Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 5

Þá sungu þau Debóra og Barak Abínóamsson á þessa leið:

Foringjar veittu forystu í Ísrael, og fólkið kom sjálfviljuglega, lofið því Drottin!

Heyrið, þér konungar, hlustið á, þér höfðingjar! Drottin vil ég vegsama, ég vil lofa hann, lofsyngja Drottni, Ísraels Guði.

Drottinn, þegar þú braust út frá Seír, þegar þú brunaðir fram frá Edómvöllum, þá nötraði jörðin og himnarnir drupu, já, skýin létu vatn niður streyma.

Fjöllin skulfu fyrir Drottni, sjálft Sínaí fyrir Drottni, Ísraels Guði.

Á dögum Samgars Anatssonar, á dögum Jaelar, voru þjóðbrautir mannlausar, og vegfarendur fóru krókóttar leiðir.

Fyrirliða vantaði í Ísrael, uns þú komst fram, Debóra, uns þú komst fram, móðir í Ísrael!

Menn kusu sér nýja guði. Þá var barist við borgarhliðin. Skjöldur sást ei né spjót meðal fjörutíu þúsunda í Ísrael.

Hjarta mitt heyrir leiðtogum Ísraels, þeim er komu sjálfviljuglega fram meðal fólksins. Lofið Drottin!

10 Þér, sem ríðið bleikrauðum ösnum, þér, sem hvílið á ábreiðum, og þér, sem farið um veginn, hugsið um það.

11 Fjarri hávaða bogmannanna, meðal vatnsþrónna, þar víðfrægja menn réttlætisverk Drottins, réttlætisverk fyrirliða hans í Ísrael. Þá fór lýður Drottins niður að borgarhliðunum.

12 Vakna þú, vakna þú, Debóra, vakna þú, vakna þú, syng kvæði! Rís þú upp, Barak, og leið burt bandingja þína, Abínóams sonur!

13 Þá fóru ofan leifar göfugmennanna, lýður Drottins steig ofan mér til hjálpar meðal hetjanna.

14 Frá Efraím fóru þeir ofan í dalinn, á eftir þér, Benjamín, meðal liðsflokka þinna. Frá Makír fóru ofan leiðtogar og frá Sebúlon þeir, er báru liðstjórastafinn,

15 og fyrirliðarnir í Íssakar með Debóru, og eins og Íssakar, svo og Barak. Hann steypti sér á hæla honum ofan í dalinn. Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir.

16 Hví sast þú milli fjárgirðinganna og hlustaðir á pípublástur hjarðmannanna? Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir.

17 Gíleað hélt kyrru fyrir hinumegin Jórdanar og Dan, _ hvers vegna dvaldi hann við skipin? Asser sat kyrr við sjávarströndina og hélt kyrru fyrir við víkur sínar.

18 Sebúlon er lýður, sem hætti lífi sínu í dauðann, og Naftalí, á hæðum landsins.

19 Konungar komu og börðust, þá börðust konungar Kanaans við Taanak hjá Megiddóvötnum. Silfur fengu þeir ekkert að herfangi.

20 Af himni börðust stjörnurnar, af brautum sínum börðust þær við Sísera,

21 Kísonlækur skolaði þeim burt, orustulækurinn, lækurinn Kíson. Gakk fram, sál mín, öfluglega!

22 Þá hlumdu hófar hestanna, af reiðinni, reið kappanna.

23 "Bölvið Merós!" sagði engill Drottins, já, bölvið íbúum hennar, af því að þeir komu ekki Drottni til hjálpar, Drottni til hjálpar meðal hetjanna.

24 Blessuð framar öllum konum veri Jael, kona Hebers Keníta, framar öllum konum í tjaldi veri hún blessuð!

25 Vatn bað hann um, mjólk gaf hún, í skrautlegri skál rétti hún honum rjóma.

26 Hún rétti út hönd sína eftir hælnum, hægri hönd sína eftir smíðahamrinum og sló Sísera, mölvaði haus hans, laust sundur þunnvanga hans og klauf inn úr.

27 Hann hné fyrir fætur henni, féll út af og lá þar. Hann hné fyrir fætur henni, féll út af, þar sem hann hné niður, þar lá hann dauður.

28 Út um gluggann skimar og kallar móðir Sísera, út um grindurnar: "Hví seinkar vagni hans? Hvað tefur ferð hervagna hans?"

29 Hinar vitrustu af hefðarfrúm hennar svara henni, já, sjálf hefir hún upp fyrir sér orð þeirra:

30 "Efalaust hafa þeir fengið herfang og verið að skipta því, eina ambátt, tvær ambáttir á mann, litklæði handa Sísera að herfangi, litklæði, glitofin, að herfangi, litklæði, tvo glitofna dúka um háls mér!"

31 Svo farist allir óvinir þínir, Drottinn! En þeir, sem hann elska, eru sem sólaruppkoman í ljóma sínum. Var nú friður í landi í fjörutíu ár.

Postulasagan 9

En Sál blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins. Gekk hann til æðsta prestsins

og beiddist bréfa af honum til samkundanna í Damaskus, að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá, er hann kynni að finna og væru þessa vegar, hvort heldur karla eða konur.

En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus, leiftraði skyndilega um hann ljós af himni.

Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: "Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?"

En hann sagði: "Hver ert þú, herra?" Þá var svarað: "Ég er Jesús, sem þú ofsækir.

En statt upp og gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra."

Förunautar hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu raustina, en sáu engan.

Sál reis á fætur, en þegar hann lauk upp augunum, sá hann ekkert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Damaskus.

Þrjá daga var hann sjónlaus og át hvorki né drakk.

10 Í Damaskus var lærisveinn nokkur, sem hét Ananías. Við hann sagði Drottinn í sýn: "Ananías." Hann svaraði: "Hér er ég, Drottinn."

11 Drottinn sagði við hann: "Far þegar í stræti það, sem kallað er Hið beina, og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja.

12 Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni, koma inn og leggja hendur yfir sig, til þess að hann fái aftur sjón."

13 Ananías svaraði: "Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gjört þínum heilögu í Jerúsalem.

14 Og hér fer hann með vald frá æðstu prestunum að færa í bönd alla þá, sem ákalla nafn þitt."

15 Drottinn sagði við hann: "Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels,

16 og ég mun sýna honum, hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns."

17 Þá fór Ananías af stað, gekk inn í húsið og lagði hendur yfir hann og mælti: "Sál, bróðir, Drottinn hefur sent mig, Jesús, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda."

18 Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina og lét þegar skírast.

19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus

20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.

21 Allir þeir, sem heyrðu það, undruðust stórum og sögðu: "Er þetta ekki maðurinn, sem í Jerúsalem hugðist eyða þeim, er ákölluðu þetta nafn? Kom hann ekki hingað til að fara með þá í böndum til æðstu prestanna?"

22 En Sál efldist æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.

23 Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi.

24 En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans.

25 En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu.

26 Þá er hann kom til Jerúsalem, reyndi hann að samlaga sig lærisveinunum, en þeir hræddust hann allir og trúðu ekki, að hann væri lærisveinn.

27 En Barnabas tók hann að sér, fór með hann til postulanna og skýrði þeim frá, hvernig hann hefði séð Drottin á veginum, hvað hann hefði sagt við hann og hversu einarðlega hann hefði talað í Jesú nafni í Damaskus.

28 Dvaldist hann nú með þeim í Jerúsalem, gekk þar út og inn og talaði einarðlega í nafni Drottins.

29 Hann talaði og háði kappræður við grískumælandi Gyðinga, en þeir leituðust við að ráða hann af dögum.

30 Þegar bræðurnir urðu þessa vísir, fóru þeir með hann til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus.

31 Nú hafði kirkjan frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu. Hún byggðist upp og gekk fram í ótta Drottins og óx við styrkingu heilags anda.

32 Svo bar við, er Pétur var að ferðast um og vitja allra, að hann kom og til hinna heilögu, sem áttu heima í Lýddu.

33 Þar fann hann mann nokkurn, Eneas að nafni, er í átta ár hafði legið rúmfastur. Hann var lami.

34 Pétur sagði við hann: "Eneas, Jesús Kristur læknar þig, statt upp og bú um þig." Jafnskjótt stóð hann upp.

35 Allir þeir, sem áttu heima í Lýddu og Saron, sáu hann, og þeir sneru sér til Drottins.

36 Í Joppe var lærisveinn, kona að nafni Tabíþa, á grísku Dorkas. Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða.

37 En á þeim dögum tók hún sótt og andaðist. Var hún lauguð og lögð í loftstofu.

38 Nú er Lýdda í grennd við Joppe, og höfðu lærisveinarnir heyrt, að Pétur væri þar. Sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: "Kom án tafar til vor."

39 Pétur brá við og fór með þeim. Þegar þangað kom, fóru þeir með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim.

40 En Pétur lét alla fara út, féll á kné og baðst fyrir. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: "Tabíþa, rís upp." En hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp.

41 Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi.

42 Þetta varð hljóðbært um alla Joppe, og margir tóku trú á Drottin.

43 Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.

Jeremía 18

18 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

Statt upp og gakk ofan í hús leirkerasmiðsins. Þar vil ég láta þig heyra orð mín!

Og ég gekk ofan í hús leirkerasmiðsins, og var hann að verki sínu við hjólið.

Mistækist kerið, sem hann var að búa til, þá bjó hann aftur til úr því annað ker, eins og leirkerasmiðinum leist að gjöra.

Þá kom orð Drottins til mín:

Get ég ekki farið með yður eins og þessi leirkerasmiður, þú Ísraels hús? _ segir Drottinn. Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eruð þér í minni hendi, Ísraels hús.

Stundum hóta ég þjóð og konungsríki að uppræta það, umturna því og eyða því,

en snúi þjóðin, er ég hefi hótað þessu, sér frá vonsku sinni, þá iðrar mig hins illa, er ég hugði að gjöra henni.

En stundum heiti ég þjóð og konungsríki að byggja það og gróðursetja það,

10 en ef það gjörir það, sem illt er í mínum augum, svo að það hlýðir ekki minni raustu, þá iðrar mig þess góða, er ég hafði heitið að veita því.

11 Seg þú nú við Júdamenn og Jerúsalembúa á þessa leið: Svo segir Drottinn: Sjá, ég bý yður ógæfu og brugga ráð gegn yður. Snúið yður hver og einn frá sinni vondu breytni og temjið yður góða breytni og góð verk!

12 En þeir munu segja: "Það er til einskis! Vér förum eftir vorum hugsunum og breytum hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta."

13 Svo segir Drottinn: Spyrjið meðal þjóðanna: Hefir nokkur heyrt slíkt? Mjög hryllilega hluti hefir mærin Ísrael í frammi haft.

14 Hvort hverfur snjór Líbanons af gnæfandi klettinum? Eða þrýtur uppvellandi vatnið, hið svala og niðandi?

15 Þjóð mín hefir gleymt mér. Fánýtum goðunum færa þeir reykelsisfórnir, og þeir hafa leitt þá í hrösun á vegum þeirra, gömlu götunum, svo að þeir ganga stigu, ólagðan veg.

16 Þeir gjöra land sitt að skelfingu, að eilífu háði, svo að hver sá, er þar fer um, skelfist og hristir höfuðið.

17 Eins og fyrir austanvindi mun ég tvístra þeim fyrir óvinunum, ég mun sýna þeim bakið, en ekki andlitið á þeirra glötunardegi.

18 Þeir sögðu: "Komið, bruggum ráð gegn Jeremía, því að eigi mun prestana skorta kenning, spekingana ráð, né spámennina opinberun. Komið, vér skulum drepa hann með tungunni og engan gaum gefa orðum hans."

19 Gef mér gaum, Drottinn, og heyr tal andstæðinga minna.

20 Á að launa gott með illu, þar sem þeir hafa grafið mér gröf? Minnstu þess, hversu ég hefi staðið frammi fyrir þér til þess að tala máli þeirra, til þess að snúa þinni heiftarreiði frá þeim.

21 Ofursel því sonu þeirra hungrinu og fá þá sverðinu á vald, svo að konur þeirra verði barnlausar og ekkjur, og menn þeirra farist af drepsótt og æskumenn þeirra falli fyrir sverði í bardaga.

22 Lát neyðarkvein heyrast úr húsum þeirra, þegar þú lætur morðflokka skyndilega yfir þá koma, því að þeir hafa grafið gröf til að veiða mig í, og lagt snörur fyrir fætur mína.

23 En þú, Drottinn, þekkir öll fjörráð þeirra gegn mér. Fyrirgef eigi misgjörð þeirra og afmá ekki synd þeirra fyrir augliti þínu. Lát þá steypast fyrir þér, framkvæm það á þeim, þegar reiði þín brýst út.

Markúsarguðspjall 4

Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið.

Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:

"Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá,

og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.

Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.

En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.

Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt.

En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."

Og hann sagði: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri!"

10 Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar.

11 Hann svaraði þeim: "Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum,

12 að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið."

13 Og hann segir við þá: "Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu?

14 Sáðmaðurinn sáir orðinu.

15 Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð.

16 Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það,

17 en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar.

18 Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið,

19 en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.

20 Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."

21 Og hann sagði við þá: "Ekki bera menn ljós inn og setja það undir mæliker eða bekk? Er það ekki sett á ljósastiku?

22 Því að ekkert er hulið, að það verði eigi gjört opinbert, né leynt, að það komi ekki í ljós.

23 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!"

24 Enn sagði hann við þá: "Gætið að, hvað þér heyrið. Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða og við yður bætt.

25 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur."

26 Þá sagði hann: "Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð.

27 Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti.

28 Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu.

29 En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin."

30 Og hann sagði: "Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því?

31 Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu.

32 En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess."

33 Í mörgum slíkum dæmisögum flutti hann þeim orðið, svo sem þeir gátu numið,

34 og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra, en fyrir lærisveinum sínum skýrði hann allt, þegar þeir voru einir.

35 Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: "Förum yfir um!"

36 Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum.

37 Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti.

38 Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: "Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?"

39 Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: "Þegi þú, haf hljótt um þig!" Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.

40 Og hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?"

41 En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society