M’Cheyne Bible Reading Plan
5 Allir konungar Amoríta, þeirra er bjuggu fyrir vestan Jórdan, og allir konungar Kanaaníta, sem búa við hafið, heyrðu, að Drottinn hefði þurrkað vatnið í Jórdan fyrir Ísraelsmönnum, uns þeir voru komnir yfir um. Þá kom þeim æðra í brjóst og þeim féllst hugur fyrir Ísraelsmönnum.
2 Í það mund sagði Drottinn við Jósúa: "Gjör þér steinhnífa og umsker Ísraelsmenn öðru sinni."
3 Jósúa gjörði sér þá steinhnífa og umskar Ísraelsmenn á Yfirhúðahæð.
4 En sú var orsök til þess, að Jósúa umskar þá, að allur lýðurinn, sem af Egyptalandi fór, karlmennirnir, allir vígir menn, höfðu dáið í eyðimörkinni á leiðinni, eftir að þeir voru farnir af Egyptalandi.
5 Allir þeir, er þaðan fóru, höfðu verið umskornir, en allir þeir, sem fæðst höfðu í eyðimörkinni á leiðinni eftir brottför þeirra af Egyptalandi, höfðu eigi verið umskornir.
6 Í fjörutíu ár fóru Ísraelsmenn um eyðimörkina, uns allt það fólk, allir vígir menn, er farið höfðu af Egyptalandi, voru dánir, því að þeir hlýddu ekki raust Drottins. Þess vegna hafði Drottinn svarið þeim, að þeir skyldu ekki fá að sjá landið, sem hann sór feðrum þeirra að gefa oss, _ land, sem flýtur í mjólk og hunangi.
7 En hann hafði látið sonu þeirra koma í þeirra stað. Þá umskar Jósúa, því að þeir voru óumskornir, þar eð þeir höfðu eigi verið umskornir á leiðinni.
8 Er gjörvallt fólkið hafði verið umskorið, héldu þeir kyrru fyrir, hver á sínum stað, í herbúðunum, uns þeir voru grónir.
9 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Í dag hefi ég velt af yður brigsli Egypta!" Fyrir því heitir þessi staður Gilgal fram á þennan dag.
10 Þegar Ísraelsmenn höfðu sett búðir sínar í Gilgal, héldu þeir páska á Jeríkóvöllum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, að kveldi.
11 Og daginn eftir páska átu þeir ósýrð brauð og bakað korn af gróðri landsins, einmitt þennan dag.
12 Daginn eftir þraut manna, er þeir átu af gróðri landsins, og upp frá því fengu Ísraelsmenn ekki manna, heldur átu þeir af gróðri Kanaanlands það árið.
13 Það bar til, er Jósúa var staddur hjá Jeríkó, að hann leit upp og sá, hvar maður stóð gegnt honum með brugðið sverð í hendi. Jósúa gekk til hans og sagði við hann: "Hvort ert þú vor maður eða af óvinum vorum?"
14 Hann svaraði: "Nei! heldur er ég fyrirliði fyrir hersveit Drottins. Nú er ég kominn." Þá féll Jósúa fram á ásjónu sína til jarðar, laut og sagði: "Hvað vilt þú, herra, mæla við þjón þinn?"
15 Þá sagði fyrirliðinn fyrir hersveit Drottins við Jósúa: "Drag skó þína af fótum þér, því að það er heilagur staður, er þú stendur á!" Og Jósúa gjörði svo.
6 Hliðum Jeríkó hafði verið lokað, og var borgin harðlokuð vegna Ísraelsmanna, svo að enginn maður komst þar út né inn.
2 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Sjá, nú gef ég Jeríkó í þínar hendur, konung hennar og kappa.
3 Og þér skuluð, allir vígir menn, ganga kringum borgina, hringinn í kringum borgina einu sinni. Svo skalt þú gjöra í sex daga.
4 Og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örkinni, og sjöunda daginn skuluð þér ganga sjö sinnum kringum borgina, og prestarnir þeyta lúðrana.
5 En þegar hrútshornið kveður við, þá skal allur lýðurinn æpa heróp mikið, jafnskjótt og þér heyrið lúðurhljóminn. Mun þá borgarmúrinn hrynja til grunna og lýðurinn mega upp ganga, hver þar sem hann er staddur."
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.
2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.
3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
65 Ég var fús að veita þeim áheyrn, sem eigi spurðu eftir mér, ég gaf þeim kost á að finna mig, sem eigi leituðu mín. Ég sagði: "Hér er ég, hér er ég," við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt.
2 Ég hefi rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð, í móti þeim, sem ganga á illum vegum, eftir eigin hugþótta sínum,
3 í móti fólki, sem reitir mig stöðuglega til reiði upp í opin augun, sem fórnar í lundunum og brennir reykelsi á tigulsteinunum,
4 sem lætur fyrirberast í gröfunum og er um nætur í hellunum, etur svínakjöt og hefir viðbjóðslega súpu í ílátum sínum,
5 sem segir: "Far þú burt, kom ekki nærri mér, ég er þér heilagur!" _ Slíkir menn eru reykur í nösum mér, eldur, sem brennur liðlangan daginn.
6 Sjá, það stendur skrifað frammi fyrir mér: Ég mun ekki þagna fyrr en ég hefi goldið, já, ég mun gjalda þeim í skaut,
7 bæði fyrir misgjörðir þeirra og fyrir misgjörðir feðra þeirra _ segir Drottinn. Þeir brenndu reykelsi á fjöllunum og smánuðu mig á hæðunum! Ég vil mæla þeim í skaut laun þeirra.
8 Svo segir Drottinn: Eins og menn segja, þegar lögur finnst í vínberi: "Ónýt það eigi, því að blessun er í því!" eins vil ég gjöra fyrir sakir þjóna minna, svo að ég tortími þeim ekki öllum.
9 Ég vil láta afsprengi æxlast út af Jakob og út af Júda erfingja að fjöllum mínum. Mínir útvöldu skulu erfa þau og þjónar mínir búa þar.
10 Saron skal verða að beitilandi fyrir hjarðir og Akordalur að nautastöðli fyrir þá af þjóð minni, sem leita mín.
11 En þér, sem yfirgefið Drottin, sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina,
12 yður ætla ég undir sverðið, og allir skuluð þér leggjast niður til slátrunar, af því að þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði.
13 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna,
14 sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl.
15 Og þér munuð leifa mínum útvöldu nafn yðar sem formæling, en hinn alvaldi Drottinn mun deyða yður. En sína þjóna mun hann nefna öðru nafni.
16 Hver sá er óskar sér blessunar í landinu, hann óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs, og hver sem eið vinnur í landinu, hann vinni eið við hinn trúfasta Guð, af því að hinar fyrri þrautir eru þá gleymdar og af því að þær eru huldar fyrir augum mínum.
17 Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.
18 Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.
19 Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir.
20 Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður.
21 Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra.
22 Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.
23 Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.
24 Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra.
25 Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra _ segir Drottinn.
13 Sama dag gekk Jesús að heiman og settist við vatnið.
2 Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar. En allt fólkið stóð á ströndinni.
3 Hann talaði margt til þeirra í dæmisögum. Hann sagði: "Sáðmaður gekk út að sá,
4 og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.
5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.
6 Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.
7 Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það.
8 En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.
9 Hver sem eyru hefur, hann heyri."
10 Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: "Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?"
11 Hann svaraði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.
12 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
13 Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.
14 Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.
15 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.
16 En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.
17 Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.
18 Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir:
19 Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna, merkir þetta.
20 Það sem sáð var í grýtta jörð, merkir þann, sem tekur orðinu með fögnuði, um leið og hann heyrir það,
21 en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull, og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar.
22 Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann, sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.
23 En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt."
24 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn.
25 En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan.
26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós.
27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: ,Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?`
28 Hann svaraði þeim: ,Þetta hefur einhver óvinur gjört.` Þjónarnir sögðu við hann: ,Viltu, að vér förum og tínum það?`
29 Hann sagði: ,Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið.
30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína."`
31 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn.
32 Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess."
33 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."
34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra.
35 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn spámannsins: Ég mun opna munn minn í dæmisögum, mæla fram það, sem hulið var frá grundvöllun heims.
36 Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: "Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum."
37 Hann mælti: "Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn,
38 akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda.
39 Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar.
40 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar.
41 Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja,
42 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
43 Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri.
44 Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.
45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum.
46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.
47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.
48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.
49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum
50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
51 Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir.
52 Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."
53 Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum, hélt hann þaðan.
54 Hann kom í ættborg sína og tók að kenna þeim í samkundu þeirra. Þeir undruðust stórum og sögðu: "Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin?
55 Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas?
56 Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?"
57 Og þeir hneyksluðust á honum. En Jesús sagði við þá: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum."
58 Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.
by Icelandic Bible Society