M’Cheyne Bible Reading Plan
14 Þetta er það, sem Ísraelsmenn fengu að arfleifð í Kanaanlandi, það sem Eleasar prestur, Jósúa Núnsson og ætthöfðingjar kynkvísla Ísraelsmanna úthlutuðu þeim
2 með hlutkesti til arfleifðar, eins og Drottinn hafði skipað fyrir meðalgöngu Móse um níu kynkvíslirnar og hálfa.
3 Móse hafði gefið tveimur kynkvíslunum og hálfri óðul hinumegin Jórdanar, en levítunum hafði hann eigi gefið óðal meðal þeirra.
4 Jósefs synir voru tvær kynkvíslir, Manasse og Efraím, og levítunum gáfu þeir ekki hlut í landinu, heldur aðeins borgir til að búa í og beitilandið, er lá undir þær, handa fénaði þeirra og skepnum.
5 Eins og Drottinn hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn og skiptu landinu.
6 Þá gengu Júda synir fyrir Jósúa í Gilgal, og Kaleb Jefúnneson, Kenisíti, sagði við hann: "Þér er kunnugt um, hvað Drottinn sagði við guðsmanninn Móse um mig og þig í Kades Barnea.
7 Þá var ég fertugur að aldri, er Móse, þjónn Drottins, sendi mig frá Kades Barnea að kanna landið, og bar ég honum það, er ég vissi sannast.
8 En bræður mínir, sem með mér fóru, skelfdu hjörtu lýðsins, en ég fylgdi Drottni Guði mínum trúlega.
9 Og þann dag sór Móse og sagði: ,Sannlega skal land það, sem þú steigst fæti á, vera þín eign og sona þinna ævinlega, því að þú fylgdir Drottni Guði mínum trúlega.`
10 Og sjá, nú hefir Drottinn látið mig lifa, eins og hann lofaði, í þessi fjörutíu og fimm ár, síðan Drottinn sagði þetta við Móse, meðan Ísrael hefir farið um eyðimörkina, og sjá, nú hefi ég fimm um áttrætt.
11 Og enn í dag er ég eins hraustur og þegar Móse sendi mig. Orka mín er enn hin sama og hún var þá til að berjast og til að ganga út og inn.
12 Gef mér nú fjalllendi þetta, sem Drottinn talaði um þann dag, því að þú hlýddir sjálfur á þann dag. Anakítar eru þar og stórar, víggirtar borgir. Vera má, að Drottinn veiti mér fulltingi, svo ég fái stökkt þeim burt, eins og Drottinn hefir heitið."
13 Jósúa blessaði hann og gaf Kaleb Jefúnnesyni Hebron að arfleifð.
14 Fyrir því fékk Kaleb Jefúnneson, Kenisíti, Hebron að arfleifð, og er svo enn í dag, sökum þess að hann fylgdi Drottni, Ísraels Guði, trúlega.
15 En Hebron hét áður Kirjat Arba, eftir Arba þeim, er mestur var meðal Anakíta. Eftir það létti ófriði af landinu.
15 Hlutur sá, er kynkvísl Júda sona fékk eftir ættum þeirra, lá að landamærum Edóms, suður undir Síneyðimörk, syðst í landinu.
2 Suðurtakmörkin að landi þeirra voru frá enda Saltasjós, frá víkinni, er snýr til suðurs,
3 og lágu fyrir sunnan Sporðdrekaskarð og yfir til Sín og upp eftir fyrir sunnan Kades Barnea og yfir til Hesron, þaðan upp til Adar og því næst í boga til Karka.
4 Þaðan lágu þau yfir til Asmón og alla leið til Egyptalandsár, og síðast lágu takmörkin til sjávar. Þetta skulu vera landamerki þeirra að sunnanverðu.
5 Austurtakmörkin voru Saltisjór, allt til þess er Jórdan fellur í hann. Norðurmörkin lágu frá nyrstu vík vatnsins, þar sem Jórdan fellur í það.
6 Þaðan lágu takmörkin upp til Bet Hogla og fram hjá Bet Araba að norðanverðu og þaðan upp til steins Bóhans, Rúbenssonar.
7 Þá lágu takmörkin upp til Debír úr Akordal, þaðan í norður til Gilgal, sem liggur þar gegnt sem upp er gengið til Adúmmím, sem er sunnanvert við lækinn. Þaðan lágu takmörkin yfir til En-Semesvatns og þaðan alla leið að Rógel-lind.
8 Þaðan lágu landamerkin upp til Hinnomssonardals, að Jebúsítaöxl sunnanverðri; þar heitir nú Jerúsalem. Þaðan lágu landamerkin upp á fjallstindinn, sem er beint í vestur frá Hinnomsdal og við norðurendann á Refaímdal.
9 Frá fjallstindinum beygðust landamerkin til Neftóavatnslindar og lágu þaðan til borganna á Efronfjalli. Þaðan beygðust landamerkin til Baala; þar heitir nú Kirjat Jearím.
10 Frá Baala lágu landamerkin í boga vestur til Seírfjalls og þaðan yfir að öxl Jearímfjalls norðanverðri, það er Kesalon; og þaðan ofan til Bet Semes og yfir til Timna.
11 Þá lágu landamerkin norður til Ekron-axlar, þaðan beygðust þau til Síkrón og yfir til Baala-fjalls og alla leið til Jabneel, og síðast lágu takmörkin til sjávar.
12 Vesturtakmörkunum réð hafið mikla alla leið. Þetta voru landamerki Júda sona hringinn í kring, eftir ættum þeirra.
13 Kaleb Jefúnnesyni gaf hann hlut meðal Júda sona, eins og Drottinn hafði boðið Jósúa, sem sé borg Arba, föður Anaks; það er Hebron.
14 Og Kaleb rak þaðan þrjá sonu Anaks: Sesaí, Ahíman og Talmaí, afkomendur Anaks.
15 Þaðan fór hann móti Debír-búum, en Debír hét áður Kirjat Sefer.
16 Kaleb sagði: "Hver sem leggur Kirjat Sefer undir sig og vinnur hana, honum skal ég gefa Aksa dóttur mína að konu."
17 Þá vann Otníel Kenasson, bróðir Kalebs, borgina, og hann gaf honum Aksa dóttur sína að konu.
18 Þegar hún skyldi heim fara með bónda sínum, eggjaði hún hann þess, að hann skyldi beiðast lands nokkurs af föður hennar. Steig hún þá niður af asnanum. Kaleb spurði hana þá: "Hvað viltu?"
19 Hún svaraði: "Gef mér gjöf nokkra, af því að þú hefir gefið mig til Suðurlandsins. Gef mér því vatnsbrunna." Gaf hann henni þá brunna hið efra og brunna hið neðra.
20 Þetta er óðal kynkvíslar Júda sona, eftir ættum þeirra.
21 Syðstu borgirnar í kynkvísl Júda sona, við landamæri Edóms, í Suðurlandinu voru: Kabseel, Eder, Jagúr,
22 Kína, Dímóna, Adada,
23 Kedes, Hasór og Jítnan,
24 Síf, Telem, Bealót,
25 Hasór Hadatta og Keríjót Hesron, það er Hasór;
26 Amam, Sema, Mólada,
27 Hasar Gadda, Hesmon, Bet Pelet,
28 Hasar Súal, Beerseba og Bisjótja,
29 Baala, Ijím, Esem,
30 Eltólað, Kesíl, Horma,
31 Siklag, Madmanna, Sansanna,
32 Lebaót, Silhím, Aín og Rimmon, _ alls tuttugu og níu borgir og þorpin, er að liggja.
33 Á láglendinu: Estaól, Sórea, Asna,
34 Sanóa og En Ganním, Tappúa og Enam,
35 Jarmút og Adúllam, Sókó, Aseka,
36 Saaraím, Adítaím, Gedera og Gederótaím, _ fjórtán borgir og þorpin, er að liggja.
37 Senan, Hadasa, Migdal Gað,
38 Dílean, Mispe og Jokteel,
39 Lakís, Boskat, Eglon,
40 Kabbón, Lahmas, Kitlís
41 og Gederót, Bet Dagón, Naama og Makeda, _ sextán borgir og þorpin, er að liggja.
42 Líbna, Eter, Asan,
43 Jifta, Asna, Nesíb,
44 Kegíla, Aksíb og Maresa, _ níu borgir og þorpin, er að liggja.
45 Ekron með smáborgum hennar og þorpum.
46 Frá Ekron og vestur að hafi allt það, sem er á hlið við Asdód, og þorpin, er að liggja.
47 Asdód með smáborgum hennar og þorpum, Gasa með smáborgum hennar og þorpum, allt til Egyptalandsár, en vesturtakmörkum réð hafið mikla.
48 Í fjalllendinu: Samír, Jattír, Sókó,
49 Danna, Kirjat Sanna, það er Debír;
50 Anab, Estemó, Aním,
51 Gósen, Hólon og Gíló, _ ellefu borgir og þorpin, er að liggja.
52 Arab, Dúma, Esean,
53 Janúm, Bet Tappúa, Afeka,
54 Húmta, Kirjat Arba, það er Hebron; og Síór, _ níu borgir og þorpin, er að liggja.
55 Maon, Karmel, Síf, Júta,
56 Jesreel, Jokdeam, Sanóa,
57 Kaín, Gíbea og Timna, _ tíu borgir og þorpin, er að liggja.
58 Halhúl, Bet Súr, Gedór,
59 Maarat, Bet Anót og Eltekón, _ sex borgir og þorpin er að liggja.
60 Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím; og Rabba, _ tvær borgir og þorpin, er að liggja.
61 Í eyðimörkinni: Bet Araba, Middín, Sekaka,
62 Nibsan, Saltborgin og Engedí, _ sex borgir og þorpin er að liggja.
63 En Jebúsítana, sem bjuggu í Jerúsalem, gátu Júda synir ekki rekið burt. Fyrir því hafa Jebúsítar búið í Jerúsalem ásamt Júda sonum fram á þennan dag.
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
7 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:
2 Nem staðar við hlið musteris Drottins og boða þar þessi orð og seg: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, þér sem gangið inn um þetta hlið til þess að falla fram fyrir Drottni.
3 Svo segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og gjörðir, þá mun ég láta yður búa á þessum stað.
4 Reiðið yður ekki á lygatal, er menn segja: "Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins."
5 En ef þér bætið breytni yðar og gjörðir alvarlega, ef þér iðkið réttlæti í þrætum manna á milli,
6 undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað, og eltið ekki aðra guði, yður til tjóns,
7 þá vil ég láta yður búa á þessum stað, í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.
8 Sjá, þér reiðið yður á lygaræður, sem ekki eru til nokkurs gagns.
9 Er ekki svo: Stela, myrða, drýgja hór, sverja meinsæri, færa Baal reykelsisfórnir og elta aðra guði, er þér ekki þekkið,
10 og síðan komið þér og gangið fram fyrir mig í þessu húsi, sem kennt er við nafn mitt, og segið: "Oss er borgið!" og fremjið síðan að nýju allar þessar svívirðingar.
11 Er þá hús þetta, sem kennt er við nafn mitt, orðið að ræningjabæli í augum yðar? Já, ég lít svo á _ segir Drottinn.
12 Farið til bústaðar míns í Síló, þar sem ég forðum daga lét nafn mitt búa, og sjáið, hvernig ég hefi farið með hann fyrir sakir illsku lýðs míns Ísraels.
13 Og þar eð þér nú hafið framið öll þessi verk _ segir Drottinn _ og eigi hlýtt, þótt ég hafi talað til yðar seint og snemma, og eigi svarað, þótt ég hafi kallað á yður,
14 þá ætla ég að fara með húsið, sem kennt er við nafn mitt og þér treystið á, og staðinn, sem ég hefi gefið yður og feðrum yðar, eins og ég fór með Síló,
15 og útskúfa yður frá augliti mínu, eins og ég útskúfaði bræðrum yðar, öllum niðjum Efraíms.
16 Þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, og legg ekki að mér, því að ég heyri þig ekki.
17 Sér þú ekki hvað þeir hafast að í Júdaborgum og á strætum Jerúsalem?
18 Börnin tína saman eldivið og feðurnir kveikja eldinn, en konurnar hnoða deig til þess að gjöra af fórnarkökur handa himnadrottningunni, og færa öðrum guðum dreypifórnir til þess að skaprauna mér.
19 En skaprauna þeir mér _ segir Drottinn _, hvort ekki miklu fremur sjálfum sér, til þess að þeir verði sér herfilega til skammar?
20 Fyrir því segir herrann Drottinn svo: Reiði minni og heift mun úthellt verða yfir þennan stað, yfir menn og skepnur, yfir tré merkurinnar og yfir ávexti akurlendisins, _ og hún skal brenna og eigi slokkna.
21 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Bætið brennifórnum yðar við sláturfórnir yðar og etið kjöt!
22 Því að ég hefi ekkert talað til feðra yðar né boðið þeim nokkuð um brennifórnir og sláturfórnir, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi.
23 En þetta hefi ég boðið þeim: Hlýðið minni raustu, þá skal ég vera yðar Guð og þér skuluð vera mín þjóð, og gangið jafnan á þeim vegi, sem ég býð yður, til þess að yður vegni vel.
24 En þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við eyrun, en fóru eftir vélráðum síns illa hjarta og sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu.
25 Frá þeim degi, er feður yðar fóru burt af Egyptalandi, og fram á þennan dag, hefi ég stöðugt dag eftir dag sent þjóna mína, spámennina, til yðar.
26 En þeir heyrðu mig ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur gjörðust harðsvíraðir og breyttu enn verr en feður þeirra.
27 Og þótt þú talir öll þessi orð til þeirra, munu þeir ekki hlýða á þig, og þótt þú kallir til þeirra, munu þeir ekki svara þér.
28 Seg því við þá: Þetta er þjóðin, sem eigi hlýðir raustu Drottins, Guðs síns, og engri umvöndun tekur. Horfin er trúfestin, já, upprætt úr munni þeirra.
29 Sker af þér höfuðprýði þína og varpa henni frá þér og hef upp harmakvein á skóglausu hæðunum, því að Drottinn hefir hafnað og útskúfað þeirri kynslóð, sem hann reiddist.
30 Júdamenn hafa gjört það, sem illt er í mínum augum _ segir Drottinn _, þeir hafa reist upp viðurstyggðir sínar í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, og saurgað það
31 og byggt Tófet-fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal til þess að brenna sonu sína og dætur í eldi, sem ég hefi ekki boðið og mér hefir ekki í hug komið!
32 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _, að eigi mun framar verða talað um "Tófet" og "Hinnomssonar-dal," heldur um "Drápsdal," og menn munu jarða í Tófet vegna rúmleysis.
33 Lík þessa lýðs munu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar, og enginn mun fæla þau burt.
34 Þá mun ég láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt úr Júdaborgum og af strætum Jerúsalem, því að landið skal verða auðn.
21 Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina
2 og sagði við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér.
3 Ef einhver hefur orð um, þá svarið: ,Herrann þarf þeirra við,` og mun hann jafnskjótt senda þau."
4 Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:
5 Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.
6 Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim,
7 komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak.
8 Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn.
9 Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: "Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!"
10 Þegar hann kom inn í Jerúsalem, varð öll borgin í uppnámi, og menn spurðu: "Hver er hann?"
11 Fólkið svaraði: "Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu."
12 Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna
13 og mælti við þá: "Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,` en þér gjörið það að ræningjabæli."
14 Blindir og haltir komu til hans í helgidóminum, og hann læknaði þá.
15 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: "Hósanna syni Davíðs!" Þeir urðu gramir við
16 og sögðu við hann: "Heyrir þú, hvað þau segja?" Jesús svaraði þeim: "Já, hafið þér aldrei lesið þetta: ,Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof."`
17 Og hann fór frá þeim og úr borginni til Betaníu og hafði þar náttstað.
18 Árla morguns hélt hann aftur til borgarinnar og kenndi hungurs.
19 Hann sá fíkjutré eitt við veginn og gekk að því, en fann þar ekkert nema blöðin tóm. Hann segir við það: "Aldrei framar vaxi ávöxtur á þér að eilífu." En fíkjutréð visnaði þegar í stað.
20 Lærisveinarnir sáu þetta, undruðust og sögðu: "Hvernig gat fíkjutréð visnað svo fljótt?"
21 Jesús svaraði þeim: "Sannlega segi ég yður: Ef þér eigið trú og efist ekki, getið þér ekki aðeins gjört slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þér gætuð enda sagt við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og svo mundi fara.
22 Allt sem þér biðjið í bæn yðar, munuð þér öðlast, ef þér trúið."
23 Hann gekk í helgidóminn. Þá komu æðstu prestarnir og öldungar lýðsins til hans, þar sem hann var að kenna, og spurðu: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?"
24 Jesús svaraði þeim: "Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.
25 Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?" Þeir ráðguðust hver við annan og sögðu: "Ef vér svörum: ,Frá himni,` spyr hann: ,Hví trúðuð þér honum þá ekki?`
26 Ef vér segjum: ,Frá mönnum,` megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann."
27 Og þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Hann sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.
28 Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: ,Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.`
29 Hann svaraði: ,Það vil ég ekki.` En eftir á sá hann sig um hönd og fór.
30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ,Já, herra,` en fór hvergi.
31 Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?" Þeir svara: "Sá fyrri." Þá mælti Jesús: "Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.
32 Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.
33 Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.
34 Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn.
35 En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja.
36 Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.
37 Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: "Þeir munu virða son minn.
38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.`
39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
40 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?"
41 Þeir svara: "Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma."
42 Og Jesús segir við þá: "Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.
43 Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. [
44 Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.]"
45 Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá.
46 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.
by Icelandic Bible Society