita kúgun og undirokun.

18 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Jósíason, Júdakonung: Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, bróðir minn! Æ, systir!" Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, herra! Æ, vegsemd hans!"

19 Hann skal verða jarðaður eins og asni er jarðaður: dreginn burt og varpað langt út fyrir hlið Jerúsalem.

20 Stíg þú upp á Líbanon og hljóða! Lát raust þína gjalla í Basan og hljóða þú frá Abarím, því að allir ástmenn þínir eru sundurmolaðir.

21 Ég talaði við þig í velgengni þinni, en þú sagðir: "Ég vil ekki heyra!" Þannig var breytni þín frá æsku, að þú hlýddir ekki minni raustu.

22 Nú mun stormurinn hirða alla hirða þína, og ástmenn þínir munu herleiddir verða. Já, þá munt þú verða til skammar og smánar vegna allrar vonsku þinnar.

23 Þú sem býr á Líbanon og hreiðrar þig í sedrustrjám, hversu munt þú stynja, þegar hríðirnar koma yfir þig, kvalir eins og yfir jóðsjúka konu.

24 Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _ þótt Konja Jójakímsson, konungur í Júda, væri innsiglishringur á hægri hendi minni, þá mundi ég rífa hann þaðan.

25 Og ég sel þig í hendur þeirra, sem sitja um líf þitt, og í hendur þeirra, sem þú hræðist, og í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur Kaldea.

26 Og ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, burt til annars lands, þar sem þið ekki eruð fædd, og þar skuluð þið deyja,

27 en í landið, sem þeir þrá að komast til aftur, þangað skulu þeir aldrei aftur komast.

28 Er þá þessi Konja fyrirlitlegt ílát, sem ekki er til annars en að brjóta sundur, eða ker, sem engum manni geðjast að? Hví var honum og niðjum hans þá kastað burt og varpað til lands, sem þeir þekktu ekki?

29 Ó land, land, land, heyr orð Drottins!

30 Svo segir Drottinn: Skrásetjið þennan mann barnlausan, mann, sem ekki mun verða lángefinn um dagana, því að engum af niðjum hans mun auðnast að sitja í hásæti Davíðs og ríkja framar yfir Júda.

Markúsarguðspjall 8

Um þessar mundir bar enn svo við, að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá:

"Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar.

Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að."

Þá svöruðu lærisveinarnir: "Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?"

Hann spurði þá: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir sögðu: "Sjö."

Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum, að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið.

Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann þakkaði Guði og bauð, að einnig þeir skyldu fram bornir.

Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur.

En þeir voru um fjórar þúsundir. Síðan lét hann þá fara.

10 Og hann sté þegar í bátinn með lærisveinum sínum og kom í Dalmanútabyggðir.

11 Þangað komu farísear og tóku að þrátta við hann, þeir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

12 Hann andvarpaði þungan innra með sér og mælti: "Hví heimtar þessi kynslóð tákn? Sannlega segi ég yður: Tákn verður alls ekki gefið þessari kynslóð."

13 Hann skildi síðan við þá, sté aftur í bátinn og fór yfir um.

14 Þeir höfðu gleymt að taka brauð, höfðu ekki nema eitt brauð með sér í bátnum.

15 Jesús áminnti þá og sagði: "Gætið yðar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar."

16 En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki brauð.

17 Hann varð þess vís og segir við þá: "Hvað eruð þér að tala um, að þér hafið ekki brauð? Skynjið þér ekki enn né skiljið? Eru hjörtu yðar forhert?

18 Þér hafið augu, sjáið þér ekki? Þér hafið eyru, heyrið þér ekki? Eða munið þér ekki?

19 Þegar ég braut brauðin fimm handa fimm þúsundum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér saman?" Þeir svara honum: "Tólf."

20 "Eða brauðin sjö handa fjórum þúsundunum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér þá saman?" Þeir svara: "Sjö."

21 Og hann sagði við þá: "Skiljið þér ekki enn?"

22 Þeir koma nú til Betsaídu. Þar færa menn til Jesú blindan mann og biðja, að hann snerti hann.

23 Hann tók í hönd hins blinda, leiddi hann út úr þorpinu, skyrpti í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: "Sér þú nokkuð?"

24 Hann leit upp og mælti: "Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga."

25 Þá lagði hann aftur hendur yfir augu hans, og nú sá hann skýrt, varð albata og heilskyggn á allt.

26 Jesús sendi hann síðan heim til sín og sagði: "Inn í þorpið máttu ekki fara."

27 Jesús fór nú ásamt lærisveinum sínum til þorpanna hjá Sesareu Filippí. Á leiðinni spurði hann lærisveina sína: "Hvern segja menn mig vera?"

28 Þeir svöruðu honum: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir einn af spámönnunum."

29 Og hann spurði þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði honum: "Þú ert Kristur."

30 Og hann lagði ríkt á við þá að segja engum frá sér.

31 Þá tók hann að kenna þeim: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa eftir þrjá daga."

32 Þetta sagði hann berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann.

33 Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: "Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er."

34 Og hann kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði við þá: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.

35 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því.

36 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgjöra sálu sinni?

37 Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

38 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society