M’Cheyne Bible Reading Plan
23 Löngum tíma eftir þetta, þá er Drottinn hafði veitt Ísrael frið fyrir öllum óvinum þeirra hringinn í kring, og Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri,
2 þá kallaði Jósúa saman allan Ísrael, öldunga hans og höfðingja, dómendur hans og tilsjónarmenn og sagði við þá: "Ég gjörist nú gamall og aldurhniginn.
3 Þér hafið sjálfir séð allt það, sem Drottinn Guð yðar, hefir gjört öllum þessum þjóðum yðar vegna, því að Drottinn Guð yðar hefir sjálfur barist fyrir yður.
4 Sjáið, með hlutkesti hefi ég úthlutað yður til handa löndum þessara þjóða, sem enn eru eftir, ættkvíslum yðar til eignar, og löndum þjóðanna, sem ég hefi eytt, allt frá Jórdan til hafsins mikla gegnt sólar setri.
5 Og Drottinn Guð yðar mun sjálfur reka þá burt frá yður og stökkva þeim undan yður, og þér munuð fá land þeirra til eignar, eins og Drottinn Guð yðar hefir heitið yður.
6 Reynist nú mjög staðfastir í því að halda og gjöra allt það, sem ritað er í lögmálsbók Móse, án þess að víkja frá því til hægri né vinstri,
7 svo að þér blandist eigi við þessar þjóðir, sem enn eru eftir hjá yður. Nefnið eigi guði þeirra á nafn, sverjið eigi við þá, þjónið þeim eigi og fallið eigi fram fyrir þeim,
8 heldur haldið yður fast við Drottin Guð yðar, eins og þér hafið gjört fram á þennan dag.
9 Fyrir því stökkti Drottinn undan yður miklum og voldugum þjóðum, og enginn hefir getað staðist fyrir yður fram á þennan dag.
10 Einn yðar elti þúsund, því að Drottinn Guð yðar barðist sjálfur fyrir yður, eins og hann hefir heitið yður.
11 Gætið þess því vandlega _ líf yðar liggur við _ að elska Drottin Guð yðar.
12 Því ef þér gjörist fráhverfir og samlagið yður leifum þjóða þessara, sem enn eru eftir hjá yður, mægist við þær og blandist við þær, og þær við yður,
13 þá vitið fyrir víst, að Drottinn Guð yðar mun eigi halda áfram að stökkva þessum þjóðum burt undan yður, heldur munu þær verða yður snara og fótakefli, svipa á síður yðar og þyrnar í augum yðar, uns þér eruð afmáðir úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.
14 Sjá, ég geng nú veg allrar veraldar, en þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.
15 En eins og öll þau fyrirheit, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður, hafa rætst á yður, eins mun Drottinn láta allar hótanir sínar rætast á yður, uns hann hefir gjöreytt yður úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.
16 Ef þér rjúfið sáttmála Drottins Guðs yðar, þann er hann fyrir yður lagði, og farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, þá mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og þér munuð fljótt hverfa úr landinu góða, sem hann hefir gefið yður."
3 Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna.
2 Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins, sem nefndar eru Fögrudyr, til að beiðast ölmusu hjá þeim, er inn gengu í helgidóminn.
3 Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn, baðst hann ölmusu.
4 Þeir horfðu fast á hann, og Pétur sagði: "Lít þú á okkur."
5 Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim.
6 Pétur sagði: "Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!"
7 Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir,
8 hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð.
9 Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð.
10 Þeir þekktu, að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því, sem fram við hann hafði komið.
11 Hann hélt sér að Pétri og Jóhannesi, og þá flykktist allt fólkið furðu lostið til þeirra í súlnagöngin, sem kennd eru við Salómon.
12 Þegar Pétur sá það, ávarpaði hann fólkið: "Ísraelsmenn, hví furðar yður á þessu eða hví starið þér á okkur, eins og við hefðum af eigin mætti eða guðrækni komið því til leiðar, að þessi maður gengur?
13 Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð feðra vorra hefur dýrlegan gjört þjón sinn, Jesú, sem þér framselduð og afneituðuð frammi fyrir Pílatusi, er hann hafði ályktað að láta hann lausan.
14 Þér afneituðuð hinum heilaga og réttláta, en beiddust að manndrápari yrði gefinn yður.
15 Þér líflétuð höfðingja lífsins, en Guð uppvakti hann frá dauðum, og að því erum vér vottar.
16 Trúin á nafn Jesú gjörði þennan mann, sem þér sjáið og þekkið, styrkan. Nafnið hans og trúin, sem hann gefur, veitti honum þennan albata fyrir augum yðar allra.
17 Nú veit ég, bræður, að þér gjörðuð það af vanþekkingu, sem og höfðingjar yðar.
18 En Guð lét þannig rætast það, sem hann hafði boðað fyrirfram fyrir munn allra spámannanna, að Kristur hans skyldi líða.
19 Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar.
20 Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti Drottins, og hann mun senda Krist, sem yður er fyrirhugaður, sem er Jesús.
21 Hann á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.
22 Móse sagði: ,Spámann mun Drottinn, Guð yðar, uppvekja yður af bræðrum yðar eins og mig. Á hann skuluð þér hlýða í öllu, er hann talar til yðar.
23 Og sérhver sá, sem hlýðir ekki á þennan spámann, skal upprættur verða úr lýðnum.`
24 Allir spámennirnir, Samúel og þeir sem á eftir komu, allir þeir sem talað hafa, boðuðu og þessa daga.
25 Þér eruð börn spámannanna og eigið hlut í sáttmálanum, sem Guð gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: ,Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.`
26 Guð hefur reist upp þjón sinn og sent hann yður fyrst til að blessa yður og snúa hverjum yðar frá vondri breytni sinni."
12 Þú, Drottinn, ert réttlátari en svo, að ég megi þrátta við þig! Þó verð ég að deila á þig: Hví lánast athæfi hinna óguðlegu, hví eru allir þeir óhultir, er sviksamlega breyta?
2 Þú gróðursetur þá, og þeir festa rætur, dafna og bera ávöxt. Þeir hafa þig ávallt á vörunum, en hjarta þeirra er langt frá þér.
3 En þú, Drottinn, þekkir mig, sér mig, og þú hefir reynt hugarþel mitt til þín. Skil þá úr, eins og sauði til slátrunar, og helgaðu þá drápsdeginum.
4 Hversu lengi á landið að syrgja og jurtir vallarins alls staðar að skrælna? Sakir illsku þeirra, er í því búa, farast skepnur og fuglar, þar eð þeir segja: "Hann sér eigi afdrif vor."
5 Ef þú mæðist af því að hlaupa með fótgangandi mönnum, hvernig ætlar þú þá að þreyta kapphlaup við hesta? Og ef þú ert aðeins öruggur í friðuðu landi, hvernig ætlar þú þá að fara að í kjarrinu á Jórdanbökkum?
6 Jafnvel bræður þínir og skyldulið föður þíns _ einnig þeir eru þér ótrúir, einnig þeir hafa kallað fullum rómi á eftir þér. Treystu þeim ekki, þótt þeir tali vinsamlega til þín.
7 Yfirgefið hefi ég hús mitt, hafnað eign minni. Ég hefi gefið það, sem sál minni var kærast, óvinum hennar á vald.
8 Eign mín varð mér eins og ljón í skógi, hún öskraði í móti mér, fyrir því hata ég hana.
9 Er eign mín orðin mér eins og marglitur ránfugl? Ránfuglar sækja að henni öllumegin. Komið, safnið saman öllum dýrum merkurinnar, komið með þau til að eta.
10 Margir hirðar hafa eytt víngarð minn, fótum troðið óðal mitt, hafa gjört hið unaðslega óðal mitt að eyðilegri heiði.
11 Menn hafa gjört það að auðn, í eyði drúpir það fyrir mér, allt landið er í eyði lagt, af því að enginn leggur það á hjarta.
12 Eyðandi ræningjar hafa steypt sér yfir allar skóglausar hæðir í eyðimörkinni. Sverð Drottins eyðir landið af enda og á, enginn er óhultur.
13 Þeir sáðu hveiti, en uppskáru þyrna, þeir þreyttu sig, en varð ekki gagn að. Verðið því til skammar fyrir afrakstur yðar vegna hinnar brennandi reiði Drottins.
14 Svo segir Drottinn: Allir hinir vondu nágrannar mínir, þeir er áreitt hafa eignina, er ég gaf lýð mínum Ísrael, sjá, ég slít þá upp úr landi þeirra, og Júda hús vil ég upp slíta, svo að það sé eigi meðal þeirra.
15 En eftir að ég hefi slitið þá upp, mun ég aftur miskunna mig yfir þá og flytja þá heim aftur, hvern til síns óðals og hvern til síns lands.
16 Og ef þeir þá læra siðu þjóðar minnar og sverja við mitt nafn: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir!" eins og þeir hafa kennt þjóð minni að sverja við Baal, _ þá skulu þeir þrífast meðal þjóðar minnar.
17 En ef einhver þjóð vill ekki heyra, þá slít ég þá þjóð upp og tortími henni _ segir Drottinn.
26 Þegar Jesús hafði lokið öllum þessum orðum, sagði hann við lærisveina sína:
2 "Þér vitið, að eftir tvo daga eru páskar. Þá verður Mannssonurinn framseldur til krossfestingar."
3 Æðstu prestarnir og öldungar lýðsins söfnuðust nú saman í höll æðsta prestsins, er Kaífas hét,
4 og réðu með sér að handsama Jesú með svikum og taka hann af lífi.
5 En þeir sögðu: "Ekki á hátíðinni, annars verður uppþot með lýðnum."
6 En Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa.
7 Kom þá til hans kona og hafði alabastursbuðk með dýrum smyrslum og hellti yfir höfuð honum, þar sem hann sat að borði.
8 Við þessa sjón urðu lærisveinarnir gramir og sögðu: "Til hvers er þessi sóun?
9 Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum."
10 Jesús varð þess vís og sagði við þá: "Hvað eruð þér að angra konuna? Gott verk gjörði hún mér.
11 Fátæka hafið þér jafnan hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.
12 Þegar hún hellti þessum smyrslum yfir líkama minn, var hún að búa mig til greftrunar.
13 Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindi þetta verður flutt, um heim allan, mun þess og getið verða, sem hún gjörði, til minningar um hana."
14 Þá fór einn þeirra tólf, Júdas Ískaríot að nafni, til æðstu prestanna
15 og sagði: "Hvað viljið þér gefa mér fyrir að framselja yður Jesú?" En þeir greiddu honum þrjátíu silfurpeninga.
16 Upp frá þessu leitaði hann færis að framselja hann.
17 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: "Hvar vilt þú, að vér búum þér páskamáltíðina?"
18 Hann mælti: "Farið til ákveðins manns í borginni, og segið við hann: ,Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum."`
19 Lærisveinarnir gjörðu sem Jesús bauð þeim og bjuggu til páskamáltíðar.
20 Um kvöldið sat hann til borðs með þeim tólf.
21 Og er þeir mötuðust, sagði hann: "Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig."
22 Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: "Ekki er það ég, herra?"
23 Hann svaraði þeim: "Sá sem dýfði hendi í fatið með mér, mun svíkja mig.
24 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst."
25 En Júdas, sem sveik hann, sagði: "Rabbí, ekki er það ég?" Jesús svaraði: "Þú sagðir það."
26 Þá er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: "Takið og etið, þetta er líkami minn."
27 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: "Drekkið allir hér af.
28 Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.
29 Ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki föður míns."
30 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins.
31 Þá segir Jesús við þá: "Á þessari nóttu munuð þér allir hneykslast á mér, því að ritað er: ,Ég mun slá hirðinn, og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast.`
32 En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu."
33 Þá segir Pétur: "Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast."
34 Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Á þessari nóttu, áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér."
35 Pétur svarar: "Þótt ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér." Eins töluðu allir lærisveinarnir.
36 Þá kemur Jesús með þeim til staðar, er heitir Getsemane, og hann segir við lærisveinana: "Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna."
37 Hann tók með sér þá Pétur og báða sonu Sebedeusar. Og nú setti að honum hryggð og angist.
38 Hann segir við þá: "Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið með mér."
39 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: "Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt."
40 Hann kemur aftur til lærisveinanna og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: "Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund?
41 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt."
42 Aftur vék hann brott annað sinn og bað: "Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist, að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji."
43 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra.
44 Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr.
45 Og hann kom til lærisveinanna og sagði við þá: "Sofið þér enn og hvílist? Sjá, stundin er komin og Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna.
46 Standið upp, förum! Í nánd er sá, er mig svíkur."
47 Meðan hann var enn að tala, kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum mikill flokkur frá æðstu prestunum og öldungum lýðsins, og höfðu þeir sverð og barefli.
48 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: "Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum."
49 Hann gekk beint að Jesú og sagði: "Heill, rabbí!" og kyssti hann.
50 Jesús sagði við hann: "Vinur, hví ertu hér?" Þá komu hinir, lögðu hendur á Jesú og tóku hann.
51 Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað.
52 Jesús sagði við hann: "Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.
53 Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?
54 Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?"
55 Á þeirri stundu sagði Jesús við flokkinn: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum.
56 En allt verður þetta til þess, að ritningar spámannanna rætist." Þá yfirgáfu hann lærisveinarnir allir og flýðu.
57 Þeir sem tóku Jesú höndum, færðu hann til Kaífasar, æðsta prests, en þar voru saman komnir fræðimennirnir og öldungarnir.
58 Pétur fylgdi honum álengdar, allt að garði æðsta prestsins. Þar gekk hann inn og settist hjá þjónunum til að sjá, hver yrði endir á.
59 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann,
60 en fundu ekkert, þótt margir ljúgvottar kæmu. Loks komu tveir
61 og sögðu: "Þessi maður sagði: ,Ég get brotið niður musteri Guðs og reist það aftur á þrem dögum."`
62 Þá stóð æðsti presturinn upp og sagði: "Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?"
63 En Jesús þagði. Þá sagði æðsti presturinn við hann: "Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur Guðs?"
64 Jesús svarar honum: "Þú sagðir það. En ég segi yður: Upp frá þessu munuð þér sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins."
65 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: "Hann guðlastar, hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið.
66 Hvað líst yður?" Þeir svöruðu: "Hann er dauðasekur."
67 Og þeir hræktu í andlit honum og slógu hann með hnefunum, en aðrir börðu hann með stöfum
68 og sögðu: "Spáðu nú, Kristur, hver var að slá þig?"
69 En Pétur sat úti í garðinum. Þar kom að honum þerna ein og sagði: "Þú varst líka með Jesú frá Galíleu."
70 Því neitaði hann svo allir heyrðu og sagði: "Ekki veit ég, hvað þú ert að fara."
71 Hann gekk út í fordyrið. Þar sá hann önnur þerna og sagði við þá, sem þar voru: "Þessi var með Jesú frá Nasaret."
72 En hann neitaði sem áður og sór þess eið, að hann þekkti ekki þann mann.
73 Litlu síðar komu þeir, er þar stóðu, og sögðu við Pétur: "Víst ertu líka einn af þeim, enda segir málfæri þitt til þín."
74 En hann sór og sárt við lagði, að hann þekkti ekki manninn. Um leið gól hani.
75 Og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt: "Áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér." Og hann gekk út og grét beisklega.
by Icelandic Bible Society