M’Cheyne Bible Reading Plan
4 Þegar Ehúð var dáinn, gjörðu Ísraelsmenn enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins.
2 Og Drottinn seldi þá í hendur Jabín, Kanaans konungi, sem hafði aðsetur í Hasór. Hershöfðingi hans hét Sísera og bjó hann í Haróset Hagojím.
3 Og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins, því að hann átti níu hundruð járnvagna og hafði kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár.
4 Kona hét Debóra. Hún var spákona og eiginkona manns þess, er Lapídót hét. Hún var dómari í Ísrael um þessar mundir.
5 Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímfjöllum, og Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að hún legði dóm á mál þeirra.
6 Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: "Sannlega hefir Drottinn, Ísraels Guð, boðið svo: ,Far þú og hald til Taborfjalls og haf með þér tíu þúsundir manna af Naftalí sonum og Sebúlons sonum.
7 Og ég mun leiða Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum hans og liði til þín að Kísonlæk, og ég mun gefa hann í hendur þínar."`
8 Barak sagði við hana: "Fara mun ég, ef þú fer með mér, en viljir þú eigi fara með mér, mun ég hvergi fara."
9 Hún svaraði: "Víst mun ég með þér fara. En enga frægð munt þú hafa af för þessari, sem þú fer, því að Drottinn mun selja Sísera í konu hendur." Síðan tók Debóra sig upp og fór með Barak til Kedes.
10 Þá kallaði Barak saman Sebúlon og Naftalí í Kedes, og tíu þúsundir manna fóru með honum, og Debóra var í för með honum.
11 Heber Keníti hafði skilist við Kain, við niðja Hóbabs, tengdaföður Móse, og sló hann tjöldum sínum allt að eikinni hjá Saanaím, sem er hjá Kedes.
12 Nú var Sísera sagt frá því, að Barak Abínóamsson væri farinn upp á Taborfjall.
13 Dró Sísera þá saman alla vagna sína, níu hundruð járnvagna, og allt það lið, er með honum var, frá Haróset Hagojím til Kísonlækjar.
14 Þá sagði Debóra við Barak: "Rís þú nú upp, því að nú er sá dagur kominn, er Drottinn mun selja Sísera í þínar hendur. Sannlega er Drottinn farinn á undan þér." Fór Barak þá ofan af Taborfjalli, og tíu þúsundir manna fylgdu honum.
15 Og Drottinn gjörði Sísera felmtsfullan og alla vagna hans og allan hans her með sverðseggjum frammi fyrir Barak, svo að Sísera hljóp af vagni sínum og flýði undan á fæti.
16 En Barak elti vagnana og herinn allt til Haróset Hagojím, og allur her Sísera féll fyrir sverðseggjum. Enginn komst undan.
17 Sísera flýði á fæti til tjalds Jaelar, konu Hebers Keníta, því að friður var milli Jabíns, konungs í Hasór, og húss Hebers Keníta.
18 Þá gekk Jael út í móti Sísera og sagði við hann: "Gakk inn, herra minn, gakk inn til mín, vertu óhræddur." Og hann gekk inn til hennar í tjaldið, og hún lagði ábreiðu yfir hann.
19 Þá sagði hann við hana: "Gef mér vatnssopa að drekka, því að ég er þyrstur." Hún leysti þá frá mjólkurbelg og gaf honum að drekka, og breiddi síðan ofan á hann aftur.
20 Þá sagði hann við hana: "Stattu í tjalddyrunum, og ef einhver kemur og spyr þig og segir: ,Er nokkur hér?` þá seg þú: ,Nei."`
21 Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til hans og rak hælinn gegnum þunnvangann, svo að hann gekk í jörð niður, en Sísera var sofnaður fastasvefni, því að hann var þreyttur. Varð þetta hans bani.
22 Í sama bili kom Barak og var að elta Sísera. Jael gekk þá út í móti honum og sagði við hann: "Kom þú hingað, og mun ég sýna þér þann mann, sem þú leitar að." Og hann gekk inn til hennar, og lá þá Sísera þar dauður með hælinn gegnum þunnvangann.
23 Þannig lægði Guð á þeim degi Jabín, Kanaans konung, fyrir Ísraelsmönnum.
24 Og hönd Ísraelsmanna lagðist æ þyngra og þyngra á Jabín, Kanaans konung, uns þeir að lokum gjörðu út af við hann.
8 Sál lét sér vel líka líflát hans. Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu nema postularnir.
2 Guðræknir menn greftruðu Stefán og höfðu sorgarathöfn mikla.
3 En Sál gjörði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.
4 Þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.
5 Filippus fór norður til höfuðborgar Samaríu og prédikaði Krist þar.
6 Menn hlýddu með athygli á orð Filippusar, þegar þeir heyrðu hann tala og sáu táknin, sem hann gjörði.
7 Margir höfðu óhreina anda, og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Og margir lama menn og haltir voru læknaðir.
8 Mikill fögnuður varð í þeirri borg.
9 Maður nokkur, Símon að nafni, var fyrir í borginni. Hann lagði stund á töfra og vakti hrifningu fólksins í Samaríu. Hann þóttist vera næsta mikill.
10 Allir flykktust til hans, háir og lágir, og sögðu: "Þessi maður er kraftur Guðs, sá hinn mikli."
11 En því flykktust menn um hann, að hann hafði lengi heillað þá með töfrum.
12 Nú trúðu menn Filippusi, þegar hann flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists, og létu skírast, bæði karlar og konur.
13 Meira að segja Símon tók trú. Hann var skírður og gjörðist mjög fylgisamur Filippusi. Og er hann sá tákn og mikil kraftaverk gjörast, var hann frá sér numinn.
14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu, að Samaría hefði tekið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes.
15 Þeir fóru norður þangað og báðu fyrir þeim, að þeir mættu öðlast heilagan anda,
16 því að enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú.
17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda.
18 En er Símon sá, að heilagur andi veittist fyrir handayfirlagning postulanna, bauð hann þeim fé og sagði:
19 "Gefið einnig mér þetta vald, að hver sá, er ég legg hendur yfir, fái heilagan anda."
20 En Pétur svaraði: "Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé.
21 Eigi átt þú skerf né hlut í þessu, því að hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði.
22 Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið Drottin, að þér mætti fyrirgefast hugsun hjarta þíns,
23 því ég sé, að þú ert fullur gallbeiskju og í fjötrum ranglætis."
24 Símon sagði: "Biðjið þér fyrir mér til Drottins, að ekkert komi það yfir mig, sem þér hafið mælt."
25 Er þeir höfðu nú vitnað og talað orð Drottins, sneru þeir aftur áleiðis til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarerindið í mörgum þorpum Samverja.
26 En engill Drottins mælti til Filippusar: "Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa." Þar er óbyggð.
27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir
28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann.
29 Andinn sagði þá við Filippus: "Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum."
30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: "Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?"
31 Hinn svaraði: "Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?" Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.
32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum.
33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.
34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: "Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?"
35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.
36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: "Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?"
38 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.
39 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar.
40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.
17 Synd Júda er rituð með járnstíl. Með demantsoddi er hún rist á spjöld hjartna þeirra og á altarishorn þeirra
2 þeim til áminningar. Ölturu þeirra og fórnarsúlur standa hjá grænu trjánum, á háu hæðunum,
3 í fjöllunum á hálendinu. Eigur þínar, alla fjársjóðu þína ofursel ég að herfangi vegna syndar, sem drýgð hefir verið í öllum héruðum þínum.
4 Þá munt þú verða að sleppa hendinni af óðali þínu, því er ég gaf þér, og ég mun láta þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, sem loga mun eilíflega.
5 Svo segir Drottinn: Bölvaður er sá maður, sem reiðir sig á menn og gjörir hold að styrkleik sínum, en hjarta hans víkur frá Drottni.
6 Hann er eins og einirunnur á saltsléttunni og hann lifir ekki það, að neitt gott komi. Hann býr á skrælnuðum stöðum í eyðimörkinni, á óbyggilegu saltlendi.
7 Blessaður er sá maður, sem reiðir sig á Drottin og lætur Drottin vera athvarf sitt.
8 Hann er sem tré, sem gróðursett er við vatn og teygir rætur sínar út að læknum, _ sem hræðist ekki, þótt hitinn komi, og er með sígrænu laufi, sem jafnvel í þurrka-ári er áhyggjulaust og lætur ekki af að bera ávöxt.
9 Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?
10 Ég, Drottinn, er sá, sem rannsaka hjartað, prófa nýrun, og það til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans, eftir ávexti verka hans.
11 Sá, sem aflar auðs og eigi með réttu, er eins og akurhæna, sem liggur á eggjum, er hún eigi hefir orpið. Á miðri ævinni verður hann að yfirgefa auðinn og við ævilokin stendur hann sem heimskingi.
12 Hásæti dýrðarinnar, hátt upp hafið frá upphafi, er staður helgidóms vors.
13 Þú von Ísraels _ Drottinn! Allir þeir, sem yfirgefa þig, skulu til skammar verða. Já, þeir sem vikið hafa frá mér, verða skrifaðir í duftið, því að þeir hafa yfirgefið lind hins lifandi vatns, Drottin.
14 Lækna mig, Drottinn, að ég megi heill verða; hjálpa mér, svo að mér verði hjálpað, því að þú ert minn lofstír.
15 Sjá, þeir segja við mig: "Hvar er orð Drottins? Rætist það þá!"
16 Ég hefi ekki skotið mér undan því að vera hirðir eftir þinni bendingu, og óheilladagsins hefi ég ekki óskað _ það veist þú! Það, sem fram gengið hefir af vörum mínum, liggur bert fyrir augliti þínu.
17 Vertu mér ekki skelfing, þú athvarf mitt á ógæfunnar degi!
18 Lát ofsóknarmenn mína verða til skammar, en lát mig ekki verða til skammar. Lát þá skelfast, en lát mig ekki skelfast. Lát ógæfudag koma yfir þá og sundurmola þá tvöfaldri sundurmolan!
19 Svo mælti Drottinn við mig: Far og nem staðar í þjóðhliðinu, sem Júdakonungar ganga inn og út um, og í öllum hliðum Jerúsalem,
20 og seg við þá: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og allir Júdamenn og allir Jerúsalembúar, þér sem gangið inn um hlið þessi!
21 Svo segir Drottinn: Gætið yðar _ líf yðar liggur við _ og berið eigi byrðar á hvíldardegi, svo að þér komið með þær inn um hlið Jerúsalem.
22 Berið og engar byrðar út úr húsum yðar á hvíldardegi og vinnið ekkert verk, svo að þér haldið hvíldardaginn heilagan, eins og ég hefi boðið feðrum yðar.
23 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur voru harðsvíraðir, svo að þeir hlýddu ekki, né þýddust aga.
24 En ef þér nú hlýðið mér _ segir Drottinn _ svo að þér komið ekki með neinar byrðar inn í hlið þessarar borgar á hvíldardegi, heldur haldið hvíldardaginn heilagan, svo að þér vinnið ekkert verk á honum,
25 þá munu fara inn um hlið þessarar borgar konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, akandi í vögnum og ríðandi hestum, þeir og höfðingjar þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar, og borg þessi mun eilíflega byggð verða.
26 Og menn munu koma úr Júdaborgum og úr umhverfi Jerúsalem og úr Benjamínslandi og af láglendinu og úr fjöllunum og úr Suðurlandinu, þeir er færa brennifórn og sláturfórn og matfórn og reykelsi og þeir er færa þakkarfórn í musteri Drottins.
27 En ef þér hlýðið mér eigi, að halda helgan hvíldardaginn og bera enga byrði og ganga eigi inn um hlið Jerúsalem á hvíldardegi, þá mun ég leggja eld í hlið hennar, sem eyða mun höllum Jerúsalem og eigi slökktur verða.
3 Öðru sinni gekk hann í samkunduhús. Þar var maður með visna hönd,
2 og höfðu þeir nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði hann á hvíldardegi. Þeir hugðust kæra hann.
3 Og Jesús segir við manninn með visnu höndina: "Statt upp og kom hér fram!"
4 Síðan spyr hann þá: "Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða?" En þeir þögðu.
5 Og hann leit í kring á þá með reiði, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra, og sagði við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann rétti fram höndina, og hún varð heil.
6 Þá gengu farísearnir út og tóku þegar með Heródesarsinnum saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.
7 Jesús fór með lærisveinum sínum út að vatninu, og fylgdi mikill fjöldi úr Galíleu og úr Júdeu,
8 frá Jerúsalem, Ídúmeu, landinu handan Jórdanar, og úr byggðum Týrusar og Sídonar kom til hans fjöldi manna, er heyrt höfðu, hve mikið hann gjörði.
9 Og hann bauð lærisveinum sínum að hafa til bát fyrir sig, svo að mannfjöldinn þrengdi eigi að honum.
10 En marga hafði hann læknað, og því þustu að honum allir þeir, sem einhver mein höfðu, til að snerta hann.
11 Og hvenær sem óhreinir andar sáu hann, féllu þeir fram fyrir honum og æptu upp: "Þú ert sonur Guðs."
12 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.
13 Síðan fór hann til fjalls og kallaði til sín þá er hann sjálfur vildi, og þeir komu til hans.
14 Hann skipaði tólf, er skyldu vera með honum og hann gæti sent út að prédika,
15 með valdi að reka út illa anda.
16 Hann skipaði þá tólf: Símon, er hann gaf nafnið Pétur,
17 Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, en þeim gaf hann nafnið Boanerges, sem þýðir þrumusynir,
18 og Andrés, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson, Taddeus og Símon vandlætara
19 og Júdas Ískaríot, þann er sveik hann.
20 Þegar hann kemur heim, safnast þar aftur mannfjöldi, svo þeir gátu ekki einu sinni matast.
21 Hans nánustu fréttu það og fóru út og vildu ná honum, enda sögðu þeir, að hann væri frá sér.
22 Og fræðimennirnir, er komnir voru ofan frá Jerúsalem, sögðu: "Beelsebúl er í honum. Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."
23 En Jesús kallaði þá til sín og mælti við þá í líkingum: "Hvernig getur Satan rekið Satan út?
24 Verði ríki sjálfu sér sundurþykkt, fær það ríki eigi staðist,
25 og verði heimili sjálfu sér sundurþykkt, fær það heimili eigi staðist.
26 Sé nú Satan risinn gegn sjálfum sér og orðinn sér sundurþykkur, fær hann ekki staðist, þá er úti um hann.
27 Enginn getur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.
28 Sannlega segi ég yður: Allt verður mannanna börnum fyrirgefið, allar syndir þeirra og lastmælin, hve mjög sem þeir kunna að lastmæla,
29 en sá sem lastmælir gegn heilögum anda, fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd."
30 En þeir höfðu sagt: "Óhreinn andi er í honum."
31 Nú koma móðir hans og bræður, standa úti og gera honum orð að koma.
32 Mikill fjöldi sat í kringum hann, og var honum sagt: "Móðir þín, bræður og systur eru hér úti og spyrja eftir þér."
33 Hann svarar þeim: "Hver er móðir mín og bræður?"
34 Og hann leit á þá, er kringum hann sátu, og segir: "Hér er móðir mín og bræður mínir!
35 Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir."
by Icelandic Bible Society