M’Cheyne Bible Reading Plan
11 Þegar Jabín, konungur í Hasór, spurði þessi tíðindi, gjörði hann orð Jóbab, konungi í Madón, svo og konunginum í Simron og konunginum í Aksaf
2 og konungunum, sem fyrir norðan bjuggu, í fjalllendinu, á sléttlendinu fyrir sunnan Kínneret, á láglendinu og á Dórhæðum úti við hafið,
3 Kanaanítum, bæði fyrir austan og vestan, Amorítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum í fjalllendinu og Hevítum neðan undir Hermon í Mispalandi.
4 Héldu þeir af stað með allan sinn her; var það mannfjöldi svo mikill sem sandur á sjávarströnd. Höfðu þeir fjölda hesta og vagna.
5 Allir þessir konungar áttu með sér stefnu, fóru síðan og settu herbúðir sínar allir samt hjá Merómvötnum og bjuggust að eiga orustu við Ísrael.
6 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Ekki skalt þú hræðast þá, því að á morgun í þetta mund mun ég láta þá alla liggja fallna frammi fyrir Ísrael. Þú skalt skera sundur hásinarnar á hestum þeirra og brenna vagna þeirra í eldi."
7 Og Jósúa kom að þeim óvörum hjá Merómvötnum með allan sinn her, og gjörðu þeir áhlaup á þá.
8 Og Drottinn gaf þá í hendur Ísrael, og þeir unnu sigur á þeim og eltu þá allt til Sídon hinnar miklu og til Misrefót Majím og allt austur í Mispedal, og þeir felldu þá, svo að enginn af þeim komst undan.
9 Og Jósúa fór með þá, eins og Drottinn hafði sagt honum: Hann skar sundur hásinarnar á hestum þeirra og brenndi vagna þeirra í eldi.
10 Þá sneri Jósúa aftur og vann Hasór og felldi konung hennar með sverði, en Hasór var fyrrum höfuðborg allra þessara konungsríkja.
11 Og þeir felldu alla menn, er í henni voru, með sverðseggjum, með því að þeir bannfærðu þá. Var engin lifandi sála eftir skilin, og Hasór brenndi hann í eldi.
12 Jósúa náði á sitt vald öllum borgum þessara konunga, svo og konungunum sjálfum, og hann felldi þá með sverðseggjum, með því að hann bannfærði þá, eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið.
13 Þó lögðu Ísraelsmenn ekki eld í neinar þær borgir, sem stóðu uppi á hæðum, nema Hasór eina; hana brenndi Jósúa.
14 En öllu herfangi úr borgum þessum rændu Ísraelsmenn sér til handa, svo og fénaðinum, en menn alla felldu þeir með sverðseggjum, uns þeir höfðu gjöreytt þeim. Létu þeir enga lifandi sálu eftir.
15 Eins og Drottinn hafði boðið Móse, þjóni sínum, svo hafði Móse boðið Jósúa, og svo gjörði Jósúa. Hann lét ekkert ógjört af því, sem Drottinn hafði boðið Móse.
16 Þannig lagði Jósúa undir sig allt þetta land: fjalllendið, allt suðurlandið, allt Gósenland, láglendið, sléttlendið, svo og Ísraelsfjöll og láglendið, sem að þeim liggur,
17 frá Skallabergi, sem liggur upp til Seír, til Baal Gað í Líbanonsdal undir Hermonfjalli. Og öllum konungum þeirra náði hann á sitt vald, vann sigur á þeim og lét drepa þá.
18 Um langa hríð átti Jósúa í orustum við konunga þessa.
19 Engin var sú borg, er friðsamlega gengi Ísraelsmönnum á vald, nema Hevítar, þeir er bjuggu í Gíbeon. Allt unnu þeir með hernaði.
20 Því að það var frá Drottni komið, að hann stælti hjörtu þeirra til að fara í móti Ísrael til bardaga, til þess að þeir yrðu vægðarlaust bannfærðir og gjöreyddir, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
21 Í það mund fór og Jósúa og eyddi Anakítum úr fjalllendinu við Hebron, úr Debír, úr Anab og úr öllum Júdafjöllum og úr öllum Ísraelsfjöllum. Jósúa bannfærði þá, ásamt borgum þeirra.
22 Engir Anakítar urðu eftir í landi Ísraelsmanna, aðeins í Gasa, Gat og Asdód urðu nokkrir eftir.
23 Jósúa vann allt landið, öldungis eins og Drottinn hafði boðið Móse, og Jósúa gaf það Ísraelsmönnum til eignar, hverri ættkvísl sinn hluta. Eftir það létti ófriði af landinu.
144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.
2 Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.
3 Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.
4 Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.
5 Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.
6 Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.
7 Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.
8 Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.
10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.
11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.
13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,
14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.
15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.
5 Gangið fram og aftur um stræti Jerúsalem, litist um og rannsakið og leitið á torgunum, hvort þér finnið nokkurn mann, hvort þar sé nokkur, sem gjörir það sem rétt er og leitast við að sýna trúmennsku, og mun ég fyrirgefa henni.
2 Og þótt þeir segi: "svo sannarlega sem Drottinn lifir," sverja þeir engu að síður meinsæri.
3 En, Drottinn, líta ekki augu þín á trúfesti? Þú laust þá, en þeir kenndu ekkert til, þú eyddir þeim, en þeir vildu ekki taka aga. Þeir gjörðu andlit sín harðari en stein, þeir vildu ekki snúa við.
4 En ég hugsaði: "Það eru aðeins hinir lítilmótlegu, sem breyta heimskulega, af því að þeir þekkja ekki veg Drottins, réttindi Guðs síns.
5 Ég ætla að fara til stórmennanna og tala við þá, því að þeir þekkja veg Drottins, réttindi Guðs síns." En einmitt þeir höfðu allir saman brotið sundur okið og slitið af sér böndin.
6 Fyrir því drepur þá ljón úr skóginum, fyrir því eyðir þeim úlfurinn, sem hefst við á heiðunum. Pardusdýrið situr um borgir þeirra, svo að hver sá, er út úr þeim fer, verður rifinn sundur, því að afbrot þeirra eru mörg, fráhvarfssyndir þeirra miklar.
7 Hví skyldi ég fyrirgefa þér? Börn þín hafa yfirgefið mig og svarið við þá, sem ekki eru guðir, og þótt ég mettaði þá, tóku þeir fram hjá og þyrptust að hóruhúsinu.
8 Eins og sællegir stóðhestar hlaupa þeir til og frá og hvía hver að annars konu.
9 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _, eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?
10 Stígið upp á víngarðshjalla þjóðar minnar og rífið niður, en gjörið þó ekki aleyðing, takið burt vínviðargreinar hennar, því að þær heyra ekki Drottni.
11 Því að Ísraels hús og Júda hús hafa breytt mjög sviksamlega gegn mér _ segir Drottinn.
12 Þeir hafa afneitað Drottni og sagt: "Það er ekki hann, og engin ógæfa mun yfir oss koma, sverð og hungur munum vér ekki sjá.
13 Spámennirnir munu verða að vindi, því að orð Guðs býr ekki í þeim."
14 Fyrir því mælir Drottinn, Guð allsherjar, svo: Af því að þeir hafa mælt slíkum orðum, fer svo fyrir þeim sjálfum! Ég gjöri orð mín í munni þínum að eldi og þessa þjóð að eldiviði, til þess að hann eyði henni.
15 Sjá, ég læt þjóð koma yfir yður úr fjarlægu landi, Ísraels hús _ segir Drottinn. Það er óbilug þjóð, það er afar gömul þjóð, tungu þeirrar þjóðar þekkir þú ekki, og skilur ekki, hvað hún segir.
16 Örvamælir hennar er sem opin gröf, allir eru þeir kappar.
17 Hún mun eta uppskeru þína og neyslukorn þitt, þeir munu eta sonu þína og dætur. Hún mun eta sauði þína og naut, hún mun eta víntré þín og fíkjutré, hún mun brjóta niður með sverði hinar víggirtu borgir þínar, er þú reiðir þig á.
18 En á þeim dögum _ segir Drottinn _ mun ég samt ekki gjöra aleyðing á yður.
19 En ef þér þá segið: "Fyrir hvað gjörir Drottinn, Guð vor, oss allt þetta?" þá skalt þú segja við þá: "Eins og þér hafið yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum í yðar landi, svo skuluð þér verða annarra þrælar í landi, sem ekki er yðar land."
20 Kunngjörið það í húsi Jakobs og boðið það í Júda:
21 Heyr þetta, þú heimski og skilningslausi lýður, þér sem hafið augu, en sjáið ekki, þér sem hafið eyru, en heyrið ekki!
22 Mig viljið þér ekki óttast _ segir Drottinn _ eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana.
23 En lýður þessi er þverúðarfullur og þrjóskur í hjarta. Þeir hafa vikið af leið og horfið burt,
24 en sögðu ekki í hjarta sínu: "Óttumst Drottin, Guð vorn, sem gefur regnið, haustregnið og vorregnið, í réttan tíma og viðheldur handa oss ákveðnum uppskeruvikum."
25 Misgjörðir yðar hafa fært allt þetta úr skorðum, og syndir yðar hafa hrundið blessuninni burt frá yður.
26 Meðal lýðs míns eru óguðlegir menn. Þeir liggja í fyrirsát, eins og þegar fuglarar húka, þeir leggja snörur til þess að veiða menn.
27 Eins og fuglabúr fullt af fuglum, svo eru hús þeirra full af svikum; á þann hátt eru þeir orðnir miklir og auðugir.
28 Þeir eru orðnir feitir, það stirnir á þá. Þeir eru og fleytifullir af illskutali, málefni munaðarleysingjans taka þeir ekki að sér til þess að bera það fram til sigurs, og þeir reka ekki réttar fátæklinganna.
29 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?
30 Óttalegt og hryllilegt er það, sem við ber í landinu!
31 Spámennirnir kenna lygar og prestarnir drottna eftir tilsögn þeirra, og þjóð minni þykir fara vel á því. En hvað ætlið þér að gjöra, þegar að skuldadögunum kemur?
19 Þegar Jesús hafði mælt þessum orðum, fór hann úr Galíleu og hélt til byggða Júdeu handan Jórdanar.
2 Fjöldi manna fylgdi honum, og þar læknaði hann þá.
3 Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: "Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?"
4 Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu
5 og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.`
6 Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."
7 Þeir segja við hann: "Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?"
8 Hann svarar: "Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig.
9 Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór."
10 Þá sögðu lærisveinar hans: "Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast."
11 Hann svaraði þeim: "Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið.
12 Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær."
13 Þá færðu menn til hans börn, að hann legði hendur yfir þau og bæði fyrir þeim, en lærisveinar hans átöldu þá.
14 En Jesús sagði: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki."
15 Og hann lagði hendur yfir þau og fór þaðan.
16 Þá kom til hans maður og spurði: "Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
17 Jesús sagði við hann: "Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá hinn góði. Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin."
18 Hann spurði: "Hver?" Jesús sagði: "Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni,
19 heiðra föður þinn og móður, og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."
20 Þá sagði ungi maðurinn: "Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?"
21 Jesús sagði við hann: "Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér."
22 Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, fór hann brott hryggur, enda átti hann miklar eignir.
23 En Jesús sagði við lærisveina sína: "Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki.
24 Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, urðu þeir steini lostnir og sögðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"
26 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt."
27 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?"
28 Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
29 Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.
30 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.
by Icelandic Bible Society