Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 8

Efraímítar sögðu við Gídeon: "Hví gjörðir þú oss þetta, að kalla oss eigi? Heldur hefir þú farið einn til þess að berjast við Midíaníta." Og þeir þráttuðu ákaflega við hann.

Þá sagði hann við þá: "Hvað hefi ég nú gjört í samanburði við yður? Er ekki eftirtíningur Efraíms betri en vínberjatekja Abíesers?

Í yðar hendur hefir Guð gefið höfðingja Midíans, þá Óreb og Seeb. Hvað hefi ég megnað að gjöra í samanburði við yður?" Og er hann hafði þetta mælt, sefaðist reiði þeirra við hann.

Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir hana með þau þrjú hundruð manna, er með honum voru, en þeir voru þreyttir orðnir að reka flóttann.

Og hann sagði við Súkkótbúa: "Gefið liðinu, sem fylgir mér, brauðhleifa, því að þeir eru þreyttir orðnir, þar eð ég er að elta þá Seba og Salmúna, Midíans konunga."

En höfðingjarnir í Súkkót sögðu: "Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir þér svo í greipar, að vér megum gefa her þínum brauð?"

Þá sagði Gídeon: "Sé það svo! Þegar Drottinn gefur Seba og Salmúna í mínar hendur, þá skal ég þreskja hold yðar með þyrnum eyðimerkurinnar og með þistlum."

Þaðan fór hann til Penúel og mælti við þá á sömu leið. En Penúelbúar svöruðu honum hinu sama og Súkkótbúar höfðu svarað.

Þá sagði hann og við Penúelbúa á þessa leið: "Þegar ég kem aftur heilu og höldnu, mun ég brjóta niður kastala þennan."

10 Þeir Seba og Salmúna voru í Karkór og herlið þeirra með þeim, um fimmtán þúsundir manna, allir þeir, er eftir voru af öllum her austurbyggja, en eitt hundrað og tuttugu þúsundir vopnaðra manna voru fallnar.

11 Fór Gídeon nú tjaldbúaleið fyrir austan Nóba og Jogbeha og réðst á herbúðirnar, þá er herinn uggði eigi að sér.

12 Þeir Seba og Salmúna flýðu, en hann elti þá og tók höndum báða Midíanskonungana Seba og Salmúna, og tvístraði öllum hernum.

13 Eftir það sneri Gídeon Jóasson aftur úr leiðangrinum hjá Heresstígnum.

14 Og hann tók höndum svein nokkurn frá Súkkótbúum og kvaddi hann sagna, og sveinninn skrifaði upp fyrir hann höfðingjana í Súkkót og öldungana, sjötíu og sjö manns.

15 Og er hann kom til Súkkótbúa, sagði hann: "Hér eru þú þeir Seba og Salmúna, er þér hædduð mig fyrir og sögðuð: ,Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir svo í greipar þér, að vér megum gefa þreyttum mönnum þínum brauð?"`

16 Og hann tók öldunga borgarinnar og þyrna eyðimerkurinnar og þistla og lét Súkkótbúa kenna á þeim.

17 Og hann braut niður kastalann í Penúel og drap borgarbúa.

18 Síðan sagði hann við Seba og Salmúna: "Hvernig voru þeir menn í hátt, er þið drápuð hjá Tabor?" Þeir sögðu: "Þeir voru alveg eins og þú. Voru þeir allir slíkir ásýndum sem væru þeir konungssynir."

19 Þá sagði hann: "Þeir hafa verið bræður mínir, synir móður minnar. Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Ef þið hefðuð gefið þeim líf, mundi ég ekki hafa drepið ykkur."

20 Því næst sagði hann við Jeter, frumgetinn son sinn: "Far þú til og drep þá!" En sveinninn brá ekki sverði sínu, því að hann bar ekki hug til, enda var hann ungur að aldri.

21 En þeir Seba og Salmúna sögðu: "Far þú sjálfur til og vinn á okkur, því að afl fylgir aldri manns." Fór þá Gídeon til og drap þá Seba og Salmúna og tók tinglin, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra.

22 Þá sögðu Ísraelsmenn við Gídeon: "Drottna þú yfir oss, bæði þú og sonur þinn og sonarsonur þinn, því að þú hefir frelsað oss af hendi Midíans."

23 En Gídeon sagði við þá: "Eigi mun ég drottna yfir yður, og eigi mun sonur minn heldur drottna yfir yður. Drottinn skal yfir yður drottna."

24 Þá sagði Gídeon við þá: "Bónar vil ég biðja yður. Gefið mér allir eyrnahringa þá, er þér hafið fengið að herfangi," _ en Ísmaelítar báru eyrnahringa af gulli.

25 Þeir svöruðu: "Vér viljum fúslega gefa þér þá." Og þeir breiddu út skikkju og köstuðu þangað hver og einn eyrnahringum þeim, er þeir höfðu fengið að herfangi.

26 En þyngd þessara eyrnahringa af gulli, er hann beiðst hafði, var eitt þúsund og sjö hundruð siklar gulls, fyrir utan tinglin, eyrnaperlurnar og purpuraklæðin, sem Midíanskonungarnir báru, og fyrir utan festar þær, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra.

27 Og Gídeon gjörði úr því hökul og reisti hann upp í borg sinni, í Ofra, og allur Ísrael tók þar fram hjá með honum, og það varð Gídeon og húsi hans að tálsnöru.

28 Þannig urðu Midíanítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum og máttu aldrei síðan höfuð hefja. Var nú friður í landi í fjörutíu ár, meðan Gídeon var á lífi.

29 Því næst hélt Jerúbbaal Jóasson heim til sín og bjó í sínu húsi.

30 Gídeon átti sjötíu sonu, sem út gengnir voru af lendum hans, því að hann átti margar konur.

31 Og hjákona hans, sú er hann átti í Síkem, fæddi honum og son, og hann nefndi hann Abímelek.

32 Gídeon Jóasson dó í góðri elli og var grafinn í gröf Jóasar, föður síns, í Ofra Abíesrítanna.

33 En er Gídeon var dáinn, tóku Ísraelsmenn enn af nýju fram hjá með Baölum, og gjörðu Sáttmála-Baal að guði sínum.

34 Og Ísraelsmenn minntust ekki Drottins, Guðs síns, sem frelsað hafði þá úr höndum allra óvina þeirra hringinn í kring,

35 og ekki auðsýndu þeir heldur kærleika húsi Jerúbbaals, Gídeons, fyrir allt hið góða, sem hann hafði gjört Ísrael.

Postulasagan 12

12 Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim.

Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði.

Og er hann sá, að Gyðingum líkaði vel, lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna.

Þegar hann hafði handtekið hann, lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að leiða hann fram fyrir lýðinn.

Sat nú Pétur í fangelsinu, en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum.

Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins.

Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: "Rís upp skjótt!" Og fjötrarnir féllu af höndum hans.

Þá sagði engillinn við hann: "Gyrð þig og bind á þig skóna!" Hann gjörði svo. Síðan segir engillinn: "Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!"

Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann, að það var raunverulegt, sem gjörst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn.

10 Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu, sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti, en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum.

11 Þegar Pétur kom til sjálfs sín, sagði hann: "Nú veit ég sannlega, að Drottinn hefur sent engil sinn og bjargað mér úr hendi Heródesar og frá allri ætlan Gyðingalýðs."

12 Og er hann hafði áttað sig, gekk hann að húsi Maríu, móður Jóhannesar, er kallast Markús. Þar höfðu margir safnast saman og voru á bæn.

13 Hann knúði hurð fordyrisins, og stúlka að nafni Róde gekk til dyra.

14 Þegar hún þekkti málróm Péturs, gáði hún eigi fyrir fögnuði að ljúka upp fordyrinu, heldur hljóp inn og sagði, að Pétur stæði fyrir dyrum úti.

15 Þeir sögðu við hana: "Þú ert frávita." En hún stóð fast á því, að svo væri sem hún sagði. "Það er þá engill hans," sögðu þeir.

16 En Pétur hélt áfram að berja, og þegar þeir luku upp, sáu þeir hann og urðu furðu lostnir.

17 Hann benti þeim með hendinni að vera hljóðir, skýrði þeim frá, hvernig Drottinn hafði leitt hann út úr fangelsinu, og bað þá segja Jakobi og bræðrunum frá þessu. Síðan gekk hann út og fór í annan stað.

18 Þegar dagur rann, kom ekki lítið fát á hermennina út af því, hvað af Pétri væri orðið.

19 Heródes lét leita hans, en fann hann ekki. Hann lét þá yfirheyra varðmennina og bauð síðan að taka þá af lífi. Síðan fór hann úr Júdeu niður til Sesareu og sat þar um kyrrt.

20 Heródes hafði verið harla gramur Týrverjum og Sídóningum. Komu þeir saman á fund hans, fengu Blastus, stallara konungs, til fylgis við sig og báðust friðar, en land þeirra var háð landi konungs um vistaföng.

21 Á tilsettum degi klæddist Heródes konungsskrúða, settist í hásæti og flutti þeim ræðu.

22 En lýðurinn kallaði: "Guðs rödd er þetta, en eigi manns."

23 Jafnskjótt laust engill Drottins hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann varð ormétinn og dó.

24 En orð Guðs efldist og breiddist út.

25 Barnabas og Sál sneru aftur frá Jerúsalem að loknu erindi sínu og tóku með sér Jóhannes, öðru nafni Markús.

Jeremía 21

21 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þegar Sedekía konungur sendi þá Pashúr Malkíason og Sefanía prest Maasejason til hans með þessa orðsendingu:

"Nebúkadresar Babelkonungur herjar á oss. Gakk til frétta við Drottin fyrir oss, hvort Drottinn muni við oss gjöra samkvæmt öllum sínum dásemdarverkum, svo að hann fari burt frá oss aftur."

Þá sagði Jeremía við þá: "Segið svo Sedekía:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Sjá, ég sný við hervopnunum í höndum yðar, sem þér berjist með við Babelkonung og við Kaldea, sem að yður kreppa fyrir utan borgarmúrinn. Ég safna þeim saman inni í þessari borg,

og ég mun sjálfur berjast við yður með útréttri hendi og sterkum armlegg og með reiði, heift og mikilli gremi.

Ég mun ljósta íbúa þessarar borgar, bæði menn og skepnur, þeir skulu deyja af mikilli drepsótt.

En eftir það _ segir Drottinn _ mun ég selja Sedekía Júdakonung og þjóna hans og lýðinn, þá er eftir verða í þessari borg eftir drepsóttina, sverðið og hungrið, í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur óvina þeirra og í hendur þeirra, er sækjast eftir lífi þeirra, og hann mun drepa þá með sverðseggjum hlífðarlaust, vægðarlaust og miskunnarlaust."

En við lýð þennan skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Sjá, ég legg fyrir yður veg lífsins og veg dauðans.

Þeir sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir sem fara út og ganga á vald Kaldeum, sem að yður kreppa, þeir munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi.

10 Því að ég hefi snúið andliti mínu gegn þessari borg, til óheilla og ekki til heilla _ segir Drottinn. Hún skal ofurseld verða Babelkonungi, og hann skal brenna hana í eldi.

11 Um hús konungsins í Júda. Heyrið orð Drottins! Davíðs hús,

12 svo segir Drottinn: Haldið rétt að morgni dags og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans, til þess að heiftarreiði mín brjótist ekki út eins og eldur og brenni, svo að enginn fái slökkt sakir illverka yðar!

13 Sjá, ég skal finna þig, þú sem býr í dalnum, kletturinn á sléttunni _ segir Drottinn _ yður sem segið: "Hver skyldi koma ofan gegn oss og hver skyldi brjótast inn í bústaði vora?"

14 Og ég skal vitja yðar samkvæmt ávöxtum verka yðar _ segir Drottinn _ og leggja eld í skóg yðar, og hann skal eyða öllu, sem umhverfis hana er.

Markúsarguðspjall 7

Nú safnast að honum farísear og nokkrir fræðimenn, komnir frá Jerúsalem.

Þeir sáu, að sumir lærisveina hans neyttu matar með vanhelgum, það er óþvegnum höndum.

En farísear, og reyndar Gyðingar allir, eta ekki nema þeir taki áður handlaugar, og fylgja þeir svo erfðavenju forfeðra sinna.

Og ekki neyta þeir matar, þegar þeir koma frá torgi, nema þeir hreinsi sig áður. Margt annað hafa þeir gengist undir að rækja, svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla.

Farísearnir og fræðimennirnir spyrja hann: "Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna, heldur neyta matar með vanhelgum höndum?"

Jesús svarar þeim: "Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.

Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.

Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna."

Enn sagði hann við þá: "Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar.

10 Móse sagði: ,Heiðra föður þinn og móður þína.` og ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`

11 En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: ,Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,` það er musterisfé,

12 þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður.

13 Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt annað gjörið þér þessu líkt."

14 Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið mig allir, og skiljið.

15 Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer." [

16 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!]

17 Þegar hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinar hans hann um líkinguna.

18 Og hann segir við þá: "Eruð þér einnig svo skilningslausir? Skiljið þér eigi, að ekkert, sem fer inn í manninn utan frá, getur saurgað hann?

19 Því að ekki fer það inn í hjarta hans, heldur maga og út síðan í safnþróna." Þannig lýsti hann alla fæðu hreina.

20 Og hann sagði: "Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn.

21 Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp,

22 hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska.

23 Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn."

24 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Týrusar. Þar fór hann inn í hús og vildi engan láta vita. En eigi fékk hann dulist.

25 Kona ein frétti þegar af honum og kom og féll honum til fóta, en dóttir hennar hafði óhreinan anda.

26 Konan var heiðin, ættuð úr Fönikíu sýrlensku. Hún bað hann að reka illa andann út af dóttur sinni.

27 Hann sagði við hana: "Lofaðu börnunum að seðjast fyrst, ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."

28 Hún svaraði honum: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir undir borðinu af molum barnanna."

29 Og hann sagði við hana: "Vegna þessara orða skaltu heim snúa, illi andinn er farinn úr dóttur þinni."

30 Hún fór heim, fann barnið liggjandi á rúminu, og illi andinn var farinn.

31 Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns.

32 Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.

33 Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.

34 Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: "Effaþa," það er: Opnist þú.

35 Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.

36 Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því.

37 Menn undruðust næsta mjög og sögðu: "Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society