M’Cheyne Bible Reading Plan
22 Þá kallaði Jósúa Rúbeníta, Gaðíta og hálfa kynkvísl Manasse fyrir sig
2 og sagði við þá: "Þér hafið haldið allt það, sem Móse, þjónn Drottins, bauð yður. Þér hafið og hlýtt röddu minni í öllu því, er ég hefi fyrir yður lagt.
3 Þennan langa tíma allt fram á þennan dag hafið þér fylgi veitt bræðrum yðar og varðveitt hlýðni við boðorð Drottins, Guðs yðar.
4 En nú hefir Drottinn, Guð yðar, veitt bræðrum yðar hvíld, eins og hann hafði heitið þeim. Snúið því nú á leið og farið til tjalda yðar, til eignarlands yðar, þess er Móse, þjónn Drottins, gaf yður hinumegin Jórdanar.
5 Gætið þess einungis, að þér haldið vel boðorð það og lögmál, er Móse, þjónn Drottins, fyrir yður lagði: að þér elskið Drottin Guð yðar, gangið ávallt á vegum hans, geymið boð hans, haldið yður fast við hann og þjónið honum af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar."
6 Síðan blessaði Jósúa þá og lét þá burt fara, og þeir héldu til tjalda sinna.
7 Hálfri ættkvísl Manasse hafði Móse gefið land í Basan, en hinum helmingnum hafði Jósúa gefið land með bræðrum þeirra vestanmegin Jórdanar. Og þegar Jósúa lét þá burt fara til tjalda sinna, blessaði hann þá enn fremur
8 og sagði við þá: "Hverfið nú aftur til tjalda yðar með mikil auðæfi, mjög mikinn fénað, með silfur og gull, eir og járn, og með mjög mikið af klæðnaði; miðlið bræðrum yðar nokkru af því, er þér hafið tekið að herfangi af óvinum yðar."
9 Þá sneru þeir Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse aftur og skildu við Ísraelsmenn í Síló, sem er í Kanaanlandi og héldu til Gíleaðlands, eignarlands síns, þar sem þeir höfðu fest byggð eftir boði Drottins, er Móse flutti.
10 Er Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse komu til héraðsins við Jórdan, sem er í Kanaanlandi, reistu þeir þar altari við Jórdan, og var það mikið til að sjá.
11 Ísraelsmenn fengu þá svolátandi fregn: "Sjá, Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse hafa reist altari við landamæri Kanaanlands, í héruðunum við Jórdan, þeim megin er Ísraelsmenn eiga land."
12 Og er Ísraelsmenn spurðu það, þá safnaðist allur lýður Ísraelsmanna saman í Síló til þess að fara í móti þeim til hernaðar.
13 Þá sendu Ísraelsmenn Pínehas, son Eleasars prests, til Rúbens sona og Gaðs sona og hálfrar ættkvíslar Manasse til Gíleaðlands,
14 og með honum tíu höfuðsmenn, einn höfuðsmann af ætt hverri af öllum kynkvíslum Ísraels. Var hver þeirra höfðingi yfir ættum feðra sinna meðal þúsunda Ísraels.
15 Og er þeir komu til Rúbens sona og Gaðs sona og hálfrar ættkvíslar Manasse til Gíleaðlands, þá mæltu þeir við þá á þessa leið:
16 "Svo segir allur söfnuður Drottins: Hvílík er sú ótrúmennska, sem þér hafið sýnt gegn Guði Ísraels, að þér í dag hafið snúið yður burt frá Drottni, er þér hafið reist yður altari, að þér í dag hafið gjört uppreisn gegn Drottni!
17 Er oss ekki nógur glæpur sá, að vér tilbáðum Peór, og höfum vér ekki hreinsað oss af þeim glæp fram á þennan dag, enda kom plágan yfir söfnuð Drottins vegna hans. Og þér snúið yður í dag burt frá Drottni!
18 Mun þá svo fara: Þér gjörið í dag uppreisn gegn Drottni, og á morgun mun hann úthella reiði sinni yfir allan söfnuð Ísraels.
19 Ef land það er óhreint, er þér hafið hlotið til eignar, þá komið yfir í eignarland Drottins, þar sem búð Drottins hefir aðsetur, og setjist að meðal vor. En gjörið ekki uppreisn gegn Drottni og gjörið ekki uppreisn gegn oss með því að reisa yður altari annað en altari Drottins Guðs vors.
20 Kom ekki reiði Guðs yfir allan söfnuð Ísraels, þá er Akan Seraksson fór sviksamlega með hið bannfærða? Hann dó ekki einn fyrir glæp sinn."
21 Þá svöruðu þeir Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse og sögðu við höfðingja Ísraels þúsunda:
22 "Drottinn, hinn máttki Guð, Drottinn, hinn máttki Guð, hann veit það, og Ísrael skal vita það: Ef það er gjört í uppreisnar eða sviksemi skyni við Drottin, þá hjálpi hann oss eigi í dag!
23 Vér höfum ekki reist oss altari til þess að snúa oss burt frá Drottni. Ef það er gjört til þess að færa þar brennifórn og matfórn, eða til þess að fórna þar heillafórnum, þá hefni Drottinn þess!
24 Heldur höfum vér gjört það af hræðslu við, hvernig fara kynni, með því að vér hugsuðum: Síðar kynnu synir yðar að segja við sonu vora: ,Hvað kemur Drottinn, Ísraels Guð, yður við?
25 Drottinn hefir sett Jórdan sem landamerki milli vor og yðar Rúbens sona og Gaðs sona. Þér eigið enga hlutdeild í Drottni!` Kynnu þá synir yðar að koma sonum vorum til þess að hætta að óttast Drottin.
26 Fyrir því sögðum vér: Vér skulum reisa oss altari, ekki til brennifórna og ekki til sláturfórna,
27 heldur skal það vera til vitnis fyrir oss og fyrir yður, og fyrir niðja vora eftir oss, að vér viljum gegna þjónustu Drottins fyrir augliti hans með brennifórnum vorum, sláturfórnum og heillafórnum, og að synir yðar geti ekki á síðan sagt við sonu vora: ,Þér eigið enga hlutdeild í Drottni!`
28 Og vér hugsuðum: Ef þeir síðar mæla svo til vor eða niðja vorra, þá munum vér segja: Lítið á lögunina á því Drottins altari, sem feður vorir hafa gjört, ekki til brennifórna eða sláturfórna, heldur átti það að vera til vitnis fyrir oss og yður.
29 Því fer fjarri, að vér vildum gjöra uppreisn gegn Drottni og snúa oss burt frá Drottni í dag með því að reisa altari til brennifórna, matfórna og sláturfórna, annað en altari Drottins Guðs vors, það er stendur fyrir framan búð hans."
30 Þegar Pínehas prestur og höfuðsmenn safnaðarins, höfðingjar Ísraels þúsunda, sem með honum voru, heyrðu andsvör þau, er Rúbens synir og Gaðs synir og Manasse synir veittu, þá létu þeir sér það vel líka.
31 Og Pínehas, sonur Eleasars prests, sagði við Rúbens sonu og Gaðs sonu og Manasse sonu: "Í dag höfum vér sannreynt, að Drottinn er á meðal vor, þar sem þér hafið ekki sýnt ótrúmennsku gegn Drottni í þessu. Nú hafið þér frelsað Ísraelsmenn undan hendi Drottins."
32 Síðan sneri Pínehas, sonur Eleasars prests, og höfuðsmennirnir heim aftur frá Rúbens sonum og Gaðs sonum í Gíleaðlandi til Kanaanlands til Ísraelsmanna og færðu þeim þessi svör.
33 Létu Ísraelsmenn sér það vel líka, og þeir lofuðu Guð og hugðu ekki framar á að fara herför á móti þeim til þess að eyða land það, er Rúbens synir og Gaðs synir bjuggu í.
34 Og Rúbens synir og Gaðs synir nefndu altarið Vitni, því að það er vitni þess milli vor, að Drottinn er hinn sanni Guð.
2 Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir.
2 Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru.
3 Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra.
4 Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
5 Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum.
6 Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu.
7 Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: "Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala?
8 Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?
9 Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu,
10 frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm.
11 Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs."
12 Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: "Hvað getur þetta verið?"
13 En aðrir höfðu að spotti og sögðu: "Þeir eru drukknir af sætu víni."
14 Þá steig Pétur fram og þeir ellefu, og hann hóf upp rödd sína og mælti til þeirra: "Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum.
15 Eigi eru þessir menn drukknir, eins og þér ætlið, enda aðeins komin dagmál.
16 Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel segir:
17 Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma.
18 Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá.
19 Og ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk.
20 Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur Drottins kemur, hinn mikli og dýrlegi.
21 En hver sá, sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast.
22 Ísraelsmenn, heyrið þessi orð: Jesús frá Nasaret var maður, sem Guð sannaði yður með kraftaverkum, undrum og táknum, er Guð lét hann gjöra meðal yðar, eins og þér sjálfir vitið.
23 Hann var framseldur að fyrirhuguðu ráði Guðs og fyrirvitund, og þér létuð heiðna menn negla hann á kross og tókuð hann af lífi.
24 En Guð leysti hann úr nauðum dauðans og reisti hann upp, enda gat það aldrei orðið, að dauðinn fengi haldið honum,
25 því að Davíð segir um hann: Ávallt hafði ég Drottin fyrir augum mér, því að hann er mér til hægri hliðar, til þess að ég bifist ekki.
26 Fyrir því gladdist hjarta mitt, og tunga mín fagnaði. Meira að segja mun líkami minn hvílast í von.
27 Því að ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju og eigi láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.
28 Kunna gjörðir þú mér lífsins vegu. Þú munt mig fögnuði fylla fyrir þínu augliti.
29 Bræður, óhikað get ég við yður talað um ættföðurinn Davíð. Hann dó og var grafinn, og leiði hans er til hér allt til þessa dags.
30 En hann var spámaður og vissi, að Guð hafði með eiði heitið honum að setja í hásæti hans einhvern niðja hans.
31 Því sá hann fyrir upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð.
32 Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess.
33 Nú er hann upp hafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið.
34 Ekki steig Davíð upp til himna, en hann segir: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,
35 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.
36 Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi."
37 Er þeir heyrðu þetta, var sem stungið væri í hjörtu þeirra, og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: "Hvað eigum vér að gjöra, bræður?"
38 Pétur sagði við þá: "Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.
39 Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín."
40 Og með öðrum fleiri orðum vitnaði hann, áminnti þá og sagði: "Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð."
41 En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.
42 Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.
43 Ótta setti að hverjum manni, en mörg undur og tákn gjörðust fyrir hendur postulanna.
44 Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt.
45 Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.
46 Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans.
47 Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.
11 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:
2 Heyrið orð þessa sáttmála. Tala þú til Júdamanna og Jerúsalembúa
3 og seg við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Bölvaður sé sá maður, sem ekki hlýðir á orð þessa sáttmála,
4 er ég bauð feðrum yðar að halda, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum og sagði: "Hlýðið skipunum mínum og breytið eftir þeim, með öllu svo sem ég býð yður. Þá skuluð þér vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð,
5 til þess að ég fái haldið þann eið, er ég sór feðrum yðar, að gefa þeim land, sem flýtur í mjólk og hunangi, landið, sem þér eigið enn í dag." Og ég svaraði og sagði: Veri það svo, Drottinn!
6 Þá sagði Drottinn við mig: Boða þú öll þessi orð í Júdaborgum og á Jerúsalemstrætum og seg: Hlýðið á orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim.
7 Því að alvarlega hefi ég varað feður yðar við, þegar ég leiddi þá út af Egyptalandi og allt fram á þennan dag, iðulega og alvarlega, og sagt: "Hlýðið skipun minni!"
8 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur fóru hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta, og fyrir því lét ég fram á þeim koma öll orð þessa sáttmála, er ég hafði boðið þeim að halda, en þeir héldu ekki.
9 Þá sagði Drottinn við mig: "Það er samsæri milli Júdamanna og Jerúsalembúa.
10 Þeir eru horfnir aftur til misgjörða forfeðra sinna, sem eigi vildu hlýða orðum mínum, og þeir elta aðra guði, til þess að þjóna þeim. Ísraels hús og Júda hús hafa rofið minn sáttmála, þann er ég gjörði við feður þeirra.
11 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég leiði yfir þá ógæfu, er þeir ekki skulu fá undan komist, og er þeir þá hrópa til mín, mun ég ekki heyra þá.
12 En fari Júdaborgir og Jerúsalembúar og hrópi til þeirra guða, er þeir færa reykelsisfórnir, þá munu þeir vissulega heldur ekki hjálpa þeim á ógæfutíma þeirra.
13 Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar, og þér hafið reist eins mörg ölturu, til þess að fórna Baal á reykelsisfórnum, eins og stræti eru í Jerúsalem.
14 En þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, því að ég mun alls eigi heyra, þegar þeir kalla til mín á ógæfutíma þeirra."
15 Hvert erindi á mín ástkæra í hús mitt? Atferli hennar er lymskufullt. Munu bænahróp og heilagt fórnarkjöt nema illsku þína burt frá þér, svo að þú síðan megir fagna?
16 Fagurgrænt olíutré, prýtt dýrlegum ávöxtum, nefndi Drottinn þig eitt sinn, en í hvínandi ofviðri kveikir hann eld kringum það, og greinar þess brotna.
17 Drottinn allsherjar, sem gróðursetti þig, hefir hótað þér illu vegna illsku Ísraels húss og Júda húss, er þeir frömdu til þess að egna mig til reiði, þá er þeir færðu Baal reykelsisfórnir.
18 Drottinn gjörði mér það kunnugt og ég fékk að vita og sjá gjörðir þeirra.
19 Ég var sjálfur eins og vanið lamb, sem leitt er til slátrunar, og vissi ekki, að þeir voru að brugga ráð gegn mér: "Vér skulum eyða tréð í blóma þess og uppræta hann af landi lifenda, svo að nafns hans verði ekki minnst framar!"
20 En, Drottinn allsherjar, þú er réttlátlega dæmir og rannsakar nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt!
21 Fyrir því segir Drottinn svo um Anatótmenn, þá er sitja um líf þitt og segja: "Þú skalt ekki spá í nafni Drottins, ella skalt þú deyja fyrir hendi vorri."
22 Fyrir því mælir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég mun refsa þeim. Æskumennirnir skulu falla fyrir sverði, synir þeirra og dætur skulu deyja af hungri.
23 Og leifar munu þeim engar eftir verða, því að ég leiði óhamingju yfir Anatótmenn, árið sem þeim verður refsað.
25 Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína.
2 Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar.
3 Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér,
4 en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.
5 Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
6 Um miðnætti kvað við hróp: ,Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.`
7 Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.
8 En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.`
9 Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.`
10 Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.
11 Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ,Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.`
12 En hann svaraði: ,Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.`
13 Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.
14 Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.
15 Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.
16 Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm.
17 Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær.
18 En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
19 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.
20 Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.`
21 Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
22 Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.`
23 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
24 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.
25 Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.`
26 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki.
27 Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim.
28 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar.
29 Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
30 Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.
32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.
33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.
34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.
35 Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,
36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.`
37 Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?
38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?
39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?`
40 Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.`
41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.
42 Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka,
43 gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.`
44 Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?`
45 Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.`
46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."
by Icelandic Bible Society