Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jósúabók 18-19

18 Allur söfnuður Ísraelsmanna safnaðist saman í Síló, og reistu þeir þar samfundatjaldið, enda höfðu þeir nú lagt landið undir sig.

En enn þá voru eftir sjö ættkvíslir meðal Ísraelsmanna, sem eigi höfðu skipt arfleifð sinni.

Jósúa sagði þá við Ísraelsmenn: "Hversu lengi ætlið þér að vera svo tómlátir, að fara ekki og taka til eignar land það, sem Drottinn, Guð feðra yðar, hefir gefið yður?

Veljið nú þrjá menn af ættkvísl hverri, og mun ég senda þá út. Skulu þeir halda af stað og fara um landið og skrifa lýsingu á landinu með tilliti til þess, að því á að skipta meðal þeirra. Skulu þeir síðan koma aftur til mín.

Því næst skulu þeir skipta því í sjö hluti. Júda skal halda sínu landi í suðri, og hús Jósefs skal halda sínu landi í norðri.

En þér skuluð skrifa lýsingu landsins í sjö hlutum og færa mér hingað, síðan mun ég varpa hlutum fyrir yður hér frammi fyrir augliti Drottins, Guðs vors.

En levítarnir fá eigi hlut meðal yðar, heldur er prestdómur Drottins óðal þeirra. En Gað og Rúben og hálf ættkvísl Manasse hafa fengið sinn erfðahluta hinumegin Jórdanar, austanmegin, þann er Móse, þjónn Drottins, gaf þeim."

Þá tóku mennirnir, er fóru að skrifa lýsingu landsins, sig upp og héldu af stað, og Jósúa bauð þeim og mælti: "Farið nú og ferðist um landið og skrifið lýsingu þess, komið síðan aftur til mín. Mun ég þá varpa hlutum fyrir yður hér frammi fyrir Drottni í Síló."

Og mennirnir héldu af stað og fóru um landið og skrifuðu lýsingu þess í bók eftir borgunum í sjö hlutum. Síðan komu þeir til Jósúa í herbúðirnar í Síló.

10 Og Jósúa varpaði hlutum fyrir þá í Síló frammi fyrir Drottni, og Jósúa skipti þar landinu meðal Ísraelsmanna eftir skiptingu þeirra.

11 Kom nú upp hlutur kynkvíslar Benjamíns sona eftir ættum þeirra, og lá það land, er þeim hlotnaðist, milli Júda sona og Jósefs sona.

12 Landamerki þeirra að norðanverðu lágu frá Jórdan og upp á hálsinn fyrir norðan Jeríkó, og þaðan vestur á fjöllin og alla leið til eyðimerkurinnar hjá Betaven.

13 Þaðan lágu landamerkin yfir til Lúz, yfir á hálsinn fyrir sunnan Lúz, það er Betel. Þaðan lágu landamerkin niður til Aterót Addar, yfir á fjallið, sem er fyrir sunnan Bet Hóron neðri.

14 Þá beygðust landamerkin við og lágu í suðvestur frá fjallinu, sem er fyrir sunnan Bet Hóron, og lágu alla leið til Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím, borg Júda sona. Þetta voru vesturtakmörkin.

15 Suðurtakmörkin lágu frá útjaðrinum á Kirjat Jearím, og lágu þau í vestur og gengu út að Neftóavatnslind.

16 Þá lágu landamerkin niður að enda fjallsins, sem liggur andspænis Hinnomssonardal og norðanvert í Refaímdal, þaðan niður Hinnomsdal að Jebúsíta-öxl sunnanverðri, og þaðan niður að Rógel-lind.

17 Þaðan beygðust þau norður á við og lágu til En-Semes, og þaðan til Gelílót, sem liggur þar gegnt sem upp er gengið til Adúmmím, þaðan niður til steins Bóhans, Rúbenssonar,

18 þaðan yfir á hálsinn, sem liggur gegnt Araba norðanvert, og þaðan niður til Araba.

19 Þaðan lágu landamerkin norðan fram með hálsinum hjá Bet Hogla og alla leið að nyrstu vík Saltasjós, þar sem Jórdan fellur suður í hann. Þetta voru suðurtakmörkin.

20 Að austanverðu réð Jórdan mörkum. Þessi voru landamærin hringinn í kringum arfleifð Benjamíns, eftir ættum þeirra.

21 Borgir kynkvíslar Benjamíns sona, eftir ættum þeirra, voru: Jeríkó, Bet Hogla, Emek Kesís,

22 Bet Araba, Semaraím, Betel,

23 Avím, Para, Ofra,

24 Kefar Ammóní, Ofní og Geba, tólf borgir og þorpin er að liggja.

25 Gíbeon, Rama, Beerót,

26 Mispe, Kefíra, Mósa,

27 Rekem, Jirpeel, Tarala,

28 Sela, Elef, Jebúsítaborg, það er Jerúsalem, Gíbeat og Kirjat, fjórtán borgir og þorpin er að liggja. Þetta var arfleifð Benjamíns sona eftir ættum þeirra.

19 Næst kom upp hlutur Símeons, kynkvíslar Símeons sona eftir ættum þeirra, en arfleifð þeirra lá inni í arfleifð Júda sona miðri.

Þeir fengu að arfleifð: Beerseba og Seba, Mólada,

Hasar Súal, Bala, Esem,

Eltólað, Betúl, Horma,

Siklag, Bet Markabót, Hasar Súsa,

Bet Lebaót og Sarúhen, þrettán borgir og þorpin, er að liggja.

Aín, Rimmon, Eter og Asan, fjórar borgir og þorpin, er að liggja,

auk þess öll þau þorp, er lágu kringum borgir þessar allt til Baalat Beer, Rama suðurlandsins. Þetta var arfleifð kynkvíslar Símeons sona, eftir ættum þeirra.

Arfleifð Símeons sona var nokkur hluti af landshluta Júda sona, því að hluti Júda sona var of stór fyrir þá, og fyrir því fengu Símeons synir arfleifð í miðri arfleifð þeirra.

10 Þá kom upp þriðji hluturinn. Það var hlutur Sebúlons sona eftir ættum þeirra, og náðu landamerki arfleifðar þeirra allt til Saríd.

11 Og landamerki þeirra lágu í vestur upp til Marala, þaðan út til Dabbeset og lentu hjá læknum, sem rennur fyrir austan Jokneam.

12 Til austurs aftur á móti, gegnt upprás sólar, lágu þau frá Saríd til landamæra Kislót Tabors, þaðan til Daberat og þaðan upp til Jafía.

13 Þaðan lágu þau í austur, mót upprás sólar, yfir til Gat Hefer, til Et Kasín, síðan til Rimmon, sem nær allt til Nea.

14 Og landamerkin beygðu þar við, norður til Hannatón, og alla leið til Jifta-El-dals,

15 ásamt Katat, Nahalal, Simron, Jidala og Betlehem, tólf borgir og þorpin, er að liggja.

16 Þetta var arfleifð Sebúlons sona, eftir ættum þeirra: þessar borgir og þorpin, er að liggja.

17 Þá kom upp fjórði hluturinn. Það var hlutur Íssakars, Íssakars sona eftir ættum þeirra.

18 Og land þeirra tók yfir: Jesreel, Kesúllót, Súnem,

19 Hafaraím, Síón, Anaharat,

20 Rabbít, Kisjon, Ebes,

21 Remet, En-Ganním, En-Hadda og Bet Passes.

22 Og landamerkin náðu til Tabor, Sahasíma og Bet Semes, og alla leið til Jórdanar, sextán borgir og þorpin er að liggja.

23 Þetta var arfleifð kynkvíslar Íssakars sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin er að liggja.

24 Þá kom upp fimmti hluturinn. Það var hlutur kynkvíslar Assers sona, eftir ættum þeirra.

25 Og land þeirra tók yfir: Helkat, Halí, Beten, Aksaf,

26 Allammelek, Amead og Míseal, og þau náðu vestur að Karmel og Síhór Libnat.

27 Þaðan lágu þau í austur til Bet Dagón, og náðu að Sebúlon og Jifta-El-dal í norðri, Bet Emek og Negíel, og lágu norður til Kabúl,

28 Ebron, Rehób, Hammon og Kana, allt til hinnar miklu Sídon.

29 Þaðan beygðust landamerkin til Rama og allt til hinnar víggirtu borgar Týrus, og þaðan aftur til Hósa og þaðan alla leið til sjávar, frá því er Aksíbhéraði sleppir.

30 Auk þess Akkó, Afek og Rehób, tuttugu og tvær borgir og þorpin, er að liggja.

31 Þetta var arfleifð kynkvíslar Assers sona, eftir ættum þeirra, þessar borgir og þorpin, er að liggja.

32 Þá kom upp sjötti hluturinn. Það var hlutur Naftalí, Naftalí sona eftir ættum þeirra.

33 Og landamerki þeirra lágu frá Helef, frá eikunum hjá Saananním, Adamí Nekeb og Jabneel allt til Lakkúm og alla leið að Jórdan.

34 Þaðan gengu landamærin í vestur til Asnót Tabor, þaðan út til Húkkók, náðu til Sebúlons að sunnanverðu, til Assers að vestanverðu og til Júda við Jórdan gegnt upprás sólar.

35 Og víggirtar borgir voru þar: Siddím, Ser, Hammat, Rakkat, Kinneret,

36 Adama, Rama, Hasór,

37 Kedes, Edreí, En Hasór,

38 Jirón, Migdal, El, Horem, Bet Anat og Bet Semes _ nítján borgir og þorpin, er að liggja.

39 Þetta var arfleifð kynkvíslar Naftalí sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin, er að liggja.

40 Loks kom upp sjöundi hluturinn, og var það hlutur kynkvíslar Dans sona, eftir ættum þeirra.

41 Og landamerkin að arfleifð þeirra voru Sorea, Estaól, Ír-Semes,

42 Saalabbín, Ajalon, Jitla,

43 Elón, Timnat, Ekron,

44 Elteke, Gibbetón, Baalat,

45 Jehúd, Bene Berak, Gat Rimmon,

46 Me-Jarkón og Rakkon, ásamt landinu gegnt Jafó.

47 En land Dans sona gekk undan þeim. Þá fóru Dans synir og herjuðu á Lesem, unnu hana og tóku hana herskildi, slógu síðan eign sinni á hana og settust þar að og nefndu hana Dan eftir nafni Dans, föður þeirra.

48 Þetta var arfleifð kynkvíslar Dans sona eftir ættum þeirra, þessar borgir og þorpin, er að liggja.

49 Er Ísraelsmenn höfðu skipt landinu öllu til ystu ummerkja, gáfu þeir Jósúa Núnssyni óðal meðal sín.

50 Eftir boði Drottins gáfu þeir honum borg þá, er hann sjálfur kaus, en það var Timnat Sera í Efraímfjöllum. Hann byggði upp borgina og bjó þar síðan.

51 Þessar voru arfleifðirnar, er þeir Eleasar prestur, Jósúa Núnsson og ætthöfðingjar kynkvísla Ísraelsmanna úthlutuðu með hlutkesti í Síló frammi fyrir Drottni, við dyr samfundatjaldsins. Höfðu þeir nú lokið því að skipta landinu.

Sálmarnir 149-150

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!

Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!

Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!

Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!

Jeremía 9

Ó að höfuð mitt væri vatn og augu mín táralind, þá skyldi ég gráta daga og nætur þá, er fallið hafa af þjóð minni.

Ó að ég hefði sæluhús í eyðimörkinni, þá skyldi ég yfirgefa þjóð mína og fara burt frá þeim, því að allir eru þeir hórdómsmenn, flokkur svikara.

Þeir spenna tungu sína eins og boga sinn, með lygi, en eigi með sannleika, hafa þeir náð völdum í landinu, því að frá einni vonskunni ganga þeir til annarrar, en mig þekkja þeir ekki _ segir Drottinn.

Varið yður hver á öðrum og treystið engum bróður, því að sérhver bróðir beitir undirferli og sérhver vinur gengur með róg.

Þeir blekkja hver annan og sannleika tala þeir ekki. Þeir venja tungu sína á að tala lygi, kosta kapps um að gjöra rangt.

Þú býr mitt á meðal svikara. Vegna svika vilja þeir ekki þekkja mig _ segir Drottinn.

Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég vil hreinsa þá og reyna þá, því að hvernig ætti ég að fara öðruvísi að andspænis illsku þjóðar minnar?

Tunga þeirra er deyðandi ör, svik tala þeir, með munninum tala þeir vingjarnlega við náunga sinn, en í hjarta sínu sitja þeir á svikráðum við hann.

Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

10 Á fjöllunum vil ég hefja grát og harmakvein, og sorgarljóð á beitilöndunum í öræfunum, því að þau eru sviðin, svo að enginn fer þar um framar og menn heyra eigi framar baul hjarðanna. Bæði fuglar himinsins og villidýrin eru flúin, farin.

11 Og ég vil gjöra Jerúsalem að grjóthrúgum, að sjakalabæli, og Júdaborgir vil ég gjöra að auðn, þar sem enginn býr.

12 Hver er svo vitur maður, að hann skilji þetta? Hver er sá, er munnur Drottins hafi talað við, að hann megi kunngjöra hvers vegna landið er gjöreytt, sviðið eins og eyðimörk, sem enginn fer um?

13 En Drottinn sagði: Af því að þeir hafa yfirgefið lögmál mitt, sem ég setti þeim, og ekki hlýtt minni raustu og ekki farið eftir henni,

14 heldur farið eftir þverúð hjarta síns og elt Baalana, er feður þeirra höfðu kennt þeim að dýrka,

15 þess vegna _ svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð _ vil ég gefa þeim, þessum lýð, malurt að eta og eiturvatn að drekka,

16 og tvístra þeim meðal þjóða, sem hvorki þeir né feður þeirra hafa þekkt, og senda sverðið á eftir þeim, þar til er ég hefi gjöreytt þeim.

17 Takið eftir og kallið til harmkonur, að þær komi, og sendið til hinna vitru kvenna, að þær komi

18 og hraði sér að hefja harmakvein yfir oss, til þess að augu vor fljóti í tárum og vatnið streymi af hvörmunum.

19 Hátt harmakvein heyrist frá Síon: Hversu erum vér eyðilagðir, mjög til skammar orðnir, því að vér höfum orðið að yfirgefa landið, af því að þeir hafa brotið niður bústaði vora.

20 Já, heyrið, þér konur, orð Drottins, og eyra yðar nemi orð hans munns. Kennið dætrum yðar harmljóð og hver annarri sorgarkvæði!

21 Því að dauðinn er stiginn upp í glugga vora, kominn inn í hallir vorar, hann hrífur börnin af götunum, unglingana af torgunum.

22 Og líkin af mönnunum liggja eins og hlöss á velli og eins og kornbundin að baki kornskurðarmanninum, sem enginn tekur saman.

23 Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum.

24 Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun _ segir Drottinn.

25 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _, að ég mun hegna öllum umskornum, sem þó eru óumskornir:

26 Egyptalandi, Júda, Edóm, Ammónítum, Móab og öllum, sem skera hár sitt við vangann, þeim er búa í eyðimörkinni, _ því að allir heiðingjar eru óumskornir og allt Ísraels hús er óumskorið á hjarta.

Matteusarguðspjall 23

23 Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna:

"Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear.

Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.

Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.

Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.

Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum,

láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.

En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður.

Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.

10 Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.

11 Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.

12 Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [

14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.]

15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.

16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.`

17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið?

18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.`

19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina?

20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er.

21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr.

22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr.

23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!

25 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.

26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.

27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.

28 Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

29 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu

30 og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna.

31 Þannig vitnið þér sjálfir um yður, að þér eruð synir þeirra, sem myrtu spámennina.

32 Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar.

33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?

34 Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.

35 Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.

36 Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

37 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

38 Hús yðar verður í eyði látið.

39 Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ,Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins."`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society