M’Cheyne Bible Reading Plan
24 Jósúa stefndi saman öllum ættkvíslum Ísraels í Síkem og kallaði fyrir sig öldunga Ísraels og höfðingja hans, dómendur hans og tilsjónarmenn, og þeir gengu fram fyrir auglit Guðs.
2 Þá mælti Jósúa við allan lýðinn: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Forfeður yðar bjuggu í fyrndinni fyrir handan Efrat, þeir Tara, faðir Abrahams og Nahors, og dýrkuðu aðra guði.
3 Þá tók ég Abraham forföður yðar handan yfir Fljótið og lét hann fara fram og aftur um allt Kanaanland, og ég margfaldaði kyn hans og gaf honum Ísak.
4 Og Ísak gaf ég þá Jakob og Esaú. Og Esaú gaf ég Seírfjöll, að hann skyldi taka þau til eignar, en Jakob og synir hans fóru suður til Egyptalands.
5 Síðan sendi ég Móse og Aron og laust Egyptaland með undrum þeim, er ég framdi þar. Síðar leiddi ég yður út þaðan.
6 Ég leiddi feður yðar út af Egyptalandi, og þér komuð að Sefhafinu. En Egyptar veittu feðrum yðar eftirför með vögnum og riddurum til hafsins.
7 Þá hrópuðu þeir til Drottins, og ég setti myrkur milli yðar og Egypta, og lét hafið falla yfir þá, svo að það huldi þá. Og þér sáuð með eigin augum, hvernig ég fór með Egypta. Eftir það dvölduð þér langa hríð í eyðimörkinni.
8 Síðan leiddi ég yður inn í land Amoríta, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, og þeir börðust við yður, en ég gaf þá í hendur yður, og þér tókuð land þeirra til eignar, og ég eyddi þeim fyrir yður.
9 Þá reis upp Balak Sippórsson, konungur í Móab, og barðist við Ísrael. Sendi hann þá og lét kalla Bíleam Beórsson til þess að bölva yður.
10 En ég vildi ekki heyra Bíleam, og hann blessaði yður þvert á móti. Frelsaði ég yður þannig úr höndum hans.
11 Þá fóruð þér yfir Jórdan og komuð til Jeríkó. Og Jeríkóbúar börðust við yður, þeir Amorítar, Peresítar, Kanaanítar, Hetítar, Girgasítar, Hevítar og Jebúsítar, en ég gaf þá í yðar hendur.
12 Þá sendi ég skelfingu á undan yður, og stökkti Amorítakonungunum tveimur burt undan yður, en hvorki kom sverð þitt né bogi þinn þessu til leiðar.
13 Ég gaf yður land, sem þér ekkert höfðuð fyrir haft, og borgir, sem þér höfðuð ekki reist, en tókuð yður samt bólfestu í þeim, og víngarða og olíutré, sem þér hafið ekki gróðursett, en njótið nú ávaxta þeirra.
14 Óttist því Drottin og þjónið honum einlæglega og dyggilega, og kastið burt guðum þeim, er feður yðar þjónuðu fyrir handan Fljótið og í Egyptalandi, og þjónið Drottni.
15 En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni."
16 Þá svaraði lýðurinn og sagði: "Fjarri sé það oss að yfirgefa Drottin og þjóna öðrum guðum.
17 Því að Drottinn er vor Guð, hann sem leitt hefir oss og feður vora af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, og gjört hefir þessi miklu undur að oss ásjáandi og varðveitt oss á allri þeirri leið, sem vér höfum nú farið, og meðal allra þeirra þjóða, þar sem vér höfum lagt um leið vora.
18 Og Drottinn stökkti burt undan oss öllum þjóðunum og Amorítum, íbúum landsins. Vér viljum einnig þjóna Drottni, því að hann er vor Guð!"
19 Jósúa sagði þá við lýðinn: "Þér getið ekki þjónað Drottni, því að hann er heilagur Guð. Vandlátur Guð er hann. Hann mun ekki umbera misgjörðir yðar og syndir.
20 Ef þér yfirgefið Drottin og þjónið útlendum guðum, þá mun hann snúast gegn yður og láta illt yfir yður koma og tortíma yður, í stað þess að hann áður hefir gjört vel til yðar."
21 Þá sagði lýðurinn við Jósúa: "Nei, því að Drottni viljum vér þjóna."
22 Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Þér eruð vottar að því gegn sjálfum yður, að þér hafið kosið að þjóna Drottni." Þeir sögðu: "Vér erum það."
23 Jósúa sagði: "Kastið nú burt útlendu guðunum, sem hjá yður eru, og hneigið hjörtu yðar til Drottins, Ísraels Guðs."
24 Lýðurinn sagði við Jósúa: "Drottni Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu."
25 Á þeim degi gjörði Jósúa sáttmála við lýðinn og setti honum lög og rétt þar í Síkem.
26 Og Jósúa ritaði þessi orð í lögmálsbók Guðs, tók því næst stein mikinn og reisti hann þar upp undir eikinni, sem stóð í helgidómi Drottins.
27 Og Jósúa sagði við allan lýðinn: "Sjá, steinn þessi skal vera vitni gegn oss, því að hann hefir heyrt öll orðin, sem Drottinn hefir við oss talað, og hann skal vera vitni gegn yður, til þess að þér afneitið ekki Guði yðar."
28 Síðan lét Jósúa fólkið fara, hvern til síns óðals.
29 Eftir þessa atburði andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára gamall,
30 og var hann grafinn í eignarlandi sínu, hjá Timnat Sera, sem liggur á Efraímfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall.
31 Ísrael þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og öldungar þeir, er lifðu Jósúa og þekktu öll þau verk, er Drottinn hafði gjört fyrir Ísrael.
32 Bein Jósefs, sem Ísraelsmenn höfðu haft með sér sunnan af Egyptalandi, grófu þeir í Síkem, í landspildu þeirri, sem Jakob hafði keypt af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað kesíta, og varð hún eign Jósefs sona.
4 Meðan þeir voru að tala til fólksins, komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir.
2 Þeir voru æfir af því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisu dauðra í Jesú.
3 Lögðu þeir hendur á þá og settu þá í varðhald til næsta morguns, því að kvöld var komið.
4 En margir þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú, og tala karlmanna varð um fimm þúsundir.
5 Næsta morgun komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem.
6 Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir, sem voru af æðsta prests ættum.
7 Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: "Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?"
8 Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: "Þér höfðingjar lýðsins og öldungar,
9 með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn,
10 þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar.
11 Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn.
12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss."
13 Þegar þeir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu, að þeir voru ólærðir leikmenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við, að þeir höfðu verið með Jesú.
14 Og er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim, máttu þeir ekki í móti mæla.
15 Þeir skipuðu þeim að ganga út frá ráðinu, tóku saman ráð sín og sögðu:
16 "Hvað eigum vér að gjöra við þessa menn? Því að augljóst er öllum Jerúsalembúum, að ótvírætt tákn er orðið af þeirra völdum. Vér getum ekki neitað því.
17 Þetta má ekki berast frekar út meðal lýðsins. Vér skulum því hóta þeim hörðu, að þeir tali aldrei framar í þessu nafni við nokkurn mann."
18 Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala eða kenna í Jesú nafni.
19 Pétur og Jóhannes svöruðu: "Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum.
20 Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt."
21 En þeir ógnuðu þeim enn frekar og slepptu þeim síðan, þar sem þeir sáu enga leið vegna fólksins að hegna þeim, því allir lofuðu Guð fyrir þennan atburð.
22 En maðurinn, sem læknast hafði með þessu tákni, var yfir fertugt.
23 Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað.
24 Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: "Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er,
25 þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð?
26 Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða.
27 Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels
28 til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi.
29 Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.
30 Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú."
31 Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.
32 En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt.
33 Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum.
34 Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið
35 og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.
36 Jósef levíti, frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunar sonur,
37 átti sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.
13 Svo mælti Drottinn við mig: Far og kaup þér línbelti og legg það um lendar þér, en lát það ekki koma í vatn.
2 Og ég keypti beltið eftir orði Drottins og lagði um lendar mér.
3 Og orð Drottins kom til mín annað sinn, svohljóðandi:
4 Tak beltið, sem þú keyptir og um lendar þínar er, og legg af stað og far austur að Efrat og fel það þar í bergskoru.
5 Og ég fór og fal það hjá Efrat, eins og Drottinn hafði boðið mér.
6 En er alllangur tími var um liðinn, sagði Drottinn við mig: Legg af stað og far austur að Efrat og tak þar beltið, sem ég bauð þér að fela þar.
7 Og ég fór austur að Efrat, gróf og tók beltið á þeim stað, sem ég hafði falið það. En sjá, beltið var orðið skemmt, til einskis nýtt framar.
8 Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:
9 Svo segir Drottinn: Þannig vil ég skemma hroka Júda og hroka Jerúsalem, þann hinn mikla.
10 Þessir vondu menn, sem ekki vilja hlýða orðum mínum, sem fara eftir þverúð hjarta síns og elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim _ þeir skulu verða eins og þetta belti, sem til einskis er nýtt framar.
11 Því að eins og beltið fellir sig að lendum manns, eins hafði ég látið allt Ísraels hús og allt Júda hús fella sig að mér _ segir Drottinn _ til þess að það skyldi vera minn lýður og mér til frægðar, lofstírs og prýði, en þeir hlýddu ekki.
12 Mæl til þeirra þetta orð: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: "Sérhver krukka verður fyllt víni." En segi þeir þá við þig: "Vitum vér þá ekki, að sérhver krukka verður fyllt víni?"
13 þá seg við þá: "Svo segir Drottinn: Sjá, ég fylli alla íbúa þessa lands og konungana, sem sitja í hásæti Davíðs, og prestana og spámennina og alla Jerúsalembúa, svo að þeir verði drukknir,
14 og mola þá sundur hvern við annan, feður og sonu alla saman _ segir Drottinn. Ég tortími þeim hlífðarlaust, án nokkurrar vægðar og miskunnar."
15 Heyrið og takið eftir! Verið ekki dramblátir, því að Drottinn hefir talað!
16 Gefið Drottni, Guði yðar, dýrðina, áður en dimmir, áður en fætur yðar steyta á rökkurfjöllum. Þér væntið ljóss, en hann mun breyta því í niðdimmu og gjöra það að svartamyrkri.
17 En ef þér hlýðið því ekki, þá mun ég í leyni gráta vegna hrokans og sífellt tárast, já augu mín munu fljóta í tárum, af því að hjörð Drottins verður flutt burt hertekin.
18 Seg við konung og við konungsmóður: "Setjist lágt, því að fallin er af höfðum yðar dýrlega kórónan!
19 Borgir Suðurlandsins eru lokaðar, og enginn opnar, Júdalýður hefur verið burt fluttur allur saman, burt fluttur með tölu."
20 Hef upp augu þín og sjá, þeir koma að norðan! Hvar er hjörðin, sem þér var fengin, þínir ágætu sauðir?
21 Hvað munt þú segja, þegar þeir setja þá menn höfðingja yfir þig, sem þú hefir sjálf kennt að vera á móti þér? Munu ekki hviður að þér koma, eins og að jóðsjúkri konu,
22 er þú segir í hjarta þínu: ,Hví ber mér slíkt að höndum?` Sakir þinnar miklu misgjörðar er klæðafaldi þínum upp flett, hælar þínir með valdi berir gjörðir.
23 Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt.
24 Ég vil tvístra þeim eins og hálmleggjum, sem berast fyrir eyðimerkurvindi.
25 Þetta er hlutur þinn, afmældur skammtur þinn frá minni hendi _ segir Drottinn _ af því að þú hefir gleymt mér og treystir á lygi.
26 Fyrir því kippi ég og klæðafaldi þínum upp að framan, svo að blygðan þín verði ber.
27 Hórdóm þinn og losta-hví, hið svívirðilega fúllífi þitt _ á fórnarhæðunum úti á víðavangi hefi ég séð viðurstyggðir þínar. Vei þér, Jerúsalem, þú munt ekki hrein verða _ hve langt mun enn þangað til?
27 Að morgni gjörðu allir æðstu prestarnir og öldungar lýðsins samþykkt gegn Jesú, að hann skyldi af lífi tekinn.
2 Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.
3 Þegar Júdas, sem sveik hann, sá, að hann var dæmdur sekur, iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu
4 og mælti: "Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð." Þeir sögðu: "Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því."
5 Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig.
6 Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: "Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar."
7 Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá leirkerasmiðs akurinn til grafreits handa útlendingum.
8 Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur.
9 Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: "Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum,
10 og keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt."
11 Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: "Ert þú konungur Gyðinga?" Jesús svaraði: "Þú segir það."
12 Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir, en hann svaraði engu.
13 Þá spurði Pílatus hann: "Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna gegn þér?"
14 En hann svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.
15 Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa lýðnum lausan einn bandingja, þann er þeir vildu.
16 Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni.
17 Sem þeir nú voru saman komnir, sagði Pílatus við þá: "Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?"
18 Hann vissi, að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.
19 Meðan Pílatus sat á dómstólnum, sendi kona hans til hans með þessi orð: "Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna."
20 En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas, en að Jesús yrði deyddur.
21 Landshöfðinginn spurði: "Hvorn þeirra tveggja viljið þér, að ég gefi yður lausan?" Þeir sögðu: "Barabbas."
22 Pílatus spyr: "Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur?" Þeir segja allir: "Krossfestu hann."
23 Hann spurði: "Hvað illt hefur hann þá gjört?" En þeir æptu því meir: "Krossfestu hann!"
24 Nú sér Pílatus, að hann fær ekki að gjört, en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: "Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!"
25 Og allur lýðurinn sagði: "Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!"
26 Þá gaf hann þeim Barabbas lausan, en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.
27 Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni.
28 Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu,
29 fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: "Heill þú, konungur Gyðinga!"
30 Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið.
31 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.
32 Á leiðinni hittu þeir mann frá Kýrene, er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera kross Jesú.
33 Og er þeir komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður,
34 gáfu þeir honum vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það, en vildi ekki drekka.
35 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér,
36 sátu þar svo og gættu hans.
37 Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.
38 Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.
39 Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín
40 og sögðu: "Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér, ef þú ert sonur Guðs, og stíg niður af krossinum!"
41 Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu:
42 "Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum vér trúa á hann.
43 Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: ,Ég er sonur Guðs`?"
44 Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.
45 En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.
46 Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: "Elí, Elí, lama sabaktaní!" Það þýðir: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?"
47 Nokkrir þeirra, er þar stóðu, heyrðu þetta og sögðu: "Hann kallar á Elía!"
48 Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.
49 Hinir sögðu: "Sjáum til, hvort Elía kemur að bjarga honum."
50 En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.
51 Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu,
52 grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp.
53 Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.
54 Þegar hundraðshöfðinginn og þeir, sem með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og atburði þessa, hræddust þeir mjög og sögðu: "Sannarlega var þessi maður sonur Guðs."
55 Þar voru og margar konur, sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum.
56 Meðal þeirra var María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs, og móðir Sebedeussona.
57 Um kvöldið kom auðugur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni, er sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú.
58 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú. Pílatus bauð þá að fá Jósef hann.
59 Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði
60 og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt.
61 María Magdalena var þar og María hin, og sátu þær gegnt gröfinni.
62 Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus
63 og sögðu: "Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: ,Eftir þrjá daga rís ég upp.`
64 Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: ,Hann er risinn frá dauðum.` Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri."
65 Pílatus sagði við þá: "Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið."
66 Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.
by Icelandic Bible Society