M’Cheyne Bible Reading Plan
6 Þá lét Jósúa Núnsson kalla prestana og sagði við þá: "Þér skuluð bera sáttmálsörkina, og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örk Drottins."
7 Og við lýðinn sagði hann: "Farið og gangið kringum borgina, en þeir sem hertygjaðir eru, skulu fara fyrir örk Drottins."
8 Er Jósúa hafði talað til lýðsins, gengu sjö prestarnir, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum, fram fyrir augliti Drottins og þeyttu lúðrana, en sáttmálsörk Drottins fór á eftir þeim.
9 Þeir sem hertygjaðir voru, gengu á undan prestunum, þeim sem lúðrana þeyttu, en múgurinn fylgdi eftir örkinni, og var í sífellu blásið í lúðrana.
10 Og Jósúa bauð lýðnum á þessa leið: "Þér skuluð ekki æpa heróp og enga háreysti gjöra og ekkert orð mæla, fyrr en ég segi við yður: ,Æpið nú heróp!` Þá skuluð þér æpa heróp."
11 Og hann lét fara með örk Drottins hringinn í kringum borgina einu sinni. Síðan gengu menn til herbúðanna og voru um nóttina í herbúðunum.
12 Jósúa reis árla um morguninn. Tóku nú prestarnir örk Drottins,
13 og prestarnir sjö, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum fyrir örk Drottins, gengu og þeyttu lúðrana í sífellu, og þeir, sem hertygjaðir voru, gengu á undan þeim, en múgurinn fylgdi eftir örk Drottins, og var í sífellu blásið í lúðrana.
14 Þeir gengu og einu sinni kringum borgina annan daginn, fóru síðan aftur til herbúðanna. Svo gjörðu þeir í sex daga.
15 Hinn sjöunda dag risu þeir, þegar er lýsti af degi, og gengu með sama hætti kringum borgina sjö sinnum. Þennan daginn gengu þeir sjö sinnum kringum borgina.
16 En í sjöunda sinnið þeyttu prestarnir lúðrana. Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Æpið nú heróp, því að Drottinn hefir gefið yður borgina.
17 En borgin skal með banni helguð Drottni og allt sem í henni er. Portkonan Rahab ein skal lífi halda, svo og allir þeir, sem með henni eru í húsinu, því að hún leyndi sendimönnunum, er vér sendum.
18 Gætið yðar aðeins fyrir hinu bannfærða, að þér eigi girnist neitt af því og takið það, og leiðið með því bannfæring yfir herbúðir Ísraels og stofnið þeim í ógæfu.
19 Allt silfur og gull, og allir hlutir, sem af eiri eða járni eru gjörðir, skulu vera Drottni helgaðir og koma í féhirslu Drottins."
20 Þá æpti lýðurinn heróp, og þeir þeyttu lúðrana. Og er lýðurinn heyrði lúðurhljóminn, æpti lýðurinn heróp mikið. Hrundi þá múrinn til grunna, en lýðurinn gekk inn í borgina, hver þar sem hann var staddur. Þannig unnu þeir borgina.
21 Og þeir bannfærðu allt, sem í borginni var, bæði karla og konur, unga og gamla, naut og sauði og asna, með sverðseggjum.
22 En við mennina tvo, er kannað höfðu landið, sagði Jósúa: "Farið í hús portkonunnar og leiðið burt þaðan konuna og alla, sem henni heyra, eins og þið sóruð henni."
23 Fóru þá sveinarnir, þeir er njósnað höfðu, og leiddu Rahab burt, föður hennar og móður, bræður hennar og alla, sem henni heyrðu. Þeir leiddu og burt alla ættmenn hennar og settu þá fyrir utan herbúðir Ísraels.
24 En borgina brenndu þeir í eldi og allt, sem í henni var. Aðeins silfur og gull og hluti þá, sem af eiri eða járni voru gjörðir, lögðu þeir í féhirslu húss Drottins.
25 En portkonunni Rahab og ættliði föður hennar gaf Jósúa líf, svo og öllum þeim, er henni heyrðu, og bjó hún og niðjar hennar meðal Ísraels upp frá því fram á þennan dag, fyrir því að hún leyndi sendimönnunum, er Jósúa hafði sent til þess að kanna Jeríkó.
26 Í það mund lýsti Jósúa þessari bannfæringu: "Bölvaður sé sá maður fyrir Drottni, sem fer til og reisir að nýju þessa borg, Jeríkó! Frumgetning sinn skal hann missa, þegar hann leggur undirstöður hennar, og yngsta son sinn, er hann reisir hlið hennar."
27 En Drottinn var með Jósúa, og barst orðstír hans um allt landið.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
3 þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,
5 honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,
6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,
7 honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,
8 sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,
9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,
10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,
12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,
13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,
14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,
15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,
16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,
17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,
20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,
21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,
22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,
23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,
24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,
25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.
26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.
66 Svo segir Drottinn: Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér, og hvar er sá staður, sem verið geti bústaður minn?
2 Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið _ segir Drottinn. Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.
3 Sá sem slátrar uxa, er ekki mætari en manndrápari, sá sem fórnar sauð, er ekki mætari en sá sem hengir hund, sá sem færir fórnargjöf, ekki mætari en sá sem ber fram svínablóð, sá sem brennir reykelsi, ekki mætari en sá sem blessar skurðgoð. Eins og þeir hafa valið sína vegu og eins og sál þeirra hefir mætur á hinum viðurstyggilegu goðum þeirra,
4 eins mun ég láta mér vel líka að hrjá þá og láta yfir þá koma það, er þeir hræðast. Því að enginn gegndi, þegar ég kallaði, og þeir heyrðu ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðu mætur á því, sem mér mislíkaði.
5 Heyrið orð Drottins, þér sem skjálfið fyrir orði hans! Bræður yðar, er hata yður og reka yður burt frá sér fyrir sakir nafns míns, þeir segja: "Gjöri Drottinn sig dýrlegan, svo að vér megum sjá gleði yðar!" En þeir skulu til skammar verða.
6 Heyr gnýinn frá borginni, heyr óminn frá musterinu! Heyr, Drottinn geldur óvinum sínum fyrir tilverknað þeirra!
7 Hún fæðir, áður en hún kennir sín, hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en hún tekur jóðsóttina.
8 Hver hefir heyrt slíkt? Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu? Því að óðara en Síon hefir kennt sóttar, hefir hún alið börn sín.
9 Skyldi ég láta barnið komast í burðarliðinn og ekki láta það fæðast? _ segir Drottinn. Eða skyldi ég, sem læt barnið fæðast, loka móðurkviðnum? _ segir Guð þinn.
10 Gleðjist með Jerúsalem og fagnið yfir henni, allir þér sem elskið hana! Kætist með henni, allir þér sem nú hryggist yfir henni,
11 svo að þér megið sjúga og saddir verða við hugsvalandi brjóst hennar, svo að þér megið teyga og gæða yður við dýrðargnótt hennar.
12 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti, og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk. Þér skuluð liggja á brjóstum hennar og skuluð bornir verða á mjöðminni og yður skal hossað verða á hnjánum.
13 Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður. Í Jerúsalem skuluð þér huggaðir verða.
14 Þér munuð sjá það, og hjarta yðar mun fagna og bein yðar blómgast sem grængresi. Hönd Drottins mun kunn verða á þjónum hans, og hann mun láta óvini sína kenna á reiði sinni.
15 Því sjá, Drottinn kemur í eldi, og vagnar hans eru sem vindbylur, til þess að gjalda reiði sína í heift og hótun sína í eldslogum.
16 Því að Drottinn mun dóm heyja með eldi, og með sverði sínu yfir öllu holdi, og þeir munu margir verða, er Drottinn fellir.
17 Þeir sem helga sig og hreinsa sig til þess að fara inn í fórnarlundana, bak við einhvern, sem fyrir miðju er, sem eta svínakjöt, viðurstyggileg skriðdýr og mýs _ þeir skulu allir undir lok líða _ segir Drottinn.
18 En ég þekki athafnir þeirra og hugsanir. Sá tími kemur, að ég mun saman safna öllum þjóðum og tungum, og þær skulu koma og sjá mína dýrð.
19 Og ég mun gjöra tákn á þeim og senda flóttamenn frá þeim til þjóðanna, til Tarsis, Pút og Lúd, sem benda boga, til Túbal og Javan, til hinna fjarlægu eylanda, sem ekki hafa neina fregn af mér og ekki hafa séð dýrð mína, og þeir skulu kunngjöra dýrð mína meðal þjóðanna.
20 Þeir munu flytja alla bræður yðar heim frá öllum þjóðum sem fórnargjöf Drottni til handa, á hestum og á vögnum, í burðarstólum, á múlum og úlföldum, til míns heilaga fjalls, til Jerúsalem _ segir Drottinn _ eins og þegar Ísraelsmenn færa fórnargjafir í hreinum kerum til húss Drottins.
21 Og af þeim mun ég einnig taka presta og levíta _ segir Drottinn.
22 Já, eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti _ segir Drottinn _ eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt.
23 Og á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér _ segir Drottinn.
14 Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú.
2 Og hann segir við sveina sína: "Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."
3 En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar bróður síns,
4 því Jóhannes hafði sagt við hann: "Þú mátt ekki eiga hana."
5 Heródes vildi deyða hann, en óttaðist lýðinn, þar eð menn töldu hann vera spámann.
6 En á afmælisdegi Heródesar dansaði dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo,
7 að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um.
8 Að undirlagi móður sinnar segir hún: "Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara."
9 Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta.
10 Hann sendi í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar.
11 Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni, en hún færði móður sinni.
12 Lærisveinar hans komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú.
13 Þegar Jesús heyrði þetta, fór hann þaðan á báti á óbyggðan stað og vildi vera einn. En fólkið frétti það og fór gangandi á eftir honum úr borgunum.
14 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru.
15 Um kvöldið komu lærisveinarnir að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og dagur liðinn. Lát nú fólkið fara, að þeir geti náð til þorpanna og keypt sér vistir."
16 Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa þeir að fara, gefið þeim sjálfir að eta."
17 Þeir svara honum: "Vér höfum hér ekki nema fimm brauð og tvo fiska."
18 Hann segir: "Færið mér það hingað."
19 Og hann bauð fólkinu að setjast í grasið. Þá tók hann brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum, en þeir fólkinu.
20 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. Og þeir tóku saman brauðbitana, er af gengu, tólf körfur fullar.
21 En þeir, sem neytt höfðu, voru um fimm þúsund karlmenn, auk kvenna og barna.
22 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott.
23 Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn.
24 En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti.
25 En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu.
26 Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: "Þetta er vofa," og æptu af hræðslu.
27 En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."
28 Pétur svaraði honum: "Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu."
29 Jesús svaraði: "Kom þú!" Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans.
30 En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: "Herra, bjarga þú mér!"
31 Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: "Þú trúlitli, hví efaðist þú?"
32 Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn.
33 En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: "Sannarlega ert þú sonur Guðs."
34 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret.
35 Fólkið á þeim stað þekkti hann og sendi boð um allt nágrennið, og menn færðu til hans alla þá, er sjúkir voru.
36 Þeir báðu hann að mega rétt snerta fald klæða hans, og allir, sem snertu hann, urðu alheilir.
by Icelandic Bible Society