M’Cheyne Bible Reading Plan
6 Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Midíans í sjö ár.
2 Og Midían varð Ísrael yfirsterkari. Gjörðu Ísraelsmenn sér þá fylgsni á fjöllum uppi, hella og vígi fyrir Midían.
3 Og þegar Ísrael sáði, komu Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar og fóru í móti honum.
4 Og þeir settu herbúðir sínar gegn Ísraelsmönnum og eyddu gróðri landsins alla leið til Gasa og skildu enga lífsbjörg eftir í Ísrael, ekki heldur sauði, naut eða asna.
5 Þeir fóru norður þangað með kvikfénað sinn og tjöld sín. Kom slíkur aragrúi af þeim, sem engisprettur væru. Varð engri tölu komið á þá né úlfalda þeirra, og brutust þeir inn í landið til að eyða það.
6 Var Ísrael þá mjög þjakaður af völdum Midíans, og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins.
7 Og er Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins undan Midían,
8 þá sendi Drottinn spámann til Ísraelsmanna, og hann sagði við þá: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður út úr þrælahúsinu,
9 og ég frelsaði yður úr höndum Egypta og úr höndum allra þeirra, er yður kúguðu, og ég stökkti þeim burt undan yður og gaf yður land þeirra.
10 Og ég sagði við yður: ,Ég er Drottinn, Guð yðar. Þér skuluð ekki óttast guði Amorítanna, í hverra landi þér búið.` En þér hlýdduð ekki minni röddu."
11 Þá kom engill Drottins og settist undir eikina í Ofra, er átti Jóas Abíesríti, en Gídeon sonur hans var að þreskja hveiti í vínþröng til þess að forða því undan Midían.
12 Og engill Drottins birtist honum og sagði við hann: "Drottinn er með þér, hrausta hetja!"
13 Þá sagði Gídeon við hann: "Æ, herra minn, ef Drottinn er með oss, hví hefir þá allt þetta oss að hendi borið? Og hvar eru öll dásemdarverk hans, þau er feður vorir hafa skýrt oss frá, segjandi: ,Já, Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi!` En nú hefir Drottinn hafnað oss og gefið oss í hendur Midíans."
14 Þá sneri Drottinn sér til hans og mælti: "Far af stað í þessum styrkleika þínum, og þú munt frelsa Ísrael úr höndum Midíans. Það er ég, sem sendi þig."
15 Gídeon svaraði honum: "Æ, herra, hvernig á ég að frelsa Ísrael? Sjá, minn ættleggur er aumasti ættleggurinn í Manasse, og ég er lítilmótlegastur í minni ætt."
16 Þá sagði Drottinn við hann: "Ég mun vera með þér, og þú munt sigra Midíaníta sem einn maður væri."
17 Gídeon svaraði honum: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gjör mér tákn þess, að það sért þú, er við mig talar.
18 Far ekki héðan burt, fyrr en ég kem aftur til þín og færi hingað út fórnargjöf mína og set hana fram fyrir þig." Og Drottinn sagði: "Ég mun bíða hér, þar til er þú kemur aftur."
19 Þá fór Gídeon og tilreiddi hafurkið og ósýrðar kökur úr einni efu mjöls. Lagði hann kjötið í körfu, en lét súpuna í krukku og kom með þetta út til hans undir eikina og bar það fram.
20 En engill Guðs sagði við hann: "Tak þú kjötið og ósýrðu kökurnar og legg það á klett þennan og hell súpunni yfir." Hann gjörði svo.
21 Engill Drottins rétti þá út staf þann, sem hann hafði í hendi, og snart kjötið og ósýrðu kökurnar með stafsendanum. Kom þá eldur upp úr klettinum og eyddi kjötinu og ósýrðu kökunum, en engill Drottins hvarf sjónum hans.
22 Þá sá Gídeon, að það hafði verið engill Drottins. Og Gídeon sagði: "Vei, Drottinn Guð, því að ég hefi séð engil Drottins augliti til auglitis!"
23 Og Drottinn sagði við hann: "Friður sé með þér. Óttast ekki, þú munt ekki deyja!"
24 Gídeon reisti Drottni þar altari og nefndi það: Drottinn er friður. Stendur það enn í dag í Ofra Abíesrítanna.
25 Þessa sömu nótt sagði Drottinn við hann: "Tak uxa föður þíns og annan uxa, sjö vetra gamlan, og brjót Baalsaltari föður þíns og högg þú upp aséruna, sem hjá því er.
26 Reis því næst Drottni, Guði þínum, vandað altari efst uppi á borg þessari, tak síðan annan uxann og ber fram brennifórn ásamt viðinum úr asérunni, er þú heggur upp."
27 Þá tók Gídeon tíu menn af sveinum sínum og gjörði svo sem Drottinn hafði sagt honum. En með því að hann óttaðist, að hann mundi eigi geta gjört þetta að degi til fyrir ættmennum sínum og borgarmönnum, þá gjörði hann það um nótt.
28 En er borgarmenn risu árla morguninn eftir, þá var Baalsaltarið brotið og höggin upp aséran, sem hjá því var, og öðrum uxanum hafði verið fórnað á nýreista altarinu.
29 Þá sögðu þeir hver við annan: "Hver hefir gjört þetta?" Og þeir rannsökuðu og leituðu, og sögðu: "Gídeon Jóasson hefir gjört þetta."
30 Þá sögðu borgarmenn við Jóas: "Sel fram son þinn, og skal hann deyja, því að hann hefir brotið Baalsaltarið og höggvið upp aséruna, sem hjá því var."
31 En Jóas sagði við alla þá, sem hjá honum stóðu: "Ætlið þér að taka upp mál fyrir Baal, eða ætlið þér að fara að hjálpa honum? Hver sá, sem tekur upp mál fyrir hann, skal lífi týna áður næsti dagur rennur upp. Ef hann er Guð, þá sæki hann sjálfur mál sitt, úr því að altari hans hefir verið brotið."
32 Upp frá þeirri stundu var Gídeon nefndur Jerúbbaal, af því að menn sögðu: "Baal sæki mál á hendur honum," fyrir því að hann braut altari hans.
33 Nú höfðu allir Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar safnast saman. Fóru þeir yfir um Jórdan og settu herbúðir sínar á Jesreel-sléttu.
34 En andi Drottins kom yfir Gídeon, og þeytti hann lúðurinn, og Abíesrítar söfnuðust saman til fylgdar við hann.
35 Hann sendi og sendiboða út um allan Manasse; safnaðist hann og til fylgdar við hann. Hann sendi og sendiboða til Assers, Sebúlons og Naftalí; fóru þeir og til fylgdar við hann.
36 Þá sagði Gídeon við Guð: "Ef þú ætlar að frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt,
37 sjá, þá legg ég ullarreyfi út á láfann. Ef dögg er þá á reyfinu einu, en jörð öll er þurr, þá veit ég að þú munt frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt."
38 Og það varð svo. Morguninn eftir reis hann árla og kreisti reyfið, og vatt hann þá dögg úr reyfinu, fulla skál af vatni.
39 En Gídeon sagði við Guð: "Lát eigi reiði þína upptendrast gegn mér, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Ég ætla aðeins einu sinni enn að gjöra tilraun með reyfið. Skal nú reyfið eitt þurrt vera, en jörð öll vot af dögg."
40 Og Guð gjörði svo á þeirri nóttu. Var reyfið eitt þurrt, en jörð var öll vot af dögg.
10 Maður nokkur var í Sesareu, Kornelíus að nafni, hundraðshöfðingi í ítölsku hersveitinni.
2 Hann var trúmaður og dýrkaði Guð og heimafólk hans allt. Gaf hann lýðnum miklar ölmusur og var jafnan á bæn til Guðs.
3 Dag einn um nón sá hann berlega í sýn engil Guðs koma inn til sín, er sagði við hann: "Kornelíus!"
4 Hann starði á hann, varð óttasleginn og sagði: "Hvað er það, herra?" Engillinn svaraði: "Bænir þínar og ölmusur eru stignar upp til Guðs, og hann minnist þeirra.
5 Send þú nú menn til Joppe og lát sækja Símon nokkurn, er kallast Pétur.
6 Hann gistir hjá Símoni nokkrum sútara, sem á hús við sjóinn."
7 Þegar engillinn, sem talaði við hann, var farinn, kallaði hann á tvo heimamenn sína og guðrækinn hermann, einn þeirra, er honum voru handgengnir,
8 sagði þeim frá öllu og sendi þá til Joppe.
9 Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Pétur upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir.
10 Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða, varð hann frá sér numinn,
11 sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum.
12 Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins.
13 Og honum barst rödd: "Slátra nú, Pétur, og et!"
14 Pétur sagði: "Nei, Drottinn, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint."
15 Aftur barst honum rödd: "Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!"
16 Þetta gjörðist þrem sinnum, og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins.
17 Meðan Pétur var að reyna að ráða í, hvað þessi sýn ætti að merkja, höfðu sendimenn Kornelíusar spurt uppi hús Símonar. Nú stóðu þeir fyrir dyrum úti
18 og kölluðu: "Er Símon sá, er nefnist Pétur, gestur hér?"
19 Pétur var enn að hugsa um sýnina, þegar andinn sagði við hann: "Menn eru að leita þín.
20 Flýt þér nú ofan og far hiklaust með þeim, því að ég hef sent þá."
21 Pétur gekk þá niður til mannanna og sagði: "Ég er sá sem þér leitið að. Hvers vegna eruð þér komnir hér?"
22 Þeir sögðu: "Kornelíus hundraðshöfðingi, réttlátur maður og guðhræddur og orðsæll af allri Gyðinga þjóð, fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín og heyra, hvað þú hefðir að flytja."
23 Þá bauð hann þeim inn og lét þá gista. Daginn eftir tók hann sig upp og fór með þeim og nokkrir bræður frá Joppe með honum.
24 Næsta dag komu þeir til Sesareu. Kornelíus bjóst við þeim og hafði boðið til sín frændum og virktavinum.
25 Þegar Pétur kom, fór Kornelíus á móti honum, féll til fóta honum og veitti honum lotningu.
26 Pétur reisti hann upp og sagði: "Statt upp, ég er maður sem þú."
27 Og hann ræddi við hann og gekk inn og fann þar marga menn saman komna.
28 Hann sagði við þá: "Þér vitið, að Gyðingi er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans. En Guð hefur sýnt mér, að ég á engan að kalla vanheilagan eða óhreinan.
29 Fyrir því kom ég mótmælalaust, er eftir mér var sent. Nú spyr ég, hvers vegna þér senduð eftir mér."
30 Kornelíus mælti: "Í þetta mund fyrir fjórum dögum var ég að biðjast fyrir að nóni í húsi mínu. Þá stóð maður frammi fyrir mér í skínandi klæðum
31 og mælti: ,Kornelíus, bæn þín er heyrð, og Guð hefur minnst ölmusugjörða þinna.
32 Nú skalt þú senda til Joppe eftir Símoni, er kallast Pétur. Hann gistir í húsi Símonar sútara við sjóinn.`
33 Því sendi ég jafnskjótt til þín, og vel gjörðir þú að koma. Nú erum vér hér allir fyrir augsýn Guðs til að heyra allt, sem Drottinn hefur boðið þér."
34 Þá tók Pétur til máls og sagði: "Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit.
35 Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.
36 Orðið, sem hann sendi börnum Ísraels, þá er hann flutti fagnaðarboðin um frið fyrir Jesú Krist, sem er Drottinn allra, þekkið þér.
37 Þér vitið, hvað gjörst hefur um alla Júdeu, en hófst í Galíleu eftir skírnina, sem Jóhannes prédikaði.
38 Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum.
39 Vér erum vottar alls þess, er hann gjörði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann hengdu þeir upp á tré og tóku af lífi.
40 En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast,
41 ekki öllum lýðnum, heldur þeim vottum, sem Guð hafði áður kjörið, oss, sem átum og drukkum með honum, eftir að hann var risinn upp frá dauðum.
42 Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað.
43 Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna."
44 Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu.
45 Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana,
46 því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð.
47 Þá mælti Pétur: "Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér."
48 Og hann bauð, að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists. Síðan báðu þeir hann að standa við í nokkra daga.
19 Svo sagði Drottinn: Far og kaup krús eftir leirkerasmið, tak því næst með þér nokkra af helstu mönnum þjóðarinnar og nokkra af helstu prestunum
2 og gakk út í Hinnomssonar-dal, sem er fyrir utan Leirbrotahlið, og kunngjör þar þau orð, sem ég mun tala til þín,
3 og seg: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og Jerúsalembúar! Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég mun leiða ógæfu yfir þennan stað, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.
4 Af því að þeir yfirgáfu mig og óvirtu þennan stað og færðu á honum reykelsisfórnir öðrum guðum, sem þeir ekki þekktu, hvorki þeir né feður þeirra né Júdakonungar, og fylltu þennan stað blóði saklausra manna
5 og byggðu Baals-fórnarhæðir til þess að brenna sonu sína í eldi sem brennifórn Baal til handa, sem ég hefi hvorki skipað né mælt svo fyrir og mér hefir aldrei til hugar komið.
6 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að þessi staður mun ekki framar nefndur verða "Tófet" og "Hinnomssonar-dalur", heldur "Drápsdalur".
7 Þá mun ég ónýta ráð Júda og Jerúsalem á þessum stað og láta þá falla fyrir sverði, er þeir flýja undan óvinum sínum, og fyrir hendi þeirra, er sitja um líf þeirra, en lík þeirra mun ég gefa fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar að æti,
8 og ég mun gjöra þessa borg að skelfingu og háði: Hver sá, er hér fer um, mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, sem hún hefir orðið fyrir.
9 Og ég mun láta þá eta hold sona sinna og hold dætra sinna, og þeir munu eta hver annars hold í neyð þeirri og þrenging, er óvinir þeirra og þeir, er sitja um líf þeirra, munu koma þeim í.
10 Og þú skalt brjóta krúsina fyrir augum þeirra manna, sem með þér hafa farið,
11 og segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Svo mun ég brjóta þessa þjóð og þessa borg, eins og menn brjóta leirker, sem ekki verður gjört heilt aftur, og í Tófet mun verða jarðað, með því að ekkert pláss er til að jarða í.
12 Þannig mun ég fara með þennan stað _ segir Drottinn _ og þá, er hér búa, svo að ég gjöri þessa borg að Tófet.
13 Þá skulu hús Jerúsalem og hús Júdakonunga verða óhrein, eins og Tófet-staðurinn, öll þau hús, þar sem menn hafa fært öllum himinsins her reykelsisfórnir á þökunum og öðrum guðum dreypifórnir.
14 En er Jeremía kom frá Tófet, þangað sem Drottinn hafði sent hann til þess að spá, nam hann staðar í forgarði musteris Drottins og sagði við allan lýðinn:
15 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég leiði yfir þessa borg og allar borgir, er henni tilheyra, alla þá ógæfu, er ég hefi hótað henni, af því að þeir hafa verið harðsvíraðir og ekki hlýtt orðum mínum.
5 Þeir komu nú yfir um vatnið í byggð Gerasena.
2 Og um leið og Jesús sté úr bátnum, kom maður á móti honum frá gröfunum, haldinn óhreinum anda.
3 Hann hafðist við í gröfunum, og enginn gat lengur bundið hann, ekki einu sinni með hlekkjum.
4 Oft hafði hann verið fjötraður á fótum og höndum, en hann braut jafnóðum af sér hlekkina og sleit fjötrana, og gat enginn ráðið við hann.
5 Allar nætur og daga var hann í gröfunum eða á fjöllum, æpti og lamdi sig grjóti.
6 Þegar hann sá Jesú álengdar, hljóp hann og féll fram fyrir honum
7 og æpti hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég særi þig við Guð, kvel þú mig eigi!"
8 Því að Jesús hafði sagt við hann: "Þú óhreini andi, far út af manninum."
9 Jesús spurði hann þá: "Hvað heitir þú?" Hinn svaraði: "Hersing heiti ég, vér erum margir."
10 Og hann bað Jesú ákaft að senda þá ekki brott úr héraðinu.
11 En þar í fjallinu var mikil svínahjörð á beit.
12 Og þeir báðu hann: "Send oss í svínin, lát oss fara í þau!"
13 Hann leyfði þeim það, og fóru þá óhreinu andarnir út og í svínin, og hjörðin, nær tveim þúsundum, ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði þar.
14 En hirðarnir flýðu og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði,
15 komu til Jesú og sáu haldna manninn, sem hersingin hafði verið í, sitja þar klæddan og heilvita. Og þeir urðu hræddir.
16 En sjónarvottar sögðu þeim, hvað fram hafði farið við haldna manninn, og frá svínunum.
17 Og þeir tóku að biðja Jesú að fara burt úr héruðum þeirra.
18 Þá er hann sté í bátinn, bað sá, er haldinn hafði verið, að fá að vera með honum.
19 En Jesús leyfði honum það eigi, heldur sagði: "Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur."
20 Hann fór og tók að kunngjöra í Dekapólis, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört, og undruðust það allir.
21 Þegar Jesús kom aftur yfir um á bátnum, safnaðist að honum mikill mannfjöldi, þar sem hann var við vatnið.
22 Þar kom og einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, og er hann sá Jesú, féll hann til fóta honum,
23 bað hann ákaft og sagði: "Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana, að hún læknist og lifi."
24 Jesús fór með honum. Og mikill mannfjöldi fylgdi honum, og var þröng um hann.
25 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár.
26 Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.
27 Hún heyrði um Jesú og kom nú í mannþrönginni að baki honum og snart klæði hans.
28 Hún hugsaði: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."
29 Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar, og hún fann það á sér, að hún var heil af meini sínu.
30 Jesús fann þegar á sjálfum sér, að kraftur hafði farið út frá honum, og hann sneri sér við í mannþrönginni og sagði: "Hver snart klæði mín?"
31 Lærisveinar hans sögðu við hann: "Þú sérð, að mannfjöldinn þrengir að þér, og spyrð þó: Hver snart mig?"
32 Hann litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört,
33 en konan, sem vissi, hvað fram við sig hafði farið, kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.
34 Jesús sagði við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna."
35 Meðan hann var að segja þetta, koma menn heiman frá samkundustjóranum og segja: "Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?"
36 Jesús heyrði, hvað þeir sögðu, en gaf ekki um, heldur sagði við samkundustjórann: "Óttast ekki, trú þú aðeins."
37 Og nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri og þeim bræðrum Jakobi og Jóhannesi.
38 Þeir koma að húsi samkundustjórans. Þar sér hann, að allt er í uppnámi, grátur mikill og kveinan.
39 Hann gengur inn og segir við þá: "Hví hafið þér svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur."
40 En þeir hlógu að honum. Þá lét hann alla fara út og tók með sér föður barnsins og móður og þá sem með honum voru, og gekk þar inn, sem barnið var.
41 Og hann tók hönd barnsins og sagði: "Talíþa kúm!" Það þýðir: "Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!"
42 Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um, en hún var tólf ára. Og menn urðu frá sér numdir af undrun.
43 En hann lagði ríkt á við þá að láta engan vita þetta og bauð að gefa henni að eta.
by Icelandic Bible Society