M’Cheyne Bible Reading Plan
7 En Ísraelsmenn fóru sviksamlega með hið bannfærða. Akan Karmíson, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl, tók af hinu bannfærða. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísraelsmönnum.
2 Nú sendi Jósúa menn frá Jeríkó til Aí, sem er hjá Betaven, fyrir austan Betel, og sagði við þá: "Farið og kannið landið." Og mennirnir fóru og könnuðu Aí.
3 Þeir sneru aftur til Jósúa og sögðu við hann: "Lát ekki allan lýðinn fara upp þangað. Hér um bil tvær eða þrjár þúsundir manna geta farið og unnið Aí. Ómaka eigi allan lýðinn þangað, því að þeir eru fáliðaðir fyrir."
4 Þá fóru þangað hér um bil þrjár þúsundir manns af lýðnum, en þeir flýðu fyrir Aí-mönnum.
5 Og Aí-menn felldu hér um bil þrjátíu og sex menn af þeim og eltu þá frá borgarhliðinu alla leið að grjótnámunum og unnu sigur á þeim í hlíðinni. Þá æðraðist lýðurinn og varð að gjalti.
6 Jósúa reif klæði sín og féll fram á ásjónu sína til jarðar fyrir örk Drottins og lá þar allt til kvelds, hann og öldungar Ísraels, og jusu mold yfir höfuð sér.
7 Og Jósúa sagði: "Æ, Drottinn Guð, hví leiddir þú lýð þennan yfir Jórdan, ef þú selur oss nú í hendur Amorítum, til þess að þeir gjöri út af við oss? Ó að vér hefðum látið oss það lynda að vera kyrrir hinumegin Jórdanar!
8 Æ, Drottinn, hvað á ég að segja, nú þegar Ísrael hefir orðið að flýja fyrir óvinum sínum?
9 Og þegar Kanaanítar og aðrir landsbúar spyrja þetta, munu þeir umkringja oss og afmá nafn vort af jörðinni. Hvað ætlar þú þá að gjöra til að halda uppi þínu mikla nafni?"
10 Drottinn sagði við Jósúa: "Rís þú upp! Hví liggur þú hér fram á ásjónu þína?
11 Ísrael hefir syndgað, þeir hafa rofið sáttmála minn, þann er ég bauð þeim að halda. Þeir hafa tekið af hinu bannfærða, þeir hafa stolið, þeir hafa leynt því og lagt það hjá sínum munum.
12 Fyrir því fá Ísraelsmenn eigi staðist fyrir óvinum sínum, heldur leggja þeir á flótta fyrir þeim, því að þeir eru í banni. Ég vil eigi vera með yður eftir þetta, ef þér eyðið eigi hinu bannfærða, sem meðal yðar er.
13 Rís þú upp, helga þú lýðinn og seg: ,Helgið yður til morgundagsins,` því að svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Bannfærðir hlutir eru hjá þér, Ísrael! Þú munt eigi fá staðist fyrir óvinum þínum, uns þér hafið komið hinum bannfærðu hlutum burt frá yður.`
14 Á morgun snemma skuluð þér leiddir verða fram eftir ættkvíslum yðar, og sú ættkvísl, sem Drottinn lætur hlut falla á, skal ganga fram eftir kynþáttum, og sá kynþáttur, sem Drottinn lætur hlut falla á, skal ganga fram eftir ættum, og af þeirri ætt, sem Drottinn lætur hlut falla á, skulu karlmennirnir ganga fram, hver út af fyrir sig.
15 En þann skal brenna í eldi, sem hið bannfærða finnst hjá, svo og allt, sem hann á, því að hann hefir rofið sáttmála Drottins og framið óhæfuverk í Ísrael."
16 Jósúa reis árla morguninn eftir og leiddi Ísrael fram, hverja ættkvísl út af fyrir sig. Kom þá upp hlutur Júda ættkvíslar.
17 Þá leiddi hann fram kynþáttu Júda, og kom upp hlutur Seraks kynþáttar. Því næst leiddi hann fram kynþátt Seraks, hverja ætt út af fyrir sig, og kom upp hlutur Sabdí ættar.
18 Síðan leiddi hann fram ætt hans, hvern karlmann út af fyrir sig, og kom þá upp hlutur Akans Karmísonar, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl.
19 Þá sagði Jósúa við Akan: "Sonur minn, gef þú Drottni, Ísraels Guði, dýrðina og gjör játningu fyrir honum. Seg mér, hvað þú hefir gjört, leyn mig engu."
20 Akan svaraði Jósúa og sagði: "Sannlega hefi ég syndgað gegn Drottni, Ísraels Guði. Svo og svo hefi ég gjört.
21 Ég sá meðal herfangsins fagra skikkju sínearska, tvö hundruð sikla silfurs, og gullstöng eina, er vó fimmtíu sikla. Ég ágirntist þetta og tók það. Og sjá, það er fólgið í jörðu í tjaldi mínu og silfrið undir."
22 Jósúa sendi þá sendimenn þangað. Þeir runnu til tjaldsins, og sjá, það var fólgið í tjaldi hans, og silfrið undir.
23 Og þeir tóku það úr tjaldinu og færðu það Jósúa og öllum Ísraelsmönnum og lögðu það niður frammi fyrir Drottni.
24 Þá tók Jósúa Akan Seraksson, silfrið, skikkjuna, gullstöngina, sonu hans og dætur, uxa hans, asna og sauðfé, svo og tjald hans og allt, sem hann átti, í viðurvist alls Ísraels, og fór með það upp í Akordal.
25 Þá sagði Jósúa: "Hví hefir þú stofnað oss í ógæfu? Drottinn stofni þér í ógæfu í dag!" Og allur Ísrael lamdi hann grjóti, og þeir brenndu þá í eldi og grýttu þá.
26 Gjörðu þeir steindys mikla yfir hann, og er hún þar enn í dag. Og Drottinn lét af hinni brennandi reiði sinni. Fyrir því heitir þessi staður Akordalur allt fram á þennan dag.
137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"
4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
1 Ræður Jeremía Hilkíasonar, er var einn af prestunum í Anatót í Benjamínslandi,
2 en til hans kom orð Drottins á dögum Jósía Amónssonar, konungs í Júda, á þrettánda ríkisári hans.
3 Og það kom enn fremur á dögum Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, allt til ársloka hins ellefta árs Sedekía Jósíasonar, konungs í Júda, allt til herleiðingar Jerúsalembúa í fimmta mánuðinum.
4 Orð Drottins kom til mín:
5 Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna!
6 Þá sagði ég: Æ, herra Drottinn! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.
7 En Drottinn sagði við mig: Seg ekki: "Ég er enn svo ungur!" heldur skalt þú fara til allra, sem ég sendi þig til, og tala allt það, er ég býð þér.
8 Þú skalt ekki óttast þá, því að ég er með þér til þess að frelsa þig! _ segir Drottinn.
9 Því næst rétti Drottinn út hönd sína og snart munn minn. Og Drottinn sagði við mig: Sjá, ég legg orð mín þér í munn.
10 Sjá þú, ég set þig í dag yfir þjóðirnar og yfir konungsríkin til þess að uppræta og umturna, eyða og rífa niður, byggja og gróðursetja!
11 Orð Drottins kom til mín: Hvað sér þú, Jeremía? Ég svaraði: Ég sé möndluviðargrein.
12 En Drottinn sagði við mig: Þú hefir séð rétt, því að ég vaki yfir orði mínu til þess að framkvæma það.
13 Þá kom orð Drottins til mín annað sinn: Hvað sér þú? Ég svaraði: Ég sé sjóðandi pott, og snýr hann framhliðinni að oss úr norðri.
14 Þá sagði Drottinn við mig: Úr norðri mun ógæfan koma sjóðandi yfir alla íbúa landsins.
15 Því sjá, ég kalla allar ættkvíslir ríkjanna í norðri _ Drottinn segir það _, til þess að þeir komi og reisi hver og einn upp hásæti sitt úti fyrir hliðum Jerúsalem og gegn öllum múrum hennar hringinn í kring og gegn öllum borgum í Júda.
16 Og ég mun kveða upp dóma mína yfir þeim, vegna allrar illsku þeirra, að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og fallið fram fyrir handaverkum sínum.
17 En gyrð þú lendar þínar, statt upp og tala til þeirra allt, sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá, til þess að ég gjöri þig ekki hræddan frammi fyrir þeim.
18 Sjá, ég gjöri þig í dag að rammbyggðri borg og að járnsúlu og að eirveggjum gegn öllu landinu, gegn Júdakonungunum, gegn höfðingjum þess, gegn prestum þess og gegn öllum landslýðnum,
19 og þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig _ Drottinn segir það.
15 Nú komu til Jesú farísear og fræðimenn frá Jerúsalem og sögðu:
2 "Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna? Þeir taka ekki handlaugar, áður en þeir neyta matar."
3 Hann svaraði þeim: "Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar?
4 Guð hefur sagt: ,Heiðra föður þinn og móður,` og: ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`
5 En þér segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: ,Það sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er musterisfé,`
6 hann á ekki að heiðra föður sinn [eða móður]. Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar.
7 Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir:
8 Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.
9 Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar."
10 Og hann kallaði til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið og skiljið.
11 Ekki saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn, sem út fer af munni."
12 Þá komu lærisveinar hans og sögðu við hann: "Veistu, að farísearnir hneyksluðust, þegar þeir heyrðu orð þín?"
13 Hann svaraði: "Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða.
14 Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju."
15 Þá sagði Pétur við hann: "Skýrðu fyrir oss líkinguna."
16 Hann svaraði: "Eruð þér líka skilningslausir ennþá?
17 Skiljið þér ekki, að allt sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni?
18 En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn.
19 Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.
20 Þetta er það, sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann."
21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar.
22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda."
23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum."
24 Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt."
25 Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!"
26 Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."
27 Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra."
28 Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar.
30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá.
31 Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.
32 Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni."
33 Lærisveinarnir sögðu: "Hvar fáum vér nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?"
34 Jesús spyr: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir svara: "Sjö, og fáeina smáfiska."
35 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina,
36 tók brauðin sjö og fiskana, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum, en lærisveinarnir fólkinu.
37 Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar.
38 En þeir, sem neytt höfðu, voru fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna.
39 Síðan lét hann fólkið fara, sté í bátinn og kom í Magadanbyggðir.
by Icelandic Bible Society