M’Cheyne Bible Reading Plan
10 Er Adónísedek, konungur í Jerúsalem, frétti að Jósúa hefði unnið Aí og gjöreytt hana, að hann hefði farið með Aí og konung hennar eins og hann fór með Jeríkó og konung hennar, og að Gíbeonbúar hefðu gjört frið við Ísrael og byggju meðal þeirra,
2 þá urðu þeir mjög hræddir, því að Gíbeon var stór borg, engu minni en konungaborgirnar, og hún var stærri en Aí og allir borgarbúar hreystimenn.
3 Sendi Adónísedek, konungur í Jerúsalem, þá til Hóhams, konungs í Hebron, til Pírams, konungs í Jarmút, til Jafía, konungs í Lakís, og til Debírs, konungs í Eglon, og lét segja þeim:
4 "Komið til móts við mig og veitið mér fulltingi, að vér megum vinna Gíbeon, því að hún hefir gjört frið við Jósúa og Ísraelsmenn."
5 Þá söfnuðust saman fimm konungar Amoríta og fóru þangað með öllu liði sínu: konungurinn í Jerúsalem, konungurinn í Hebron, konungurinn í Jarmút, konungurinn í Lakís og konungurinn í Eglon. Settust þeir um Gíbeon og tóku að herja á hana.
6 Gíbeonmenn sendu þá til Jósúa í herbúðirnar í Gilgal, og létu segja honum: "Slá ekki hendi þinni af þjónum þínum. Kom sem skjótast oss til hjálpar og veit oss fulltingi, því að allir konungar Amoríta, þeirra er búa í fjalllendinu, hafa safnast saman í móti oss."
7 Þá fór Jósúa frá Gilgal með allt lið sitt og alla kappa sína.
8 Drottinn sagði við Jósúa: "Þú skalt ekki hræðast þá, því að ég mun gefa þá í þínar hendur. Enginn þeirra mun fá staðist fyrir þér."
9 Jósúa kom nú að þeim óvörum, því að hann hélt áfram ferðinni alla nóttina frá Gilgal.
10 Og Drottinn gjörði þá felmtsfulla fyrir Ísrael og biðu þeir mikinn ósigur við Gíbeon, en hinir eltu þá í áttina til stígsins, er liggur upp að Bet Hóron, og felldu menn á flóttanum allt til Aseka og Makeda.
11 En er þeir flýðu fyrir Ísrael og voru á leið niður frá Bet Hóron, þá lét Drottinn stóra steina falla yfir þá af himni alla leið til Aseka, svo að þeir dóu. Voru þeir fleiri, er féllu fyrir haglsteinunum, en þeir, er Ísraelsmenn drápu með sverðseggjum.
12 Þá talaði Jósúa við Drottin, þann dag er Drottinn gaf Amoríta á vald Ísraelsmönnum, og hann mælti í áheyrn Ísraels: Sól statt þú kyrr í Gíbeon, og þú, tungl, í Ajalondal!
13 Og sólin stóð kyrr, og tunglið staðnaði, uns lýðurinn hafði hefnt sín á óvinum sínum. Svo er skrifað í Bók hinna réttlátu. Þá staðnaði sólin á miðjum himni og hraðaði sér eigi að ganga undir nær því heilan dag.
14 Og enginn dagur hefir þessum degi líkur verið, hvorki fyrr né síðar, að Drottinn skyldi láta að orðum manns, því að Drottinn barðist fyrir Ísrael.
15 Jósúa fór þá aftur til herbúðanna í Gilgal og allur Ísrael með honum.
16 Konungarnir fimm, er fyrr var getið, flýðu og leyndust í hellinum hjá Makeda.
17 Þá var Jósúa sagt svo frá: "Konungarnir fimm eru fundnir. Þeir leynast í hellinum hjá Makeda."
18 Þá sagði Jósúa: "Veltið stórum steinum fyrir hellismunnann og setjið menn við hann til að gæta þeirra.
19 En sjálfir skuluð þér eigi staðar nema. Veitið óvinum yðar eftirför, vinnið á þeim, sem aftastir fara, og látið þá ekki komast inn í borgir sínar, því að Drottinn, Guð yðar, hefir gefið þá yður á vald."
20 Er Jósúa og Ísraelsmenn höfðu unnið mikinn sigur á þeim, svo að þeir voru frá með öllu (en þeir af þeim, er undan höfðu komist, höfðu farið inn í víggirtu borgirnar),
21 þá sneri allt liðið aftur til Jósúa í herbúðirnar við Makeda heilu og höldnu. Þorði enginn framar orð að mæla gegn Ísraelsmönnum.
22 Þá sagði Jósúa: "Opnið hellismunnann og leiðið þessa fimm konunga út til mín úr hellinum."
23 Þeir gjörðu svo og leiddu þessa fimm konunga til hans úr hellinum: konunginn í Jerúsalem, konunginn í Hebron, konunginn í Jarmút, konunginn í Lakís og konunginn í Eglon.
24 Og er þeir höfðu leitt konunga þessa út til Jósúa, þá kallaði Jósúa saman alla menn í Ísrael og sagði við fyrirliða hermannanna, þá er með honum höfðu farið: "Komið hingað og stígið fæti á háls konungum þessum!" Þeir gengu þá fram og stigu fæti á háls þeim.
25 Þá sagði Jósúa við þá: "Óttist ekki og látið ekki hugfallast, verið hughraustir og öruggir, því að svo mun Drottinn fara með alla óvini yðar, er þér berjist við."
26 Eftir það lét Jósúa drepa þá, og er hann hafði líflátið þá, lét hann hengja þá á fimm tré, og þeir héngu á trjánum allt til kvelds.
27 En er komið var undir sólarlag, bauð Jósúa að taka þá ofan af trjánum. Þá köstuðu þeir þeim í hellinn, sem þeir höfðu leynst í, og báru síðan stóra steina fyrir hellismunnann, og eru þeir þar enn í dag.
28 Þennan sama dag vann Jósúa Makeda og tók hana herskildi, og hann bannfærði konung hennar, svo og borgina og alla þá menn, sem í henni voru. Lét hann engan komast undan, og með konunginn í Makeda fór hann eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó.
29 Síðan fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Makeda til Líbna og herjaði á Líbna.
30 Og Drottinn gaf einnig hana í hendur Ísrael, svo og konung hennar, og hann tók hana herskildi og drap alla þá menn, er í henni voru. Lét hann þar engan komast undan, og hann fór með konung hennar eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó.
31 Því næst fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Líbna til Lakís og settist um hana og herjaði á hana.
32 Og Drottinn gaf Lakís í hendur Ísrael, og hann vann hana á öðrum degi og tók hana herskildi og drap alla menn, sem í henni voru, öldungis eins og hann hafði farið með Líbna.
33 Þá fór Hóram, konungur í Geser, til liðs við Lakís, en Jósúa felldi hann og lið hans, svo að enginn þeirra komst undan.
34 Því næst fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Lakís til Eglon, og þeir settust um hana og herjuðu á hana.
35 Og þeir unnu hana samdægurs og tóku hana herskildi, og alla menn, er í henni voru, bannfærði hann þennan sama dag, öldungis eins og hann hafði farið með Lakís.
36 Þá fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Eglon til Hebron, og þeir herjuðu á hana.
37 Og þeir unnu hana og tóku hana herskildi; og þeir felldu konung hennar og alla íbúana í borgunum þar umhverfis og alla menn, sem í henni voru, svo að enginn komst undan, öldungis eins og hann hafði farið með Eglon, og hann bannfærði borgina og alla menn, er í henni voru.
38 Þá sneri Jósúa og allur Ísrael með honum aftur til Debír og herjaði á hana.
39 Náði hann henni og konungi hennar og öllum borgunum þar umhverfis á sitt vald; felldu þeir þá með sverðseggjum og bannfærðu alla menn, er í henni voru, svo að enginn komst undan. Eins og hann hafði farið með Hebron, svo fór hann og með Debír og konung hennar, og eins og hann hafði farið með Líbna og konung hennar.
40 Þannig braut Jósúa undir sig landið allt: fjalllendið, suðurlandið, láglendið og hlíðarnar _, og hann felldi alla konunga þeirra, svo að enginn komst undan, og bannfærði allt, sem lífsanda dró, eins og Drottinn, Ísraels Guð, hafði boðið honum.
41 Og Jósúa lagði undir sig land allt frá Kades Barnea til Gasa og allt Gósenland til Gíbeon.
42 Og alla þessa konunga og land þeirra vann Jósúa í einu, því að Drottinn, Ísraels Guð, barðist fyrir Ísrael.
43 Sneri nú Jósúa og allur Ísrael með honum aftur til herbúðanna í Gilgal.
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.
6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.
9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
4 Þegar þú hverfur aftur, Ísrael _ segir Drottinn _ skalt þú hverfa aftur til mín. Ef þú flytur viðurstyggðir þínar burt frá augliti mínu og ert ekki framar á sveimi
2 og vinnur eiðinn "svo sannarlega sem Drottinn lifir" í sannleika, réttvísi og einlægni, munu þjóðir óska sér hans blessunar og hrósa sér af honum.
3 Já, svo segir Drottinn við Júdamenn og við Jerúsalem: Takið nýtt land til yrkingar og sáið ekki ofan í þyrna!
4 Umskerið yður fyrir Drottni og takið burt yfirhúð hjarta yðar, þér Júdamenn og Jerúsalembúar, svo að heiftarreiði mín brjótist ekki út, eins og eldur, og brenni svo, að eigi verði slökkt, sakir vonskuverka yðar.
5 Kunngjörið í Júda og boðið í Jerúsalem og segið: Þeytið lúður í landinu! Kallið fullum rómi og segið: Safnist saman, og förum inn í víggirtu borgirnar!
6 Reisið upp hermerki í áttina til Síonar, flýið undan, standið eigi við! Því að ég kem með ógæfu úr norðri og mikla eyðing.
7 Ljón er risið upp úr runni sínum, þjóða-eyðir lagður af stað, farinn að heiman til þess að gjöra land þitt að auðn, borgir þínar verða gjöreyddar, mannlausar.
8 Gyrðið yður því hærusekk, harmið og kveinið, því að hin brennandi reiði Drottins hefir ekki snúið sér frá oss.
9 En á þeim degi _ segir Drottinn _ munu konungurinn og höfðingjarnir standa ráðalausir, prestarnir verða agndofa og spámennirnir skelfast.
10 Þá mælti ég: "Æ, herra Drottinn! Vissulega hefir þú illa svikið þessa þjóð og Jerúsalem, þá er þú sagðir: ,Yður mun heill hlotnast!` þar sem sverðið gengur nú mjög nærri þeim."
11 Þá mun sagt verða um þessa þjóð og um Jerúsalem: Glóandi vindur af skóglausum hæðum í eyðimörkinni kemur gegn þjóð minni, hvorki verður sáldrað né hreinsað!
12 Ákafur vindur kemur í móti mér, en nú vil ég einnig kveða upp dóma gegn þeim.
13 Sjá, eins og ský þýtur hann áfram, og vagnar hans eru eins og vindbylur, hestar hans eru fljótari en ernir. Vei oss, það er úti um oss!
14 Þvo illskuna af hjarta þínu, Jerúsalem, til þess að þú frelsist. Hversu lengi eiga þínar syndsamlegu hugsanir að búa í brjósti þér?
15 Því heyr, menn segja tíðindi frá Dan og boða ógæfu frá Efraímfjöllum.
16 Segið þjóðunum frá því, kallið á þær gegn Jerúsalem! Umsátursmenn koma úr fjarlægu landi og hefja óp gegn Júdaborgum.
17 Eins og akurverðir sitja þeir hringinn í kringum hana, af því að hún hefir þrjóskast í gegn mér _ segir Drottinn.
18 Atferli þitt og gjörðir þínar hafa bakað þér þetta, þetta hefir þú fyrir illsku þína. Já, beiskt er það, það gengur mjög nærri þér.
19 Iður mín, iður mín! Ég engist sundur og saman! Ó, veggir hjarta míns! Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ég get ekki þagað! Því að önd mín heyrir lúðurhljóminn, bardagaópið.
20 Hrun á hrun ofan er boðað, já allt landið er eytt. Skyndilega eru tjöld mín eydd, tjalddúkar mínir tættir sundur allt í einu.
21 Hversu lengi á ég að sjá gunnfána, hversu lengi á ég að heyra lúðurhljóm?
22 Já, fíflsk er þjóð mín, mig þekkja þeir ekki. Heimskir synir eru þeir, og vanhyggnir eru þeir. Vitmenn eru þeir illt að fremja, en gott að gjöra kunna þeir ekki.
23 Ég leit jörðina, og sjá, hún var auð og tóm; ég horfði til himins, og ljós hans var slokknað.
24 Ég leit á fjöllin, og sjá, þau nötruðu, og allar hæðirnar, þær bifuðust.
25 Ég litaðist um, og sjá, þar var enginn maður, og allir fuglar himinsins voru flúnir.
26 Ég litaðist um, og sjá, aldingarðurinn var orðinn að eyðimörk og allar borgir hans gjöreyddar af völdum Drottins, af völdum hans brennandi reiði.
27 Svo segir Drottinn: Auðn skal allt landið verða, en aleyðing á því vil ég ekki gjöra.
28 Vegna þessa syrgir jörðin og himinninn uppi er dimmur, af því að ég hefi sagt það, og mig iðrar þess eigi, hefi ákveðið það og hætti ekki við það.
29 Fyrir harki riddaranna og bogmannanna er hver borg á flótta. Menn skríða inn í runna og stíga upp á kletta. Allar borgir eru yfirgefnar og enginn maður býr framar í þeim.
30 En þú, eyðingunni ofurseld, hvað ætlar þú að gjöra? Þótt þú klæðist skarlati, þótt þú skreytir þig með gullskarti, þótt þú smyrjir augu þín blýlit _, til einskis gjörir þú þig fagra. Friðlarnir hafna þér, þeir sitja um líf þitt.
31 Já, hljóð heyri ég, eins og í jóðsjúkri konu, angistaróp, eins og í konu, sem er að ala fyrsta barnið, óp dótturinnar Síonar, sem stendur á öndinni af kvölum og breiðir út hendurnar: "Ó, vei mér, því að örmagna hnígur sál mín fyrir morðingjum."
18 Á þeirri stundu komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: "Hver er mestur í himnaríki?"
2 Hann kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra
3 og sagði: "Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.
4 Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.
5 Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.
6 En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.
7 Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur.
8 Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls, þá sníð hann af og kasta frá þér. Betra er þér handarvana eða höltum inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og báða fætur og verða kastað í hinn eilífa eld.
9 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér eineygðum inn að ganga til lífsins en hafa bæði augu og verða kastað í eldsvítið.
10 Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður. [
11 Því að Mannssonurinn er kominn að frelsa hið týnda.]
12 Hvað virðist yður? Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess, sem villtur er?
13 Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni, að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu, sem villtust ekki frá.
14 Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist.
15 Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér], skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.
16 En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.`
17 Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.
18 Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.
19 Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim.
20 Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra."
21 Þá gekk Pétur til hans og spurði: "Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?"
22 Jesús svaraði: "Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.
23 Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil.
24 Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur.
25 Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni.
26 Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.`
27 Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
28 Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,Borga það, sem þú skuldar!`
29 Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.`
30 En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina.
31 Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði.
32 Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig.
33 Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?`
34 Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.
35 Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum."
by Icelandic Bible Society