M’Cheyne Bible Reading Plan
3 Þessar þjóðir lét Drottinn vera kyrrar til þess að reyna Ísrael með þeim, alla þá, er ekkert höfðu haft að segja af öllum bardögunum um Kanaan.
2 Þetta gjörði hann einungis til þess, að hinar komandi kynslóðir Ísraelsmanna mættu kynnast hernaði, sem eigi höfðu kynnst slíku áður.
3 Þessar eru þjóðirnar: Fimm höfðingjar Filistanna, allir Kanaanítar, Sídoningar og Hevítar, sem bjuggu á Líbanonfjöllum, frá fjallinu Baal Hermon allt þangað, er leið liggur til Hamat.
4 Voru þeir eftir til þess að reyna Ísrael með þeim, svo að augljóst yrði, hvort þeir vildu hlýða boðorðum Drottins, er hann hafði sett feðrum þeirra fyrir meðalgöngu Móse.
5 Þannig bjuggu Ísraelsmenn mitt á meðal Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.
6 Gengu þeir að eiga dætur þeirra og giftu sonum þeirra dætur sínar, og þjónuðu guðum þeirra.
7 Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins, og gleymdu Drottni, Guði sínum, og þjónuðu Baölum og asérum.
8 Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael, svo að hann seldi þá í hendur Kúsan Rísjataím, konungi í Aram í Norður-Mesópótamíu, og Ísraelsmenn þjónuðu Kúsan Rísjataím í átta ár.
9 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti Ísraelsmönnum upp hjálparmann, er hjálpaði þeim, Otníel Kenasson, bróður Kalebs og honum yngri.
10 Andi Drottins kom yfir hann, svo að hann rétti hluta Ísraels. Fór hann í hernað, og Drottinn gaf Kúsan Rísjataím, konung í Aram, í hendur honum, og hann varð Kúsan Rísjataím yfirsterkari.
11 Var síðan friður í landi í fjörutíu ár. Þá andaðist Otníel Kenasson.
12 Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, móti Ísrael, af því að þeir gjörðu það, sem illt var í augum Drottins.
13 Hann safnaði að sér Ammónítum og Amalekítum, fór því næst og vann sigur á Ísrael, og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald.
14 Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár.
15 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti þeim upp hjálparmann, Ehúð, son Gera Benjamíníta, en hann var maður örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab.
16 Ehúð hafði smíðað sér sax tvíeggjað, spannarlangt. Hann gyrti sig því undir klæðum á hægri hlið.
17 Og hann færði Eglón, konungi í Móab, skattinn, en Eglón var maður digur mjög.
18 Er hann hafði borið fram skattinn, lét hann mennina fara, er borið höfðu skattinn.
19 En sjálfur sneri hann aftur hjá skurðmyndunum í Gilgal. Ehúð sagði við konung: "Leyndarmál hefi ég að segja þér, konungur." Konungur sagði: "Þei!" og allir þeir gengu út, er kringum hann stóðu.
20 Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat aleinn í hinum svala þaksal sínum, og mælti: "Ég hefi erindi frá Guði við þig." Stóð konungur þá upp úr sæti sínu.
21 En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum.
22 Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu, svo að fal blaðið í ístrunni, því að eigi dró hann saxið úr kviði honum. Gekk hann þá út á þakið.
23 Síðan gekk Ehúð út í gegnum forsalinn og lukti dyrunum á þaksalnum á eftir sér og skaut loku fyrir.
24 En er hann var út genginn, komu þjónar konungs og sáu þeir að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: "Hann hefir víst setst niður erinda sinna inni í svala herberginu."
25 Biðu þeir nú, þar til er þeim leiddist biðin. Og er hann enn ekki lauk upp dyrunum á þaksalnum, þá tóku þeir lykilinn og luku upp, og lá þá herra þeirra dauður á gólfinu.
26 Ehúð hafði komist undan meðan þeir hinkruðu við. Hann var kominn út að skurðmyndunum og komst undan til Seíra.
27 Og er hann var þangað kominn, lét hann þeyta lúður á Efraímfjöllum. Fóru Ísraelsmenn þá með honum ofan af fjöllunum, en hann var fyrir þeim.
28 Og hann sagði við þá: "Fylgið mér, því að Drottinn hefir gefið óvini yðar, Móabítana, í hendur yður." Fóru þeir þá ofan á eftir honum og náðu öllum vöðum á Jórdan yfir til Móab og létu engan komast þar yfir.
29 Og þá felldu þeir af Móabítum um tíu þúsundir manna, og voru það allt sterkir menn og hraustir. Enginn komst undan.
30 Þannig urðu Móabítar á þeim degi að beygja sig undir vald Ísraels. Var nú friður í landi um áttatíu ár.
31 Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson. Hann felldi af Filistum sex hundruð manna með staf, er menn reka með naut. Þannig frelsaði hann einnig Ísrael.
7 Þá spurði æðsti presturinn: "Er þessu svo farið?"
2 Stefán svaraði: "Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran,
3 og sagði við hann: ,Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.`
4 Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran. En eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands, sem þér nú byggið.
5 Ekki gaf hann honum óðal hér, ekki eitt fótmál. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann, þótt hann væri enn barnlaus.
6 Guð sagði, að niðjar hans mundu búa sem útlendingar í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár.
7 ,En þjóðina, sem þrælkar þá, mun ég dæma,` sagði Guð, ,og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað.`
8 Þá gaf hann honum sáttmála umskurnarinnar. Síðan gat Abraham Ísak og umskar hann á áttunda degi, og Ísak gat Jakob og Jakob ættfeðurna tólf.
9 Og ættfeðurnir öfunduðu Jósef og seldu hann til Egyptalands. En Guð var með honum,
10 frelsaði hann úr öllum þrengingum hans og veitti honum hylli og visku í augum Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann skipaði hann höfðingja yfir Egyptaland og yfir allt sitt hús.
11 Nú kom hallæri á öllu Egyptalandi og Kanaan og mikil þrenging, og feður vorir höfðu ekki lífsbjörg.
12 En er Jakob heyrði, að korn væri til á Egyptalandi, sendi hann feður vora þangað hið fyrra sinn.
13 Og í síðara skiptið gaf Jósef sig fram við bræður sína, og Faraó varð kunn ætt Jósefs.
14 En Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns,
15 og Jakob fór suður til Egyptalands. Þar andaðist hann og feður vorir.
16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í grafreitinn, er Abraham hafði keypt fyrir silfur af sonum Hemors í Síkem.
17 Nú tók að nálgast sá tími, er rætast skyldi fyrirheitið, sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkið hafði vaxið og margfaldast í Egyptalandi.
18 ,Þá hófst til ríkis þar annar konungur, er eigi vissi skyn á Jósef.`
19 Hann beitti kyn vort slægð og lék feður vora illa. Hann lét þá bera út ungbörn sín, til þess að þjóðin skyldi eigi lífi halda.
20 Um þessar mundir fæddist Móse og var forkunnar fríður. Þrjá mánuði var hann fóstraður í húsi föður síns.
21 En er hann var út borinn, tók dóttir Faraós hann og fóstraði sem sinn son.
22 Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum.
23 Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna.
24 Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann.
25 Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki.
26 Næsta dag kom hann að tveim þeirra, sem slógust. Hann reyndi að stilla til friðar með þeim og sagði: ,Góðir menn, þið eruð bræður, hví eigist þið illt við?`
27 En sá sem beitti náunga sinn órétti, hratt honum frá sér og sagði: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur?
28 Þú munt þó ekki vilja drepa mig, eins og þú drapst Egyptann í gær?`
29 Við þessi orð flýði Móse og settist að sem útlendingur í Midíanslandi. Þar gat hann tvo sonu.
30 Að fjörutíu árum liðnum ,birtist honum engill í eyðimörk Sínaífjalls í logandi þyrnirunna.`
31 Móse undraðist sýnina, gekk nær og vildi hyggja að. Þá hljómaði rödd Drottins:
32 ,Ég er Guð feðra þinna, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs.` En Móse skelfdist og þorði ekki að hyggja frekar að.
33 En Drottinn sagði við hann: ,Leys af þér skó þína, því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.
34 Ég hef sannlega séð áþján lýðs míns á Egyptalandi og heyrt andvörp þeirra og er ofan kominn að frelsa þá. Kom nú, ég vil senda þig til Egyptalands.`
35 Þennan Móse, er þeir afneituðu með því að segja: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara?` hann sendi Guð sem höfðingja og lausnara með fulltingi engilsins, er honum birtist í þyrnirunnanum.
36 Það var Móse, sem leiddi þá út og gjörði undur og tákn á Egyptalandi, í Rauðahafinu og á eyðimörkinni í fjörutíu ár.
37 Þessi er sá Móse, sem sagði við Ísraelsmenn: ,Spámann eins og mig mun Guð upp vekja yður, einn af bræðrum yðar.`
38 Hann er sá, sem var í söfnuðinum í eyðimörkinni, með englinum, er við hann talaði á Sínaífjalli, og með feðrum vorum. Hann tók á móti lifandi orðum að gefa oss.
39 Eigi vildu feður vorir hlýðnast honum, heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland.
40 Þeir sögðu við Aron: ,Gjör oss guði, er fyrir oss fari, því að ekki vitum vér, hvað orðið er af Móse þeim, sem leiddi oss brott af Egyptalandi.`
41 Og á þeim dögum smíðuðu þeir kálf, færðu skurðgoðinu fórn og kættust af verki handa sinna.
42 En Guð sneri sér frá þeim og lét þeim eftir að dýrka her himinsins, eins og ritað er í spámannabókinni: Hvort færðuð þér mér, Ísraels ætt, sláturdýr og fórnir árin fjörutíu í eyðimörkinni?
43 Nei, þér báruð búð Móloks og stjörnu guðsins Refans, myndirnar, sem þér smíðuðuð til þess að tilbiðja þær. Ég mun herleiða yður austur fyrir Babýlon.
44 Vitnisburðartjaldbúðina höfðu feður vorir í eyðimörkinni. Hún var gjörð eins og sá bauð, er við Móse mælti, eftir þeirri fyrirmynd, sem Móse sá.
45 Við henni tóku og feður vorir, fluttu hana með Jósúa inn í landið, sem þeir tóku til eignar af heiðingjunum, er Guð rak brott undan þeim. Stóð svo allt til daga Davíðs.
46 Hann fann náð hjá Guði og bað, að hann mætti finna bústað fyrir Jakobs Guð.
47 En Salómon reisti honum hús.
48 En eigi býr hinn hæsti í því, sem með höndum er gjört. Spámaðurinn segir:
49 Himinninn er hásæti mitt og jörðin skör fóta minna. Hvaða hús munuð þér reisa mér, segir Drottinn, eða hver er hvíldarstaður minn?
50 Hefur ekki hönd mín skapað allt þetta?
51 Þér harðsvíraðir og óumskornir í hjörtum og á eyrum, þér standið ávallt gegn heilögum anda, þér eins og feður yðar.
52 Hver var sá spámaður, sem feður yðar ofsóttu eigi? Þeir drápu þá, er boðuðu fyrirfram komu hins réttláta, og nú hafið þér svikið hann og myrt.
53 Þér sem lögmálið fenguð fyrir umsýslan engla, en hafið þó eigi haldið það."
54 Þegar þeir heyrðu þetta, trylltust þeir og gnístu tönnum gegn honum.
55 En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði
56 og sagði: "Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði."
57 Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður.
58 Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét.
59 Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: "Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn."
60 Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: "Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar." Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann.
16 Orð Drottins kom til mín:
2 Þú skalt ekki taka þér konu, og þú skalt enga sonu né dætur eignast á þessum stað.
3 Því að svo segir Drottinn um þá sonu og dætur, sem fæðast á þessum stað, og um mæðurnar, sem börnin ala, og um feðurna, sem geta þau í þessu landi:
4 Af banvænum sjúkdómum munu þau deyja, menn munu eigi harma þau né jarða, þau munu verða að áburði á akrinum. Fyrir sverði og hungri skulu þau farast, og líkamir þeirra munu verða fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar að æti.
5 Já, svo segir Drottinn: Þú skalt ekki ganga í sorgarhúsið og eigi fara til þess að harma, né heldur sýna þeim hluttekning, því að ég hefi tekið minn frið frá þessum lýð _ segir Drottinn _ náðina og miskunnsemina,
6 og stórir og smáir skulu deyja í þessu landi. Þeir verða ekki jarðaðir, og ekki munu menn harma þá né þeirra vegna rista á sig skinnsprettur né gjöra sér skalla.
7 Og ekki munu menn brjóta sorgarbrauð þeirra vegna, til huggunar eftir látinn mann, né láta þá drekka huggunarbikar vegna föður síns og móður sinnar.
8 Eigi skalt þú heldur ganga í veisluhús, til þess að setjast með þeim til að eta og drekka.
9 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég mun láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt úr þessum stað fyrir augum yðar og á yðar dögum.
10 Þegar þú nú kunngjörir þessum lýð öll þessi orð og menn segja við þig: "Hvers vegna hefir Drottinn hótað oss allri þessari miklu ógæfu, og hver er misgjörð vor og hver er synd vor, sem vér höfum drýgt gegn Drottni, Guði vorum?"
11 þá seg við þá: "Vegna þess að feður yðar yfirgáfu mig _ segir Drottinn _ og eltu aðra guði og þjónuðu þeim og féllu fram fyrir þeim, en mig yfirgáfu þeir og héldu ekki lögmál mitt.
12 Og þér breytið enn verr en feður yðar, þar sem þér farið hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta og hlýðið mér ekki.
13 Fyrir því vil ég varpa yður burt úr þessu landi til þess lands, sem þér hafið ekki þekkt, hvorki þér né feður yðar, og þar skuluð þér þjóna öðrum guðum dag og nótt, þar eð ég sýni yður enga miskunn."
14 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að ekki mun framar sagt verða: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi,"
15 heldur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem hann hafði rekið þá." Og ég mun flytja þá aftur til lands þeirra, sem ég gaf feðrum þeirra.
16 Sjá, ég mun senda út marga fiskimenn _ segir Drottinn _ og þeir munu fiska þá, og eftir það mun ég senda marga veiðimenn, og þeir munu veiða þá á hverju fjalli, á hverri hæð og í bergskorunum.
17 Því að augu mín horfa á alla þeirra vegu, þeir eru ekki huldir fyrir mér og misgjörð þeirra er eigi falin fyrir augum mér.
18 En fyrst vil ég gjalda þeim tvöfalt misgjörð þeirra og synd, af því að þeir hafa vanhelgað land mitt með hræi viðurstyggða sinna og fyllt óðal mitt andstyggðum sínum.
19 Drottinn, styrkur minn, vígi mitt og hæli mitt á neyðardegi, til þín munu þjóðir koma frá endimörkum jarðar og segja: Lygar einar hafa feður vorir hlotið að eign, fánýta guði, og enginn þeirra er að neinu gagni.
20 Getur maðurinn gjört sér guði? Slíkt eru engir guðir!
21 Fyrir því vil ég í þetta sinn kenna þeim. Ég vil láta þá kannast við kraft minn og styrkleika, og þeir skulu viðurkenna, að nafn mitt er Drottinn.
2 Nokkrum dögum síðar kom hann aftur til Kapernaum. Þegar fréttist, að hann væri heima,
2 söfnuðust þar svo margir, að hvergi var lengur rúm, ekki einu sinni fyrir dyrum úti. Og hann flutti þeim orðið.
3 Þá er komið með lama mann, og báru fjórir.
4 Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu, rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna, sem hinn lami lá í.
5 Þá er Jesús sér trú þeirra, segir hann við lama manninn: "Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."
6 Þar sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu í hjörtum sínum:
7 "Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"
8 Samstundis skynjaði Jesús í anda sínum, að þeir hugsuðu þannig með sér, og hann sagði við þá: "Hví hugsið þér slíkt í hjörtum yðar?
9 Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp, tak rekkju þína og gakk?`
10 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu,
11 þá segi ég þér" _ og nú talar hann við lama manninn: _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."
12 Hann stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn, svo að allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: "Aldrei áður höfum vér þvílíkt séð."
13 Aftur fór hann út og gekk með vatninu, og allur mannfjöldinn kom til hans, og hann kenndi þeim.
14 Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.
15 Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum.
16 Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: "Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum."
17 Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."
18 Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: "Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?"
19 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað.
20 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.
21 Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa.
22 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi."
23 Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.
24 Farísearnir sögðu þá við hann: "Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"
25 Hann svaraði þeim: "Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans?
26 Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."
27 Og hann sagði við þá: "Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.
28 Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins."
by Icelandic Bible Society