Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Dómarabókin 2

Engill Drottins kom frá Gilgal til Bókím og mælti: "Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður í það land, sem ég sór feðrum yðar, og ég sagði: ,Ég mun aldrei rjúfa sáttmála minn við yður,

en þér megið ekki gjöra sáttmála við íbúa þessa lands, heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra.` En þér hafið ekki hlýtt raustu minni. Hví hafið þér gjört þetta?

Fyrir því segi ég einnig: ,Ég mun ekki stökkva þeim burt undan yður, og þeir munu verða broddar í síðum yðar og guðir þeirra verða yður að tálsnöru."`

Er engill Drottins hafði mælt þessum orðum til allra Ísraelsmanna, þá hóf lýðurinn upp raust sína og grét.

Og þeir nefndu stað þennan Bókím, og færðu þar Drottni fórn.

Síðan lét Jósúa fólkið frá sér fara, og héldu þá Ísraelsmenn hver til síns óðals til þess að taka landið til eignar.

Og lýðurinn þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og meðan öldungar þeir, sem lifðu Jósúa, voru á lífi, þeir er séð höfðu öll hin miklu verk Drottins, er hann gjörði fyrir Ísrael.

Þá andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára gamall.

Og hann var grafinn í eignarlandi sínu, hjá Timnat Heres á Efraímfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall.

10 En er öll sú kynslóð hafði líka safnast til feðra sinna, reis upp önnur kynslóð eftir hana, er eigi þekkti Drottin né þau verk, er hann hafði gjört fyrir Ísrael.

11 Þá gjörðu Ísraelsmenn það, sem illt var í augum Drottins, og þjónuðu Baölum,

12 og yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, er leitt hafði þá af Egyptalandi, og eltu aðra guði, af guðum þjóða þeirra, er bjuggu umhverfis þá, og féllu fram fyrir þeim og egndu Drottin til reiði.

13 Og þeir yfirgáfu Drottin og þjónuðu Baal og Astörtum.

14 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá á vald ránsmönnum og þeir rændu þá, og hann seldi þá í hendur óvinum þeirra allt í kringum þá, svo að þeir fengu eigi framar staðist fyrir óvinum sínum.

15 Hvert sem þeir fóru, var hönd Drottins í móti þeim til óhamingju, eins og Drottinn hafði sagt og eins og Drottinn hafði svarið þeim. Komust þeir þá í miklar nauðir.

16 En Drottinn vakti upp dómara, og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra, er þá rændu.

17 En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum, heldur tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna, sem hlýddu boðum Drottins; þeir breyttu ekki svo.

18 Þegar Drottinn vakti þeim upp dómara, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi, því að Drottinn kenndi í brjósti um þá, er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum.

19 En er dómarinn andaðist, breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra, með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu eigi af gjörðum sínum né þrjóskubreytni sinni.

20 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: "Af því að þetta fólk hefir rofið sáttmála minn, þann er ég lagði fyrir feður þeirra, og ekki hlýtt minni raustu,

21 þá mun ég ekki heldur framar stökkva burt undan þeim nokkrum manni af þjóðum þeim, sem Jósúa skildi eftir, er hann andaðist.

22 Ég vil reyna Ísrael með þeim, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gjörðu, eða ekki."

23 Þannig lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær burt bráðlega, og hann gaf þær eigi í hendur Jósúa.

Postulasagan 6

Á þessum dögum, er lærisveinum fjölgaði, fóru grískumælandi menn að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun.

Hinir tólf kölluðu þá lærisveinahópinn saman og sögðu: "Ekki hæfir, að vér hverfum frá boðun Guðs orðs til að þjóna fyrir borðum.

Finnið því, bræður, sjö vel kynnta menn úr yðar hópi, sem fullir eru anda og visku. Munum vér setja þá yfir þetta starf.

En vér munum helga oss bæninni og þjónustu orðsins."

Öll samkoman gerði góðan róm að máli þeirra, og kusu þeir Stefán, mann fullan af trú og heilögum anda, Filippus, Prókorus, Níkanor, Tímon, Parmenas og Nikolás frá Antíokkíu, sem tekið hafði gyðingatrú.

Þeir leiddu þá fram fyrir postulana, sem báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá.

Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.

Stefán var fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins.

Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu, en aðrir frá Kilikíu og Asíu, og tóku að þrátta við Stefán.

10 En þeir gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af.

11 Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: "Vér höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði."

12 Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina, og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið.

13 Þá leiddu þeir fram ljúgvotta, er sögðu: "Þessi maður er alltaf að tala gegn þessum heilaga stað og lögmálinu.

14 Vér höfum heyrt hann segja, að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum, sem Móse hefur sett oss."

15 Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.

Jeremía 15

15 Þá sagði Drottinn við mig: Þó að Móse og Samúel gengju fram fyrir mig, mundi sál mín ekki hneigjast að þessum lýð framar. Rek þá frá augliti mínu, svo að þeir fari burt.

Og ef þeir segja við þig: "Hvert eigum vér að fara?" þá seg við þá: Svo segir Drottinn: Til drepsóttar sá, sem drepsótt er ætlaður, til sverðs sá, sem sverði er ætlaður, til hungurs sá, sem hungri er ætlaður, til herleiðingar sá, sem til herleiðingar er ætlaður.

Ég býð ferns konar kyni út í móti þeim _ segir Drottinn _: Sverðinu til þess að myrða þá, hundunum til þess að draga þá burt, fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar til þess að eta þá og eyða þeim.

Ég gjöri þá að grýlu fyrir öll konungsríki jarðar, sökum Manasse Hiskíasonar, Júdakonungs, fyrir það sem hann aðhafðist í Jerúsalem.

Hver mun kenna í brjósti um þig, Jerúsalem, og hver mun sýna þér hluttekning og hver mun koma við til þess að spyrja um, hvernig þér líði?

Það ert þú, sem hefir útskúfað mér _ segir Drottinn. Þú hörfaðir frá. Fyrir því rétti ég höndina út á móti þér og eyddi þig, ég er orðinn þreyttur á að miskunna.

Fyrir því sáldraði ég þeim með varpkvísl við borgarhlið landsins, gjörði menn barnlausa, eyddi þjóð mína, frá sínum vondu vegum sneru þeir ekki aftur.

Ekkjur þeirra urðu fleiri en sandkorn á sjávarströnd. Ég leiddi yfir mæður unglinga þeirra eyðanda um hábjartan dag, lét skyndilega yfir þær koma angist og skelfing.

Sjö barna móðirin mornaði og þornaði, hún gaf upp öndina. Sól hennar gekk undir áður dagur var á enda, hún varð til smánar og fyrirvarð sig. Og það, sem eftir er af þeim, ofursel ég sverðinu, þá er þeir flýja fyrir óvinum sínum _ segir Drottinn.

10 Vei mér, móðir mín, að þú skyldir fæða mig, mig sem allir menn í landinu deila og þrátta við. Ekkert hefi ég öðrum lánað og ekkert hafa aðrir lánað mér, og þó formæla þeir mér allir.

11 Drottinn sagði: Vissulega mun ég frelsa þig, ég mun vissulega láta óvininn grátbæna þig, þegar óhamingjuna og neyðina ber að höndum.

12 Verður járn brotið sundur, járn að norðan, og eir?

13 Eigur þínar og fjársjóðu ofursel ég að herfangi, ekki fyrir verð, heldur fyrir allar syndir þínar, og það fyrir þær syndir, er þú hefir drýgt í öllum héruðum þínum.

14 Og ég læt þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, gegn yður logar hann.

15 Þú veist það, Drottinn, minnstu mín og vitjaðu mín og hefn mín á ofsóknurum mínum. Hríf mig ekki burt í þolinmæði þinni við þá, mundu það, að ég þoli smán þín vegna.

16 Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, Drottinn, Guð allsherjar.

17 Ég sat ekki í hóp hlæjandi manna til þess að skemmta mér. Gripinn af þinni hendi sat ég einsamall, af því að þú fylltir mig helgri reiði.

18 Hví er kvöl mín orðin ævarandi og sár mitt svo illkynjað, að það verður ekki grætt? Þú ert mér sem svikull lækur, eins og vatn, sem ekki er unnt að reiða sig á.

19 Þessu svaraði Drottinn svo: Ef þú lætur af þessu víli þínu, mun ég aftur láta þig ganga fram fyrir mig. Og ef þú framleiðir aðeins dýrmæta hluti, en enga lélega, þá skalt þú aftur vera mér munnur. Þeir skulu snúa við til þín, en þú skalt ekki snúa við til þeirra.

20 Og ég gjöri þig gagnvart þessum lýð að rammbyggðum eirvegg, og þótt þeir berjist við þig, skulu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að hjálpa þér og frelsa þig _ segir Drottinn.

21 Ég frelsa þig undan valdi vondra manna og losa þig úr höndum ofbeldismanna.

Markúsarguðspjall 1

Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son.

Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn.

Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,

og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang.

Hann prédikaði svo: "Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans.

Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda."

Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan.

10 Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir sig eins og dúfu.

11 Og rödd kom af himnum: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."

12 Þá knúði andinn hann út í óbyggðina,

13 og hann var í óbyggðinni fjörutíu daga, og Satan freistaði hans. Hann hafðist við meðal villidýra, og englar þjónuðu honum.

14 Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs

15 og sagði: "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu."

16 Jesús var á gangi með Galíleuvatni og sá Símon og Andrés, bróður Símonar, vera að kasta netum í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

17 Jesús sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

18 Og þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum.

19 Hann gekk skammt þaðan og sá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, og voru þeir einnig á báti að búa net.

20 Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum.

21 Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi.

22 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.

23 Þar var í samkundu þeirra maður haldinn óhreinum anda. Hann æpti:

24 "Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

25 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum."

26 Þá teygði óhreini andinn manninn, rak upp hljóð mikið og fór út af honum.

27 Sló felmtri á alla, og hver spurði annan: "Hvað er þetta? Ný kenning með valdi! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum."

28 Og orðstír hans barst þegar um alla Galíleu.

29 Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes.

30 Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni.

31 Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina.

32 Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum,

33 og allur bærinn var saman kominn við dyrnar.

34 Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var.

35 Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

36 Þeir Símon leituðu hann uppi,

37 og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: "Allir eru að leita að þér."

38 Hann sagði við þá: "Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn."

39 Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda.

40 Maður nokkur líkþrár kom til hans, féll á kné og bað hann: "Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."

41 Og hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!"

42 Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin, og hann varð hreinn.

43 Og Jesús lét hann fara, lagði ríkt á við hann

44 og sagði: "Gæt þess að segja engum neitt, en far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."

45 En maðurinn gekk burt og ræddi margt um þetta og víðfrægði mjög, svo að Jesús gat ekki framar komið opinberlega í neina borg, heldur hafðist við úti á óbyggðum stöðum. En menn komu til hans hvaðanæva.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society