M’Cheyne Bible Reading Plan
7 Nú tók Jerúbbaal, það er Gídeon, sig árla upp og allt liðið, er með honum var, og settu þeir herbúðir sínar hjá Haródlind, en herbúðir Midíans voru fyrir norðan hann, hinumegin við Mórehæð þar á sléttunni.
2 Drottinn sagði við Gídeon: "Liðið er of margt, sem með þér er, til þess að ég vilji gefa Midían í hendur þeirra, ella kynni Ísrael að hrokast upp gegn mér og segja: ,Mín eigin hönd hefir frelsað mig.`
3 Kalla því nú í eyru fólksins og seg: Hver sá, sem hræddur er og hugdeigur, snúi við og fari aftur frá Gíleaðfjalli." Þá sneru aftur tuttugu og tvær þúsundir af liðinu, en tíu þúsundir urðu eftir.
4 Þá sagði Drottinn við Gídeon: "Enn er liðið of margt. Leið þú þá ofan til vatnsins, og mun ég reyna þá þar fyrir þig. Sá sem ég þá segi um við þig: ,þessi skal með þér fara,` hann skal með þér fara, en hver sá, er ég segi um við þig: ,þessi skal ekki með þér fara,` hann skal ekki fara."
5 Leiddi Gídeon þá liðið niður til vatnsins. Og Drottinn sagði við Gídeon: "Öllum þeim, sem lepja vatnið með tungu sinni, eins og hundar gjöra, skalt þú skipa sér, og sömuleiðis öllum þeim, sem krjúpa á kné til þess að drekka úr lófa sínum, er þeir færa upp að munni sér."
6 En þeir, sem löptu vatnið, voru þrjú hundruð að tölu, en allt hitt liðið kraup á kné til þess að drekka vatnið.
7 Þá sagði Drottinn við Gídeon: "Með þeim þrem hundruðum manna, sem lapið hafa, mun ég frelsa yður og gefa Midían í hendur yðar, en allt hitt liðið skal fara, hver heim til sín."
8 Þá tóku þeir til sín veganesti liðsins og lúðra þeirra, en alla aðra Ísraelsmenn lét hann burt fara, hvern til síns heimkynnis, og hélt aðeins þrem hundruðum manna eftir. Og herbúðir Midíans voru fyrir neðan hann á sléttunni.
9 Hina sömu nótt sagði Drottinn við Gídeon: "Rís þú upp og far ofan í herbúðirnar, því að ég hefi gefið þær í þínar hendur.
10 En ef þú ert hræddur að fara ofan þangað, þá far þú með Púra, svein þinn, til herbúðanna,
11 og hlustaðu á, hvað þeir segja. Mun þá hugur þinn styrkjast svo, að þú fer ofan í herbúðirnar." Þá fór hann og Púra sveinn hans til ystu hermannanna, sem voru í herbúðunum.
12 Midíanítar, Amalekítar og allir austurbyggjar höfðu reist herbúðir á sléttunni, sem engisprettur að fjölda til, og úlfaldar þeirra voru óteljandi, sem sandur á sjávarströndu að fjölda til.
13 Þegar Gídeon kom þangað, var maður nokkur að segja félaga sínum draum með þessum orðum: "Sjá, mig dreymdi draum, og þótti mér byggbrauðskaka velta sér að herbúðum Midíans, og komst hún alla leið að tjaldinu og rakst á það, svo að það féll, og kollvelti því, svo að tjaldið lá flatt."
14 Þá svaraði hinn: "Þetta er ekkert annað en sverð Ísraelítans Gídeons Jóassonar. Guð hefir gefið Midían og allar herbúðirnar í hendur hans."
15 Er Gídeon hafði heyrt frásöguna um drauminn og ráðningu hans, féll hann fram og tilbað. Sneri hann síðan aftur til herbúða Ísraels og sagði: "Rísið upp, því að Drottinn hefir gefið herbúðir Midíans í yðar hendur."
16 Þá skipti hann þeim þrem hundruðum manna í þrjá flokka og fékk þeim öllum lúðra í hönd og tómar krúsir og blys í krúsunum.
17 Og hann sagði við þá: "Lítið á mig og gjörið sem ég. Þegar ég kem að útjaðri herbúðanna, þá gjörið eins og ég gjöri.
18 Þegar ég því þeyti lúðurinn og allir þeir, sem með mér eru, þá skuluð þér líka þeyta lúðrana kringum allar herbúðirnar og segja: ,Sverð Drottins og Gídeons!"`
19 Gídeon og það hundrað manna, er með honum var, komu að útjaðri herbúðanna í byrjun miðvarðtíðarinnar. Var þá einmitt nýbúið að setja verðina. Þá þeyttu þeir lúðrana og brutu sundur krúsirnar, sem þeir báru í höndum sér.
20 Þeyttu nú flokkarnir þrír lúðrana og brutu krúsirnar, tóku blysin í vinstri hönd sér og lúðrana í hægri hönd sér til þess að þeyta þá, og æptu: "Sverð Drottins og Gídeons!"
21 Stóðu þeir kyrrir, hver á sínum stað, umhverfis herbúðirnar, en í herbúðunum komst allt í uppnám, og flýðu menn nú með ópi miklu.
22 Og er þeir þeyttu þrjú hundruð lúðrana, þá beindi Drottinn sverðum þeirra gegn þeirra eigin mönnum um allar herbúðirnar, og flýði allur herinn til Bet Sitta, á leið til Serera, að árbakkanum við Abel Mehóla hjá Tabbat.
23 Nú voru kallaðir saman Ísraelsmenn úr Naftalí, Asser og öllum Manasse, og þeir veittu Midían eftirför.
24 Gídeon hafði og sent sendimenn um öll Efraímfjöll og látið segja: "Farið ofan í móti Midían og varnið þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan." Þá var öllum Efraímítum stefnt saman, og þeir vörnuðu þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan.
25 Og þeir handtóku tvo höfðingja Midíaníta, þá Óreb og Seeb, og drápu Óreb hjá Órebskletti, en Seeb drápu þeir hjá Seebsvínþröng. Síðan veittu þeir Midíanítum eftirför. En höfuðin af Óreb og Seeb færðu þeir Gídeon hinumegin Jórdanar.
11 En postularnir og bræðurnir í Júdeu heyrðu, að heiðingjarnir hefðu einnig tekið við orði Guðs.
2 Þegar Pétur kom upp til Jerúsalem, deildu umskurnarmennirnir á hann og sögðu:
3 "Þú hefur farið inn til óumskorinna manna og etið með þeim."
4 En Pétur sagði þeim þá alla söguna frá rótum og mælti:
5 "Ég var að biðjast fyrir í borginni Joppe og sá, frá mér numinn, sýn, hlut nokkurn koma niður, eins og stór dúkur væri látinn síga á fjórum skautum frá himni, og hann kom til mín.
6 Ég starði á hann og hugði að og sá þá ferfætt dýr jarðar, villidýr, skriðdýr og fugla himins,
7 og ég heyrði rödd segja við mig: ,Slátra nú, Pétur, og et!`
8 En ég sagði: ,Nei, Drottinn, engan veginn, því að aldrei hefur neitt vanheilagt né óhreint komið mér í munn.`
9 Í annað sinn sagði rödd af himni: ,Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!`
10 Þetta gjörðist þrem sinnum, og aftur var allt dregið upp til himins.
11 Samstundis stóðu þrír menn við húsið, sem ég var í, sendir til mín frá Sesareu.
12 Og andinn sagði mér að fara með þeim hiklaust. Þessir sex bræður urðu mér einnig samferða, og vér gengum inn í hús mannsins.
13 Hann sagði oss, hvernig hann hefði séð engil standa í húsi sínu, er sagði: ,Send þú til Joppe og lát sækja Símon, er kallast Pétur.
14 Hann mun orð til þín mæla, og fyrir þau munt þú hólpinn verða og allt heimili þitt.`
15 En þegar ég var farinn að tala, kom heilagur andi yfir þá, eins og yfir oss í upphafi.
16 Ég minntist þá orða Drottins, er hann sagði: ,Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda.`
17 Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?"
18 Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs."
19 Þeir, sem dreifst höfðu vegna ofsóknarinnar, sem varð út af Stefáni, fóru allt til Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu. En Gyðingum einum fluttu þeir orðið.
20 Nokkrir þeirra voru frá Kýpur og Kýrene, og er þeir komu til Antíokkíu, tóku þeir einnig að tala til Grikkja og boða þeim fagnaðarerindið um Drottin Jesú.
21 Og hönd Drottins var með þeim, og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins.
22 Og fregnin um þá barst til eyrna safnaðarins í Jerúsalem, og þeir sendu Barnabas til Antíokkíu.
23 Þegar hann kom og sá verk Guðs náðar, gladdist hann, og hann áminnti alla um að halda sér fast við Drottin af öllu hjarta.
24 Því hann var góður maður, fullur af heilögum anda og trú. Og mikill fjöldi manna gafst Drottni.
25 Þá fór hann til Tarsus að leita Sál uppi.
26 Þegar hann hafði fundið hann, fór hann með hann til Antíokkíu. Þeir voru síðan saman heilt ár í söfnuðinum og kenndu fjölda fólks. Í Antíokkíu voru lærisveinarnir fyrst kallaðir kristnir.
27 Á þessum dögum komu spámenn frá Jerúsalem til Antíokkíu.
28 Einn þeirra, Agabus að nafni, steig fram, og af gift andans sagði hann fyrir, að mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina. Kom það fram á dögum Kládíusar.
29 En lærisveinarnir samþykktu þá, að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar bræðrunum, sem bjuggu í Júdeu.
30 Þetta gjörðu þeir og sendu það til öldunganna með þeim Barnabasi og Sál.
20 En er Pashúr prestur Immersson, yfirumsjónarmaður í musteri Drottins, heyrði Jeremía boða þessi orð,
2 þá lét Pashúr húðstrýkja Jeremía spámann og setti hann í stokkinn, sem var í efra Benjamínshliði, hjá musteri Drottins.
3 En daginn eftir losaði Pashúr Jeremía úr stokknum. Þá sagði Jeremía við hann: "Drottinn kallar þig ekki ,Pashúr`, heldur ,Skelfing allt um kring.`
4 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég gjöri þig að skelfingu fyrir sjálfan þig og fyrir alla vini þína, og þeir skulu falla fyrir sverði óvina sinna og þú horfa upp á það, og allan Júdalýð sel ég Babelkonungi á vald, og hann mun herleiða þá til Babýlon og drepa þá með sverði.
5 Og ég framsel allan auð þessarar borgar og allar eigur hennar og öll dýrindi hennar, og alla fjársjóðu Júdakonunga sel ég óvinum þeirra á vald. Þeir skulu ræna þeim, taka þá og flytja þá til Babýlon.
6 En þú, Pashúr, og allir þeir, sem búa í húsi þínu, skuluð herleiddir verða, og þú skalt komast til Babýlon og þar skalt þú deyja og þar skalt þú greftraður verða _ þú og allir vinir þínir, þeir er þú spáðir lygum."
7 Þú hefir tælt mig, Drottinn, og ég lét tælast! Þú tókst mig tökum og barst hærra hlut. Ég er orðinn að stöðugu athlægi, allir gjöra gys að mér.
8 Já, í hvert sinn er ég tala, verð ég að kvarta undan ofbeldi og kúgun, því að orð Drottins hefir orðið mér til stöðugrar háðungar og spotts.
9 Ef ég hugsaði: "Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni," þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.
10 Já, ég hefi heyrt illyrði margra _ skelfing allt um kring: "Kærið hann!" og "Vér skulum kæra hann!" Jafnvel allir þeir, sem ég hefi verið í vináttu við, vaka yfir því, að ég hrasi: "Ef til vill lætur hann ginnast, svo að vér fáum yfirstigið hann og hefnt vor á honum."
11 En Drottinn er með mér eins og voldug hetja. Fyrir því munu ofsóknarmenn mínir steypast og engu áorka. Þeir skulu verða herfilega til skammar, af því að þeir hafa ekki farið viturlega að ráði sínu _ til eilífrar, ógleymanlegrar smánar.
12 Drottinn allsherjar, þú sem prófar hinn réttláta, þú sem sér nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt.
13 Lofsyngið Drottni! Vegsamið Drottin, því að hann frelsar líf hins fátæka undan valdi illgjörðamanna.
14 Bölvaður sé dagurinn, sem ég fæddist. Dagurinn, sem móðir mín ól mig, sé ekki blessaður!
15 Bölvaður sé maðurinn, sem flutti föður mínum gleðitíðindin: "Þér er fæddur sonur!" og gladdi hann stórlega með því.
16 Fyrir þeim manni fari eins og fyrir borgum, sem Drottinn hefir umturnað vægðarlaust, og hann heyri óp á morgnana og hergný um hádegið,
17 af því að hann lét mig ekki deyja í móðurlífi, svo að móðir mín hefði orðið gröf mín og móðurlíf hennar hefði eilíflega verið þungað.
18 Hví kom ég af móðurlífi til þess að þola strit og mæðu og til þess að eyða ævinni í skömm?
6 Þaðan fór Jesús og kom í ættborg sína, og lærisveinar hans fylgdu honum.
2 Þegar hvíldardagur var kominn, tók hann að kenna í samkundunni, og þeir mörgu, sem á hlýddu, undruðust stórum. Þeir sögðu: "Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans?
3 Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá oss?" Og þeir hneyksluðust á honum.
4 Þá sagði Jesús: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændum og heimamönnum."
5 Og hann gat ekki gjört þar neitt kraftaverk, nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá.
6 Og hann undraðist vantrú þeirra. Hann fór nú um þorpin þar í kring og kenndi.
7 Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum.
8 Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti.
9 Þeir skyldu hafa skó á fótum, en ekki tvo kyrtla.
10 Og hann sagði við þá: "Hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.
11 En hvar sem ekki er tekið við yður né á yður hlýtt, þaðan skuluð þér fara og hrista dustið af fótum yðar þeim til vitnisburðar."
12 Þeir lögðu af stað og prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun,
13 ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá.
14 Heródes konungur frétti þetta, enda var nafn Jesú orðið víðfrægt. Sögðu sumir: "Jóhannes skírari er risinn upp frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."
15 Aðrir sögðu: "Hann er Elía," enn aðrir: "Hann er spámaður eins og spámennirnir fornu."
16 Þegar Heródes heyrði þetta, sagði hann: "Jóhannes, sem ég lét hálshöggva, hann er upp risinn."
17 En Heródes hafði sent menn að taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns. Hann hafði gengið að eiga hana,
18 en Jóhannes hafði sagt við Heródes: "Þú mátt ekki eiga konu bróður þíns."
19 Þess vegna lagði Heródías fæð á Jóhannes og vildi deyða hann, en gat ekki,
20 því að Heródes hafði beyg af honum og verndaði hann, þar eð hann vissi, að hann var maður réttlátur og heilagur. Hann komst í mikinn vanda, þegar hann hlýddi á mál hans, en þó var honum ljúft að hlusta á hann.
21 En nú kom hentugur dagur; á afmæli sínu gjörði Heródes veislu gæðingum sínum, hershöfðingjum og fyrirmönnum Galíleu.
22 Dóttir Heródíasar gekk þar inn og sté dans. Hún hreif Heródes og gesti hans, og konungur sagði við stúlkuna: "Bið mig hvers þú vilt, og mun ég veita þér."
23 Og hann sór henni: "Hvað sem þú biður um, það mun ég veita þér, allt að helmingi ríkis míns."
24 Hún gekk þá út og spurði móður sína: "Um hvað á ég að biðja?" Hún svaraði: "Höfuð Jóhannesar skírara."
25 Jafnskjótt skundaði hún til konungs og bað hann: "Gef mér þegar á fati höfuð Jóhannesar skírara."
26 Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna vildi hann ekki synja henni þessa,
27 heldur sendi þegar varðmann og bauð að færa sér höfuð Jóhannesar. Hann fór og hjó af höfuð Jóhannesar í fangelsinu,
28 kom með höfuð hans á fati og færði stúlkunni, en stúlkan móður sinni.
29 Þegar lærisveinar hans fréttu þetta, komu þeir, tóku lík hans og lögðu í gröf.
30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt.
31 Hann sagði við þá: "Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund." En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.
32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað.
33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim.
34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.
35 Þá er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið.
36 Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar."
37 En hann svaraði þeim: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svara honum: "Eigum vér að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara og gefa þeim að eta?"
38 Jesús spyr þá: "Hve mörg brauð hafið þér? Farið og gætið að." Þeir hugðu að og svöruðu: "Fimm brauð og tvo fiska."
39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa.
40 Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum.
41 Og hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra.
42 Og þeir neyttu allir og urðu mettir.
43 Þeir tóku saman brauðbitana, er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar.
44 En þeir, sem brauðanna neyttu, voru fimm þúsund karlmenn.
45 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan yfir til Betsaídu, meðan hann sendi fólkið brott.
46 Og þá er hann hafði kvatt það, fór hann til fjalls að biðjast fyrir.
47 Þegar kvöld var komið, var báturinn á miðju vatni, en hann einn á landi.
48 Hann sá, að þeim var þungur róðurinn, því að vindur var á móti þeim, og er langt var liðið nætur kemur hann til þeirra, gangandi á vatninu, og ætlar fram hjá þeim.
49 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu, hugðu þeir, að þar færi vofa, og æptu upp yfir sig.
50 Því að allir sáu þeir hann og varð þeim bilt við. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."
51 Og hann sté í bátinn til þeirra og lægði þá vindinn. Og þeir urðu öldungis agndofa,
52 enda höfðu þeir ekki skilið það, sem gjörst hafði með brauðin, hjörtu þeirra voru blind.
53 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret og lögðu þar að.
54 Um leið og þeir stigu úr bátnum, þekktu menn hann.
55 Og fólk tók að streyma fram og aftur um allt það hérað og bera sjúklinga í burðarrekkjum hvert þangað, sem þeir heyrðu, að hann væri.
56 Og hvar sem hann kom í þorp, borgir eða á bæi, lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann, að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans, og allir þeir, sem snertu hann, urðu heilir.
by Icelandic Bible Society